Utanríkisstefna Hannesar, Ólafs og Snorra

Jón Þorláksson lýsti viðhorfi samstarfsmanns síns, Hannesar Hafsteins ráðherra, til utanríkismála svo í Óðni 1923, að „hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga þeirra fyrir að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni“. Hannes var Danavinur, hvorki Danasleikja né Danahatari.

Að breyttu breytanda fylgdi Ólafur Thors sams konar stefnu, eins og Þór Whitehead prófessor skrifaði um í Skírni 1976: Ólafur vildi verja fullveldi þjóðarinnar eins og frekast væri samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi Bandaríkjamanna, sem veitt gátu Íslendingum ómetanlegan stuðning. Honum og Bjarna Benediktssyni tókst vel að feta það þrönga einstigi eftir síðari heimsstyrjöld. Þeir voru Bandaríkjavinir, hvorki Bandaríkjasleikjur né Bandaríkjahatarar.

Þriðji stjórnmálamaðurinn í þessum anda var Snorri Sturluson. Hann hafði verið lögsögumaður frá 1215 til 1218, en fór þá til Noregs til að koma í veg fyrir hugsanlega árás Norðmanna á Ísland, en þeir Hákon konungur og Skúli jarl voru Íslendingum þá ævareiðir vegna átaka við norska kaupmenn. Jafnframt vildi Snorri endurvekja þann íslenska sið að afla sér fjár og frægðar með því að yrkja konungum lof. Honum tókst ætlunarverk sitt, afstýrði innrás og gerðist lendur maður konungs (barón).

Snorri hefur eflaust sagt Hákoni og Skúla hina táknrænu sögu af því, þegar Haraldur blátönn hætti við árás á Ísland, eftir að sendimaður hans hafði sér til hrellingar kynnst landvættum, en hana skráði Snorri í Heimskringlu. Og í ræðu þeirri, sem hann lagði Einari Þveræingi í munn, kemur fram sams konar hugsun og hjá Hannesi og Ólafi: Verum vinir Noregskonungs, ekki þegnar hans eða þý. Við þetta sætti konungur sig hins vegar ekki, og var Snorri veginn að ráði hans 1241.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2019.)


Góð saga er alltaf sönn

Kong_Christian_10Tveir fróðir menn hafa skrifað mér um síðasta pistil minn hér í blaðinu, en hann var um fræga sögu af orðaskiptum Kristjáns X., konungs Íslands og Danmerkur, og Jónasar Jónssonar frá Hriflu dómsmálaráðherra á steinbryggjunni í Reykjavík 25. júní 1930. Dóttursonur Jónasar, Sigurður Steinþórsson, segir afa sinn hafa sagt sér söguna svo: Konungur hafi spurt: „Så De er Islands lille Mussolini?“ Jónas hafi svarað: „I Deres rige behøves ingen Mussolini.“ Er sagan í þessari gerð mjög svipuð þeirri, sem við Guðjón Friðriksson höfum sagt í bókum okkar. Í pistli mínum rifjaði ég upp, að Morgunblaðið hefði véfengt söguna og sagt hið snjalla tilsvar Jónasar tilbúning hans. Sigurður bendir réttilega á, að Morgunblaðið fjandskapaðist mjög við Jónas um þær mundir, svo að það væri ekki áreiðanleg heimild.

Best finnst mér að vísu sagan vera eins og Ludvig Kaaber sagði hana dönskum blaðamanni eftir Jónasi þegar í ágúst 1930, og hefur hún það einnig sér til gildis, að viðtalið við Kaaber er samtímaheimild. Samkvæmt henni sagði konungur við Jónas á steinbryggjunni: „Der har vi vor islandske Mussolini?“ Þá svaraði Jónas: „En Mussolini er ganske unødvendig i et land, der regeres af Deres Majestæt.“  Góð saga er alltaf sönn, því að hún flytur með sér sannleik möguleikans. Ekki verður afsannað, að Jónas hafi sagt þetta, og vissulega gæti hann hafa sagt þetta. Tilsvarið er honum líkt.

Konungur var oft ómjúkur í orðum og virðist hafa lagt fæð á Jónas (sem var eindreginn lýðveldissinni). Hinn maðurinn, sem skrifaði mér, Borgþór Kærnested, hefur kynnt sér dagbækur konungs um Ísland. Hann segir konung hafa veitt náfrænda Tryggva Þórhallssonar og mági, Halldóri Vilhjálmssyni á Hvanneyri, áheyrn vorið 1931 og þá beðið hann að skila því til Tryggva að skipa Jónas ekki aftur ráðherra. (Jónas hafði vikið tímabundið úr ríkisstjórn eftir þingrofið það ár.) Ekki varð úr því, og þegar Jónas var skipaður aftur ráðherra, færði konungur í dagbók sína: „Menntamálaráðherra Íslands, Jónas Jónsson, mætti í áheyrn hjá mér. Ég byrjaði á að fagna komu hans og að það hefði glatt mig að geta skipað hann aftur í stöðu menntamálaráðherra Íslands.“

Verður fróðlegt að lesa væntanlega bók Borgþórs um samskipti konungs og Íslendinga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2019.)


Þegar kóngur móðgaði Jónas

jónasfráhrifluÍ Fróðleiksmola árið 2011 velti ég því fyrir mér, hvers vegna Íslendingar settu kónginn af árið 1944, en létu sér ekki nægja að taka utanríkismál og landhelgisgæslu í sínar hendur, eins og tvímælalaust var tímabært. Ein skýringin var, hversu hranalegur Kristján konungur X. gat verið við Íslendinga. Sagði ég söguna af því, hvernig hann ávarpaði Jónas Jónsson frá Hriflu á Alþingishátíðinni 1930: „Svo að þér eruð sá, sem leikið lítinn Mússólíni hér á landi?“ Jónas á að hafa roðnað af reiði, en stillt sig og svarað: „Við þörfnumst ekki slíks manns hér á landi, yðar hátign.“

Um þetta atvik fór ég eftir fróðlegri ævisögu Jónasar eftir Guðjón Friðriksson. En þegar ég var að grúska í gömlum blöðum á dögunum, tók ég eftir því, að sögunni var á sínum tíma vísað á bug. Ein fyrsta fregnin af þessu atviki var í Morgunblaðinu 13. júlí 1930. Sagði þar, að konungur hefði vikið sér að Jónasi og heilsað honum sem hinum litla Mússólíni Íslands, þegar hann steig á land í Reykjavík 25. júní. „En Jónasi varð svo mikið um þetta ávarp, að hann kiknaði í hnjáliðunum og fór allur hjá sér. Erlendir blaðamenn og fregnritarar voru þar margir viðstaddir.“

Morgunblaðið minntist aftur á atvikið 15. ágúst, þegar það skýrði frá viðtali við Ludvig Kaaber bankastjóra í dönsku blaði. Kvaðst Kaaber hafa það eftir Jónasi sjálfum, að kóngur hefði sagt: „Þarna kemur okkar íslenski Mússólíni?“ Þá hefði Jónas svarað með bros á vör: „Mússólíni er algerlega óþarfur í því landi, sem yðar hátign stjórnar.“ Hefði kóngur látið sér svarið vel líka. En Morgunblaðið andmælti sögu Kaabers og kvað marga votta hafa verið að samtalinu á steinbryggjunni 25. júní. Sagan væri aðeins um, „hvernig Jónas eftir á hefur hugsað sér, að hann hefði viljað hafa svarað.“

Ef til vill var tilsvar Jónasar, eins og við Guðjón höfðum það eftir, aðeins dæmi um það, sem Denis Diderot kallaði „l’esprit de l’escalier“ eða andríki anddyrisins: Hið snjalla tilsvar, sem okkur dettur í hug eftir á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2019. Myndin er af Jónasi við Stjórnarráðið.)

 


Bandaríkin ERU fjölbreytileiki

statue-of-liberty-photo-julienne-schaer-nyc-and-company-003-3__largeÉg kenndi nokkrum sinnum námskeiðið Bandarísk stjórnmál í félagsvísindadeild og hafði gaman af. Ég benti nemendum meðal annars á, að Guðríður Þorbjarnardóttir hefði verið fyrsta kona af evrópskum ættum til að fæða barn þar vestra, Snorra Þorfinnsson haustið 1008. Fyrirmynd Mjallhvítar í Disney-myndinni frægu hefði verið íslensk, Kristín Sölvadóttir úr Skagafirði, en unnusti hennar var teiknari hjá Disney. Eitt sinn kom Davíð Oddsson í kennslustund til okkar og sagði okkur frá þeim fjórum Bandaríkjaforsetum, sem hann hafði hitt, Ronald Reagan, Bush-feðgum og Bill Clinton, en góð vinátta tókst með þeim Davíð, Bush yngra og Clinton. Sagði hann margar skemmtilegar sögur af þeim. Ég lét hvern nemanda námskeiðsins halda þrjú framsöguerindi, eitt um einhvern forseta Bandaríkjanna (til dæmis Jefferson eða Lincoln), annað um kvikmynd, sem sýndi ýmsar hliðar á stjórnmálum í Bandaríkjunum (til dæmis Mr. Smith goes to Washington eða JFK), hið þriðja um stef úr bandarískri sögu og samtíð (til dæmis tekjudreifingu, fjölmiðla og kvenfrelsi).

Í þessu námskeiði kom hinn mikli fjölbreytileiki þessarar fjölmennu þjóðar vel í ljós, og er hann líklega hvergi meiri. Þar er allt, frá hinu besta til hins versta, auður og örbirgð, siðavendni og gjálífi, hámenning og lágkúra og allt þar á milli, kristni, gyðingdómur, íslam og rammasta heiðni. Hvergi standa heldur raunvísindi með meiri blóma. Aðalatriðið er þó ef vill hreyfanleikinn, hin lífræna þróun, sem Alexis de Tocqueville varð svo starsýnt á forðum. Bandaríkjamenn eru alltaf að leita nýrra leiða, greiða úr vandræðum.

Bandaríkin hafa verið suðupottur. En þau hafa einnig verið segull á fólk úr öllum heimshornum, þar sem því hefur tekist að búa saman í sæmilegri sátt og skapa ríkasta land heims. Tugmilljónir örsnauðra innflytjenda brutust þar í bjargálnir. Bandaríski draumurinn rættist, því að hann var draumur venjulegs alþýðufólks um betri hag, ekki krafa menntamanna um endursköpun skipulagsins eftir hugarórum þeirra sjálfra. „Bandaríkin eru sjálf mesti bragurinn,“ orti Walt Whitman. Það var því kynlegt að sjá á dögunum fulltrúa einsleitustu þjóðar heims, Íslendinga, ota táknum um fjölbreytileika að varaforseta Bandaríkjanna í stuttri heimsókn hans til landsins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2019.)


Fróðleg ráðstefna síðdegis á föstudag

Screenshot 2019-09-05 at 15.45.10


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband