Andmælti Davíð, en trúði honum samt

1200px-thorgerdur_k_gunnarsdottir_islands_kulturminister_cropped.jpgÉg gat þess hér á dög­un­um, að Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir alþing­is­kona sat seint á ár­inu 2007 trúnaðar­fund í Þjóðmenn­ing­ar­hús­inu með seðlabanka­stjór­um, for­sæt­is­ráðherra og fjár­málaráðherra, þar sem Davíð Odds­son reifaði áhyggj­ur af því, að banka­kerfið gæti hrunið. And­mælti hún þá hon­um. Eins og fram kem­ur í skýrslu Rann­sókn­ar­nefnd­ar Alþing­is 2010, fengu þau Þor­gerður og maður henn­ar, sem var í stjórn­enda­hóp Kaupþings, síðan í fe­brú­ar 2008 und­anþágu frá regl­um Kaupþings, svo að þau gætu flutt mest­öll hluta­bréf sín í bank­an­um og skuld­bind­ing­ar sín­ar þeirra vegna í einka­hluta­fé­lag. Með því minnkuðu þau áhættu sína stór­kost­lega, nokkr­um mánuðum eft­ir að Þor­gerður hafði hlustað á viðvar­an­ir Davíðs á trúnaðar­fundi.

Það af hluta­bréf­um sín­um, sem Þor­gerður og maður henn­ar fluttu ekki í einka­hluta­fé­lag sitt, var leyst úr veðbönd­um. Þau seldu það fyr­ir 72,4 millj­ón­ir króna þriðju­dag­inn 30. sept­em­ber 2008, eins og fram kem­ur í Hæsta­rétt­ar­dómi í máli nr. 593/2013, sem kveðinn var upp 10. apríl 2014. Það var að morgni þess dags, sem Davíð Odds­son kom á rík­is­stjórn­ar­fund og sagði, að banka­kerfið yrði hrunið inn­an 10-15 daga. Á fund­in­um and­mælti Þor­gerður hon­um og sagði, að „ámæl­is­vert“ væri að koma og „drama­tísera hlut­ina“. Davíð svaraði, að þetta ástand væri svo al­var­legt, að það væri ekki hægt að drama­tísera. Síðar sama dag seldu þau hjón­in þau hluta­bréf sín, sem laus voru úr veðbönd­um. Þótt Þor­gerður hefði and­mælt Davíð, trúði hún hon­um. Eins og fram kem­ur í skýrslu Rann­sókn­ar­nefnd­ar Alþing­is, skrifaði Þor­gerður næsta dag Geir H. Haar­de for­sæt­is­ráðherra tölvu­bréf og krafðist þess, að Davíð yrði rek­inn.

Hvor er sú Þor­gerður, sem nú býður fram krafta sína í ís­lensk­um stjórn­mál­um: Sú, sem and­mælti Davíð á fund­un­um tveim­ur, eða hin, sem trúði hon­um?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2018.)


Svipmynd úr bankahruninu

Bankahrunið haustið 2008 stendur okkur enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Á fjölum Borgarleikhússins er sýnt leikrit, sem er að miklu leyti samið upp úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um það, og nýlega var rifjað upp smánarlegt umsátur um heimili stjórnmálamanna. Þótt bankastjórar Seðlabankans hefðu hvað eftir annað varað við útþenslu bankanna og í kyrrþey undirbúið þær aðgerðir, sem björguðu því, sem bjargað varð, beindist reiðin ekki síst að Seðlabankanum.

Laugardaginn 24. janúar 2009 hélt Seðlabankinn fjölsótta árshátíð á gistihúsinu Nordica. Mótmælendur fréttu af fagnaðinum og reyndu að brjóta sér leið inn í hátíðarsalinn. Dundi í hurðum við atgang þeirra, og varð mörgum innan dyra ekki um sel. Einn bankastjórinn, Davíð Oddsson, kvaddi sér þá hljóðs og sagðist þurfa að gera athugasemdir við störf árshátíðarnefndar. Hún hefði skipulagt svo skemmtilega samkomu, að greinilega kæmust færri að en vildu. Andrúmsloftið léttist nokkuð við þetta meinlausa spaug.

Brátt þyngdist andrúmsloftið þó aftur. Utan dyra fjölgaði ofbeldismönnum, og loks hafði lögreglan samband við Davíð og kvaðst ekki lengur geta tryggt öryggi hans. Aðgerðirnar væru honum til höfuðs. Fóru Davíð og kona hans þá út um bakdyr gistihússins á annarri hæð, þar sem bíll frá Seðlabankanum beið þeirra. Einhver sá til þeirra hjóna yfirgefa salinn og kom boðum til mótmælenda, sem þustu að bakdyrunum og veifuðu sumir bareflum. Bíllinn renndi af stað í þann mund er óeirðaseggina bar að, og urðu þeir að láta sér nægja að steyta ýmist hnefa eða slá með bareflum sínum út í loftið.

Þegar Davíð settist í framsætið, rakst hann á eitthvað á milli sín og bílstjórans, Garðars Halldórssonar, gamals og trausts lögreglumanns, mikillar kempu. Davíð spurði, hvað þetta væri. „Jú,“ svaraði Garðar hinn rólegasti, „þegar ég fór að heiman í kvöld, sá ég, að gömlu lögreglukylfuna mína langaði með, og ég leyfði henni það.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. desember 2017.)


Koestler og bæjarstjórnarkosningar

Ensk-ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler varð heimsfrægur fyrir skáldsöguna Darkness at Noon eða Myrkur um miðjan dag, sem kom út á ensku 1941 og íslensku 1947. Þar reyndi hann að skýra hinar furðulegu játningar sakborninganna í sýndarréttarhöldum Stalíns á fjórða áratug. Skýringin var í fæstum orðum, að í huga sanntrúaðra kommúnista hefði aðeins verið til sannleikur flokksins. Ef flokkurinn skipaði félaga að vera sekur, þá var hann það, líka í eigin augum. Koestler þekkti slíkt sálarlíf af eigin raun, því að hann hafði um skeið verið eindreginn kommúnisti. Skáldsaga hans kom út á frönsku 1945 og átti nokkurn þátt í því, að í maí 1946 töpuðu franskir kommúnistar í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar.

Hitt vita færri, að Koestler skipti líka nokkru máli í kosningum á Íslandi. Hann hafði 1945 gefið út ritgerðasafnið The Yogi and the Commissar, Skýjaglópinn og flokksjálkinn. Þar er löng ritgerð um Ráðstjórnarríki Stalíns. Lýsti Koestler meðal annars hungursneyðinni í Úkraínu 1932-1933, fjöldabrottflutningum frá Eystrasaltslöndunum 1941 og hinu víðtæka þrælabúðaneti Stalíns, Gúlageyjunum. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, fékk Jens Benediktsson blaðamann til að þýða ritgerðina, og fyllti hún fjörutíu blaðsíður í Lesbók Morgunblaðsins 29. desember 1945, nokkrum vikum fyrir bæjarstjórnarkosningar.

Íslenskir kommúnistar brugðust við hart og gáfu út sérstakt blað, Nýja menningu, til höfuðs Koestler, og dreifðu í hús bæjarins. Ungur hagfræðingur, nýkominn frá Svíþjóð, Jónas H. Haralz, skrifaði einnig í Þjóðviljann, málgagn kommúnista, að „falsspámaðurinn Koestler“ hefði verið „afhjúpaður“. Skipaði Jónas sjötta sæti á lista Sósíalistaflokksins í bæjarstjórnarkosningunum, og gerðu kommúnistar sér vonir um, að hann næði kjöri. Valtýr Stefánsson svaraði Jónasi fullum hálsi og varði Koestler. Úrslit kosninganna urðu kommúnistum vonbrigði. Þeir fengu aðeins fjóra bæjarfulltrúa kjörna. Sigurganga þeirra á Íslandi var stöðvuð, ef til vill að einhverju leyti með aðstoð Koestlers.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. desember 2017.)


Koestler og tilvistarspekingarnir

koestler_1317978.jpgÁhorfendur kvikmynda hafa gaman af Forrest Gump, sem virtist hafa verið alls staðar nálægt, þegar eitthvað bar til tíðinda á tuttugustu öld. Sama hugmynd er að baki sögunni af Allan Karlsson, sem skreið út um glugga á hundrað ára afmælinu.

Stundum slær þó veruleikinn listinni við. Ensk-ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler var iðulega nálægur í átökum og umræðum á tuttugustu öld. Móðir hans var í meðferð hjá Sigmund Freud. Hann var gyðingur og málkunnugur öllum helstu forystumönnum síonista. Á meðan hann var kommúnisti ferðaðist hann um Ráðstjórnarríkin með bandaríska skáldinu Langston Hughes. Í miðju borgarastríðinu spænska skemmti hann sér með breska skáldinu (og Íslandsvininum) W.H. Auden í Valencia, en lenti síðan í dýflissu Francos. Hann var aðstoðarmaður þýska áróðursmeistarans Willis Münzenbergs, sem margir íslenskir kommúnistar þekktu. Ungur að árum snæddi Koestler eitt sinn hádegisverð með Tómasi Mann, og síðar fékk hann sér í staupinu með Dylan Thomas og varð einkavinur Georges Orwells.

Skáldsaga Koestlers, Myrkur um miðjan dag, kom út á frönsku 1945 og átti þátt í ósigri franskra kommúnista í kosningum 1946. Um þær mundir dvaldist Koestler oft í París og umgekkst tilvistarspekingana Simone de Beauvoir, Jean-Paul Sartre og Albert Camus. Ef skilgreina á tilvistarspeki stuttlega, þá er hún sú skoðun, að lífið sé tilgangslaust, en menn gæði það tilgangi með gerðum sínum. Koestler deildi hart við Beauvoir og Sartre um kommúnisma. Þótt þau gerðu sér grein fyrir ýmsum göllum kommúnismans höfðu þau óbeit á kapítalisma, einkum hinum bandaríska. Koestler var annálaður kvennamaður, og tókst honum eitt sinn að sænga hjá Beauvoir, sem annars var oftast förunautur Sartres. „Ég var drukkin, og þetta gerðist aðeins einu sinni,“ sagði Beauvoir síðar. Koestler samdi betur við Camus, sem aðhylltist eins og hann efahyggju. Engum skugga brá á, þótt Camus og kona Koestlers, Mamaine Paget, ættu um skeið vingott. En þegar kalda stríðið hófst vildu þau Sartre og Beauvoir ekki lengur umgangast Koestler og Camus. Þau reyndu að gæða líf sitt þeim tilgangi að særa burt kapítalismann, en mistókst, sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. desember 2017.)


Bókabrennur

bundesarchiv_bild_102-14597_berlin_opernplatz_bu_776_cherverbrennung.jpgHinn 10. maí 1933 héldu nasistastúdentar bókabrennu í miðborg Berlínar, og er ljósmyndir af þeim illræmda viðburði víða að finna í ritum um Þriðja ríkið. En bókum má tortíma með fleiru en því að brenna þær, og ungir þjóðernissósíalistar voru alls ekki einir um að kjósa frekar að eyða bókum en svara þeim efnislega. George Orwell átti í erfiðleikum með að fá útgefanda að Dýrabæ (Animal Farm), því að breskir ráðamenn vildu ekki styggja Stalín, sem nú var orðinn bandamaður þeirra gegn Hitler. Bandarískir vinstri menn reyndu að hindra, að Leiðin til ánauðar (Road to Serfdom) eftir Friedrich A. Hayek kæmi út í Bandaríkjunum.

Eins konar bókabrennur áttu sér jafnvel stað á hinum friðsælu Norðurlöndum. Að kröfu Nasista-Þýskalands lagði Hermann Jónasson dómsmálaráðherra haustið 1939 hald á allt upplag bókarinnar Í fangabúðum eftir Wolfgang Langhoff, en þar sagði frá vist höfundar í dýflissu nasista. Eftir ósigur fyrir Rússum 1944 urðu Finnar að fjarlægja úr opinberum bókasöfnum ýmsar bækur, sem ráðstjórninni voru ekki þóknanlegar, þar á meðal Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, sem kom út á íslensku 1938 og ég sá um að endurútgefa á síðasta ári, en þar sagði frá vist höfundar í þrælakistu kommúnista.

Ég rakst nýlega á þriðja norræna dæmið. Árið 1951 kom út í Svíþjóð bókin Vinnuþræll undir ráðstjórn (Jag jobbade i Sovjet) eftir Ragnar Rudfalk. Höfundurinn, ungur skógarhöggsmaður, hafði ætlað að ganga til liðs við her Norðmanna ásamt norskum vini sínum, og höfðu þeir farið yfir rússnesku landamærin nálægt Múrmansk. Þeim var ekki leyft að halda áfram ferðinni, heldur var þeim varpað í þrælkunarbúðir, þar sem hinn norski förunautur lést úr vosbúð. Rudfalk þraukaði, og eftir vistina var hann dæmdur í útlegð, en fékk loks að snúa heim að tilhlutan sænskra yfirvalda. Bókin kom út í 24 þúsund eintökum og var þýdd á dönsku og norsku, auk þess sem kaflar birtust úr henni í Vísi 1952. En svo undarlega vill til, að bókin varð fljótlega ófáanleg, og ekkert var um hana rætt í Svíþjóð. Sænska jafnaðarmannastjórnin vildi fara gætilega gagnvart valdsmönnum í Moskvu og sá líklega um, að upplagið hyrfi þegjandi og hljóðalaust. Til þess að eyða bókum þarf ekki alltaf að brenna þær.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2018.)


Trump, Long og Jónas frá Hriflu

Ég er enginn stuðningsmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, aðallega vegna baráttu hans gegn frjálsum alþjóðaviðskiptum. En nú reyna þeir, sem gátu ekki fellt hann í forsetakjöri, að koma á hann höggi með því að segja, að hann sé ekki heill á geðsmunum. Þá rifjast upp sagan af því, þegar forystumenn lækna á Íslandi voru óánægðir með, að hinn eitursnjalli Jónas Jónsson frá Hriflu, heilbrigðisráðherra 1927-1932, skyldi ekki láta þá einráða um embættisveitingar. Gerðu þeir geðlækni á fund Jónasar, og tilkynnti hann ráðherranum, að hann væri geðveikur. Jónas rak geðlækninn strax og skrifaði fræga blaðagrein um málið, „Stóru bombuna“. Reis óðar með honum samúðarbylgja. Í hæstaréttardómi um málið var komist að þeirri niðurstöðu, að geðlæknirinn hefði farið offari í nafni læknavísindanna.

Fleiri hliðstæður eru til. Ég hef áður sagt, að Trump sé hvorki nýr Hitler né Mussolini, eins og stóryrtir andstæðingar hans fullyrða. Trump minnir einna helst á Huey Long, sem var ríkisstjóri og öldungadeildarþingmaður í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, uns hann féll 1935 fyrir byssukúlu læknis eins, sem var reiður honum af fjölskylduástæðum. Long var lýðsinni, sem braut flestar skráðar og óskráðar leikreglur, en naut vinsælda. Hann gegnir aðalhlutverki í skáldsögu Roberts Penns Warrens, Allir kóngsins menn (All the King’s Men).

earl_k_long.jpgHuey Long átti bróður, Earl, sem var líka ríkisstjóri í Louisiana og það þrisvar. Þau ummæli Earls urðu fleyg, að kjósendur sínir myndu fyrirgefa sér allt nema að vera gripinn í bólinu með látinni stúlku eða lifandi pilti. Konu hans líkaði illa þrálátt kvennafar hans og margvíslegt óútreiknanlegt framferði, og lét hún leggja hann inn á geðveikrahæli 1959, á meðan hann var ríkisstjóri. Komu hinir mörgu stjórnmálaandstæðingar hans líklega einnig að verkinu. Long áttaði sig á því, að hann hélt eftir laganna bókstaf fullum völdum þrátt fyrir vistunina, og stjórnaði hann Louisiana-ríki í síma frá hælinu. Hann rak yfirmann heilbrigðismála í ríkinu og með aðstoð eftirmanns hans var hann leystur út. Hann skildi við konuna, náði kjöri til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings 1960, en féll frá, áður en hann tæki þar sæti. Margt fer öðru vísi en ætlað er.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. janúar 2018.)


Líftaug landsins

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands hélt málstofu 16. janúar um nýútkomið stórvirki í íslenskri sagnfræði, Líftaug landsins, sögu utanríkisverslunar Íslendinga frá öndverðu. Ég var einn framsögumanna, en höfundar eru sex sagnfræðingar. Er verkið afrakstur af áratuga rannsóknum þeirra.

Margt er nýtt í ritgerðunum. Til dæmis heldur Helgi Þorláksson, prófessor emeritus, því fram, að utanríkisverslun hafi verið sáralítil á Þjóðveldisöld, enda hafi Íslendingar aðallega stundað sjálfsþurftabúskap. Hafi verslun einkum verið stunduð til að fullnægja þörfum kirkjunnar og stórgoðanna, sem landinu réðu. Helgi varpar líka fram þeirri tilgátu, sem ég hef ekki heyrt áður, að ákvæðin í Gamla sáttmála um sex skip árlega til Íslands hafi ekki verið krafa örvæntingarfullrar þjóðar um aðflutninga, heldur eins konar hámark. Stórgoðarnir hafi ekki viljað fleiri skip árlega. Þeir hafi viljað ráða versluninni, sett verð á vöru og takmarkað fjölda aðkomumanna.

Gísli Gunnarsson, prófessor emeritus, leiðir rök að því, að ekki hafi orðið eins róttæk breyting með einokunarversluninni 1602 og áður hafi verið talið, því að alþýða manna hafi ekki átt þess kost áður að versla beint við útlendinga, heldur hafi höfðingjar verslað við þá, selt þeim fisk og keypt af þeim varning, sem þeir hafi síðan selt almenningi á háu verði. Gísli rekur líka skemmtilega leið skreiðarinnar íslensku um Hamborg í klaustur í Mið- og Suður-Evrópu, en þar gæddu munkar sér á henni í stað kjöts á föstudögum og líka á langaföstunni, frá öskudegi fram að páskum.

Gísli á líka þá kenningu, sem ég hef oft minnst á áður, að einokunarverslunin hafi verið tilraun landeigendastéttarinnar íslensku til að halda niðri sjávarútvegi og eins konar innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt: Fé var með verðskrám konungs og öðrum ráðstöfunum fært úr sjávarútvegi í landbúnað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2018.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband