Skýringar og sakfellingar

Á Söguþingi 2012 gagnrýndi Skafti Ingimarsson sagnfræðingur bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998, en erindi hans er aðgengilegt á skemman.is. Hann benti að vísu ekki á neinar villur í henni, sem er fagnaðarefni, en hann kvað vænlegra til skilnings á kommúnistahreyfingunni íslensku að skoða, hvers vegna hún naut mikils fylgis, en að reyna að sakfella hana fyrir óeðlileg tengsl við valdhafana í Kreml.

Skafti hefur bæði rangt og rétt fyrir sér. Hann hefur rangt fyrir sér: ég ætlaði ekki að skrifa almenna sögu kommúnistahreyfingarinnar íslensku, heldur einmitt skoða sérstaklega, að hve miklu leyti íslenskir kommúnistar væru kommúnistar, en þar skildi með kommúnistum og lýðræðisjafnaðarmönnum, að kommúnistar vildu ekki hafna með öllu ofbeldi í stjórnmálabaráttu lýðræðisríkja ólíkt jafnaðarmönnum. Ég rannsakaði því sérstaklega ofbeldisverk og ofbeldishugmyndir íslenskra kommúnista, tengsl þeirra við ofbeldisstjórnir og vörn þeirra fyrir slíkar stjórnir. Ég gengst fúslega við því, að ég skrifaði aðra bók en þá, sem Skafti vildi, að yrði skrifuð.

Skafti hefur líka rétt fyrir sér: íslenska kommúnistahreyfingin naut miklu meira fylgis en hreyfingar kommúnista í engilsaxneskum og norrænum grannríkjum okkar. Þetta þarf að skýra. Sjálfur nefnir Skafti, að íslenskum kommúnistum hafi tekist að virkja hina sterku þjóðerniskennd Íslendinga, sem spratt upp úr sjálfstæðisbaráttunni. Einnig hafi margir alþýðumenn stutt þá vegna baráttu þeirrar fyrir hagsmunum íslensks verkalýðs. Þeir hafi því sprottið upp úr íslenskum jarðvegi, ekki verið sendisveinar frá Rússlandi.

Eitthvað er til í þessum skýringum, en þær hrökkva samt ekki til. Kommúnistar fóru til dæmis fram úr jafnaðarmönnum í kosningunum 1942, en árin á undan höfðu þeir ekki beitt þjóðernisrökum, svo að heitið gæti. Þeir gripu til slíkra raka, svo að um munaði, eftir að Ísland komst á áhrifasvæði Bandaríkjamanna í Kalda stríðinu. Þá varð „stéttabaráttan“ að „þjóðfrelsisbaráttu“. Þetta skýrir því ekki góðan árangur þeirra í kosningunum 1937 og 1942. Og á Íslandi stóðu alþýðumenn frammi fyrir sama vali og í grannríkjunum milli kommúnista og jafnaðarmanna, sem hvorir tveggja sögðust berjast fyrir hagsmunum verkalýðs. Af hverju völdu tiltölulega fleiri alþýðumenn hér á landi kommúnista? Þetta þarf að skýra.  

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. ágúst 2015.)


Bloggfærslur 25. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband