Ljónið í Luzern

LionmonumentlucerneÍ grúski mínu í ritum þeirra Karls Marx og Friðriks Engels tók ég eftir því, að þar er á einum stað minnst á íslenska myndhöggvarann Bertel Thorvaldsen. Það er í grein eftir Engels frá því í nóvember 1847 um svissneska borgarastríðið. Engels hafði ekkert gott að segja um Svisslendinga, sem væru frumstæð fjallaþjóð og legðu ætíð afturhaldsöflum lið. Væri þeim helst saman að jafna við Norðmenn, sem líka væru þröngsýn útkjálkaþjóð.

Enn fremur sagði Engels: „Menn skyldu ekki ætla, að þessir málaliðar væru taldir úrhrak þjóða sinna eða að þeim væri afneitað af löndum sínum. Hafa íbúar Luzern ekki fengið hinn rétttrúaða Íslending Thorvaldsen til að að höggva í klett við borgarhliðið stórt ljón? Það er sært spjóti, en verndar til hinstu stundar liljuprýddan skjöld Bourbon-ættarinnar með loppu sinni, og á þetta á vera til minningar um hina föllnu Svisslendinga 10. ágúst 1792 við Louvre! Á þennan veg heiðrar svissneska bandalagið hina fölu þjónustulund sona sinna. Það lifir á því að selja menn og heldur það hátíðlegt.“

Tvær villur eru að vísu í frásögn Engels. Thorvaldsen gerði ekki sjálfur hina frægu höggmynd í klett við Luzern, heldur var það Lukas Ahorn, sem hjó hana í bergið eftir uppdrætti Thorvaldsens. Og svissnesku hermennirnir féllu ekki í bardaga um Louvre-höll 1792, heldur þegar Parísarmúgurinn réðst á Tuileries-höll, þar sem franska konungsfjölskyldan hafðist þá við. Lágu um sex hundruð Svisslendingar í valnum, er yfir lauk. Í sveit franskra þjóðvarðliða, sem einnig vörðu konungshöllina, var Hervé de Tocqueville, faðir hins fræga rithöfundar Alexis, sem greindi Frönsku stjórnarbyltinguna af skarpskyggni, og var Hervé einn fárra, sem komust lífs af. Konungsfjölskyldan leitaði skjóls hjá Löggjafarsamkomunni, en það reyndist ekki traustara en svo, að konungur var hálshöggvinn í janúar 1793 og  drottning í oktober. Margir hafa lýst minnismerkinu í Luzern, þar á meðal bandaríski rithöfundurinn Mark Twain, enski sagnfræðingurinn Thomas Carlyle og heimspekingurinn Ágúst H. Bjarnason, sem var á ferð um Sviss árið 1902, en frásögn hans birtist í Sumarblaðinu 1917.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. september 2020.)


Stórlæti að fornu og nýju

Guðmundur Finnbogason landsbókavörður benti á það fyrir löngu, að verulegur samhljómur væri með siðfræðikenningu Aristótelesar og boðskap Hávamála. Kristján Kristjánsson heimspekiprófessor hefur tekið upp þennan þráð í nokkrum fróðlegum ritgerðum. Kristján hefur sérstaklega rætt um dygðina stórlæti, sem Aristóteles lýsir í Siðfræði Níkomakkosar. Í íslenskri þýðingu Siðfræðinnar eftir Svavar Hrafn Svavarsson er þessi dygð kölluð „mikillæti“ og sagt af nokkurri lítisvirðingu, að hún stangist á við siðferðishugmyndir okkar daga. Ég tel þýðingu Svavars Hrafns hæpna, enda á henni neikvæður blær. Mikillæti er annað nafn á drambi. Dygð Aristótelesar var hins vegar fólgin í því, að maður væri stór í sniðum, vissi af því og væri fús til að viðurkenna það. Hún væri meðalhófsdygð, en á öðrum jaðrinum væri yfirlæti og á hinum vanmetakennd.

Eins og Guðmundur og Kristján benda á, var stórlæti mikils metið á Íslandi að fornu, en andstæðu þess var lýst í Hávamálum: Lítilla sanda, lítilla sæva, lítil eru geð guma. Ég er hins vegar ósammála Svavari Hrafni um, að stórmenni eða afburðamenn séu ekki lengur til, þótt ef til vill tali þeir ekki allir djúpri röddu eða stígi þungt til jarðar, eins og Aristóteles lýsti þeim. Sumir bregða stórum svip yfir lítið hverfi. Bestu dæmin að fornu um stórlæti eru tvær landnámskonur. Auður djúpúðga fór við tuttugusta mann til bróður síns Helga, en hann bauð henni og helmingi liðs hennar vetrarvist. Hún hvarf frá hin reiðasta og fór til annars bróður síns, Björns, sem bauð þeim öllum til sín, enda vissi hann af veglyndi systur sinnar. Steinunn hin gamla fór til frænda síns Ingólfs Arnarsonar, sem vildi gefa henni Rosmhvalanes. Hún vildi kaupa jörðina, en ekki þiggja, og gaf fyrir heklu flekkótta.

Í skáldsögum Ayns Rands, Uppsprettunni og Undirstöðunni, eru hetjurnar stórlátar í skilningi Aristótelesar og Forn-Íslendinga. Howard Roark lætur aðra ekki segja sér fyrir verkum. John Galt neitar að vera þræll múgsins. Hank Rearden vill uppskera eins og hann sáir. Hvarvetna eru til menn, sem geta orðið afburðamenn. En þar eru líka til menn, sem vilja verða afætur. Skáldsögur Rands eru um afburðamenn, sem vinna fyrir sjálfa sig, ekki afæturnar. Stórlæti er ekki úrelt dygð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. september 2020.)


Kaldar kveðjur

Í Íslendinga sögum eru þrír löðrungar sögulegir. Auður Vésteinsdóttir tók fé það, sem reynt var að bera á hana, til að hún segði til manns síns, og rak í nasir Eyjólfs hins gráa. „Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig.“ Þorvaldi Halldórssyni, fyrsta manni Guðrúnar Ósvífursdóttur, sinnaðist svo við hana sakir eyðslusemi hennar, að hann rak henni kinnhest. „Nú gafstu mér það er oss konum þykir miklu skipta að vér eigum vel að gert en það er litaraft gott,“ sagði hún. Gunnar á Hlíðarenda missti eitt sinn stjórn á sér, eftir að kona hans, Hallgerður Langbrók, hafði látið stela mat, og löðrungaði hana. Þegar hann löngu síðar bað um lokk úr hári hennar til að nota í bogastreng, þá er óvinir hans sóttu að honum, sagði hún: „Þá skal ég nú muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.“

Frægasti löðrungurinn eftir það var sá, sem Hermann Jónasson forsætisráðherra veitti Brynjólfi Bjarnasyni, foringja íslenskra kommúnista, í ráðherraherberginu í Alþingishúsinu 14. mars 1940, eftir að þeim hafði orðið sundurorða um vetrarstríðið finnska, en Stalín hafði ráðist á Finna nokkrum mánuðum áður, og studdi Brynjólfur Stalín ólíkt flestum Íslendingum. Svo sem við var að búast, hafði Þjóðviljinn, málgagn kommúnista (sem nú kölluðu sig sósíalista) hin verstu orð um Hermann.

Í nýútkominni bók Kjartans Ólafssonar um íslensku sósíalistahreyfinguna er rifjað upp, að á flokksþingi Sósíalistaflokksins í nóvember 1966 var hart deilt um, hvort leggja ætti flokkinn niður og gera Alþýðubandalagið (sem verið hafði kosningabandalag) að stjórnmálaflokki. Brynjólfur Bjarnason var því andvígur, en varð undir. Kjartan hafði haft forystu um málið, en hann segir í bókinni, að hann hafi verið á leið út í lok þingsins, þegar Brynjólfur hafi gengið upp að honum og rekið honum löðrung (bls. 455). Raunar bætir Kjartan því við, að hann hafi tvisvar séð hinn aðalforingja íslenskra sósíalista, Einar Olgeirsson, slá til manna, þegar hann reiddist. Við hin hljótum að þakka okkar sæla fyrir að hafa aldrei verið í flokki með þessum mönnum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. september 2020.)


Selurinn Snorri

Þegar ég var barn að aldri fyrir röskum sextíu árum, gleypti ég í mig söguna um Selinn Snorra eftir norska teiknarann og rithöfundinn Friðþjóf (Frithjof) Sælen. Það fór þá auðvitað fram hjá mér, að ritið er ekki aðeins skemmtileg myndasaga handa börnum, heldur líka snjöll dæmisaga um hernám Noregs. Snorri er saklaus kópur í Íshafinu, sem veit ekki af neinum háska, en er trúgjarn og óvarfærinn. Vinir hans eru aðrir selir og rostungurinn Skeggi frændi. En hann á líka óvini. Honum stafar hætta af ísbirninum Voða, sem er tákn rússneskra kommúnista, en Hitler og Stalín voru í bandalagi frá 1939 til 1941 og hrundu saman af stað seinni heimsstyrjöld. Mávahjónin Sultur og Svöng eru á sveimi í kringum selina, en þau eru fulltrúar norsku kvislinganna. Þau eru með glampa í gulum augunum og rauð merki yfir þeim. „Það var eins og þau væru alltaf að bíða eftir einhverju.“ Snorri er ginntur í hættuferð á ísjaka, en í kringum hann er háhyrningurinn Glefsir á sveimi og hyggur á illt. Hvalurinn er tákn þýskra nasista. Sögunni lýkur vel, því að saman leiða Snorri og Skeggi frændi Glefsi í gildru, og vinnur Skeggi, sem er tákn bresku þjóðarinnar, á Glefsi.

Friðþjófur notar dýrasögu til að koma boðskap sínum á framfæri eins og George Orwell í Dýrabæ, en sú saga er um sorgleg endalok rússnesku byltingarinnar. Sjálfur er Friðþjófur aðallega í list sinni undir áhrifum frá bandaríska teiknimyndahöfundinum Walt Disney. Bókin kom út á norsku haustið 1941, rösku ári eftir að nasistar hernámu Noreg, og var hún bönnuð innan mánaðar, en útgefandinn hafði verið varaður við, og var bókin þá uppseld frá honum. Höfundurinn barðist í andspyrnuhreyfingunni norsku og flýði til Bretlands árið 1944, en sneri heim í stríðslok. Rit hans er fjörlega skrifuð barnabók með vel gerðum myndum, sem lesa má sem sjálfstætt ævintýri um dýralíf í Íshafinu, og kom hún út á sænsku 1946 og á ensku og íslensku 1950. Sagan hefur notið fádæma vinsælda hér á landi og komið út í sex útgáfum, en einnig verið sett upp í Leikbrúðulandi. Snorri selur er auðvitað fulltrúi norsku þjóðarinnar, og það er engin tilviljun, að Friðþjófur teiknari velur honum nafn hins íslenska sagnritara, sem skráði sögu Norðmanna frá öndverðu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. september 2020.)


Hvað skýrir rithöfundarferil Snorra?

2.1 Snorri_sturluson_1930Eftir því sem ég skoða betur rithöfundarferil Snorra Sturlusonar, myndast skýrar tilgáta um hann í mínum huga. Hún er þessi: Snorri semur Eddu, áður en hann fer á fund Noregskonungs, í því skyni að endurvekja skáldskaparlistina, hefðbundna aðferð Íslendinga til að afla sér fjár og frama í konungsgarði. Þegar hann kemur til Noregs 1218, eru þeir Hákon konungur og Skúli jarl ævareiðir Íslendingum fyrir átök við norska kaupmenn. Hafa þeir við orð að senda her til Íslands. Snorri verður þess áskynja, að þeir ætli raunar að ganga lengra og leggja undir sig Ísland. Hann vill sjálfur, að Íslendingar séu vinir konungs, ekki þegnar. Nærtækt er því að friða konung með blíðmælum, en setjast við það, þegar heim kemur 1220, að semja sögu þess konungs, sem áður hafði árangurslaust seilst til mannaforráða á Íslandi, Ólafs digra, núverandi konungi til eftirbreytni.

Snorri semur þessa sögu, Ólafs sögu helga, fyrst allra konungasagna, og er ris hennar, þegar Einar Þveræingur flytur ræðu sína á Alþingi 1024 og minnir á, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og sé því best að hafa engan konung. Í henni er líka ræða Þórgnýs lögmanns til Svíakonungs 1018 um, að hann skuli settur af, haldi hann ekki frið og lög við bændur. Snorri hefur frjálsari hendur um að bera Svíakonungi illa söguna en Ólafi digra, dýrlingi norsku kirkjunnar.

Síðan ákveður Snorri að teygja verkið í báðar áttir, skrifa heildarsögu Noregskonunga, Heimskringlu. Hann gerir þar greinarmun á hinum góðu konungum, sem héldu sköttum í hófi og virtu hin fornu lög, og hinum vondu, sem voru ágjarnir og ófriðsamir. Framarlega í Heimskringlu setur hann sögu, sem hann hefur eflaust samið sjálfur eins og ræður Einars og Þórgnýs. Hún er um landvættirnar, sem verja Ísland, en með henni er Snorri að segja Noregskonungi, að erfiðara kunni að vera að leggja Ísland undir sig með hervaldi en hann haldi. Snorri er eins og Sighvatur Þórðarson á undan honum hinn fullkomni hirðmaður. Hann segir konungi óbeint hug sinn í ræðum Einars og Þórgnýs og sögunni um landvættirnar. Heimskringla er Bersöglismál í óbundnu máli.

Jafnframt er Heimskringla í raun um árekstur tveggja stjórnmálahugmynda, hinnar fornu germönsku hugmyndar um Genossenschaft, lýðvald, jafningjasamband, eins og var á Íslandi, og hinnar nýju hugmyndar, sem kemur frá Róm, um Herrschaft, drottinvald, konungsstjórn, eins og hafði myndast í Noregi, en um þann árekstur mætti segja margt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. ágúst 2020.)


Popper og Ísland

20.2 Popper.youngHér í blaðinu hef ég bent á, að sumir kunnustu heimspekingar sögunnar hafa minnst á Íslendinga. Rousseau sagði, að íslenskir námsmenn í Kaupmannahöfn yndu sér þar svo illa, að þeir ýmist vesluðust upp og gæfu upp öndina eða drukknuðu í sjó, þegar þeir ætluðu að synda aftur heim til Íslands. Marx og Engels völdu Íslendingum hin verstu orð. Þeir væru ruddar og sóðar og ættu ekkert gott skilið frekar en aðrar afdalaþjóðir Evrópu.

Einn kunnasti heimspekingur tuttugustu aldar, Karl R. Popper, minntist líka á Íslendinga á einum stað í bókum sínum. Hann var að andmæla hugmyndinni um þjóðríki. Eina dæmið, sem honum gæti hugkvæmst um, að sami hópur deildi sögu, tungu, landi og ríki, væri Ísland. Popper bætti þó við, að Atlantshafið skildi Ísland frá öðrum löndum og að Íslendingar sæju ekki sjálfir um landvarnir, heldur treystu á samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins. Ísland væri þess vegna ekki eins skýr undantekning frá reglunni og virtist fljótt á litið vera.

Þegar ég heimsótti Popper 31. janúar 1985 í Penn í Buckinghamshire til þess að ræða við hann um heimsins böl og bölvabætur, spurði hann mig brosandi, hvort ég hefði tekið eftir þessum ummælum. Já, ég hafði gert það. Hann sagði mér þá, að hann og kona hans hefðu á námsárum sínum í Vínarborg laust fyrir 1930 haft mikinn áhuga á Íslandi. Sérstaklega hefðu þau hrifist af því, að Íslendingar skyldu hafa fundið Vesturheim, en um leið hefðu þau velt því mjög fyrir sér, hvers vegna byggð norrænna manna á Grænlandi skyldi hafa lagst niður.

Fundur Vesturheims var auðvitað sérstakt afrek, eins og Popper benti á. En gátan um byggðina í Grænlandi er enn óleyst, þótt mér finnist líklegast, að síðustu íbúarnir hafi ýmist fallið fyrir Inúítum (sem fornmenn kölluðu Skrælingja) eða hrakist til Íslands og blandast þar þjóðinni. Ef til vill eiga vísindamenn okkar eftir að ráða þessa gátu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. ágúst 2020.)


Fyrra Samherjamálið: Hliðstæður

Í ágúst 2020 birti Samherji myndband um fréttaflutning Ríkisútvarpsins af máli frá 2012, sem snerist um fiskverð og skilaskyldu og kalla mætti fyrra Samherjamálið til að greina það frá nýlegra máli, en það snýst um umsvif fyrirtækisins í Namibíu. Þrátt fyrir margra ára rannsókn í þessu fyrra máli var niðurstaða saksóknara sú, að ekki væri tilefni til ákæru. Samkvæmt myndbandinu birti Ríkisútvarpið mjög ónákvæmar fréttir af þessu máli. Það vitnaði í skýrslu, sem síðan hefur ekki reynst vera til. Aðeins var um ræða ófullkomin vinnugögn, sem laumað hafði verið ólöglega til fréttamanns.

Rifjast þá upp tvö hliðstæð mál. Árin 2006–2008 hafði Þorvaldur Gylfason prófessor uppi stór orð um, að tekjudreifing á Íslandi væri orðin miklu ójafnari en í grannlöndum. Vitnaði hann í útreikninga á svonefndum Gini stuðlum frá Ríkisskattstjóraembættinu. En þegar Ragnar Árnason prófessor grennslaðist fyrir um þessi gögn, kom í ljós, að embættið hafði ekki reiknað út neina Gini stuðla og því síður afhent Þorvaldi slíka útreikninga. Ekki er vitað, hvaðan Þorvaldur fékk tölur sínar, en líklega hefur einhver starfsmaður embættisins reiknað þær út upp á sitt eindæmi fyrir hann. Tölurnar voru auk þess ekki sambærilegar við tölur frá öðrum löndum, enda var og er tekjudreifing á Íslandi einhver hin jafnasta í heimi.

Árið 2007 hélt Jón Ólafsson heimspekingur því fram, að Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, hefði verið andsnúið stofnun Sósíalistaflokksins 1938. Vitnaði hann í minnisblað innan úr Komintern, þar sem starfsmaður lét í ljós efasemdir um málið. Þór Whitehead prófessor benti þegar á, að vinnugagn væri annað en opinber afstaða. Allt benti til þess, kvað Þór, að niðurstaða Kominterns hefði verið að styðja stofnun Sósíalistaflokksins, enda hefði við hana verið farið í hvívetna að fyrirmælum þess. Kommúnistaflokkar á Norðurlöndum hefðu sent flokknum heillaóskaskeyti við stofnunina, og samstarf hefði strax tekist milli Sósíalistaflokksins og Kominterns, svo sem þegar Kristinn E. Andrésson gaf Komintern skýrslu í Moskvu 1940 og þáði fjárstyrk. Ég fann síðan í gögnum Sósíalistaflokksins bréf frá 1938, þar sem opinber talsmaður æskulýðssamtaka Kominterns í Moskvu lýsti yfir ánægju með hinn nýja flokk, og tekur það af öll tvímæli.

Rökvillan í öllum þremur dæmunum er hin sama, að kynna vinnugögn sem endanlega niðurstöðu. Vandaða heimildarýni vantaði. En um Samherja má hafa fræg orð frá nítjándu öld: Þetta fyrirtæki er ægilega grimmt. Það ver sig, ef á það er ráðist.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. ágúst 2020.)


Hin hliðin á sigrinum

Eitt af því, sem menn læra í grúski um söguna, er, að fleiri hliðar eru á henni en okkur voru kenndar í skólum. Enginn sagði okkur til dæmis frá því, að í lok seinna stríðs voru á milli tíu og fjórtán milljónir manna af þýskum ættum reknar til Þýskalands frá heimkynnum sínum í Austur-Prússlandi, Póllandi og Tékkóslóvakíu, þar sem fólkið hafði búið mann fram af manni. Talið er, að hátt í milljón manns hafi látist í þessum flutningum.

Miskunnarleysi þýskra nasista í Mið- og Austur-Evrópu í stríðinu afsakar ekki miskunnarleysi sigurvegaranna í seinna stríði gagnvart fólki af þýsku bergi brotnu, að minnsta kosti ekki að dómi þeirra okkar, sem hafna hugmyndinni um samsekt þjóða, en trúa á ábyrgð einstaklinga á eigin gerðum og ekki neina sök þeirra á fæðingarstað sínum.

Það var eitt af kyrrlátum afrekum Þjóðverja eftir stríð, að þeir gátu tekið við öllu þessu fólki, án þess að allt færi úr skorðum. Þetta voru mestu fólksflutningar mannkynssögunnar. Skýringin á því, hversu ótrúlega vel tókst til, var tvíþætt: Þeir Konrad Adenauer og Ludwig Erhard höfðu komið á atvinnufrelsi í Vestur-Þýskalandi, svo að atvinnulífið óx hratt og örugglega og allt þetta aðkomufólk fékk störf. Og í öðru lagi var tiltölulega auðvelt fyrir hina nauðugu innflytjendur að laga sig að aðstæðum, því að þeir deildu tungu og menningu með þeim, sem fyrir voru. Öðrum þræði gátu þeir verið fegnir að lenda ekki undir oki kommúnista.

Adenauer var líka kænn stjórnmálamaður. Þótt hann væri viss um, að Þjóðverjar myndu aldrei endurheimta þau svæði, sem af þeim höfðu verið tekin, datt honum ekki í hug að segja það opinberlega. Hann leysti brýnan vanda fljótt og vel, en leyfði tímanum og þögninni að græða sár sögunnar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. ágúst 2020.)


Barn eða óvinur?

Norðurlandaþjóðir eru með réttu taldar einhverjar hinar ágætustu í heimi. Þess vegna verðum við hissa, þegar við rekumst á dæmi um hrottaskap eða lögleysur hjá þeim, svo sem þegar 62 þúsund manns voru gerð ófrjó, flestir án þess að vita af því eða gegn eigin vilja, í Svíþjóð árin 1935–1975 eða þegar Norðmenn settu í seinna stríði afturvirk lög um, að skráning í nasistaflokkinn norska væri glæpsamleg. Í grúski mínu á dögunum rakst ég á ótrúlegt dæmi.

Í stríðslok komust 250 þúsund þýskir flóttamenn til Danmerkur yfir Eystrasalt frá svæðum, sem verið höfðu undir yfirráðum Þjóðverja, en Rússar voru að hertaka. Allt þetta fólk, einnig börnin, var sett í sérstakar búðir, umkringdar háum gaddavírsgirðingum. Danska læknafélagið sendi frá sér tilkynningu um, að læknar myndu ekki hlynna á neinn hátt að fólkinu, og danski Rauði krossinn neitaði að veita því aðstoð. Þetta hafði þær afleiðingar, að þessir flóttamenn, flestir allslausir og margir vannærðir, dóu unnvörpum, samtals um 13 þúsund manns. Af þeim voru sjö þúsund börn undir fimm ára aldri. Enginn vafi er á því, að langflest barnanna dóu vegna þess, að þau fengu enga aðhlynningu lækna.

Fleira flóttafólk dó en allir þeir Danir, sem féllu í seinna stríði. Árið 2006 gaf danski sagnfræðingurinn Kirsten Lylloff út bókina Barn eða óvinur? Umkomulaus þýsk flóttabörn í Danmörku 1945–1949 (Barn eller fjende? Uledsagede tyske flygtningebørn i Danmark 1945-1949), þar sem hún rekur þessa ljótu sögu. Auðvitað komu þýskir nasistar fram af ótrúlegri grimmd í stríðinu, þótt raunar væri framferði þeirra í Danmörku ekki eins harkalegt og víða annars staðar. En það réttlætir ekki, að níðst sé á umkomulausum smábörnum. Samþykkt danska læknafélagsins er með ólíkindum.

Er siðmenningin aðeins þunn skán utan á á villimanninum? Breytast menn í nashyrninga, þegar þeir berjast við nashyrninga, eins og lýst er í leikriti Ionescos?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. ágúst 2020.)


Stalín er hér enn

Forystumenn verkalýðsfélagsins Eflingar, Sólveig Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson, virðast vilja færa starfsemi þess langt aftur á síðustu öld, þegar sumir trúðu því, að kjarabætur fengjust með kjarabaráttu frekar en vexti atvinnulífsins: því fleiri verkföll, því betra. Afleiðingin á Íslandi var víxlhækkun kaupgjalds og verðlags, þrálát verðbólga, en óveruleg aukning kaupmáttar. Þau Sólveig og Viðar kunna að vera lifandi dæmi þeirra ummæla Hegels, að menn læri aldrei neitt af sögunni.

Rifjast nú upp, þegar Þjóðleikhúsið sýndi árið 1977 leikritið Stalín er ekki hér eftir Véstein Lúðvíksson. Aðalsöguhetjan er gamall sósíalisti, sem vill ekki viðurkenna, að stalínisminn hafi brugðist. Þegar fjölskyldan flytur í nýja íbúð, heimtar kona hans, að hann selji bækur sínar um sósíalisma. „Við verðum að fara að gera hreint,“ segir hún.

Ef til vill var þó ekki við öðru að búast af þeim Sólveigu og Viðari. Sólveig er dóttir Jóns Múla Árnasonar, sem var einn dyggasti stalínisti á Íslandi. Hann var lengi á framfæri Kristins E. Andréssonar, sem tók við mestöllu Rússagullinu á Íslandi, eins og skjöl fundust um í Moskvu eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna. Þegar Steinn Steinarr og Agnar Þórðarson gagnrýndu stjórnarfar í Rússlandi eftir för þangað 1956, vék Jón Múli sér að þeim í Austurstræti og spurði: „Því voruð þið að kjafta frá?“

Viðar er sonarsonur Vilhjálms Þorsteinssonar, sem var líka stalínisti og stjórnaði lengi verkfallsaðgerðum Dagsbrúnar. Það gerði hann til dæmis í verkfalli 1961, þegar Dagsbrún fékk fimm þúsund sterlingspunda framlag frá Kremlverjum í verkfallssjóð sinn.

Fordómar úr æsku geta lifað lengi.

(Fróðleiksmoli úr Morgunblaðinu 25. júlí 2020.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband