Hryðjuverkamenn ískyggilega nálægt

Ég var að grúska í skjalasafni FBI, Bandarísku alríkislögreglunnar. Þá rakst ég á það fyrir tilviljun, og tengdist það ekki rannsóknarefni mínu, að fyrir tveimur mánuðum, í júní 2015, fékk 24 ára Bandaríkjamaður að nafni Michael Todd Wolfe, öðru nafni Faruq, 82 mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa ætlað að aðstoða hryðjuverkasamtökin ISIL í Sýrlandi og Írak.

Wolfe hafði látið blekkjast af flugumanni FBI, sem þóttist vera að tala í umboði hryðjuverkasamtakanna. Hann var handtekinn 17. júní 2014 á flugvellinum í Houston í Texas, áður en hann hugðist stíga upp í flugvél til Toronto, en þaðan ætlaði hann að fljúga til Íslands og síðan beint til Kaupmannahafnar, en eftir það átti leiðin að liggja til Sýrlands. Wolfe hafði undirbúið baráttu sína með líkamlegri og hernaðarlegri þjálfun.

Það er ískyggilegt til þess að vita, að menn geti verið á ferð um Ísland í þessum erindum, jafnvel þótt viðkoman hafi átt að vera stutt. Við þurfum að vera miklu betur búin við hugsanlegum hryðjuverkamönnum en sumir vilja vera láta. Lögreglan þarf öflugan stuðning í baráttunni við útlendan glæpalýð og hryðjuverkamenn. Það er barnaskapur, að við séum óhult, „langt frá heimsins vígaslóð.“ 


Viðtal við mig um vændi

Ég var í viðtali á Bylgjunni fimmtudaginn 13. ágúst um vændi, sem er að vísu ekki eftirlætisumræðuefni mitt í lífinu, en þar verður að verja frelsið eins og annars staðar. Ég benti líka á, að betri skilyrði eru til að vernda fólk gegn kúgun og misnotkun, þegar starfsemi er ofanjarðar, ekki neðanjarðar. Vændi hverfur ekki, ef við bönnum það, heldur hörfar það niður í undirheimana. Fórnarlambalaus brot á siðferðisreglum eiga ekki að vera glæpir. Viðtalið er nú komið á Netið.


Óhlýðnuðust íslenskir kommúnistar Stalín?

Haustið 2014 skrifaði Pontus Järvstad BA-ritgerð í sagnfræði (á ensku) um sagnritun okkar Þórs Whiteheads í bókum um íslensku kommúnistahreyfinguna. Ragnheiður Kristjánsdóttir var leiðbeinandi hans, og er ritgerðin aðgengileg á skemman.is. Þar minnist ritgerðarhöfundur á deilu þeirra Jóns Ólafssonar heimspekings og Þórs um, hvort Sósíalistaflokkurinn hafi verið stofnaður 1938 með eða á móti vilja Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns. Í Sósíalistaflokknum sameinuðust sem kunnugt er kommúnistar, er lögðu þá flokk sinn niður, og hópur úr vinstra armi Alþýðuflokksins.
Í rússnesku skjalasafni hafði Jón Ólafsson fundið minnisblað, sem starfsmaður Kominterns hafði skrifað forseta sambandsins eftir að hafa fengið skýrslu frá Einari Olgeirssyni um fyrirhugaða stofnun. Lýsti starfsmaðurinn efasemdum um, að rétt væri að kljúfa Alþýðuflokkinn í stað þess að mynda með honum öfluga samfylkingu gegn borgaralegum flokkum (sem var þá aðallína Kominterns). Af þessu minnisblaði dró Jón þá ályktun, að Komintern hefði verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins. Þór benti á, að það væri fráleitt. Þetta hefði verið minnisblað skrifstofumanns, en engin heimild um opinbera afstöðu Kominterns. Engin önnur gögn bentu til þess, að stofnun flokksins hefði verið í óþökk Kominterns, og raunar hefðu hinum nýja flokki verið fluttar kveðjur kommúnistaflokka Danmerkur og Svíþjóðar á stofnhátíðinni.
mihaly_farkas.jpgPontus Järvstad telur deiluna óútkljáða. En á Þjóðskjalasafninu hafði ég (með aðstoð Snorra G. Bergssonar sagnfræðings) upp á heimild, sem ég birti 2009 og eyddi öllum vafa um málið. Það er afrit af bréfi með heillaóskum frá Michal Wolf (öðru nafni Mihály Farkas) hjá Alþjóðasambandi ungra kommúnista til Æskulýðsfylkingarinnar, sem leysti af hólmi Samband ungra kommúnista. Þar segir, að úti í Moskvu hafi menn lesið stefnuskrá Æskulýðsfylkingarinnar og séu ánægðir með hana. Hefði Sósíalistaflokkurinn verið stofnaður í óþökk Kominterns, þá hefði þetta bréf aldrei verið skrifað. En einkennilegt er, að þessarar heimildar sé ekki getið í ritgerðinni. Ef til vill er skiljanlegt, að hún hafi farið fram hjá ungum sagnfræðinema, þótt ég vísi raunar í hana í bók minni, sem hann ræðir sérstaklega um í ritgerð sinni. En vissi leiðbeinandinn ekki af þessari heimild?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. ágúst 2015.)


Orðaskipti á Facebook

Samkennari minn, Ólafur Þ. Harðarson, sem er hinn vænsti maður, lýsti á Facebook yfir hrifningu sinni á Brekkukotsannál. Ég gerði stutta athugasemd: „Besta bók Halldórs er Íslandsklukkan. Versta bók hans er Atómstöðin.“ Þá gerðu tveir menntamenn fyrirsjáanlegar athugasemdir. Guðjón Friðriksson sagði:

Ekki er til neinn algildur mælikvarði á hvað sé best og hvað verst í bókmenntum. Og til lítils að þrátta um smekk. Einu sinni var spurt á íslenskuprófi í ónefndum skóla: Hvert er fegursta kvæði sem ort hefur verið á íslensku? Aðeins eitt svar gilti: Gunnarshólmi Jónasar Hallgrímssonar.

Og Egill Helgason skrifaði:

Vont eða gott? Íslandsklukkan inniheldur Jón Hreggviðsson og Magnús í Bræðratungu en líka hin óbærilega leiðinlegu Arnas og Snæfríði.

Ég svaraði svo:

Íslandsklukkan er besta bók Laxness af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi nær stílkunnátta hans og orðkynngi þar hámarki eða risi. Í öðru lagi tekur hann þar sér loks stöðu með hinni smáu þjóð sinni, sem er þó svo stór í smæð sinni, af því að hún á sálufélag við alla Íslendinga, liðna, lifandi og óborna: Þessi stækkaða smáþjóð talar öll sömu tunguna, deilir öll sama óefnislega arfinum. En nú er reynt að grafa undan þessu sálufélagi, sem allir Íslendingar hafa átt í krafti þess, að Egill Skallagrímsson, Gunnar á Hlíðarenda, Snorri Sturluson, Hallgrímur Pétursson, Jónas Hallgrímsson og Jón Sigurðsson tala sömu tungu og skilja allir hver annan: Kaffihúsaspekingar tala Ísland niður, og svo er komið í minni deild, að deildarfundir fara fram á ensku. Þá var mér nóg boðið. Hópur menntamanna reynir að rjúfa tengslin við fortíðina, slíta þjóðina upp með rótum, gera lítið úr sagnritun sjálfstæðisbaráttunnar, sem leitaðist við að gera þjóðina stolta af sjálfri sér án þess að gera hana drambsama. Þessi oflátungahópur (sem kvað helst tala belgísku) telur, að þjóðin geti ekki staðið á eigin fótum, að sjálfstæðisbaráttan sé unnin fyrir gýg, að skynsamlegt hafi verið að játast undir Noregskonung 1262. Þetta er hópur, sem segir í útvarpsviðtölum: „Ég vill …“ og „Mér hlakkar til“. Íslandsklukkan glymur ekki þessu fólki, sem skipar sér á bekk með Þórarni Nefjólfssyni og Vilhjálmi af Sabína og Jóni Gerrekssyni og Herluf Daa. Íslandsklukkan glymir íslenskri alþýðu í blíðu og stríðu, ekki síst þeim afburðamönnum, sem risið hafa upp úr alþýðu manna og skapað verðmæti, efnisleg jafnt og andleg. Íslandsklukkan slær Hannesi Hafstein og Jóni Þorlákssyni, ekki erindrekum erlends valds eins og Einari Olgeirssyni og Icesave-spekingunum, sem reyndu að selja Ísland. En Ísland er ekki til sölu, herrar mínir. Það land verður ekki selt, sem fólgið er í andlegum verðmætum. 


Tvær sögufalsanir á Wikipedia

Wikipedia, frjálsa alfræðibókin á Netinu, er stórfróðleg. En hún er ekki alltaf áreiðanleg, svo að nemendur í skólum að fræðimönnum ógleymdum, verða að leita uppi frumgögn, sé þess kostur. Hér nefni ég tvö dæmi.
kress_undirskrift.jpgÁ þýsku Wikipediu er æviágrip dr. Brunos Kress málfræðings. Þar sagði í upphaflegri útgáfu, sem birtist fyrst í mars 2010, að Kress hefði flúið undan Gestapo til Íslands og gerst þýskukennari hér. Heimildin var samkennari hans í Greifswald-háskóla, Hans Reddemann, sem hafði skrifað bækling um látna samferðamenn. Ég rak upp stór augu, þegar ég sá þetta. Kress kom til Íslands 1932, gekk 1934 í Nasistaflokkinn og var einn ötulasti félagi hans. Á meðan hann dvaldist hér, fékk hann styrk frá rannsóknarstofnun SS, Ahnenerbe, en Heinrich Himmler, yfirmaður SS og Gestapo, var áhugamaður um norræn fræði. Eftir að Bretar hernámu Ísland, var Kress í haldi þeirra, en komst í fangaskiptum til Þýskalands 1944. Hann settist eftir stríð að í Austur-Þýskalandi og gekk í kommúnistaflokkinn þar. Ég hef síðan tekið eftir því, að upphaflega færslan hefur verið leiðrétt.   
Á ensku Wikipediu er kafli, „Twenty-one Conditions“, um 21 inntökuskilyrði, sem Alþjóðasamband kommúnista setti kommúnistaflokkum árið 1920 (Moskvuskilyrðin). Þriðja skilyrðið var, að slíkir flokkar yrðu að stofna hliðarsamtök til að undirbúa byltinguna, enda væri stéttabaráttan að breytast í borgarastríð í nær öllum löndum Evrópu og Ameríku. Í enska kaflanum á Wikipediu heitir þetta „parallel organisational apparatus“. Ég mundi þetta öðru vísi, svo að ég fletti upp þýska frumtextanum, sem er víða tiltækur á Netinu (en ekki er þó sambærilegur kafli á þýsku Wikipiediu um inntökuskilyrðin). Þar er talað um „parallelen illegalen Organisationsapparat“ eða ólögleg hliðarsamtök. Ég fletti líka upp hinni viðurkenndu ensku þýðingu í bók, sem ég hafði notað á sínum tíma, The Communist International, 1919–1943. Documents, I. (Oxford, 1956). Þar eru orðin „parallel illegal organization“ á sama stað (bls. 169). Sitt er hvað, hliðarsamtök og ólögleg hliðarsamtök. Ég sé ekki betur en enski textinn á Wikipediu (sem tekinn er af heimasíðu marxistasamtaka) sé rangur, en hann hafði ekki verið leiðréttur, síðast þegar ég vissi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. ágúst 2015. Efri myndin er af einu bréfi Kress til Ahnenerbe, en neðri myndin er þriðja inntökuskilyrðið í Komintern á frummálinu, þýsku.)

komintern_these3_1266266.jpg


Hvernig ég reiknaði út Rússagullið

ru_769_bla.jpgMorgunblaðið birtir 31. júlí 2015 frétt um grein, sem ég skrifaði í síðasta hefti Vísbendingar um, hvers virði Rússagullið var, hátt í hálfs milljarðs ísl. kr. virði núvirt og uppreiknað. Hér ætla ég aðeins að skýra stuttlega, hvernig ég reiknaði þessa háu fjárhæð út. Vitað er um margvísleg framlög, til dæmis 15 þúsund Bandaríkjadali árið 1955, eins og Kjartan Ólafsson, fyrrv. framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, benti á í grein í Morgunblaðinu 2006.

Fyrst verður að taka tillit til þess, að þetta var skattfrjálst fé. Það hefur sennilega aldrei komið inn í hagkerfið í kaupum á vöru eða þjónustu, heldur annaðhvort verið notað til að greiða erlendar skuldir eða til að greiða mönnum undir borðið fyrir vinnu eða efni. Þess vegna verður að reikna þetta upp miðað við skatthlutfall hvers árs. Ég fann það hlutfall á vef hagstofunnar (hlutfall heildartekna hins opinbera af vergri landsframleiðslu). Fyrir árið 1955 var það 24,70%. Það merkir, að 15.000 í skattfrjálsum tekjum (hvort sem er í krónum eða dölum) samsvara þá 19.920 í skattlögðum tekjum. Verðmætið, sem verður eftir í hendi lokaviðtakandans, jafngildir þá 15 þúsund.

Síðan þarf að núvirða þetta fé, athuga, hvernig kaupmáttur Bandaríkjadals hefur breyst (rýrnað með verðbólgu). 19.920 Bandaríkjadalir árið 1955 samsvara skv. reiknivél á Netinu 175.186 Bandaríkjadölum árið 2015.

Síðan þarf að umreikna dalina í krónur á genginu núna. Það er einfaldast að gera á viðskiptasíðu Morgunblaðsins, þar sem er myntbreytir. Til dæmis eru 175.186 dalir nú 23.590.546,76 kr.

Þannig reiknaði ég það út, að bein framlög úr sjóði Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna til Sósíalistaflokksins og hliðarsamtaka hans (Máls og menningar) hefðu numið um 2,5 milljónum Bandaríkjadala núvirt og uppreiknað, en bætti síðan við ýmsum óreglulegum greiðslum og styrkjum, sem vitað er um. Þessir útreikningar eru allir birtir í Vísbendingu, og vísa ég mönnum á hana.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband