Trump, Long og Jónas frá Hriflu

Ég er enginn stuðningsmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, aðallega vegna baráttu hans gegn frjálsum alþjóðaviðskiptum. En nú reyna þeir, sem gátu ekki fellt hann í forsetakjöri, að koma á hann höggi með því að segja, að hann sé ekki heill á geðsmunum. Þá rifjast upp sagan af því, þegar forystumenn lækna á Íslandi voru óánægðir með, að hinn eitursnjalli Jónas Jónsson frá Hriflu, heilbrigðisráðherra 1927-1932, skyldi ekki láta þá einráða um embættisveitingar. Gerðu þeir geðlækni á fund Jónasar, og tilkynnti hann ráðherranum, að hann væri geðveikur. Jónas rak geðlækninn strax og skrifaði fræga blaðagrein um málið, „Stóru bombuna“. Reis óðar með honum samúðarbylgja. Í hæstaréttardómi um málið var komist að þeirri niðurstöðu, að geðlæknirinn hefði farið offari í nafni læknavísindanna.

Fleiri hliðstæður eru til. Ég hef áður sagt, að Trump sé hvorki nýr Hitler né Mussolini, eins og stóryrtir andstæðingar hans fullyrða. Trump minnir einna helst á Huey Long, sem var ríkisstjóri og öldungadeildarþingmaður í Louisiana-ríki í Bandaríkjunum, uns hann féll 1935 fyrir byssukúlu læknis eins, sem var reiður honum af fjölskylduástæðum. Long var lýðsinni, sem braut flestar skráðar og óskráðar leikreglur, en naut vinsælda. Hann gegnir aðalhlutverki í skáldsögu Roberts Penns Warrens, Allir kóngsins menn (All the King’s Men).

earl_k_long.jpgHuey Long átti bróður, Earl, sem var líka ríkisstjóri í Louisiana og það þrisvar. Þau ummæli Earls urðu fleyg, að kjósendur sínir myndu fyrirgefa sér allt nema að vera gripinn í bólinu með látinni stúlku eða lifandi pilti. Konu hans líkaði illa þrálátt kvennafar hans og margvíslegt óútreiknanlegt framferði, og lét hún leggja hann inn á geðveikrahæli 1959, á meðan hann var ríkisstjóri. Komu hinir mörgu stjórnmálaandstæðingar hans líklega einnig að verkinu. Long áttaði sig á því, að hann hélt eftir laganna bókstaf fullum völdum þrátt fyrir vistunina, og stjórnaði hann Louisiana-ríki í síma frá hælinu. Hann rak yfirmann heilbrigðismála í ríkinu og með aðstoð eftirmanns hans var hann leystur út. Hann skildi við konuna, náði kjöri til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings 1960, en féll frá, áður en hann tæki þar sæti. Margt fer öðru vísi en ætlað er.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. janúar 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband