Sala áfengis í búðum

Menn koma margir upp um ófrjálslyndi sitt eða stjórnlyndi í umræðum um sölu áfengis í búðum, sem er í senn smámál og stórmál. Það er auðvitað smámál, því að menn eru litlu bættari við frelsi til að kaupa áfengi í búðum. En það er stórmál, því að þar er eitt mjög mikilvægt lögmál í húfi: Menn eiga rétt á að gera það, sem þeir vilja, svo framarlega sem þeir skerði ekki sama rétt annarra með því. Skipti búðar og kaupanda á áfengi og krónum eru slíks eðlis. Réttur engra annarra er skertur. Þess vegna á að leyfa þessi skipti. Önnur atriði koma málinu lítt eða ekki við, til dæmis vinsældir áfengisbúða ríkisins. (Þetta er gömul þversögn í heimspekinni um þýlynda þrælinn: Menn verða svo vanir óþörfum boðum og bönnum, að þeir hætta að finna fyrir þeim sem boðum og bönnum.) Rifja má upp, að einu sinni voru hér hálfopinberar mjólkurbúðir, og raunar var hér eitt sinn rekin bílasala ríkisins!

12642892_10153760923442420_7605475364264036764_n.jpg


Þeir stóðu á réttinum

Þegar Páll Jónsson sýslumaður, oftast nefndur Staðarhóls-Páll, gekk fyrir Danakonung eitt sinn á sextándu öld, kraup hann með öðrum fæti og stóð á hinum. Þegar hirðmenn hneyksluðust á þessu, svaraði hann: „Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum.“ Halldór Laxness sagði að þetta væri hin íslenska stjórnmálahugsun.

Tvö dæmi má nefna. Árið 1871 settu Danir svokölluð Stöðulög. Samkvæmt þeim var Ísland ekki viðurkennt fullvalda ríki og fengu Íslendingar ekki fulla stjórn eigin mála. Jón Sigurðsson var andvígur þessu, en sætti sig hins vegar við að Danir gáfu Íslandi í ársbyrjun 1874 stjórnarskrá sem var mikil réttarbót frá gildandi stjórnskipan. Kristján IX. bauð Jóni í höll sína skömmu eftir setningu stjórnarskrárinnar. Hann ávarpaði Jón og benti á að nú hefði hann skrifað undir nýja stjórnarskrá. Í orðunum lá að Jón ætti að vera ánægður. „Þetta er góð byrjun, yðar hátign,“ svaraði Jón kurteislega (sjá Andvara 1913).

Liðu nú ár. Haustið 1913 sótti Hannes Hafstein, ráðherra Íslands, ríkisráðsfund í Kaupmannahöfn. Kristján X. var nýorðinn konungur, en hann var ekki eins vinveittur Íslendingum og aðrir í hans ætt. Íslandsráðherra var látinn vita fyrir fundinn að nú skyldu ráðherrar ekki lengur koma fram í einkennisbúningi. Hannes mætti því í morgunbúnaði (tegund af kjóli og hvítu) eins og dönsku ráðherrarnir. Í upphafi fundar spurði konungur Hannes hranalega hvers vegna hann væri ekki í einkennisbúningi. Hannes svaraði því til að sér hefði verið tilkynnt að hann ætti að mæta í morgunbúningi. Konungur sagði að það ætti ekki við um Íslandsráðherra. Kvað hann Íslendinga ókurteisa, þrjóska og agalausa. Þegar konungur settist sneri Hannes sér að honum og sagðist harma orð konungs, ekki sjálfs sín vegna, heldur Íslendinga. Hann gæti því ekki setið þennan fund. Gekk hann út.

Þá reis upp Edvard Brandes fjármálaráðherra. Kvaðst hann hafa kynnt Hannesi hinar nýju reglur. Bæði konungur Hannes ekki afsökunar yrði hann sjálfur að víkja af fundi. Carl Zahle forsætisráðherra tók undir með Brandes og skoraði á konung að slíta annaðhvort fundi eða biðja Hannes afsökunar. Konungur sá sitt óvænna og lét senda eftir Hannesi sem var að ganga út úr höllinni. Þegar Hannes kom inn aftur stóð konungur upp og bað hann afsökunar. Hannes þakkaði konungi ljúfmannlega fyrir að eyða misskilningi og kvaðst sjálfur biðjast afsökunar hefði hann í einhverju móðgað hans hátign.

Þótt þeir Jón og Hannes lytu hátigninni stóðu þeir á réttinum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. janúar 2016.)


Bloggfærslur 25. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband