Líftaug landsins

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands hélt málstofu 16. janúar um nýútkomið stórvirki í íslenskri sagnfræði, Líftaug landsins, sögu utanríkisverslunar Íslendinga frá öndverðu. Ég var einn framsögumanna, en höfundar eru sex sagnfræðingar. Er verkið afrakstur af áratuga rannsóknum þeirra.

Margt er nýtt í ritgerðunum. Til dæmis heldur Helgi Þorláksson, prófessor emeritus, því fram, að utanríkisverslun hafi verið sáralítil á Þjóðveldisöld, enda hafi Íslendingar aðallega stundað sjálfsþurftabúskap. Hafi verslun einkum verið stunduð til að fullnægja þörfum kirkjunnar og stórgoðanna, sem landinu réðu. Helgi varpar líka fram þeirri tilgátu, sem ég hef ekki heyrt áður, að ákvæðin í Gamla sáttmála um sex skip árlega til Íslands hafi ekki verið krafa örvæntingarfullrar þjóðar um aðflutninga, heldur eins konar hámark. Stórgoðarnir hafi ekki viljað fleiri skip árlega. Þeir hafi viljað ráða versluninni, sett verð á vöru og takmarkað fjölda aðkomumanna.

Gísli Gunnarsson, prófessor emeritus, leiðir rök að því, að ekki hafi orðið eins róttæk breyting með einokunarversluninni 1602 og áður hafi verið talið, því að alþýða manna hafi ekki átt þess kost áður að versla beint við útlendinga, heldur hafi höfðingjar verslað við þá, selt þeim fisk og keypt af þeim varning, sem þeir hafi síðan selt almenningi á háu verði. Gísli rekur líka skemmtilega leið skreiðarinnar íslensku um Hamborg í klaustur í Mið- og Suður-Evrópu, en þar gæddu munkar sér á henni í stað kjöts á föstudögum og líka á langaföstunni, frá öskudegi fram að páskum.

Gísli á líka þá kenningu, sem ég hef oft minnst á áður, að einokunarverslunin hafi verið tilraun landeigendastéttarinnar íslensku til að halda niðri sjávarútvegi og eins konar innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt: Fé var með verðskrám konungs og öðrum ráðstöfunum fært úr sjávarútvegi í landbúnað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband