Falsfréttir um regnskóga

https%3A%2F%2Fspecials-images.forbesimg.com%2Fdam%2Fimageserve%2F1004885760%2F960x0Ætti að mega treysta einhverju, þá ætti það að vera vísindavefur Háskóla Íslands. En þar segir Jón Már Halldórsson líffræðingur um regnskógana í Amasón: „Regnskógarnir eru sagðir vera lungu jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum í Suður-Ameríku.“ Fréttamenn hafa síðustu daga vitnað í þessa speki í tilefni skógarelda þar syðra.

Auðvitað eru regnskógarnir ekki lungu jarðar, eins og líffræðingurinn ætti manna best að vita. Með lungunum öndum við að okkur súrefni og öndum síðan frá okkur koltvísýringi. En tré og aðrar plöntur í regnskógum og annars staðar gefa frá sér súrefni og taka til sín (binda) koltvísýring. Verkan þeirra er því þveröfug við verkan lungna.

Hvaðan fær líffræðingurinn það síðan, að 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi? Raunar virðist enginn vita, hvernig þessi tala komst á kreik, en hún er röng. Jafnvel umhverfisöfgamaður eins og Michael Mann (sem haldið hefur fyrirlestra í Háskóla Íslands) viðurkennir, að innan við 6% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi. Talan lækki, játar Mann, ef í stað skóganna er settur þar niður annar gróður, til dæmis nytjajurtir, en þær framleiða vitaskuld einnig súrefni með ljóstillífun. Raunar er líklegast, þar sem tré í skógi geta rotnað eða eyðst á annan hátt og þannig tekið til sín súrefni, að engin (eða sáralítil) nýmyndun súrefnis eigi sér þar stað. Líffræðingurinn ætti einnig að vita, að megnið af nýmyndun súrefnis í jarðarhjúpnum á sér stað í sjávargróðri, aðallega svifþörungum.

Það er líka rangt, að skógareldarnir í Amasón séu óvenjumiklir þetta árið. Þeir eru í meðallagi miðað við síðustu fimmtán ár og raunar talsvert minni en skógareldar, sem geisa um þessar mundir í Afríku og Asíu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2019.)


23. ágúst 1939

stalinsign-58b975373df78c353cdcad44-1Í gær voru rétt 80 ár liðin frá því, að Stalín og Hitler gerðu griðasáttmála. Þar skiptu þeir með sér Mið- og Austur-Evrópu. Stalín fékk í sinn hlut Eystrasaltsríkin, Finnland og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst inn í Pólland að vestan 1. september 1939, sögðu Bretar og Frakkar honum stríð á hendur, en þegar Stalín réðst inn í Pólland að austan 17. september, höfðust ríkin tvö ekki að. Eystrasaltslöndin töldu sig ekki hafa afl til að hafna kröfu Stalíns um herstöðvar. En þegar hann krafðist hins sama af Finnum, neituðu þeir og börðust hetjulega í Vetrarstríðinu svokallaða fram á vor 1940, en urðu þá að lúta ofureflinu.

Griðasáttmálinn vakti hvarvetna uppnám í röðum ráðstjórnarvina, sem höfðu löngum talið nasista höfuðandstæðinga sína. Þetta átti líka við í Sósíalistaflokknum íslenska, sem stofnaður hafði verið haustið áður við samruna vinstri sósíalista og kommúnista. Vinstri sósíalistar kröfðust þess, að flokkurinn fordæmdi landvinninga Stalíns, en kommúnistar harðneituðu. Skömmu eftir árás Hitlers á Póllandi hitti Þórbergur Þórðarson Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg. Þá sagðist Þórbergur skyldu hengja sig, ef Stalín réðist á Póllandi. Eftir árás Stalíns birti hann ámátlega varnargrein, þar sem hann sagðist hafa sagt það eitt, að hann skyldi hengja sig, ef Stalín hæfi þátttöku í stríðinu við hlið Hitlers. Halldór Kiljan Laxness skrifaði í Þjóðviljann, að það ætti að vera fagnaðarefni, ef íbúar „Vestur-Úkraínu“ eins og hann kallaði Austur-Pólland, yrðu þegnar Stalíns.

Griðasáttmálinn er til marks um, að Heimsstyrjöldin síðari var í rauninni tvö stríð. Frá hausti 1939 til sumars 1941 áttu Bretar og Frakkar í höggi við Hitler, sem var í eins konar bandalagi við Stalín. Frá sumri 1941, þegar Hitler rauf griðasáttmálann og réðst á Stalín, börðust Bretar og Rússar við Þjóðverja, en Frakkar voru úr leik. Í árslok 1941 gengu Bandaríkjamenn í lið með Bretum og Rússum, en Japanir með Þjóðverjum, og voru þá úrslitin ráðin: Enginn stenst Bandaríkin, ef þau beita sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2019.)


Hænurnar 97

Ein fjöður getur ekki aðeins orðið að fimm hænum, eins og segir í orðtakinu. Hún getur orðið að 97 hænum. Staglast er á því í fjölmiðlum, að 97 af hundraði vísindamanna telji hnattræna hlýnun vera af manna völdum. Nú efast ég ekki um það, að hlýnað hafi síðustu áratugi: ég man þá tíð fyrir hálfri öld, er skólahald var stundum fellt niður í Reykjavík vegna veðurs og strætisvagnar ösluðu um á keðjum. Ég hef aðeins bent á tvennt, sem liggur í augum uppi. Í fyrsta lagi er afar ólíklegt, að nú muni skyndilega ekki lengur um náttúrlegar loftslagsbreytingar eins og orðið hafa frá aldaöðli. Í öðru lagi er alls óvíst, að loftslagið, sem var í heiminum um og eftir 1990, þegar hlýnunin hófst, sé hið eina ákjósanlega. Hlýnun jafnt og kólnun hafa í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar.

Uppruni staglsins um 97 vísindamenn af hundraði er í rannsókn eftir eðlisfræðinginn John Cook og fleiri, sem greint var frá í veftímariti árið 2013. Þar voru skoðaðir rösklega 11 þúsund útdrættir úr ritrýndum ritgerðum um loftslagsmál tímabilið 1991–2011. Cook og félagar héldu því fram, að samkvæmt rannsókninni teldu 97 af hundraði vísindamanna hnattræna hlýnun vera af manna völdum („97.1% endorsed the consensus position that humans are causing global warming“).

Þegar grein þeirra Cooks er skoðuð nánar, kemur þó annað í ljós, eins og eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David Friedman hefur bent á. Í tveimur þriðju hlutum ritgerðanna er engin afstaða tekin til þess, hvort hnattræn hlýnun sé af manna völdum. En hvað um þann einn þriðja hluta, þar sem afstaða er tekin? Í rannsókn sinni flokkuðu Cook og félagar ritgerðir, þar sem hnattræn hlýnun var talin af manna völdum, í þrennt. Í fyrsta flokki voru ritgerðir, þar sem sagt var beint, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, og lögð fram töluleg gögn um það. Í öðrum flokki voru ritgerðir, þar sem fullyrt var, að hnattræn hlýnun væri að miklu leyti af manna völdum, án þess að sérstakar tölur væru nefndar. Í þriðja flokknum voru ritgerðir, þar sem sagt var óbeint, að hnattræn hlýnun væri að einhverju leyti af manna völdum.

Af þeim ritgerðum, þar sem afstaða var tekin, voru 1,6% í fyrsta flokki, 23% í öðrum flokki og 72% í þriðja flokki. Þess vegna hefði verið nákvæmara að segja, að 1,6% vísindamanna, sem birt hefðu ritrýndar ritgerðir um loftslagsmál, héldu því fram, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, en að þorri vísindamanna teldi menn hafa einhver áhrif á loftslagsbreytingar án þess að horfa fram hjá hlut náttúrunnar sjálfrar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2019.)


Tvær gátur Njáls sögu

Gunnar snýr afturBrennu-Njáls saga er ekki aðeins lengsta Íslendingasagan, heldur líka sú, sem leynir helst á sér. Ég hef lengi velt fyrir mér tveimur gátum sögunnar í ljósi þeirrar leiðarstjörnu hagfræðinnar, að óskynsamleg hegðun kann að verða skiljanleg, þegar gætt er að þeim skorðum, sem söguhetjum eru settar, valinu um vondan kost eða óþolandi.

Ein gátan er, hvers vegna Gunnar sneri aftur, rauf með því sátt við andstæðinga sína og kostaði til lífinu. Í kvæðinu Gunnarshólma skýrir Jónas Hallgrímsson þetta með ættjarðarást. Sú tilgáta er tímaskekkja, því að sú tilfinning var varla til á Þjóðveldisöld. Í formála Brennu-Njáls sögu skýrir Einar Ól. Sveinsson atvikið með metnaði Gunnars. Hann hafi ekki viljað auðmýkja sig. En sú tilgáta stríðir gegn eðli Gunnars samkvæmt sögunni. Sennilegast er, þegar honum varð litið að Hlíðarenda, þar sem Hallgerður sat eftir, að hann hafi ekki viljað skilja hana eina eftir. Sagan geymir vísbendingu: Í 41. kafla segir, að Hallgerður hafi þjónað Sigmundi Lambasyni „eigi verr en bónda sínum“. Hjónabandið var Gunnari og Hallgerði „báðum girndarráð“, en Gunnar hafði samt fulla ástæðu til að vantreysta Hallgerði.

Önnur gátan er, hvers vegna Njáll hörfaði inn í húsið á Bergþórshvoli, þótt hann vissi, að með því gæfi hann umsátursmönnum færi á brennu. Líklega fyrirgaf Njáll aldrei sonum sínum víg Höskuldar Hvítanessgoða, sem hann unni heitar en þeim. Hann taldi þá eiga refsingu skilið, þótt hann gæti sjálfur ekki framkvæmt hana, þar eð hann var faðir þeirra. Sagan geymir vísbendingu, þegar Njáll segir í 129. kafla, að Guð muni „oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars“. Brennan var öðrum þræði syndaaflausn Njáls fyrir hönd sona hans, þótt hann sæi ef til vill ekki fyrir, að Bergþóra og Þórður Kárason myndu vilja fylgja honum hinsta spölinn.

Við greiningu á aðstæðum verður óskynsamleg hegðun skyndilega skiljanleg. Hinn kosturinn var verri: Gunnar þoldi ekki tilhugsunina um, að Hallgerður lægi með öðrum mönnum. Njáll þoldi sonum sínum ekki að hafa vegið Höskuld Hvítanessgoða og vildi milda refsingu Guðs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019. Teikningin er eftir Jón Hámund og skreytir útdrátt minn á ensku úr Njáls sögu, The Saga of Burnt Njal.)


Frá Gimli í Grynningum

HHG.APEEÞegar Kristófer Kólumbus fann aftur Vesturheim 1492, eftir að Íslendingar höfðu týnt álfunni fimm hundruð árum áður, kom hann fyrst að einni eyjunni í eyjaklasa, sem hann nefndi Bahamas og merkir grunnsævi. Mætti því nefna eyjaklasann Grynningar á íslensku. Ein eyjan ber nafnið Paradise Island, og ætti því íslenska nafnið að vera Gimli. Bandarísku samtökin Association of Private Enterprise Education, Samtök um einkaframtaksfræði, héldu ársfund sinn í Gimli á Grynningum í apríl 2019, og flutti ég þar erindi 6. apríl um norræna frjálshyggju, eins og ég hef gert víðar á þessu ári.

Norðurlandaþjóðirnar búa að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar beittu sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleyptu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og má kalla það fyrstu sænsku leiðina. Velgengni Svía á tuttugustu öld hvíldi eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar. Það var ekki fyrr en árin 1970–1990, sem sænskir jafnaðarmenn lögðu inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.

Önnur sænska leiðin, sem farin var 1970–1990, reyndist ófær. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá mátti í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hafði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Geta aðrar þjóðir lært margt af Svíum, eins og ég sagði áheyrendum mínum í Gimli á Grynningum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband