Ertu á leið til Lima?

Fræðimenn, sem taka starf sitt alvarlega, verða oft að leysa verkefni, sem aðrir geta yppt öxlum yfir. Í fyrirlestraferð minni til Perú 21.–26. janúar, þar sem ég talaði um framseljanlega aflakvóta í Landssamtökum útvegsmanna, Sociedad Nacional de Pesquaría, og í Atvinnumálaráðuneytinu, Ministerio de la Produccíon, varð ég auðvitað að kynna mér, hvernig Perúmenn vinna úr sjávarréttum. Ég fékk mikinn sælkera, kunningja minn, Roberto Paravagna, sem er á níræðisaldri, en í fullu fjöri, til að aðstoða mig við þessar nauðsynlegu rannsóknir. Við fórum á nokkra kunnustu veitingastaðina í Lima, en einnig var mér tvisvar boðið út af öðrum. Skemmst er frá því að segja, að þar syðra er boðið upp á jafngóða sjávarrétti og í Reykjavík, og er þá langt til jafnað. Sjávarfangið er sérlega ferskt og ótrúleg tilbreytni í eldunaraðferðum, kryddi og sósum. Lima hefur þrjú ár í röð verið valin mesta sælkeraborg í heimi og á þann titil alveg skilið. En fyrir þá, sem leggja leið sína þangað, eru hér stuttar umsagnir um veitingastaðina, sem ég sótti heim:

Rafael var langbesti staðurinn að mínum dómi. Hann var þægilegur og ekki aðeins fyrir kaupsýslumenn með risnu. Verðið var um 8 þús. kr. á mann, en þar voru meðtaldir að minnsta kosti tveir Pisco sour (þjóðardrykkur Perúmanna, en stofninn er sterkur líkjör). Besti rétturinn og sá, sem staðurinn er frægastur fyrir, er humar, mjög bragðgóður. Mér fannst léttur forréttur úr önd líka mjög gómsætur.

Central var miklu dýrari staður, í rauninni fáránlega dýr, en samt var erfitt að fá borð þar. Verðið var um 15 þús. kr. á mann. Jafnan er um viku biðlisti þar, og staðurinn fær mjög góða dóma, sem ég er ekki viss um, að séu verðskuldaðir. Við fengum borðið á  síðustu stundu. Farið var í eins konar hringferð um Perú með ellefu léttum réttum. Þeir voru bornir fram með miklum og löngum skýringum þjónanna. En mér fannst enginn réttur sérstakur. „Interesting experience, but not to be repeated,“ sagði borðnautur minn Roberto.

Hinir staðirnir voru allir ódýrari. Rosa Náutica er skemmtilegur staður, liggur úti í sjó og göngubrú að honum frá ströndinni. Hann sérhæfir sig að vonum í sjávarréttum. Einn bragðbesti þjóðarréttur Perúmanna er ceviche, sem er sítrónuleginn fiskur. Hvort tveggja er, að sítrónulögurinn er sterkari en við eigum að venjast og hráefnið jafnan gott og ferskt, svo að óhætt er að mæla með honum.

Makoto sushi bar lætur ekki mikið yfir sér, en bauð upp á mjög gott sushi og sashimi. Sumir sushi-hnoðrarnir voru fylltir með ceviche, og þeir voru mjög ljúffengir. Íslenskur kaupsýslumaður, sem býr í Lima, bauð mér á þennan stað, og hann segir, að hann sé besti japanski staðurinn í borginni. Ég hef ekki samanburð, en ég get vel trúað því. Allt var þar mjög bragðgott. Laxasneiðarnar í sashimi réttunum voru miklu þykkar skornar en á Íslandi, og ég er ekki frá því, að þær bragðist betur við það. Fisktegundirnar í sashimi réttunum voru líka ferskar og smökkuðust vel, en ég kann engin frekari skil á þeim, og bíður það frekari rannsókna.

Panchita merkir litla grillhúsið, og þar eru kjötréttir aðallega á boðstólum. Staðurinn er fjörugur og hávær og talsvert þar af ungu fólki. Við næsta borð voru nokkrir listdansarar, karlar og konur, og gæddu sér af bestu lyst á ýmsum réttum, svo að líklega þykir maturinn þar hollur. Þjónustufólkið var kátt og vingjarnlegt, eins og raunar Perúmenn allir, sem ég hafði tal af. Maturinn var prýðilegur og alls ekki eins þungur og oft gerist á steikhúsum.

Museo Larco er í senn safn og veitingastaður. Safnið hefur að geyma minjar um ýmsar þjóðir, sem byggðu Perú, áður en Inkarnir náðu völdum, en þeir höfðu aðeins ríkt í eina öld, þegar Spánverja bar að garði. Það er merkilegt að skoða þessar minjar, þar á meðal gullbúnar skikkjur. En margir siðir þessara þjóða voru mjög grimmúðlegir. Í einum hliðarsal er munúðargripir (erotic art) frá því fyrir daga Inkanna! Veitingastaðurinn er prýðilegur, að mestu leyti úti við, og fer þar vel um gesti. Eini gallinn við þennan stað er, að hann er dálítið langt frá þeim hverfum, þar sem flest gistihús standa, San Isidro (þar sem ég bjó) og Miraflores (þar sem Roberto bjó). Umferðin í Lima er líka mjög þung.

Golfklúbburinn í Lima er eins og sprottinn upp úr skáldsögu eftir W. Somerset Maugham. Þar sitja rosknar hefðarkonur ásamt öðrum gestum að snæðingi í kyrrlátu og virðulegu umhverfi. Vítt er til veggja, og fjölmennt þjónalið hvítklætt gengur um beina. Úti við teygja grænar grundir úr sér, og þar má sjá menn leika golf af ákafa. Ég sat þar hádegisverð með perúskum félögum í Mont Pelerin samtökunum, en þar var ég í stjórn 1998–2004. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband