Stórkostleg handvömm Más Guðmundssonar

Már Guðmundsson var hagfræðingur Seðlabankans framan af þeim tíma, þegar ég sat í bankaráðinu, 2001–2009. Okkur kom vel saman, og ég hafði þá ekki nema gott eitt um hann að segja. Hann er gáfaður maður og vel að sér. Mér fannst hann alltaf efnislegur. Mjög var hins vegar raunalegt, hvernig ráðningu hans sem seðlabankastjóra bar að árið 2009: Jóhanna Sigurðardóttir samdi um hana við hann í laumi, á meðan tveir gegnir og rosknir sjálfstæðismenn voru gabbaðir til að vera í einhvers konar valnefnd um bankastjórastöðuna. Síðan hefur þrennt gerst, sem hvert um sig verður að teljast stórkostleg handvömm Más.

Hann höfðaði mál gegn bankanum vegna þess, að hann taldi sig ekki fá þau laun, sem honum bar samkvæmt samningnum við Jóhönnu. Þetta var auðvitað dómgreindarbrestur, ekki síst skömmu eftir bankahrun, þegar fjöldi fólks hafði misst vinnuna og mörg heimili voru að sligast undan skuldum. En Már bætti gráu ofan á svart með því að láta greiða sér eigin málskostnað (auk þess kostnaðar, sem bankinn bar af málarekstrinum)! Nam kostnaður bankans af þessu 7,4 milljónum króna. Þetta var annaðhvort ólöglegt eða nálægt því að vera ólöglegt. Breytir engu um málið, að þáverandi formaður bankaráðsins kaus að taka á sig sökina. Már tók fullan þátt í þessum ljóta eftirleik með því einu að þiggja greiðsluna.

Már fór mjög illa með veðið, sem Seðlabankinn hafði undir forystu þeirra Davíðs Oddssonar, Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar tekið í FIH banka gegn neyðarláni til Kaupþings, en vilji ríkisstjórnarinnar var að veita Kaupþingi þetta lán, og töldu bankastjórarnir þrír ekki stætt á öðru en fara eftir vilja hennar, enda var gjaldeyrisforðinn að miklu leyti lán, sem ríkissjóður hafði tekið. Már samdi við danska fjárfesta um, að þeir keyptu bankann, en þeir greiddu aðeins út lítinn hluta kaupverðsins. Frá afgangi kaupverðsins átti að draga tap á umsömdum tíma, og gerðu kaupendur bankans sér lítið fyrir og hlóðu öllu hugsanlegu tapi á þann tíma, sem samið hafði verið um. Eigið fé bankans er hins vegar lítt skert, og hefur Seðlabankinn tapað um sextíu milljörðum króna á þessu, en kaupendurnir, danskir auðjöfrar og lífeyrissjóðir, grætt nær þrefalt kaupverðið.

Framganga Más gagnvart Samherja á Akureyri, einhverju myndarlegasta fyrirtæki landsins, er síðan sérstakur kapítuli. Óðinn í Viðskiptablaðinu hefur greint það mál rækilega, sérstaklega margvísleg brot á eðlilegum rannsóknarreglum og réttarsjónarmiðum. Niðurstaða Óðins er: „Málið kallar á ýmsar aðgerðir innan Seðlabankans og að gripið verði til þeirra hið fyrsta. Rannsókn þarf að fara fram á því hvernig Kastljósi Ríkisútvarpsins var ljóst að húsleit ætti að fara fram áður. Fara þarf yfir starfsferla gjaldeyriseftirlitsins og þá röð ákvarðana sem leiddu til þess að starfsmenn Samherja hafa setið undir grun um lögbrot án þess að saksóknari telji sig geta sannað slíka sekt, sem og þær ákvarðanir sem lágu að baki Aserta-málinu, þar sem fjórir saklausir menn voru dregnir í gegnum svaðið að ósekju. Seðlabankinn og stjórnendur hans þurfa að axla ábyrgð á því sem gert hefur verið í stað þess að flýja þessa ábyrgð í sjónvarpsviðtölum.“

Sæti ég enn í bankaráði Seðlabankans, þá myndi ég svo sannarlega taka þessi þrjú mál upp þar.


Sammála Guðmundi Andra

Guðmundur Andri Thorsson skrifar skelegga grein til varnar íslenskunni, sérstaklega í netheimi okkar daga. Ég er hjartanlega sammála honum. Við týnum sjálfum okkur, ef við hættum að tala íslensku. Okkur lokast menningarheimur, þrunginn merkingu; við göngum úr sálufélagi við þær þrjátíu og þrjár kynslóðir, sem byggt hafa þetta land á undan okkur. Þegar tekin var upp enska á deildarfundum í stjórnmálafræðideild — í Háskóla Íslands, sem stofnaður var á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, svo að nemendur gætu lært íslensk lög, en ekki dönsk, íslenskar bókmenntir, ekki danskar, íslenska sögu, ekki danska — ákvað ég að reyna að breyta starfsskyldum mínum á þá leið, að ég þyrfti ekki lengur að sækja deildarfundi.

Hvað sagði Gunnar við Hitler?

gunnar_hittir_hitler_1a_lille_1172715.jpgStríð skall á í Norðurálfunni 1. september 1939, þegar Hitler réðst inn í Pólland, eftir að þeir Stalín höfðu skipt nokkrum löndum mið- og austurhluta álfunnar leynilega á milli sín með griðasáttmála. Stalín átti samkvæmt sáttmálanum að hreppa Finnland, og réðst hann á það 30. nóvember. Einn þeirra mörgu Íslendinga, sem hafði óskipta samúð með Finnum, var Gunnar Gunnarsson skáld, sem hrifist hafði ungur af Norðurlandahugsjóninni. Gunnar var líka vinveittur Þýskalandi, jafnvel eftir að nasistar höfðu tekið þar völd, þótt hann væri sjálfur enginn nasisti. Fundust honum Þjóðverjar bregðast Finnum á ögurstund.

Gunnar fór á vegum Norræna félagsins þýska í fræga fyrirlestraferð um Þýskaland vorið 1940 og átti þá fundi með Jósep Göbbels og Adolf Hitler. Tvennum sögum fer af tilgangi ferðarinnar, sem var hin mesta svaðilför á slíkum hættutímum. Þór Whitehead heldur því fram í bókinni Milli vonar og ótta, að Gunnar hafi ekki síst viljað tala máli Finna í Þýskalandi. Halldór Guðmundsson telur hins vegar í ritinu Skáldalífum, að ferð Gunnars hafi aðallega verið farin til að kynna bækur hans og afla fjár. Ævisöguritari Gunnars, Jón Yngvi Jóhannsson, greinir frá báðum þessum skoðunum og segist fyrst hafa aðhyllst skoðun Halldórs og síðan Þórs, en bendir þó ekki á nein gögn því til stuðnings.

Áreiðanleg heimild styður hins vegar frásögn Þórs. Hún er minningabók Jóns Krabbes, sendiráðsritara Íslands í Kaupmannahöfn, sem kom út 1959. Jón hitti Gunnar Gunnarsson í Kaupmannahöfn á heimleið frá Þýskalandi. Kvað hann Gunnar ekki hafa átt frumkvæði að því, að Hitler kallaði hann á sinn fund, heldur Norræna félagið þýska (bls. 132). Fundurinn hefði að mestu leyti verið eintal Hitlers, en Gunnar hefði sagt nokkur orð til styrktar Finnlandi, sem væri bugað af árás Stalíns. Þá hefði Hitler gripið heiftúðlega fram í og sagt, að hann hefði boðið Finnlandi griðasáttmála, en því verið hafnað. Jón sagði Gunnar sjálfan hafa sagt sér þetta um samtal þeirra Hitlers.

Þótt Finnar hefðu vissulega nýlega gengið til samninga við Rússa, þegar Gunnar hitti loks Hitler, breytir það engu um, að einkum hefur vakað fyrir Gunnari með Þýskalandsförinni að tala máli Finna við Þjóðverja, eins og Þór Whitehead heldur fram.
 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. september 2015. Myndin er af Gunnari Gunnarssyni að koma af fundi Hitlers í kanslarahöllinni í Berlín 20. mars 1940.)


Dagur: Soðvatn, ekki eldfjall

Viðskiptabannið, sem Dagur Bergþóruson Eggertsson og félagar hans settu á Ísrael, er áreiðanlega ólöglegt, því að lögaðilum er bannað samkvæmt íslenskum lögum að mismuna miðað við þjóðerni, trú eða önnur slík óefnisleg sjónarmið. Og hún er hatursfull: Dagur og lið hans hafa skipað sér í raðir gyðingahatara. Ég myndi þó ekki líkja þeim við eldfjall, eins og sumir hafa gert, heldur miklu frekar við soðvatn:
 

Hver bunan annarri hratt,
uns máttlítið, sífrandi soðvatn
í sömu holuna datt.


Léttúðartal Egils Helgasonar

Viðskiptabann Dags Bergþórusonar Eggertssonar og félaga hans í borgarstjórn á Ísrael hefur vakið mikla athygli. Virðist það vera ólöglegt, enda eru skýr ákvæði um það í lögum, að bannað sé að mismuna mönnum eftir þjóðerni, kyni, kynþætti, trú eða öðrum óefnislegum atriðum. Sveitarfélög hafa ekki heldur vald til að gera ýmislegt það, sem ríkið hefur vald til að gera. Egill Helgason bloggaði hins vegar, að menn yrði að vanda orðaval sitt í umræðum um þetta mál. Rangt væri að nota stór orð eins og „gyðingahatur“ um viðskiptabannið.

Börkur Gunnarsson skrifaði athugasemd við blogg hans:

Eitt sem hefur lengi böggað mig er Hamas. Ef þessi punktur á ekki við að þá bara leiðréttið þið mig. Þegar maður fylgist með ástandinu á Gaza að þá kemst maður ekki undan þeirri tilfinningu að Hamas stjórni þar einsog mafía. Þeir komust til valda með lýðræðislegum kosningum árið 2006. Síðan þá, í níu ár, hefur Hamas passað uppá að halda engar kosningar en halda öllum völdum með reglulegum opinberum aftökum án dóms og laga. Fyrir vikið reyni ég að hafa sem minnsta skoðun á þessum átökum. Þótt ekki sé annað hægt en að finna til samúðar með fjölskyldunum á Gaza og með þeim börnum sem þurfa að alast upp við þessar ömurlegu aðstæður.

 

Þá svaraði Egill fyrir vikið:

Hamas er mafía. Sprengjum bara alla aftur á steinöld.

Mér fannst þessi athugasemd Egils svo einkennileg, einkum vegna þess að hann hafði sérstaklega verið að kvarta undan léttúðartali um alvarlegt mál, að ég hélt fyrst, að einhver hefði brotist inn á síðu hans (eins og kom fyrir annan aðsópsmikinn álitsgjafa, Gylfa Ægisson). Velti ég þessu fyrir mér á Snjáldru (Facebook). Þá skrifaði Ingvar Smári Birgisson þar athugasemd:

Pælingin hjá Agli er að þótt Hamas sé mafía þá sé framferði Ísraels ólíðandi. Tók mig smá tíma að lesa í þetta, en er nokkuð viss um að þetta sé meining Egils.

Börkur Gunnarsson skrifaði athugasemd:

Þetta er ábyggilega rétt lesið hjá þér Ingvar Smári. En afhverju sagði hann þá það ekki? Í svona hrópum eru mörg skilaboð, ein af skilaboðunum eru: þú skalt ekkert vera að brydda uppá öðru sjónarhorni en passar inní umræðuna sem ég vil búa til! Annars færðu yfir þig reiði mína! Ég kann ekki við svona. Sérstaklega ekki frá svona valdamiklu fólki.

Líklega er niðurstaðan því gamalkunn: Dagskrárvald spillir, en ótakmarkað dagskrárvald spillir ótakmarkað. Munurinn á sjónvarpsþáttum þeim á Ríkisútvarpinu, þar sem Egill Helgason sest í öllu sínu veldi í dómarasæti, og efni í öðrum fjölmiðlum er, að við getum ekki sagt upp áskrift að Ríkisútvarpinu.


Samfylkingin í 73 milljón króna vanskilum

774112.jpgStundin birtir hróðug frétt um, að Sjálfstæðisflokkurinn sé í vanskilum. Það hefur verið lagað. En Sjálfstæðisflokkurinn greiddi til baka framlög frá stórfyrirtækjum 2006. Samfylkingin fékk svipaðar upphæðir, samtals 73 milljónir króna, frá stórfyrirtækjum 2006, þótt henni tækist að fresta uppgjöri fram yfir kosningarnar 2009. Því má segja, að Samfylkingin sé í 73 milljóna króna vanskilum, því að auðvitað nær það ekki nokkurri átt, að Sjálfstæðisflokkurinn skili öllum sínum styrkjum frá stórfyrirtækjum, á meðan Samfylkingin heldur sínum styrkjum.

Um þetta hljóta fréttamenn að þýfga Vilhjálm Þorsteinsson, gjaldkera Samfylkingarinnar. Þeir gætu líka spurt hann, hvað varð um Sigfúsarsjóð, sem geymdi afganginn af Rússagulli íslenskra sósíalista (sem nam um hálfum milljarði króna samtals núvirt og skattvirt samkvæmt útreikningum mínum, en þeir hafa ekki verið véfengdir). Tekjufærir Samfylkingin afslátt, sem hún fær af leigu í húsum Sigfúsarsjóðs? Af hverju hafa hinir harðskeyttu rannsóknarblaðamenn á Kjarnanum eða Stundinni ekki tekið þessi mál upp? Þau standa þeim þó nærri, enda er Vilhjálmur Þorsteinsson einn aðalfjárfestirinn í Kjarnanum og Ingi Freyr Vilhjálmsson á Stundinni einn mesti vandlætingarpostuli landsins.

(Myndin er af hluthöfum Kjarnans, Vilhjálmur situr lengst t. v.)


Fyrirlestur í Brasilíu: Upptaka

Ég sé, að einn af fyrirlestrum þeim, sem ég flutti hjá Brasilíusamtökum frjálshyggjustúdenta, Estudantes pela liberdade, vorið 2014 er kominn á Youtube á Netinu. Hann var í Porto Alegre 25. maí og um, hvernig sækja má röksemdir og gögn fyrir frelsið á Netið:



Fjórði sjálfboðaliðinn

finsenofl.jpgSpænska borgarastríðið 1936–1939, þar sem við áttust lýðveldissinnar og þjóðernissinnar, kom róti á hugi margra Norðurálfumanna. Eftir að Stalín ákvað að styðja lýðveldissinna, sendi Kommúnistaflokkur Íslands þrjá sjálfboðaliða í stríðið. Þeir höfðu allir fengið nokkra þjálfun í svokölluðu Varnarliði verkalýðsins, sem þrammaði um götur Reykjavíkur í einkennisbúningum 1932–1938, og einn þeirra, Hallgrímur Hallgrímsson, hafði auk þess hlotið hernaðarþjálfun í Moskvu í tæp tvö ár. Hallgrímur barðist hraustlega á vígstöðvunum frá desember 1937 til október 1938, þegar lýðveldisstjórnin sendi alla erlenda sjálfboðaliða heim. Hinir Íslendingarnir tveir, Björn Guðmundsson og Aðalsteinn Þorsteinsson, komu of seint til að geta barist.

En fjórði sjálfboðaliðinn tók þátt í borgarastríðinu, þótt hann sé sjaldnar nefndur, enda aðeins hálf-íslenskur, Gunnar Finsen. Faðir hans, Vilhjálmur Finsen, var stofnandi Morgunblaðsins og fyrsti ritstjóri, starfaði eftir það sem blaðamaður í Noregi og gekk síðan til liðs við íslensku utanríkisþjónustuna. Móðir Gunnars var norsk, og ólst hann að mestu upp í Noregi, en var íslenskur ríkisborgari. Gunnar lauk læknisprófi frá Háskólanum í Osló 1935 og starfaði eftir það fyrir norska herinn. Hann fór sem sjálfboðaliði til Spánar í mars 1937 og sinnti þar lækningum á hersjúkrahúsi, sem norsk og sænsk verkalýðsfélög ráku fyrir lýðveldissinna í þorpinu Alcoy suðvestur af borginni Valencia.

Gunnar lenti í ýmsum ævintýrum á leiðinni suður og líka á Spáni, og er heill kafli um hann í norskri bók, Tusen dager. Norge og den spanske borgerkrigen 1936–1939, sem kom út 2009. Gunnar hafði fengið berkla ungur og dvalist á Spáni sér til heilsubótar, svo að hann talaði spænsku og var kunnugur í landinu. Hann starfaði á sjúkrahúsinu í Alcoy fram í september 1937. Hann notaði tækifærið eftir það og fór í margra mánaða ferð umhverfis jörðina, áður en hann tók aftur við læknisstarfi í Noregi.

Gunnar var ekki kommúnisti, heldur rak hann áfram ævintýraþrá og samúð með alþýðu Spánar. Hann gerðist sjálfboðaliði í her Finna í Vetrarstríðinu svonefnda 1939–1940, þegar Stalín réðst á Finnland, eftir að þeir Hitler höfðu skipt mið- og austurhluta Evrópu upp á milli sín með griðasáttmálanum í ágúst 1939. Eftir hernám Noregs var hann í norska útlagahernum, sem barðist gegn nasistum, en hann starfaði síðan lengi sem röntgenlæknir í Osló. Hann lést 1986 og lét eftir sig fjölda ljósmynda og annarra gagna úr spænska borgarastríðinu. Sonur hans, Vilhjálmur Finsen, er læknir í Þrándheimi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. september 2015. Á myndinni er Gunnar annar frá hægri.)


Góður fundur með Bjarna

bjarni-benediktsson_1269404.jpgÉg skrapp í hádeginu á laugardag á fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, sem talaði um fjárlagafrumvarpið. Bjarni talaði af þekkingu, glöggskyggni og yfirsýn, eins og hans er vandi. Tvennt vakti sérstaklega athygli mína. Annað er hin mikla kjarabót venjulegs launafólks, sem felst í niðurfellingu tolla af margvíslegri vöru, þar á meðal fatnaði og heimilistækjum, auk þess sem kerfið verður einfaldað mjög. Hitt er hinn hái vaxtakostnaður ríkissjóðs, sem Bjarni kvað nauðsynlegt að lækka jafnt og þétt næstu árin. Þetta eru blóðpeningar.

Á meðan ég hlustaði á Bjarna, varð mér hugsað til þess, hvílíkri möru var létt af þjóðinni, þegar vinstri stjórnin hraktist frá. Ekki virðist vera til í Bjarna sú illska og heift, sem einkenndi forystumenn þeirrar stjórnar.


Rakst á gamla ljósmynd úr Hvíta húsinu

Það er segin saga, þegar ég ætla að taka til í tölvunni hjá mér, að ég tefst við að skoða gömul skjöl og myndir, og þá rifjast margt upp. Ég var í ávölu skrifstofunni með Davíð Oddssyni 6. júlí 2004, þegar hann hitti Bush Bandaríkjaforseta og reyndi að fá því framgengt, að Bandaríkjamenn héldu áfram að verja Ísland (eins og voru hagsmunir þeirra sjálfra að gera ekki síður en okkar).

domyndirogmal_bush2004.jpgDavíð er að segja, að Írak hafi orðið skárri staður, eftir að Saddam Hussein var hrakinn frá völdum. Auðvitað var það rétt: Því miður dró Barack Hussein Obama bandaríska heraflann of snemma til baka. Eftir að þeir Davíð og Bush höfðu sagt nokkur orð við fréttamenn, sungum við afmælissönginn fyrir Bush, „Happy birthday to you, Mister President …“

Daginn áður en ég fór til Bandaríkjanna, hafði Jón Ólafsson athafnamaður stefnt mér fyrir rétt í Bretlandi, og kostuðu þau málaferli mig um 25 milljónir króna (á þáverandi gengi!). Ég hafði á brottfarardaginn beðið kerfisstjóra Háskólans að loka heimasíðu minni (en Jón hafði verið ósáttur við ummæli um sig þar), því að ég vildi þá sem endranær forðast átök um aukaatriði, en kerfisstjórinn vanrækti að gera það. Síðar hélt sá því fram, að ég hefði ekki beðið sig um þetta, en ég fann tölvuskeyti mitt til hans og gat því fært sönnur á mál mitt. Við göngum stundum í lífinu á hnífseggjum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband