Sturla gegn Snorra

Snorri Sturluson hefur ekki notið sannmælis, því að andstæðingur hans (og náfrændi), Sturla Þórðarson, var oftast einn til frásagnar um ævi hans og störf. Sturla fylgdi Noregskonungi að málum og virðist hafa verið sannfærður um, að Íslendingum væri best borgið undir stjórn hans. Íslendinga saga hans var um land, sem vart fékk staðist sökum innanlandsófriðar, og í Hákonar sögu Hákonarsonar dró höfundur upp mynd af góðum konungi, sem ekkert gerði rangt.

Snorri hafði aðra afstöðu. Samúð hans var með friðsælum og hófsömum stjórnendum frekar en herskáum og fégjörnum, eins og sést til dæmis á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra og Orkneyjarjarlanna tveggja, Brúsa og Einars, í Heimskringlu. Snorri hagaði hins vegar jafnan orðum sínum hyggilega, svo að lesa þarf á milli lína í lýsingu hans á Ólöfunum tveimur, Tryggvasyni og Haraldssyni, sem boðuðu kristni og nutu þess vegna hylli kirkjunnar. Sagði hann undanbragðalaust frá ýmsum grimmdarverkum þeirra, svo að sú ályktun Einars Þveræings á Alþingi árið 1024 blasti við, að best væri að hafa engan konung.

Á þrettándu öld rákust jafnframt á tvær hugmyndir um lög, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor hefur greint ágætlega. Hin forna, sem Snorri aðhylltist, var, að lög væru sammæli borgaranna um þær reglur, sem ýmist afstýrðu átökum milli þeirra eða jöfnuðu slík átök. Þetta voru hin „gömlu, góðu lög“, og þau voru umfram allt hemill valdbeitingar. Nýja hugmyndin var hins vegar, að lög væru fyrirmæli konungs, sem þegið hefði vald sitt frá Guði, en ekki mönnum, og beitt gæti valdi til að framfylgja þeim. Þegar sendimaður Noregskonungs, Loðinn Leppur, brást á Alþingi árið 1280 hinn reiðasti við, að „búkarlar“ gerðu sig digra og vildu ekki treysta á náð konungs, var hann að skírskota til hins nýja skilnings á lögum.

Og enn rekast hugmyndir Snorra og Sturlu á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2019.)


Hinn kosturinn 1262

Almennt er talið, að Íslendingar hafi ekki átt annars úrkosta árið 1262 en játast Noregskonungi og gjalda honum skatt gegn því, að hann friðaði landið, tryggði aðflutninga og virti lög og landssið. En er þessi skoðun óyggjandi? Því má ekki gleyma, að Íslendingar voru mjög tregir til, ekki síst af þeirri ástæðu, sem Snorri Sturluson lagði Einari Þveræingi í munn, að konungar væru ætíð frekir til fjárins.

Hvers vegna hefði Þjóðveldið ekki getað staðist án atbeina konungs? Þeim vísi að borgarastríði, sem hér mátti greina um miðja 13. öld, hefði ella lokið með sigri einhvers höfðingjans eða málamiðlun tveggja eða fleiri þeirra. Samgöngur voru komnar í það horf, að Íslendingar hefðu getað verslað við Skota, Englendinga eða Hansakaupmenn ekki síður en kaupmenn í Björgvin. Tvennt gerðist síðan skömmu eftir lok Þjóðveldisins, sem hefði hugsanlega rennt traustari stoðum undir það: Hinn ásælni og harðskeytti Hákon gamli lést í herför til Suðureyja árið 1263, og markaðir stækkuðu víða í Norðurálfunni fyrir íslenska skreið. Það hefði ekki verið Noregskonungi áhlaupsverk að senda flota yfir Atlantsála til að hernema landið, og enn erfiðara hefði verið að halda því gegn vilja landsmanna.

Vilhjálmur kardínáli af Sabína sagði þóttafullur árið 1247, að það væri „ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni“. Að vísu var athugasemd hans einkennileg, því að sjálfur hafði kardínálinn röskum tveimur áratugum áður verið fulltrúi páfa í löndum við Eystrasalt, sem voru ekki undir stjórn neins konungs, heldur þýskrar riddarareglu. Og eitt land í Norðurálfunni laut þá sem nú ekki neinum konungi: Sviss. Saga þess kann að veita vísbendingu um mögulega þróun Íslands. Árið 1291 stofnuðu þrjár fátækar fjallakantónur, Uri, Schwyz og Unterwalden, svissneska bandaríkið, Eidgenossenschaft, og smám saman fjölgaði kantónum í því, þótt það kostaði hvað eftir annað hörð átök, uns komið var til sögunnar Sviss nútímans, sem þykir til fyrirmyndar um lýðræðislega stjórnarhætti, auk þess sem það er eitt auðugasta land heims.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2019.)


Hvers vegna skrifaði Snorri?

Eftir Snorra Sturluson liggja þrjú meistaraverk, Edda, Heimskringla og Egla. En hvað rak hann til að setja þessar bækur saman? Hann varð snemma einn auðugasti maður Íslands og lögsögumaður 1215–1218 og 1222-1231. Hann hafði því í ýmsu öðru að snúast.

Snorri var skáldmæltur og hefur eflaust ort af innri þörf. En ég tek undir með prófessor Kevin Wanner, sem hefur skrifað um það bókina Snorri Sturluson and the Edda, að einföld skýring sé til á því, hvers vegna hann setti Eddu saman. Íslendingar höfðu smám saman öðlast einokun á sérstæðri vöru: lofkvæðum um konunga. Þessari einokun var ógnað, þegar norrænir konungar virtust fyrir suðræn áhrif vera að missa áhugann á slíkum lofkvæðum. Snorri samdi Eddu til að endurvekja áhugann á þessari bókmenntagrein og sýna þeim Hákoni Noregskonungi og Skúla jarli, hvers skáld væru megnug. Þeir kunnu raunar vel að meta framtak hans og gerðu hann að lendum manni, barón, í utanför hans 1218–1220.

Svipuð skýring á eflaust að einhverju leyti við um, hvers vegna Snorri samdi Heimskringlu á árunum 1220–1237. En fleira bar til. Íslendingar voru í hæfilegri fjarlægð til að geta skrifað um Noregskonunga. Þótt Snorri gætti sín á að styggja ekki konung, má lesa út úr verkinu tortryggni á konungsvald og stuðning við þá fornu hugmynd, að slíkt vald sé ekki af Guðs náð, heldur með samþykki alþýðu. Með þjóðsögunni um landvættirnar varaði Snorri konung við innrás, og í ræðu Einars Þveræings hélt hann því fram, að best væri að hafa engan konung.

Tortryggnin á konungsvald er enn rammari í Eglu, sem er beinlínis um mannskæðar deilur framættar Snorra við norsku konungsættina. Egill Skallagrímsson stígur þar líka fram sem sjálfstæður og sérkennilegur einstaklingur, eins og Sigurður Nordal lýsir í Íslenskri menningu. Hann er ekki laufblað á grein, sem feykja má til, heldur með eigin svip, skap, tilfinningalíf. Líklega hefur Snorri samið Eglu eftir síðari utanför sína 1237–1239, en þá hafði konungur snúist gegn honum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2019.)


Stjórnmálahugmyndir Snorra Sturlusonar

Snorri Sturluson var frjálslyndur íhaldsmaður, eins og við myndum kalla það. Fimm helstu stjórnmálahugmyndir hans getur að líta í Heimskringlu og Eglu.

Hin fyrsta er, að konungsvald sé ekki af náð Guðs, heldur með samþykki alþýðu. Haraldur hárfagri lagði að vísu Noreg undir sig með hernaði og sló síðan eign sinni á allar jarðir, en sonur hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, bað bændur að taka sig til konungs og hét þeim á móti að skila þeim jörðum. Síðari konungar þurftu að fara sama bónarveg að alþýðu.

Önnur hugmyndin er, að með samþykkinu sé kominn á sáttmáli konungs og alþýðu, og ef konungur rýfur hann, þá má alþýða rísa upp gegn honum. Þetta sést best á frægri ræðu Þórgnýs lögmanns gegn Svíakonungi, en einnig á lýsingu Snorra á sinnaskiptum Magnúsar góða.

Hin þriðja er, að konungar séu misjafnir. Góðu konungarnir eru friðsamir og virða landslög. Vondu konungarnir leggja á þunga skatta til að geta stundað hernað. Þetta sést ekki aðeins á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra, heldur líka á mannjöfnuði Sigurðar Jórsalafara og Eysteins og raunar miklu víðar í Heimskringlu og ekki síður í Eglu.

Af þeirri staðreynd, að konungar séu misjafnir, dregur Snorri þá ályktun, sem hann leggur í munn Einari Þveræingi, að best sé að hafa engan konung. Íslendingar miðalda deildu þeirri merkilegu hugmynd aðeins með einni annarri Evrópuþjóð, Svisslendingum.

Fimmta stjórnmálahugmundin er í rökréttu framhaldi af því. „En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er þeir hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á.“ Íslendingar skuli vera vinir Noregskonungs, flytja honum drápur og skrifa um hann sögur, en þeir skuli ekki vera þegnar hans í sama skilningi og Norðmenn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband