Lögmál eiginhagsmunanna

Einn skarpskyggnasti stjórnmálarýnandi Vesturlanda var franski aðalsmaðurinn Alexis de Tocqueville. Í frönsku byltingunni hafði langafi hans lent undir fallöxinni og foreldrar hans naumlega sloppið lifandi. Tocqueville taldi, að ekki yrði vikist undan því jafnræði, sem byltingarmennirnir boðuðu, en það yrði að vera jafnræðis frelsis, ekki ánauðar. Þess vegna ferðaðist hann árin 1831–1832 um Bandaríkin til að kynna sér skipulag, þar sem jafnræði virtist vera verulegt, án þess að frelsinu væri fórnað. Bandaríkjamenn kepptu ótrauðir að eiginhagsmunum, en virtust þó vera vel siðaðir. Vegna verkefnis, sem ég hef tekist á hendur, hefur ég verið að endurlesa bók hans, Lýðræði í Vesturheimi, sem hann gaf út í tveimur bindum 1835 og 1840. Orð hans þar um eiginhagsmuni eiga enn erindi við okkur, en þau þýddi dr. Jóhannes Nordal í Nýju Helgafelli árið 1956.

„Lögmál eiginhagsmunanna, sé það rétt skilið, er ekki háleitt, en það er ljóst og öruggt. Það setur sér ekki stórfengleg stefnumið, en nær áreynslulítið þeim áföngum, sem það hefur sett sér. Allir geta lært það og munað, því að það er ekki ofvaxið skilningi nokkurs manns. Það nær auðveldlega miklu áhrifavaldi yfir mönnunum vegna þess, hve dásamlega það samræmist veikleikum þeirra. Og vald þess er ekki hverfult, því að það skákar hagsmunum einstaklinganna hvers gegn öðrum, en beitir sömu meðulum til að stjórna ástríðunum og æsa þær. Lögmál eiginhagsmunanna hvetur menn ekki til stórkostlegrar sjálfsafneitunar, en það bendir þeim daglega á smáa hluti, sem þeir geta neitað sér um. Eitt sér gerir það menn ekki dygðuga, en það þjálfar fjölda manna í reglusemi, hófsemi, forsjálni og sjálfstjórn; og þótt það beini vilja manna ef til vill ekki beint á dygðarinnar veg, dregur það þá þangað samt smám saman með valdi vanans. Ef lögmál eiginhagsmunanna væri alls ráðandi í heimi siðferðisins, mundu framúrskarandi dygðum vafalaust fækka, en hins vegar mundi hin lægsta spilling einnig verða sjaldgæfari. Lögmál eiginhagsmunanna kemur ef til vill í veg fyrir, að menn rísi hátt yfir meðbræður sína, en það stöðvar og heldur í skefjum fjölda annarra manna, sem ella mundu sökkva djúpt niður. Lítum á nokkra hina allra bestu menn, þeim fer aftur vegna áhrifa þess, en lítum á allt mannkyn, því fer fram.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. mars 2020.)


Róbinson Krúsó og viðarborðið

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat mælir gegn hvers kyns viðskiptatálmunum af mikilli fimi. Ég hef þegar rifjað hér upp sögur hans af brotnu rúðunni og bænarskrá kertasteyparanna, en þar sýnir hann, hversu fráleitt er að neita sér um þann ávinning, sem hlotist getur af frjálsum viðskiptum. Þriðja sagan er um Róbinson Krúsó á eyðieyjunni.

Bastiat rifjar upp, að Krúsó vill smíða sér viðarborð, en hefur engin ráð til þess önnur en höggva tré, setja það fyrir framan sig og hefla það sæmilega flatt báðum megin með öxi sinni. Þetta tekur hann tvær vikur, og á meðan verður hann að lifa á matarforða sínum, og öxi hans missir bit.

En Bastiat bætir við söguna. Þegar Krúsó er að hefja öxina á loft, rekur hann augun í, að öldurnar hafa kastað viðarborði upp á ströndina. Hann verður hinn fegnasti og ætlar niður á strönd að hirða borðið. Þá man hann skyndilega eftir rökum tollverndarmanna. Ef hann tekur borðið, þá kostar það hann aðeins ferðina og burðinn með borðið. En ef hann gerir sér borð með öxi sinni, þá skapar það atvinnu handa honum í tvær vikur, og hann fær um leið tækifæri til að brýna öxina, jafnframt því sem hann notar matarforða sinn og þarf að útvega sér nýjan. Þess vegna er skynsamlegast að fleygja borðinu aftur í sjóinn.

Vitaskuld er breytni Krúsós fráleit. En Bastiat bendir á, að tollverndarmenn noti jafnan rök af sömu ætt. Þeir vilji tálma innflutning vöru, sem sé ódýrari en hin innlenda. Með því séu þeir að neita sér um þann ávinning, sem reki á fjörur okkar af því, að sumir geti framleitt einhverja vöru ódýrar en við eða landar okkar. Þeir breyta í raun eins og Krúsó, þegar hann fleygir viðarborðinu aftur í sjóinn og hamast þess í stað við að hefla með ófullkomnu verkfæri nýtt viðarborð á tveimur vikum. Bastiat bendir einnig á, að Krúso hefði getað notað þessar tvær vikur til að gera sér lífið þægilegra eða skemmtilegra. Enn eru þeir þó til, sem neita að skilja hagkvæmni verkaskiptingar og frjálsra viðskipta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2020.)


Bænarskrá kertasteyparanna

Engum hefur tekist betur að mæla fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum en franska rithöfundinum Frédéric Bastiat. Ein kunnasta háðsádeila hans á tollverndarmenn er „Bænarskrá kertasteyparanna“, sem birtist árið 1846. Framleiðendur kerta, vax, tólgs, eldspýtna, götuljósa og annars ljósmetis senda bænarskrá til franska fulltrúaþingsins. „Við þurfum að sætta okkur við óþolandi samkeppni erlends aðila, sem nýtur slíks forskots í ljósframleiðslu, að vara hans flæðir inn á innlendan markað á hlægilega lágu verði. Um leið og hann kemur á vettvang, hættir vara okkar að seljast, neytendur flykkjast til hans, og einn geiri fransks atvinnulífs sér fram á fullkomna stöðnun með margvíslegum afleiðingum. Þessi aðili er enginn annar en sólin.“

Höfundar bænarskrárinnar benda á, að löggjafinn geti skapað þörf fyrir tilbúið ljós með því að takmarka aðganginn að náttúrlegu ljósi, til dæmis með því að skylda fólk til að loka dyrum og byrgja glugga á daginn. Við það geti framleiðsla á tólg til dæmis aukist, svo að kvikfjárrækt verði umfangsmeiri, en það leiði aftur til víðáttumeiri bithaga og örvi framleiðslu á kjöti, ull og tilbúnum áburði. Takmörkun á náttúrlegri ljósframleiðslu sé atvinnulífinu í hag.

Bastiat tekur annað dæmi til samanburðar. Ef glóaldin (appelsína) frá Lissabon er helmingi ódýrari en glóaldin frá París, þá er það vegna þess, að náttúrlegur og um leið ókeypis hiti frá sólinni veitir framleiðendum í Lissabon náttúrlegt forskot. Þeir þurfa aðeins að leggja á sig helminginn af fyrirhöfn framleiðendanna í París. Þetta nota tollverndarmenn sem röksemd fyrir að takmarka innflutning glóaldina frá Portúgal. En ef framleiðsluvara er bönnuð fyrir að vera að hálfu leyti ókeypis, á þá ekki að banna vöru, sem er að öllu leyti ókeypis?

Bastiat sýnir með þessum dæmum, að alþjóðleg verkaskipting veitir okkur aðgang að alls konar gæðum, sem við ráðum ekki sjálf yfir. Fiskur er veiddur ódýrar á Íslandi og vín ræktað ódýrar í Síle en víða annars staðar, og aðrir jarðarbúar njóta þess síðan í frjálsum alþjóðaviðskiptum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. febrúar 2020.)


Bastiat og brotni askurinn

Fyrir viku rakti ég hér hina snjöllu dæmisögu franska rithöfundarins Frédérics Bastiats um brotnu rúðuna, en hana notaði hann til skýra, hvers vegna eyðilegging verðmæta gæti ekki örvað atvinnulífið, eins og sumir héldu fram. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði Arnljóts Ólafssonar, sem kom út árið 1880, var að miklu leyti samið upp úr ritum Bastiats, og í Ísafold 25. september 1880 birtist þessi dæmisaga Bastiats staðfærð.

Það fauk í Jón gamla Jónsson, þegar óþekktaranginn sonur hans braut askinn sinn. En nærstaddir hlógu að Jóni og hugguðu hann með því, að peningarnir gengju ekki úr landinu. „Nú fær askasmiðurinn eitthvað að gera. Allir þurfa einhverja atvinnu, og hvað á að verða af askatrénu, sem rekur á Skaganum, ef hann má ekki smíða neitt úr því?“

Þessir viðmælendur Jóns höfðu hins vegar rangt fyrir sér, að sögn Ísafoldar. Ef tvær krónur kostar að smíða nýjan ask, þá segja þeir, að innanlandsiðnaðurinn hafi grætt þá upphæð. Þetta er rétt. Smiðurinn kemur, fær þessar tvær krónur og blessar í huganum drenginn. Þetta sjáum við.

En það, sem við sjáum ekki, er, að Jón gamli hefði getað notað þessar tvær krónur í eitthvað annað, til dæmis folaldaskinn. Hefði sonur hans ekki brotið askinn, þá hefði Jón gamli notið hvors tveggja, asksins og folaldaskinnsins. Hann sjálfur og um leið heildin hefur tapað því sem nemur andvirði asksins, tveimur krónum. Innanlandsiðnaðurinn hefur ekki „neinn hag á því, að askar séu brotnir eða keröldin í búrinu séu mölvuð“. Jón hefði keypt folaldaskinnið fyrir krónurnar tvær.

Í Ísafold er dregin af þessu almenn ályktun: „Mannfélagið bíður skaða af öllum þeim hlutum, sem eru ónýttir til einskis. Þessi sannleikur, sem mun skelfa verndunartollamennina, hljóðar svo: að brjóta, bramla og eyða er ekki það sama og að hvetja alþýðu til nýrra starfa, í stuttu máli: eyðing er ekki ábati.“

Boðskapur Bastiats og lærisveins hans á Ísafold var einfaldur og á enn við: Þegar til langs tíma er litið, verður atvinnulífið ekki örvað með verndartollum eða opinberum styrkjum, heldur með því að leysa úr læðingi krafta einstaklinganna og kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. febrúar 2020.)

 


Bastiat og brotna rúðan

10.1 BastiatFranski rithöfundurinn Frédéric Bastiat er einn snjallasti talsmaður viðskiptafrelsis fyrr og síðar. Ein ritgerð hans heitir „Það, sem við sjáum, og það, sem við sjáum ekki“. Þar bendir hann á, að athafnir okkar hafa margvíslegar afleiðingar. Ein er strax sýnileg, en aðrar koma síðar fram og dyljast mörgum, en aðalsmerki góðs hagfræðings er að leiða þær líka í ljós.

Bastiat segir dæmisögu máli sínu til stuðnings. Óknyttadrengur brýtur rúðu, og áhorfendur reyna að sefa reiðan föður hans: „Slys eins og þessi knýja áfram framleiðsluna. Allir verða að lifa. Hvað yrði um glerskera, ef aldrei væru brotnar rúður?“ Þessi rök eru ógild, segir Bastiat. Það er rétt, ef sex franka kostar að gera við gluggann, að þeir renna þá til glerskurðar og örva þá iðn. Þetta sjáum við. En það, sem við sjáum ekki, er, að faðir drengsins getur nú ekki notað þessa sex franka til að kaupa sér skó. Heildarniðurstaðan virðist vera, að glerskurður hafi verið örvaður um sem nemur sex frönkum, en aðrar atvinnugreinar misst af hvatningu sem nemur sömu upphæð.

En ávinningur glerskeranna bætir ekki upp tapið fyrir aðrar atvinnugreinar. Nú eyðir faðirinn sex frönkum í að gera við gluggann og nýtur hans síðan eins og hann gerði áður. En hefði slysið ekki orðið, þá hefði hann notað sex franka til að kaupa sér skó og hefði eftir það notið hvors tveggja, rúðunnar og skónna. Heildin hefur tapað því sem nemur verðmæti brotnu rúðunnar.

Í ritgerðinni notar Bastiat margar fleiri dæmisögur til að leiða í ljós, að heildin tapar alltaf á eyðileggingu verðmæta. Enn gera þó sumir þær hugsunarvillur, sem Bastiat bendir á. Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman sagði til dæmis í bloggi sínu 14. september 2001, að hryðjuverkaárásin á tvíburaturnana nokkrum dögum áður gæti örvað atvinnulífið, „ef fólk flykkist út í búð og kaupir vatn í flöskum og niðursuðuvöru“. Og 15. mars 2011 sagði Krugman, að nýlegt kjarnorkuslys í Fukushima gæti örvað alþjóðahagkerfið, enda hefði seinni heimsstyrjöld bundið endi á heimskreppuna!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2020.)


Frá Íslandi til Auschwitz

Þess var minnst á dögunum, að 75 ár eru frá því, að Rauði herinn hrakti þýska nasista úr útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Ég var hins vegar hissa á því, að enginn gat um, hvernig Ísland tengdist búðunum. Árið 1934 kom þýsk gyðingakona, Henný Goldstein, til Íslands með ungan son sinn, en hún hafði skilið við föður drengsins, Robert Goldstein, sem var eins og hún af ætt Davíðs. Hún gekk að eiga blaðamanninn Hendrik Ottósson og varð ásamt syni sínum íslenskur ríkisborgari.

Einn hálfbróðir Hennýar, Harry Rosenthal, slapp til Íslands ásamt konu sinni, en annar hálfbróðir hennar, Siegbert, varð eftir í Þýskalandi, af því að kona hans átti von á barni. Eftir að sonur þeirra fæddist, gerðu þau Hendrik og Henný allt, sem í þeirra valdi stóð, til að koma þeim þremur til Íslands. Tókst þeim að útvega þeim leyfi til að fara um Svíþjóð til Íslands. En þegar sænska sendiráðið í Berlín hafði samband árið 1943, greip það í tómt. Nokkrum vikum áður hafði þessi litla fjölskylda verið flutt í Auschwitz.

Þar voru kona Siegberts og sonur send í gasklefana, en Siegbert var eftir skamma hríð sendur í Natzweiler-Struthof fangabúðirnar skammt frá Strassborg, og þar voru gerðar á honum tilraunir á vegum svokallaðrar rannsóknarstofnunar nasista, „Ahnenerbe,“ en hann var síðan myrtur. Fundust bein hans og annarra fórnarlamba þessara tilrauna skömmu eftir stríð.

Robert Goldstein, fyrrverandi eiginmaður Hennýar, hafði flúið undan nasistum til Frakklands, en eftir hernám Frakklands var hann líka fluttur til Auschwitz og myrtur.

Ég fékk aðgang að skjalasafni Hennýar Goldstein-Ottósson og aflaði mér margvíslegra annarra upplýsinga, þar á meðal úr skjalasöfnum hér og erlendis og frá þýskum fræðimanni, sem hafði rannsakað út í hörgul beinafundinn í Natzweiler-Struthof búðunum. Lagði ég mikla vinnu í að skrifa um þetta rækilega ritgerð, sem ég sendi Skírni til birtingar. Ritstjóri tímaritsins, Halldór Guðmundsson, hafnaði hins vegar ritgerðinni með óljósum rökum, en ég tel líklegast, að ákvörðun hans hafi ráðið, að vitanlega var þar á það minnst, að „Ahnenerbe“ hafði talsverð umsvif á Íslandi og styrkti hér nokkra þýska fræðimenn. Varð nokkurt uppnám í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar 1958, þegar Henný Goldstein-Ottósson rakst á einn þessara styrkþega, Bruno Kress, sem hafði verið æstur nasisti á Íslandi fyrir stríð, en gerst kommúnisti í Austur-Þýskalandi eftir stríð. Ritgerð mín birtist síðan í Þjóðmálum árið 2012.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2020.)


Fleira skilur en Ermarsund

Þegar klukkan sló tólf á miðnætti í París að kvöldi 31. janúar 2020, sagði Hið sameinaða konungsríki Stóra Bretlands og Írlands skilið við Evrópusambandið, en auk þess standa nú utan sambandsins Noregur, Sviss og Ísland ásamt nokkrum ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu.

Ermarsund skilur Bretland og Frakkland. En fleira skilur en þetta sund. Í byltingunni dýrlegu 1688 völdu Bretar leið stjórnarskrárbundins lýðræðis, þótt stjórnarskrá þeirra sé að vísu ekki fólgin í neinu einu skjali, heldur ótal fastmótuðum hefðum og venjum. Í stað þess að fela einum aðila öll völd var þeim dreift á marga.

Í frönsku byltingunni 1789 völdu Frakkar hins vegar leið ótakmarkaðs lýðræðis og ruddu út öllu arfhelgu, brutu það og brömluðu. Lýðurinn skyldi þess í stað öllu ráða, en eins og írski stjórnskörungurinn Edmund Burke benti á merkti það aðeins, að þeir, sem virtust tala í nafni Lýðsins, fengju öllu ráðið. Eftir byltinguna hefur tvisvar staðið keisaraveldi í Frakklandi, tvisvar konungdæmi, en lýðveldin hafa verið fimm talsins.

Í fyrirlestri árið 1819 reyndi franski rithöfundurinn Benjamin Constant að skýra, hvers vegna franska byltingin mistókst ólíkt hinni bresku: Byltingarmennirnir hefðu ekki skilið, að frelsi nútímamanna yrði að vera allt annars eðlis en frelsi fornmanna. Frelsið væri nú á dögum frelsi til að ráða sér sjálfur að teknu tilliti til annarra, en hefði að fornu verið réttur til að taka þátt í ákvörðunum heildarinnar.

Constant benti á, að nútíminn snerist um verslun, þar sem menn fengju það, sem þeir sæktust eftir, með frjálsum kaupum á markaði, en áður fyrr hefðu þeir reynt að afla þess með hernaði. Ríki væru orðin svo fjölmenn, að ekki yrði komið við beinu lýðræði. Dreifing valdsins og fulltrúastjórn væru því nauðsynleg.

Og enn stendur valið um dreifingu valdsins og gagnkvæmt aðhald ólíkra afla, sem er stjórnmálahefð Breta, og miðstýringu án verulegs aðhalds, sem er stjórnmálahefð Frakka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. febrúar 2020.)


Hvers vegna varð byltingin?

7.4 AttackonBastilleEðlismunur var á byltingunni dýrlegu í Bretlandi 1688 og byltingunni í Frakklandi 1789, eins og breski stjórnskörungurinn Edmund Burke benti á í stórmerku riti, sem kom út þegar árið 1790. Hin breska var gerð til að varðveita arfhelg réttindi Breta og stöðva konung, Jakob II., sem vildi taka sér einræðisvald að fyrirmynd starfsbróðurs síns handan Ermarsunds, Lúðvíks XIV. Hin franska var gerð í landi, þar sem konungur hafði um langt skeið haft einræðisvald, en nú ætluðu óreyndir málskrafsmenn að skipta honum út fyrir Lýðinn, Almannaviljann.

Íslendingar þekkja aðallega skoðanir marxista á frönsku byltingunni, en árin 1972–1973 kom út tveggja binda verk Alberts Mathiez um hana í þýðingu Lofts Guttormssonar. Mathiez hélt því fram eins og aðrir marxistar, að franska byltingin hefði verið barátta tveggja stétta, aðals og borgara. Hún hefði verið umbreyting alls skipulagsins. Mathiez gerði lítið úr ógnarstjórninni 1793–1794, þegar konungur og drottning ásamt mörgum öðrum voru leidd á höggstokkinn, en aðrir létu lífið í götuóeirðum eða uppreisnum úti á landsbyggðinni. Sumum var jafnvel drekkt í Leiru, Loire-fljóti. Að dómi Mathiez var hetja byltingarinnar jakobíninn Maximilien Robespierre, en konungsfjölskyldan hefði hlotið makleg málagjöld fyrir ráðabrugg með óvinum Frakklands.

Nýrri rannsóknir sagnfræðinganna Alfreds Cobbans, François Furets og Simons Schama sýna, að skoðun Burkes var miklu nær lagi. Byltingin var ekki umbreyting alls skipulagsins, enda var Frakkland árið 1830 furðulíkt Frakklandi árið 1789. Hún var tilfærsla valds, stjórnarbylting, ekki stéttabarátta. Talsverður hreyfanleiki hafði verið fyrir hana milli aðals og borgara, og raunar voru fæstir þeirra, sem sátu í málstofu borgara eða „þriðju stéttar“, framkvæmdamenn eða fjármagnseigendur. Byltingarmennirnir voru innblásnir af óraunhæfum hugmyndum um beina stjórn Lýðsins og síður en svo fulltrúar einnar stéttar. Þeir ætluðu að fylla upp í það tómarúm, sem einræðisvald konungs hafði skilið eftir, en studdust ekki við reynsluvit kynslóðanna eins og breskir umbótamenn gátu gert. Ógnarstjórnin var afleiðing af reynsluleysi þeirra og ranghugmyndum, ekki eðlilegt viðbragð við hættu að utan.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2020.)


Kínversk ekki-speki

Fræg er sagan af því, þegar Bandaríkjamenn spurðu Zhou Enlai, einn af leiðtogum kínverskra kommúnista, að því árið 1971, hvað hann segði um frönsku stjórnarbyltinguna. „Það er of snemmt um það að segja,“ svaraði Zhou. Þetta hefur verið haft til marks um djúpa kínverska speki, þegar horft er langt fram og aftur í tímann. En það er misskilningur, eins og kom fram í Financial Times 10. júní 2011. Túlkurinn við þetta tækifæri, Charles W. Freeman, upplýsti, að Zhou hefði verið að tala um stúdentaóeirðirnar í París 1968.

Sagan er samt merkileg fyrir tvennt. Í fyrsta lagi voru kommúnistarnir, sem stjórnuðu Kína, engir djúpvitringar, heldur þröngsýnir og grimmir ofstækismenn. Eftir að þeir höfðu sigrað í borgarastríði 1949, hófust fjöldaaftökur um allt Kína, sannkallað blóðbað. Milljónir manna voru drepnar. Og í „Stóra stökkinu“ fram á við árin 1958–1962 féllu 44 milljónir manna úr hungri, eins og sagnfræðingurinn Frank Dikötter hefur sýnt fram á, en hann hefur rannsakað kínversk skjalasöfn, sem áður voru lokuð.

Í öðru lagi var alls ekki of snemmt um þetta að segja. Þegar í nóvemberbyrjun 1790 hafði breski stjórnmálaskörungurinn Edmund Burke gefið út Hugleiðingar um Frönsku byltinguna (Reflections on the Revolution in France), þar sem hann kvað hana dæmda til að mistakast. Frönsku byltingarmennirnir teldu, að allt vald ætti að vera í hendi lýðsins, og það merkti ekki annað en að allt vald ætti að vera í hendi þeirra, sem teldu sig hafa umboð lýðsins, en þeir væru sökum reynsluleysis og ofstækis síst allra til mannaforráða fallnir. Byltingarmennirnir ætluðu að rífa allt upp með rótum, en það hlyti að enda með ósköpum, enda hefðu þeir óljósar hugmyndir um, hvað taka ætti við. Breskt stjórnarfar einkenndist hins vegar af því, sagði Burke, að valdinu væri dreift til margra aðila, og þess vegna myndaðist jafnvægi milli þeirra og framvindan yrði hæg og örugg.

Allt gekk fram, sem Burke sagði. Ógnarstjórn hófst í Frakklandi, og fallöxin hafði ekki undan. Loks hrifsaði herforingi frá Korsíku völdin og krýndi sjálfan sig keisara.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. janúar 2020.)


Bloggfærslur 23. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband