Búdapest, Reykjavík og Akureyri, 1956

bu_769_dapest.jpgÍ tölvubréfi andmælir Jóhann Páll Árnason heimspekingur mér svofelldum orðum: „Svo segir þú að ekki eitt einasta dæmi sé um það að Sósíalistaflokkurinn hafi gagnrýnt orð eða gerðir Sovétríkjanna. Þetta er auðvitað skrifað gegn betri vitund. Innrásin í Ungverjaland 1956 var fordæmd í leiðara Þjóðviljans, sem þá var flokksmálgagn Sósíalistaflokksins. Þess utan fordæmdi Alþýðubandalagið innrásina, og sem hluti af Alþýðubandalaginu verður Sósíalistaflokkurinn að teljast aðili að þeirri fordæmingu.“

Þjóðviljinn skrifaði í leiðara 6. nóvember 1956, að Rauði herinn hefði „öll ráð í Ungverjalandi í sínar hendur“. Síðan sagði blaðið: „Þetta eru aðfarir sem hver sósíalisti hlýtur að líta mjög alvarlegum augum, með þeim eru þverbrotnar sósíalistískar meginreglur um réttindi þjóða. Hver þjóð heims á að hafa rétt til að búa í landi sínu ein og frjáls án erlendrar íhlutunar.“ Blaðið bætti því við, að innrásin í Ungverjaland væri ekki síst vestrænum ríkjum að kenna. „Landvinningamenn og stríðssinnar auðvaldsríkjanna bera sína þungu ábyrgð á örlögum Ungverjalands, og ekkert er viðurstyggilegra en að sjá talsmenn þeirra fella krókódílatár yfir Ungverjum.“

brynjo_769_lfur_1956.jpgÞjóðviljinn skrifaði næstu vikur fátt um Ungverjaland, en þeim mun fleira um mótmæli fyrir utan sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík 7. nóvember 1956, en þá gengu forystumenn Sósíalistaflokksins þangað til veislu, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósepsson og Brynjólfur Bjarnason. Valdi blaðið mótmælendum hin hraklegustu orð.

Sósíalistaflokkurinn sjálfur ályktaði ekkert um innrásina í Ungverjalandi. Á flokksstjórnarfundi 25.–30. nóvember 1956 samþykkti flokkurinn eftir harðar deilur að leyfa einstökum félagsmönnum að mótmæla innrásinni, þótt flokkurinn gerði það ekki sjálfur. Ég veit ekki til þess, að flokksmenn hafi notfært sér þetta „leyfi“. Í ályktun ungra sósíalista við nám austan tjalds sagði hins vegar: „Það er skoðun okkar, að íhlutun sovéthersins hafi verið ill nauðsyn til þess að hindra stofnun fasistaríkis í Ungverjalandi, sem hefði margfaldað hættuna á nýrri heimsstyrjöld.“ Nokkrir menntaskólanemar á Akureyri tóku sömu afstöðu.

Ég stend því við fullyrðingu mína: Þess eru engin dæmi allt til 1968, að Sósíalistaflokkurinn hafi gagnrýnt orð eða gerðir ráðstjórnarinnar rússnesku.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. mars 2016. Efri myndin er frá Búdapest, hin neðri frá mótmælum fyrir framan sendiráð Ráðstjórnarríkjanna í Reykjavík 7. nóvember 1956. Lögreglan verndar Brynjólf Bjarnason og konu hans fyrir mótmælendum, eins og hún hafði orðið að vernda ýmsa andstæðinga kommúnista gegn þeim fyrr á árum.)


Ótrúleg fávísi Höskulds Kára Schrams

Frétt birtist um málstofu á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri, sem ég tók þátt í. Höskuldur Kári Schram, fréttamaður á Stöð tvö, skrifaði á Facebook um hana:

Nú hef ég bara fréttina til að styðjast við en ekki rannsóknina sjálfa. En stundum hafa Íslendingar verið aðeins of duglegir í að leita að sökudólgum í útlöndum. Þá vill stundum gleymast að við komum okkur sjálf í þessa stöðu. Bretar voru fyrir hrun búnir að lýsa yfir áhyggjum af stöðu bankanna. Þáverandi Seðlabankastjóri reyndi að gera lítið úr þeim áhyggjum á fundum erlendis. Sérfræðingi Danske bank sem lýsti yfir áhyggjum var bent á að fara í endurmenntun. Landsbankinn fékk grænt ljós á stofnun icesave reikninga í Hollandi bara nokkrum mánuðum fyrir hrun. Þá var það ekkert leyndarmál að bankinn var með þessum reikningum að bregðast við lausafjárskorti í erlendum gjaldeyri. Vaxtaálag á íslensku bankana byrjaði að hækka amk tveimur árum fyrir hrun. Það sáu allir í hvað stefndi en engin brást við. Mervin King bauðst til að hjálpa en því bréfi var bara alls ekki svarað. Stjórnvöld lýstu því yfir að þetta væri allt blessað og gott og ekkert vandamál og fóru í sérstaka PR herferð. Seðlabankinn lýsti því yfir í erlendum fjölmiðlum að það væri ekkert mál að koma bönkunum til bjargar. Svo hrundi allt með látum og það fyrsta sem við gerðum var að skilja útlendingana eftir á köldum klaka.

Ég svaraði honum í  nokkrum liðum:

  • „Þáverandi Seðlabankastjóri reyndi að gera lítið úr þeim áhyggjum á fundum erlendis.“ Hvað átti hann að gera annað? Átti hann að fella bankana með ógætilegum orðum? En hefurðu ekki lesið skýrslu RNA, þar sem fram koma ótal viðvaranir hans í ræðum og á einkafundum með bankamönnum og ráðherrum, ekki aðeins 6. nóvember 2007 og 7. febrúar 2008, heldur miklu oftar?
  • „Landsbankinn fékk grænt ljós á stofnun icesave reikninga í Hollandi bara nokkrum mánuðum fyrir hrun. Þá var það ekkert leyndarmál að bankinn var með þessum reikningum að bregðast við lausafjárskorti í erlendum gjaldeyri.“ Fékk grænt ljós? Hann hafði blátt áfram heimild til að gera þetta samkvæmt reglum um Evrópska efnahagssvæðið. Auðvitað var það ekkert leyndarmál, að bankinn var að bregðast við lausafjárskorti. En almennt hefur verið talið heppilegra, að bankar fjármagni sig með innlánum en lántökum.
  • „Mervin King bauðst til að hjálpa en því bréfi var bara alls ekki svarað.“ Hann heitir Mervyn King. Bréfið, sem ekki var svarað, var frá Seðlabankanum til Kings. Og til hvers bauðst King? Að hjálpa til við að minnka bankakerfið. Hvað merkti það? Að aðstoða við brunaútsölu á eignum íslensku bankanna til breskra banka. Það gat á þessum tíma ekki merkt neitt annað.
  • „Svo hrundi allt með látum og það fyrsta sem við gerðum var að skilja útlendingana eftir á köldum klaka.“ Skilja útlendingana eftir á köldum klaka? Hvers konar rugl er þetta? Með hryðjuverkalögunum og lokun breskra banka í eigu Íslendinga voru Íslendingar skildir eftir úti á köldum klaka. Útlendingarnir, sem veittu íslenskum bönkum lán, gerðu það á eigin ábyrgð, en ekki íslenskra skattgreiðenda.

Höskuldur Kári minnist ekkert á þátt Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í hinni hóflausu skuldasöfnun bankanna. Eins og fram kom í skýrslu RNA (Rannsóknarnefndar Alþingis), safnaði Baugsklíkan langmestum skuldum árin fyrir hrun. Einkennilegt er, að Höskuldur Kári skuli gleyma Jóni Ásgeiri, því að hæg eru heimatökin: Þeir eru systrasynir.


Á ráðstefnu á Akureyri 19. mars

1618620_10153956595274590_6141459162001333246_n.jpgÉg flutti fyrirlestur á ráðstefnu Háskólans á Akureyri um alþjóðamál laugardaginn 19. mars 2016. Ég leiddi þar rök gegn þeirri kenningu Anne Siberts og Baldurs Þórhallssonar, að Ísland væri of lítið, eins og bankahrunið íslenska hefði sýnt. Ég benti á, að smáríkjum vegnaði iðulega betur en stórveldum. Kostnaður af því, sem ríkið ætti að gera — að framleiða samgæði — væri alls ekki meiri í smáríkjum en stórveldum. Til dæmis hættu smáríki sér sjaldnast út í hernaðarævintýri, og þar væri löggæsla oft ódýrari á mann en í fjölmennari og sundurleitari löndum, þar sem hvítir og svartir, ríkir og fátækir, kristnir menn og múslimar stæðu iðulega andspænis hverjir öðrum gráir fyrir járnum. Ég sagði, að Íslendingar hefðu lent í gildru, þegar þeir ætluðu að skríða í skjól Noregskonungs 1262. Þeir hefðu verið læstir í þá gildru fátæktar og kúgunar öldum saman. Rök Jóns Sigurðssonar fyrir sjálfstæði væru enn gild: 1) Ísland hefði verið fullvalda frá öndverðu. 2) Íslendingar væru sérstök þjóð með eigin tungu og sögu. 3) Íslendingar vissu betur en aðrar þjóðir og fjarlægar, hvað þeim væri sjálfum fyrir bestu. Ég brýndi lesendur á því, að við værum ein þjóð og ættum sálufélag með þeim fjörutíu kynslóðum, sem byggt hefðu landið á undan okkar:

Ísland, í lyftum heitum höndum ver

ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.


Myndbandið með forsetaframbjóðandanum

Myndbandið af Baugsveislunni 2007 hefur verið fjarlægt af sumum netsíðum, en það er til annars staðar:

 

Ég hef ekkert á móti því, að duglegt og snjallt fólk hafi miklu hærri laun en við hin. Ég get alveg unnt fjáraflamönnum, sem skara fram úr og skapa ný verðmæti, að kaupa sér lystisnekkjur og einkaþotur og skíðaskála og Rolls Royce-bíla. En það var umfram allt Baugsklíkan, sem kom óorði á íslenska fjármálamenn 2004–2008, og það reyndist okkur dýrkeypt. Skuldasöfnun Baugsklíkunnar í íslenskum bönkum var í sérflokki, eins og sést á þessu línuriti, þar sem ég tek tölurnar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis:

baugsbo_769_la_jog_1278778.jpg 


Alþýðuflokkurinn 100 ára

12800317_10206755918230200_8427531751451576403_n.jpgLiðin er öld 12. mars 2016 frá stofnun Alþýðuflokksins. Hann átti að verða systurflokkur norrænu jafnaðarmannaflokkanna. En hvernig stendur á því, að vinstri hreyfingin varð miklu minni hér á landi en á öðrum Norðurlöndum? Og hvers vegna töpuðu jafnaðarmenn baráttunni við kommúnista og urðu minni flokkur?

Eitt svarið við fyrri spurningunni liggur eflaust í því, að myndun þéttbýlis og verkalýðsstéttar varð hér síðar en á öðrum Norðurlöndum. Annað hugsanlegt svar er, að jafnaðarmenn áttu örðugt með að laga alþjóðahyggju sína að hinni sterku og almennu þjóðerniskennd, sem spratt upp úr sjálfstæðisbaráttunni við Dani. 

Seinni spurningunni hefur oft verið svarað með því, að kommúnistar hafi átt öflugri forystusveit en jafnaðarmenn. En er það rétt? Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson voru síst frambærilegri stjórnmálamenn en Jón Baldvinsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Haraldur Guðmundsson og Emil Jónsson. En ef til vill hefur íslenskum verkalýð lítt fundist til um, að leiðtogar jafnaðarmanna hreiðruðu allir um sig í feitum embættum: Jón var bankastjóri Útvegsbankans, Stefán Jóhann forstjóri Brunabótafélagsins, Haraldur forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, Emil vita- og hafnamálastjóri. (Allir núlifandi formenn Alþýðuflokksins gengu síðan í utanríkisþjónustuna, þegar þeir hættu afskiptum af stjórnmálum.)

Annað kann að hafa ráðið úrslitum. Þótt Alþýðuflokkurinn fengi vissulega um skeið nokkurn fjárstuðning frá norrænum systurflokkum, þáðu kommúnistar miklu meiri stuðning frá Moskvu, eins og sést á stórhýsum þeirra í Reykjavík: Tjarnargata 20, Þingholtsstræti 27, Laugavegur 18, Skólavörðustígur 19. Það munar um minna í fámennu landi.

Vinstri hreyfingin á Íslandi er ef til vill líkari hinni finnsku að gerð en hinni norrænu. Þar eins og hér störfuðu kommúnistar í bandalagi við vinstri jafnaðarmenn. Finnland og Ísland voru ný ríki og siðir því ekki fastmótaðir, auk þess sem íbúar voru lengi fram eftir talsvert fátækari en Svíar, Danir og Norðmenn. Því varð jarðvegur frjósamari fyrir byltingarflokk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. mars 2016. Myndin er af Ólafi Þ. Harðarsyni prófessor á hátíðarsamkomu Alþýðuflokksins í Iðnó 5. mars, sem ég vissi ekki af og sótti þess vegna ekki, en fróðlegt verður að kynna sér úttekt Ólafs á flokknum.)


Á Hugvísindaþingi 2016

Ég skrapp á málstofu um „Valdarán“ á Hugvísindaþingi 12. mars 2016. Anna Agnarsdóttir prófessor flutti fróðlegt erindi um Jörund hundadagakonung og viðhorf og viðbrögð breskra ráðamanna og íslenskra embættismanna. Hún hafði orð á því, að sagan um Jörund væri skrýtin og skemmtileg. Ég gat ekki stillt mig um að bæta við, að Uffe Ellemann Jensen, sem var lengi utanríkisráðherra Dana, hefði eitt sinn sagt mér í kvöldverði, að hann hefði gefið Friðrik ríkisarfa og Mary, konuefni hans, í brúðkaupsgjöf bók um Jörund, en hann bar beinin í Tasmaníu. Þaðan er Mary. Hló Uffe Ellemann dátt að þessum danska ævintýramanni og valdabrölti hans á Íslandi. Ég bætti því við, að hin raunverulega hetja þessa tíma væri Sir Joseph Banks, sem hefði bjargað Íslendingum frá hungursneyð með því að telja bresk stjórnvöld á að leyfa verslun við landið, þótt það væri hjálenda Dana, sem þá voru í stríði við Breta.

Sævar Finnbogason heimspekinemi ræddi um Icesave-deiluna og var margorður um andvaraleysi og aðgerðaleysi stjórnvalda. Ég spurði, hvað stjórnvöld hefðu átt að gera, hefðu þau trúað varnaðarorðum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, en ekki afgreitt þau eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um fund 7. febrúar 2008) sem dramatík. Þau hefðu ekki getað skipað bönkunum að minnka með því að selja eignir, og bankarnir hefðu skiljanlega verið tregir til að selja eignir, á meðan þær voru á óeðlilega lágu verði. Fátt var um svör. Það var á Sævari að skilja, að Seðlabankinn hefði átt að nota gjaldeyrisforða sinn til að aðstoða Landsbankann við að flytja Icesave-innstæðurnar úr útibúi í dótturfélag. Ég benti á, að Björgólfur Thor Björgólfsson hefði í nýlegri bók sagt, að Samfylkingin hefði ráðið því, að Kaupþing fékk lán skömmu fyrir hrun. Furðaði ég mig á því, að fréttamenn spyrðu ekki ráðherra Samfylkingarinnar um þetta, til dæmis Össur Skarphéðinsson. Á meðal gesta á málstofunni var Jón Guðni Kristjánsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Væntanlega lætur hann einskis ófreistað að komast að hinu sanna um þetta mál.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur talaði um fjölmiðlafrumvarpið 2004 og synjun forseta á að staðfesta lögin frá Alþingi. Hann lýsti deilunni um frumvarpið sem valdabaráttu tveggja manna, Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég benti á, að í nútíma sagnfræði væri reynt að víkka sjóndeildarhringinn út frá einstökum mönnum. Deilan um frumvarpið hefði aðallega verið um það, hvort fámenn auðklíka, Baugsklíkan, ætti að ráða skoðanamyndun í landinu. Ég væri ekki sammála starfshóp, sem samið hefði eins konar siðferðisviðauka við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, um allt, en hann hefði þó haft rétt fyrir sér um það, að hér hefði verið auðmannaræði 2004–2008. Það hefði verið vegna sigurs auðklíkunnar í deilunni um fjölmiðlafrumvarpið. Þegar hætta væri á einokun á einhverju sviði, væri oftast hægt að leysa málið með því að tengjast alþjóðlegum markaði, en það hefði ekki verið hægt á fjölmiðlamarkaðnum: Hann hefði takmarkast við Íslendinga eina.


Jóhann Páll, haninn, vofan og hrossið

herganga_kommu_769_nista_1278401.jpgJóhann Páll Árnason heimspekingur veitir mér ráð í tölvubréfi: „Þessi linnulausi hanaslagur þinn við vofu kommúnismans er ömurlegt sjónarspil, og heyrir undir það sem kallað er á ensku "flogging dead horses"; skynsamlegra væri að gera eitthvað til að tolla í tíðarandanum. Nú eru umbrotatímar í íslenzkum stjórnmálum, og ein af sennilegri útkomum sýnist mér vera endurnýjun Sjálfstæðisflokksins með tilstuðlan Viðreisnar og Pírata. Þá held ég að þið Davíð standið uppi sem einhvers konar Neanderdalsmenn frjálshyggjunnar, til athlægis og viðvörunar þeim sem kenningunni vilja beita af meiri dómgreind og verkkunnáttu. Væri ekki rétt að hugsa um endurhæfingu meðan tími er til?“

Jóhann Páll skiptir svo ört um líkingar, að lesandinn má hafa sig allan við. Fyrst er hanaslagur, en haninn verður allt í einu að vofu, hún breytist skyndilega í dautt hross, og loks birtist sjálfur tíðarandinn, der Zeitgeist, og fer svo hratt yfir, að við Neanderdalsmennirnir stöndum uppi öðrum til athlægis og hljótum að fara í endurhæfingu. Orðið „endurhæfing“ hljómar þó ískyggilega. Í kommúnistaríkjunum voru þeir, sem ekki hugsuðu eins og valdsmenn vildu, sendir í „endurhæfingu“, en það merkti linnulausa tilraun til að afmá einstaklingseðli þeirra og uppræta sjálfstæða hugsun. Og hvort sem við andstæðingar alræðis teljumst Neanderdalsmenn eða ekki, er hitt rétt, að við stöndum uppi, en féllum ekki kylliflatir eins og Jóhann Páll og fleiri gáfnaljós fyrir voldugustu alræðisstefnu tuttugustu aldar, sem olli dauða eitt hundrað milljón manna.

Ég skil vel, að gömlum marxista eins og Jóhanni Páli sárni, þegar saga kommúnismans er rifjuð upp. Hann kærir sig ekki um taka þátt í slíkri upprifjun. „Á ég að halda ljósi að minni smán?“ spyr Jessíka í Kaupmanni í Feneyjum. Þeir, sem héldu á lofti minningunni um fórnarlömb nasismans, fengu oft að heyra, að óþarfi væri að vekja upp gamla drauga. Þær úrtöluraddir eru þagnaðar. En ekki ber síður að halda á lofti minningunni um fórnarlömb kommúnismans. Þótt þjóðir Austur-Evrópu hafi hrundið kommúnismanum af höndum sér og hann ummyndast í eitthvað annað í Rússlandi og Kína, eru tvö kommúnistaríki eftir, Norður-Kórea og Kúba. Og þótt vofa kommúnismans gangi ekki lengur ljósum logum um Evrópu, er hún á kreiki á meðal kennaraliðsins í vestrænum háskólum. Kapítalisminn hefur unnið mestallan heiminn, svo að alþýða manna hefur týnt hlekkjum fátæktar og kúgunar. En áreiðanlega eru til einhverjir, sem reiðubúnir væru að smíða nýja hlekki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. mars 2016.)


Furðuleg ummæli Þorvalds Gylfasonar

Már Guðmundsson seðlabankastjóri bendir á það, að skuldir þjóðarbúsins hafa minnkað stórlega og ríkið er að verða skuldlaust, eins og það var fyrir 2007. Þá skrifar Þorvaldur Gylfason prófessor á Facebook síðu sína:

Seðlabanki eða spaugstofa? Íslendingar hlupu frá himinháum skuldum við útlendinga. Þá getur nú varla talizt fara vel á því að berja sér á brjóst og segjast vera í toppmálum.

Íslendingar? Bankarnir voru einkafyrirtæki. Viðskipti þeirra og viðskiptavina þeirra voru einkamál þessara tveggja aðila. Uppgjör skulda þeirra er í rauninni úrlausnarefni skiptaráðenda og kröfuhafa, þótt auðvitað yrði ríkið að hafa hönd í bagga með þessu. Íslenska ríkið stofnaði nýja banka á rústum hinna gömlu og flutti eignir og skuldir yfir í þá. Þetta var allt gert samkvæmt lögum. Neyðarlögin frá 6. október 2008 hafa til dæmis verið staðfest af Hæstarétti og dómstólum erlendis. 

Þorvaldur er bersýnilega við sama heygarðshornið og þegar hann vildi, að íslenskir skattgreiðendur tækju að sér skuldir einkafyrirtækis, Landsbankans, af því að það væri siðferðilega rétt að gera það. Hann skrifaði 25. júní 2009 í Fréttablaðið:

Hugsum okkur, að úr því fengist skorið fyrir rétti, að Íslendingum bæri ekki lagaskylda til að greiða IceSave-ábyrgðirnar. Myndu Bretar þá með fulltingi annarra Evrópuþjóða falla frá kröfum sínum á hendur Íslendingum? Svarið er nei, ekki endilega. Krafa Breta væri þá siðferðileg frekar en lagaleg. … Bankastjórarnir sögðust hafa ríkisábyrgð. Stjórnvöld sögðust fram að hruni mundu styðja við bankana, ef á þyrfti að halda. Viðskiptavinir Landsbankans á Bretlandi voru því í góðri trú. Þess vegna kunna Bretar og aðrir að líta svo á, að Íslendingum beri siðferðileg skylda til að axla ábyrgð á Landsbankanum hvað sem lögunum líður.

Þegar Þorvaldur var spurður á Beinni línu DV 21. mars 2013, hvort hann teldi enn siðlaust að hafa ekki greitt Icesave-kröfu Breta og Hollendinga, svaraði hann:

Ég kannast ekki við neitt siðleysistal í sambandi við Icesave-málið. Málið snerist um ólíkt áhættumat. Sumir töldu líkt og ríkisstjórnin og vænn hluti stjórnarandstöðunnar á þingi öruggara að ganga að samningum, aðrir ekki. Eðlilegt var, að kjósendur afgreiddu málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málið fékk á endanum farsælar lyktir fyrir Íslendinga, þegar dómur féll Ísendingum í vil. Sumum kom dómurinn á óvart, öðrum ekki. Flókin dómsmál eru oft þess eðlis, að ágreiningur um þau er eðlilegur.

Þorvaldur fór í framboð 2013 til að tryggja, að stjórnarskráin, sem hann samdi með nokkrum söngfélögum sínum, hlyti staðfestingu þjóðarinnar. Hann fékk 2,45% atkvæða. Ég spái því, að hann fengi enn lægra hlutfall, færi hann í framboð þessum skoðunum sínum til stuðnings.


Frá fundinum með Vinstri grænum

hhg_05_03_2016.jpgÉg var einn framsögumanna á fundi í stjórnmálaskóla ungra Vinstri grænna laugardaginn 5. mars 2016. Umræðuefnið var bankahrunið 2008, orsakir og afleiðingar.

Ég vísaði á bug þremur algengum skýringum á bankahruninu: of stórum bönkum (þeir voru stærri í Skotlandi og Sviss, og ekki féllu þeir); glannaskap bankamanna (RBS, UBS og Danske Bank voru engu betri, og ekki féllu þeir); og nýfrjálshyggju (sama regluverk var hér og í öðrum EES-ríkjum, auk þess sem þrettán hagkerfi voru frjálsari 2004 en hið íslenska, og ekki hrundu bankakerfin þar). Fyrirsjáanleg kreppa hefði orðið að hruni vegna fólsku Breta og sinnuleysis Bandaríkjamanna.

Ég ræddi hins vegar sérstaklega um eina ályktun, sem sumir drógu af bankahruninu — að Ísland væri of lítil eining til að standa á eigin fótum. Tveir fræðimenn hafa sett fram kenningar um þetta, prófessorarnir Anne Sibert og Baldur Þórhallsson.

Fyrst ræddi ég rök Siberts. Hún sagðist efast um, að hagvöxtur væri meiri í litlum ríkjum en stórum. En lítil ríki eru almennt ríkari en stór. Ríkustu hagkerfi heims eru í Sviss, Lúxemborg, Noregi, Bandaríkjunum og Singapúr. Öll eru þetta smáríki nema Bandaríkin (sem eru 50 smáríki). Fjölmennustu hagkerfin eru í Kína, Indlandi, Bandaríkjunum, Brasilíu og Indónesíu. Þau eru öll fátæk nema Bandaríkin.

Sibert sagði líka, að lítil hagkerfi væru óstöðugri en stór og meiri áhætta þar af náttúruhamförum. Það kann að vera rétt. En íslenska hagkerfið er tiltölulega fljótt að jafna sig eftir hagsveiflur og hamfarir, eins og Hannes Finnsson biskup benti raunar á í Mannfækkun af hallærum 1796.

Sibert taldi stærðarhagkvæmni vera af stórum hagkerfum, til dæmis vegna þess að fastur kostnaður dreifðist þá á fleiri menn. Af hverju er þá heimurinn allur ekki eitt hagkerfi? Annars er aukakostnaður Íslands af því að halda uppi ríki óverulegur. Til dæmis kostar rekstur utanríkisþjónustunnar aðeins brotabrotabrot af landsframleiðslu. Smáríki eru líka tregari en stórveldi til að leggja út í hernaðarævintýri.

Sibert taldi fámenn ríki eins og Ísland skorta hæfileikafólk í opinbera þjónustu. Það er rétt, að færra hæfileikafólk hlýtur að vera í fámennari löndum, en þar er áreiðanlega nógu margt til að reka þær opinberu stofnanir, sem þarf. Raunar er óvíst, að hæfileikafólk leiti sérstaklega í stjórnsýslu. Og hvers vegna sáu allir erlendu vitringarnir fjármálakreppuna ekki fyrir?

Síðan ræddi ég rök Baldurs. Hann taldi smáríki þurfa skjól. Íslendingar hefðu farið í skjól Noregs á sínum tíma, síðan Danmerkur, þá Bretlands og loks Bandaríkjanna. Nú þyrftu þeir að fara í skjól Evrópusambandsins.

Ég benti á, að skjól gæti reynst gildra. Svo hefði verið um „skjólið“ af Noregi og Danmörku. Konungur hefði gert samsæri um það við hina fámennu innlendu landeigendastétt að halda sjávarútvegi niðri, svo að hann missti landið ekki í hendur erlendra aðila, en við það hefðu Íslendingar fest sig í fátæktargildru, eins og Gísli Gunnarsson hefði lýst í Upp er boðið Ísaland.

Aðalatriðið væri eins og Jón Sigurðsson benti á, að skjólin væru mörg. Ísland þyrfti varnir og viðskiptasambönd, ekki við eitt land, heldur mörg. Ekkert skjól væri í Evrópusambandinu, þótt sjálfsagt væri að versla við þjóðir þess eins og aðrar þjóðir. Íslendingum væri nær að reyna að koma aftur á sambandi við Bandaríkin. Staður Íslands væri með grönnunum í Norður-Atlantshafi, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum.

Ég sagði stuttlega sögu Nefjólfssona, en hinn fyrsti þeirra, Þórarinn Nefjólfsson, reyndi að telja Íslendinga á að ganga Noregskonungi á hönd. Vilhjálmur frá Sabína hefði líka hneykslast á því, að Íslendingar hefðu ekki konung eins og allar aðrar þjóðir. Gegn þeim hefðu staðið ósviknir Íslendingar, Einar Þveræingur, Staðarhóls-Páll og Jón Sigurðsson. Nú á dögum létu ýmsir þeirra Nefjólfssona í sér heyra og töluðu belgísku. Þeim hefði Snorri Hjartarson svarað best:

Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,

þér var ég gefinn barn á móðurkné;

ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,

þú leiddir mig í orðsins háu vé. …

Ísland, í lyftum heitum höndum ver

ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.

 

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, flutti líka framsöguerindi. Hann sagði, að frjálshyggjan hefði náð heljartökum á Íslandi, og bærum við Davíð Oddsson höfuðábyrgð á því. Rofin hefði verið samstaða þjóðarinnar. Auðmenn hefðu steypt landinu í glötun. Það hefði síðan bjargað þjóðinni eftir bankahrun, að samstaðan hefði aukist aftur.

Ég benti Ögmundi á, að vinstri menn hefðu gengist undir próf árið 2004. Þá hefði Davíð Oddsson lagt fram á þingi frumvarp, sem átti að takmarka kost auðmanna á að ráða skoðanamyndun í landinu. Vinstri menn hefðu snúist gegn því. Þeir hefðu gerst þý auðmanna. Við hinir hefðum ekki gengið erinda auðmanna, heldur reynt að fjölga tækifærum fólks til að efnast, enda gætum við sofið á næturnar, þótt öðrum gengi vel. Ég minnti síðan á, að vinstri stjórnin 2009–2013 hefði rofið samstöðu landsmanna með hefndaraðgerðum sínum, til dæmis landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, og með óþörfum, en kostnaðarsömum samningum í Icesave-málinu.

Ögmundur reyndi að gera gys að þeim orðum mínum, að flesta dreymdi um að græða á daginn og grilla á kvöldin. Ég sagðist telja, að þetta væri rétt lýsing á áhugamálum venjulegs, eðlilegs, heilbrigðs fólks, sem vildi bæta kjör sín og sinna og lifa þægilegu lífi í rúmgóðum og hlýjum húsum, grilla kjöt eða fisk í kvöldmatinn, þegar vel viðraði, og dreypa á rauðvíni með, sjá börnin vaxa úr grasi og síðan barnabörnin.

Margar spurningar bárust utan úr sal. Ein var, hvort kapítalisminn væri ekki óstöðugur. Ég taldi svo vera, en þegar að væri gáð, væri það oft vegna misráðinna ríkisafskipta. Til dæmis hefðu undirmálslán í Bandaríkjunum og lágvaxtastefna bandaríska seðlabankans blásið upp bólu, sem síðan hefði sprungið. Annar vandi væri, að ekki hefði tekist að verðleggja áhættu nógu vel á fjármálamörkuðum. Ný fjármálatækni hefði farið úr böndunum.

Önnur spurning var, hvort kapítalisminn leiddi til ójafnrar tekjudreifingar. Ég sagðist ekki vera viss um það, enda teldi ég ójafna tekjudreifingu ekkert sérstakt áhyggjuefni. Tómas Piketty hefði ef til vill rétt fyrir sér um, að tekjudreifing væri að verða ójafnari á Vesturlöndum, en í heiminum í heild hefði hún orðið jafnari, því að Kína og Indland hefðu hafið þátttöku í alþjóðaviðskiptum, orðið hluti heimskapítalismans, en við það hefðu mörg hundruð milljónir manna flust úr lágstétt í miðstétt.

Þá var ég spurður um barnaþrælkun í fátækum löndum og auðklíkur í ríkum löndum. Ég svaraði því til, að vandinn í fátækum löndum væri fátæktin, ekki kapítalisminn, en fátæktin hyrfi með auknum kapítalisma. Þau lönd í suðri, sem stunduðu mest viðskipti við Vesturlönd, væru ríkust, en þau lönd, sem einangruðu sig, væru fátækust.

Ég sagði, að gera yrði greinarmun á markaðskapítalisma og klíkukapítalisma. Donald Drumpf væri til dæmis klíkukapítalisti. Hann vildi vernd ríkisvaldsins gegn keppinautum (frá Kína og Indlandi að ógleymdu Mexíkó). Á Íslandi hefði verið rekinn markaðskapítalismi 1991–2004, sem ég hefði stutt, en klíkukapítalismi 2004–2008, þegar auðmenn hefðu ráðið hér öllu með góðum stuðningi vinstri manna (þótt ótrúlegt megi virðast).

Ég benti hins vegar á, að það gæti verið kostur frekar en galli, að kapítalistar ættu sér ekkert föðurland annað en fjármagnið. Þeir hugsuðu ekki um, hvernig bakarinn væri á litinn, heldur hvernig brauðið væri á bragðið. Veitingamaður hefði minni áhuga á kynhneigð viðskiptavina sinna en kaupum þeirra á þjónustu hans.

Ég bætti því við, að frelsinu yrði að fylgja siðferðileg festa og ábyrgðarkennd. Kapítalisminn hefði í sér fólgin tvö ólík öfl, tortímingu og sköpun. Honum fylgdi skapandi tortíming, en sú tortíming mætti ekki verða of bráð (innflutningur fólks til dæmis of ör), því að þá snerist fólk til fylgis við furðuhreyfingar eins og framboð Drumpfs í Bandaríkjunum. Aðalatriðið um kapítalismann væri sköpunin. Aldrei hefðu færri verið fátækari hlutfallslega í heiminum en nú.

Helstu andmælin úr salnum voru við þá skoðun mína, að hugsa ætti betur um neytendur í heilbrigðismálum: Þeir yrðu að fá að velja, enda hæfðu ólíkar lausnir ólíkum einstaklingum. Þeir yrðu að standa andspænis ólíkum kostum, þótt sjálfsagt væri að tryggja öllum lágmarksþjónustu. Þetta máttu ungir vinstri grænir ekki heyra nefnt. Þeir töldu, að allir yrðu að fá sömu þjónustuna.

Áheyrendur voru málefnalegir og kurteisir. Er ólíku saman að jafna við það, er veist var að mér á Austurvelli í ágúst 2009, þegar ég mótmælti fyrsta Icesave-samningnum.


Ég verð hjá Vinstri grænum í dag

Laugardaginn 5. mars tala ég í stjórnmálaskóla Ungra Vinstri grænna um bankahrunið 2008 og afleiðingar þess ásamt Ögmundi Jónassyni, Unu Hildardóttur og Laufeyju Rún Ketilsdóttur. Ég ætla að reifa rangar skýringar á bankahruninu (bankarnir of stórir, bankamennirnir of miklir glannar, nýfrjálshyggja) og gagnrýna rangar ályktanir af því (Ísland of lítið). Þótt Ísland sé ekki „stórasta land í heimi“, er hver einstaklingur, sem hér býr, stór í sér, ef hann er ósvikinn Íslendingur, því að þá á hann eitthvað dýrmætt og sérstakt, sem þó hefur ekki verið rænt frá neinum öðrum: sálufélag við fjörutíu kynslóðir á undan sér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband