Koestler og tilvistarspekingarnir

koestler_1317978.jpgÁhorfendur kvikmynda hafa gaman af Forrest Gump, sem virtist hafa verið alls staðar nálægt, þegar eitthvað bar til tíðinda á tuttugustu öld. Sama hugmynd er að baki sögunni af Allan Karlsson, sem skreið út um glugga á hundrað ára afmælinu.

Stundum slær þó veruleikinn listinni við. Ensk-ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler var iðulega nálægur í átökum og umræðum á tuttugustu öld. Móðir hans var í meðferð hjá Sigmund Freud. Hann var gyðingur og málkunnugur öllum helstu forystumönnum síonista. Á meðan hann var kommúnisti ferðaðist hann um Ráðstjórnarríkin með bandaríska skáldinu Langston Hughes. Í miðju borgarastríðinu spænska skemmti hann sér með breska skáldinu (og Íslandsvininum) W.H. Auden í Valencia, en lenti síðan í dýflissu Francos. Hann var aðstoðarmaður þýska áróðursmeistarans Willis Münzenbergs, sem margir íslenskir kommúnistar þekktu. Ungur að árum snæddi Koestler eitt sinn hádegisverð með Tómasi Mann, og síðar fékk hann sér í staupinu með Dylan Thomas og varð einkavinur Georges Orwells.

Skáldsaga Koestlers, Myrkur um miðjan dag, kom út á frönsku 1945 og átti þátt í ósigri franskra kommúnista í kosningum 1946. Um þær mundir dvaldist Koestler oft í París og umgekkst tilvistarspekingana Simone de Beauvoir, Jean-Paul Sartre og Albert Camus. Ef skilgreina á tilvistarspeki stuttlega, þá er hún sú skoðun, að lífið sé tilgangslaust, en menn gæði það tilgangi með gerðum sínum. Koestler deildi hart við Beauvoir og Sartre um kommúnisma. Þótt þau gerðu sér grein fyrir ýmsum göllum kommúnismans höfðu þau óbeit á kapítalisma, einkum hinum bandaríska. Koestler var annálaður kvennamaður, og tókst honum eitt sinn að sænga hjá Beauvoir, sem annars var oftast förunautur Sartres. „Ég var drukkin, og þetta gerðist aðeins einu sinni,“ sagði Beauvoir síðar. Koestler samdi betur við Camus, sem aðhylltist eins og hann efahyggju. Engum skugga brá á, þótt Camus og kona Koestlers, Mamaine Paget, ættu um skeið vingott. En þegar kalda stríðið hófst vildu þau Sartre og Beauvoir ekki lengur umgangast Koestler og Camus. Þau reyndu að gæða líf sitt þeim tilgangi að særa burt kapítalismann, en mistókst, sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. desember 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband