Það sem ég reiknaði út 2015

Á dögunum skilaði ég Rannsóknarskýrslu fyrir 2015 til Háskólans, eins og okkur háskólakennurum ber að gera. Þá rifjaðist margt upp fyrir mér, sem ég hafði gert á síðasta ári. Meðal annars lagðist ég í útreikninga á ýmsu:

Hvað var Rússagullið mikið? Samkvæmt útreikningum mínum, þegar fjárhæðirnar, sem vitað er um, hafa verið skattvirtar (þær voru leynilegar og því skattfrjálsar) og núvirtar, var það um hálfur milljarður króna, aðallega árin 1955–1970.

Hvert rann Rússagullið? Samkvæmt útreikningum mínum nemur heildarvirði þeirra fasteigna, sem Sósíalistaflokkurinn lét eftir sig, um 1,2 milljörðum króna að núvirði (Skólavörðustígur 19, Þingholtsstræti 27, Laugavegur 18 og Tjarnargata 20). Félagar í flokknum voru um 1.400 á sjötta áratug. 

Hvað reyndi Danakóngur að selja Ísland fyrir mikið fé? Samkvæmt útreikningum mínum reyndi hann 1518 að selja það Hinrik VIII. Englandskóngi fyrir 50 þúsund flórínur eða 6,5 milljónir dala eða um 800 milljónir íslenskra króna. Hann reyndi að selja það Hamborgarkaupmönnum fyrir 500 þúsund silfurdali 1645 eða 6,4 milljónir dala, nánast sömu upphæð og röskri öld áður. Árið 1868 veltu Bandaríkjamenn fyrir sér að kaupa Ísland. Hefðu þeir greitt sömu upphæð á hvern ferkílómetra og fyrir Alaska, þá hefði kaupverðið verið 8,7 milljónir dala, nokkru hærra, en þó ekki mjög, og árin 1518 og 1645.

Hvað kostuðu handvömm Más seðlabankastjóra Guðmundssonar, þegar hann seldi FIH banka, og fólska breskra ráðamanna, þegar þeir lokuðu KSF og Heritable Bank? Samkvæmt útreikningum mínum nemur tapið af þessu þrennu samtals eitthvað um 200 milljörðum króna.

Ég er ekki óskeikull, og hugsanlega hef ég misreiknað eitthvað. Ég fékk eina skarplega athugasemd við útreikninga mína (frá Herði Guðmundssyni) og leiðrétti að bragði það, sem hann benti mér á. En ég hef ekki fengið neinar aðrar athugasemdir.


Það sem ég kom upp um 2015

Ég var að skila Rannsóknarskýrslu minni fyrir árið 2015 til Háskólans og renndi þá augum yfir Fróðleiksmolana, sem ég skrifa vikulega í Morgunblaðið. Ég sé, að ég hef á síðasta ári tekið eftir og vakið athygli á ýmsum skekkjum, yfirsjónum og missögnum sumra samkennara minna. Hér eru hinar helstu:

Í B.A. ritgerð, sem Ragnheiður Kristjánsdóttir hafði umsjón með, er ráðist á Þór Whitehead prófessor fyrir að hafa farið rangt með eitt ákvæðið í inntökuskilyrðum í Alþjóðasamband kommúnista, Komintern. Kommúnistar hafi ekki verið skyldaðir til að stofna ólögleg hliðarsamtök nema í löndum, þar sem kommúnistaflokkar voru ólöglegir. Ég komst að því með því að fara í þýsku frumheimildina, að þetta er alrangt. Þetta ákvæði (3. inntökuskilyrðið af þeim 21, sem samþykkt voru í Moskvu 1920) var almennt og átti við jafnt þar sem kommúnistaflokkar voru leyfðir og bannaðir. Nú kunna sumir að segja, að Ragnheiður beri ekki ábyrgð á villum, sem nemendur hennar gera í ritgerðum, og er það eðlilegt sjónarmið. En hafa verður þó tvennt í huga. Hún á að heita sérfræðingur í kommúnisma og veit þetta samt ekki eða lætur þetta fram hjá sér fara! Og þetta var gagnrýni á einn samkennara hennar, virtan sagnfræðiprófessor, sem getið hefur sér orð fyrir sérlega vönduð vinnubrögð, og hefði hún því átt að skoða málið sérstaklega. (Skýringin á villunni er eflaust, að nemandinn — og Ragnheiður líka — hefur ekki nennt að leita uppi frumheimildina, heldur googlað þetta og fundið enska þýðingu á Wikipediu, en sú þýðing er einmitt ónákvæm.)

Í bók Jóns Ólafssonar um Veru Hertzch, Appelsínur frá Abkasíu, morar allt í villum um mál, sem ég þekki. Hér eru nokkrar:

  • Bls. 173. Þar rekur Jón bréfaskipti Veru og Benjamíns. Síðasta bréf Veru til Benjamíns var dagsett 8. desember 1937. Þar skrifaði hún: „Greve hefur líka verið handtekin [svo]“. Jón segir, að ekki sé „ljóst hver Greve var“. Það er hins vegar öllum kunnáttumönnum ljóst: Richard Greve (stundum stafsett Grewe) var ritstjóri Deutsche Zentral-Zeitung, þar sem Vera Hertzsch hafði verið blaðamaður. Hann fæddist í Hamborg 1894, gekk í Kommúnistaflokk Þýskalands 1920 og fluttist til Rússlands 1924. Hann var handtekinn 14. nóvember 1937 og skotinn 25. desember sama ár.
  • Bls. 251: „Árið 1949 kom út bókin 11 ár í sovéskum fangabúðum eftir Elinor Lipper. Lipper kom til Moskvu 27 ára gömul árið 1937 í stutta heimsókn.“ Þrjár villur eru hér. Bók Lippers kom fyrst út á þýsku snemma árs 1950 og í enskri þýðingu á Bretlandi það ár, en í Bandaríkjunum árið eftir. Í öðru lagi var Lipper að verða 25 ára, þegar hún kom til Moskvu vorið 1937. Hún var fædd í júlí 1912. Í þriðja lagi fór Lipper ekki til Moskvu í stutta heimsókn, heldur til að vinna í þágu byltingarinnar. Hún bjó á Hotel Lux með manni sínum og starfaði í bókaútgáfu erlendra bóka undir dulnefninu Ruth Zander.
  • Bls. 285. Um Vetrarstríðið: „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrrnefndu réðust yfir landamærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Karelíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finnland varð sjálfstætt ríki.“ Tvær meinlegar villur eru hér. Finnland varð í fyrsta lagi ekki sjálfstætt 1918, heldur 6. desember 1917, og viðurkenndu Kremlverjar sjálfstæði þess strax 18. desember það ár. Borgarastríð var háð í landinu á útmánuðum 1918, en í Tartu 1920 sömdu Finnar við Kremlverja um landamæri ríkjanna. Engin rússnesk svæði (önnur en Petsamo við Íshaf) höfðu í öðru lagi fallið í skaut Finna við fullt sjálfstæði. Kremlverjar viðurkenndu í Tartu-samningnum 1920 að langmestu leyti landamærin frá 1809, þegar Finnland gekk undan Svíum og varð stórhertogadæmi, sem laut Rússakeisara. Rússar höfðu þá skilað Finnlandi aftur svæðum í Kirjálalandi (Karelíu), sem þeir höfðu unnið á öndverðri átjándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finnlandi nema tímabilið 1721–1809.

Ég velti því fyrir mér, hvort svipaðar villur séu í þessu riti Jóns um mál, sem ég hef engin skilyrði til að meta, til dæmis í úrvinnslu heimilda á rússnesku.


Bloggfærslur 29. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband