Fríverslunarsinninn Snorri

SnorriStHér hef ég bent á þá stefnu Snorra Sturlusonar, að Íslendingar ættu að vera vinir annarra þjóða, en ekki þegnar, og kemur hún gleggst fram í ræðu Einars Þveræings, sem Snorri samdi auðvitað sjálfur. Ég hef líka varpað fram þeirri tilgátu, að sagan af Haraldi blátönn og landvættunum fjórum hafi verið dæmisaga, sem hinn gætni íslenski hirðmaður hafi sagt í því skyni að telja Hákon Noregskonung og Skúla jarl óbeint af því að senda her til Íslands.

Eflaust hafa einhverjir vakið athygli á þessu á undan mér. En enginn hefur, held ég, tekið eftir því, að Snorri var einn fyrsti norræni fríverslunarsinninn. Í 80. kafla Ólafs sögu Haraldssonar í Heimskringlu segir frá samkomu í Uppsölum, þar sem sænskir bændur kvörtuðu undan því við Ólaf Svíakonung, að hann færi með ófriði gegn nafna sínum í Noregi. Rögnvaldur jarl hafði orð fyrir þeim. „Taldi hann upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í en í annan stað að sitja fyrir áhlaupum þeirra og hernaði ef Noregskonungur safnaði her saman og herjaði á þá.“ Hér er kominn kjarninn í rökunum fyrir fríverslun, sem Adam Smith setti síðar fram í Auðlegð þjóðanna: að menn hagnist á því að versla, ekki síst yfir landamæri, selja það, sem þeir eiga og aðrir ekki, og kaupa það, sem aðrir eiga og þeir ekki. Ella missa þeir þeirra hluta, sem þeim er „árbót í“, eins og Snorri orðaði það.  

JónSigSnorri var fríverslunarsinni eins og Jón Sigurðsson, sem skrifaði í Nýjum félagsritum árið 1843: „Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.“ Það er bein lína frá Snorra til Jóns.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. mars 2024.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband