Kjörbúðir og kjörklefar?

200401-2x1-donald-trump-joe-biden-ew-1155a_783b2a335319d054c2820d7d80ebc3a9.fit-1120wNú líður að lokum forsetakjörsins bandaríska, en allur heimurinn fylgist með því, enda eru Bandaríkin langöflugasta hagkerfi og herveldi heims. Án þess hefðu þeir Stalín og Hitler líklega skipt Norðurálfunni allri á milli sín upp úr 1940. Spekingar þeir, sem koma fram þessa dagana í fjölmiðlum, segja flestir líklegast, að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, muni sigra. Þetta er rangt. Líklegast er, að Donald Trump, núverandi forseti, muni tapa. Þeir, sem kjósa Biden, eru langflestir að kjósa á móti Trump.

Þetta leiðir hugann að einum mun á því að kjósa úti í kjörbúð og inni í kjörklefa. Úti í kjörbúð kýs maður með krónunum sínum þá vöru, sem hann vill. Inni í kjörklefa kýs hann með höndunum þann frambjóðanda, sem hann vill stundum ekki, en telur illskárri en keppinauturinn. Biden vekur ekki traust. Hann er gleyminn og reikull í tali og leyfir fjölskyldu sinni að hagnast á nafni sínu. Hann ber með sér, að hann er orðinn 77 ára. En hann nær líklegast kjöri, því að hinn spræki keppinautur hans vekur víða stæka andúð, sem er ekki með öllu óskiljanleg.

Annar galli á kjörklefalýðræðinu ólíkt kjörbúðalýðræðinu er, að menn vita ekki alltaf, hvað þeir kjósa yfir sig. Úti í kjörbúð geta menn skoðað vöruna, lesið sér til um innihaldið og séð, hvað hún kostar. En inni í kjörklefanum geta menn sjaldnast séð fyrir, hvað muni gerast, sérstaklega í löndum með hlutfallskosningar og samsteypustjórnir, en líka í löndum með tveggja flokka kerfi eins og í Bandaríkjunum, þótt kostir séu þar skýrari.

Og jafnvel þótt bandarískir kjósendur ættu nú orðið að þekkja þá Joe Biden og Donald Trump, vita þeir ekki, hvað kjör þeirra muni kosta. Biden hyggst hækka skatta á hina tekjuhærri og takmarka vinnslu jarðefna. Þetta er hvort tveggja vel fallið til vinsælda, en gæti haft neikvæðar afleiðingar í atvinnulífinu.

Kjarni málsins er, að vilji einstaklinganna kemur miklu betur fram, þegar þeir kjósa daglega með krónunum úti í kjörbúð en þegar þeir kjósa með höndunum inni í kjörklefa á fjögurra ára fresti. Þess vegna ætti að flytja sem flestar ákvarðanir frá stjórnmálamönnum og skriffinnum til neytenda og skattgreiðenda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. október 2020.)


Stjórnarskrárhagfræði

24.1 BuchananFurðu sætir, að í öllum umræðunum um lýðveldisstjórnarskrána, sem samþykkt var með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944, hefur ekkert verið minnst á eina grein hagfræðinnar, stjórnarskrárhagfræði (constitutional economics), sem spratt upp úr rannsóknum James M. Buchanans og annarra hagfræðinga á almannavali í samanburði við einkaval. Er meira að segja haldið úti sérstöku tímariti um stjórnarskrárhagfræði. Buchanan fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1986 fyrir rannsóknir sínar á almannavali.

Einkaval er, þegar maður fer út í kjörbúð og kaupir sér osthleif. Almannaval er, þegar maður fer inn í kjörklefa og krossar við einhvern kost af nokkrum, til dæmis stjórnmálaflokk til að fara með löggjafarvaldið næstu fjögur árin. Sá augljósi munur er á einkavali og almannavali, að engin nauðung kemur við sögu í einkavali. Maðurinn kaupir sér ekki osthleif, nema hann vilji. Hann velur aðeins fyrir sjálfan sig. En í almannavali eru alltaf sumir að velja fyrir alla. Einhverjir verða undir í atkvæðagreiðslunni.

Stjórnarskrárhagfræðin leitar leiða til að lágmarka nauðung í stjórnmálum. Einfaldast væri auðvitað að krefjast einróma samþykkis við öllum stjórnlagabreytingum, en allir sjá, að það er ekki framkvæmanlegt (þótt Íslendingar hafi farið býsna nærri því í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944). Buchanan og lærisveinar hans telja því, að binda þurfi í stjórnlög ýmis ákvæði til verndar minni hlutum.

Til viðbótar við hefðbundin mannréttindaákvæði þurfi að koma reglur, sem torveldi meiri hluta að samþykkja þungar álögur á minni hluta, til dæmis skatta, sem aðeins fáir bera, eða skuldasöfnun, sem varpað er á komandi kynslóðir, eða verðbólgu, sem er ekkert annað en dulbúinn skattur á notendur peninga. Takmarka þurfi skattlagningar- og seðlaprentunarvald ríkisins í beinu framhaldi af þeim hömlum, sem þegar eru reistar við afskiptum þess af skoðanamyndun og meðferð einkaeigna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. október 2020. Myndin er af James M. Buchanan.)


Veggjakrot eða valdhömlur?

FyrirsögnÞegar á níunda áratug síðustu aldar var einu sinni sem oftar rætt af miklum móði á Alþingi um, hvað gera mætti fyrir þjóðina, hallaði Geir Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, sér að sessunaut sínum og sagði í lágum hljóðum: „Er ekki líka rétt að biðja um sérstaka veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri?“ Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég sá í miðborginni sóðalegt veggjakrot eftir ákafafólk, sem hafna vill lýðveldisstjórnarskránni frá 1944.

Lýðveldisstjórnarskráin var eins og lög gera ráð fyrir samin af Alþingi, en borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu hinn 23. maí 1944. Kjörsókn var 98%, og greiddu 98,3% atkvæði með stjórnarskránni, en hún átti uppruna sinn í stjórnarskrá þeirri, sem Kristján IX. færði Íslendingum á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874. Sú stjórnarskrá var ein hin frjálslegasta í Norðurálfunni, enda Norðurlönd þá sem nú að mörgu leyti til fyrirmyndar um stjórnarfar. Stendur réttarríkið óvíða traustari fótum. Til samanburðar má nefna, að kjörsókn var svo dræm 2012 um uppkast veggjakrotaranna að stjórnarskrá, að aðeins mælti um þriðjungur atkvæðisbærra kjósenda með því, að Alþingi hefði það til hliðsjónar, ef og þegar það endurskoðaði stjórnarskrána.

En til hvers eru stjórnarskrár? Þeir fræðimenn, sem dýpst hafa hugsað um það mál, svara: Það er til að skilgreina, hvaða mál þykja svo mikilvæg, að reglum um þau verði ekki breytt í venjulegum atkvæðagreiðslum. Dæmi er málfrelsið. Meiri hlutinn gæti komist í tímabundna geðshræringu og viljað svipta óvinsælan minnihlutahóp málfrelsi, en stjórnarskráin bannar það. Annað dæmi er friðhelgi eignarréttarins.

Stjórnarskrár eru fáorðar, gagnorðar og skýrar yfirlýsingar um, hvernig fara skuli með valdið, svo að hugsanleg misnotkun þess bitni sem minnst á einstaklingum. Eins og skip eru smíðuð til að standast vond veður, eru stjórnarskrá samdar til að standast misjafna valdhafa. Við höfum ekkert að gera við veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri, og því síður höfum við not fyrir stjórnarskrá, sem er ekkert annað en óskalisti um, hvað ríkið eigi að gera fyrir borgarana, eins og veggjakrotararnir í miðborginni krefjast. Nær væri að hafa áhyggjur af því, hvað ríkið getur gert borgurunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. október 2020.)


Minningar um Milton

23.6 FriedmansinChinaAð mér sóttu á dögunum minningar um Milton Friedman, einn virtasta hagfræðing tuttugustu aldar. Ég hitti hann fyrst á fundi Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, í Stanford í Kaliforníu haustið 1980. Ég sagði honum þá, að ég hefði ósjaldan varið hann fyrir árásum íslenskra vinstri manna. „Þú átt ekki að verja mig,“ sagði Friedman með breiðu brosi. „Þú átt að verja hugsjónir okkar.“

Næst hitti ég Friedman á þingi Mont Pelerin-samtakanna í Berlín 1982. Hann sagði mér þá af ferð sinni til Kína skömmu eftir fundinn í Stanford. Hann hafði snætt hádegisverð með kínverskum ráðherra, sem kvaðst vera á leið til Bandaríkjanna. Hvaða ráðherra sæi þar um dreifingu hráefna? Friedman svaraði: „Þú skalt fara á hrávörumarkaðinn í Síkagó.“ Ráðherrann varð eitt spurningamerki í framan. Friedman reyndi að útskýra fyrir honum, að á frjálsum markaði sæi ríkið ekki um dreifingu hráefna. Þau dreifðust um hagkerfið í frjálsum viðskiptum. Friedman rifjaði líka upp ferð sína til Indlands 1962. Hann kom þar að, sem verkamenn voru að grafa skipaskurð með skóflum. Friedman spurði: „Af hverju notið þið ekki jarðýtur? Það væri miklu hagkvæmara.“ Leiðsögumaður hans svaraði: „Þú skilur þetta ekki. Þetta skapar atvinnu.“ Friedman var ekki lengi að bregðast við: „Nú, ég hélt, að þið væruð að grafa skipaskurð. En ef þið ætlið að skapa atvinnu, af hverju notið þið ekki matskeiðar?“

Friedman kom til Íslands á mínum vegum haustið 1984. Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hélt honum boð í Ráðherrabústaðnum. Ég stóð við hlið Friedmans og kynnti hann fyrir gestum. Einn þeirra var seðlabankastjóri. Ég gat ekki stillt mig um að segja: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er íslenskur seðlabankastjóri. Hann yrði nú atvinnulaus, ef kenningar yðar yrðu framkvæmdar.“ Friedman brosti kankvís og sagði: „Nei, hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“ Allir hlógu, líka seðlabankastjórinn. Eitt kvöldið héldu íslenskir kaupsýslumenn og iðnjöfrar Friedman veglega veislu. Einn þeirra spurði Friedman: „Hver er að yðar dómi mesta ógnin við kapítalismann?“ Friedman svaraði: „Horfið í spegil. Það eru kapítalistarnir, sem ógna kapítalismanum. Þeir vilja, að ríkið verji þá gegn samkeppni.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. október 2020.)


Gyðingahatur og Íslendingaandúð

Þau Milton Friedman og Anna J. Schwartz gáfu árið 1963 út Peningamálasögu Bandaríkjanna, A Monetary History of the United States, þar sem þau lögðu fram nýja skýringu á heimskreppunni miklu 1929–1933. Hún var, að kreppan hefði orðið vegna mistaka í stjórn peningamála. Bandaríski seðlabankinn hefði breytt niðursveiflu í djúpa kreppu með því að leyfa peningamagni í umferð að skreppa saman um þriðjung. Hann hefði ekki gegnt þeirri skyldu sinni að veita bönkum í lausafjárþröng þrautavaralán.

Eitt versta glappaskotið hefði verið að bjarga ekki Bank of the United States í New York haustið 1930, en það hefði valdið áhlaupum á aðra banka og dýpkað niðursveifluna. Margir hefðu haldið vegna nafnsins, að bankinn væri á einhvern hátt opinber stofnun, en svo var ekki. Bankinn var í eigu gyðinga, og flestir viðskiptavinir voru gyðingar. Þau Friedman og Schwartz töldu líklegt, að gyðingahatur hefði ráðið einhverju um, að bankanum var ekki bjargað.

Hliðstæð ákvörðun var tekin í fjármálakreppunni 2008 um Ísland. Breska Verkamannaflokksstjórnin með þá Gordon Brown og Alistair Darling í broddi fylkingar ákvað að bjarga öllum bönkum í Bretlandi öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Jafnframt lokaði stjórnin útbúi Landsbankans í Lundúnum. Þetta olli því, að íslenska bankakerfið hrundi allt, en ella var það alls ekki sjálfgefið.

Ég tel líklegt, að stjórnmálahagsmunir hafi ráðið einhverju um þessa ákvörðun. Brown og Darling voru báðir frá Skotlandi, og þjóðernissinnar sóttu þar mjög að Verkamannaflokknum. Þeir höfðu því ríka hagsmuni af því að sýna skoskum kjósendum, að sjálfstæði smáþjóðar gæti verið varasamt. Skoska bankakerfið var tólfföld landsframleiðsla Skotlands og hefði hrunið, hefði Englandsbanki ekki veitt skoskum bönkum þau þrautavaralán, sem hann neitaði Heritable og KSF um. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. október 2020.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband