Yfirborðsleg greining Egils Helgasonar

Egill Helgason skrifar um Rússlandsviðskiptin á Eyjunni. Ég gerði eftirfarandi athugasemd:

Greining umræðustjóra Ríkisútvarpsins er mjög yfirborðsleg. Eitt meginatriðið í utanríkisstefnu Íslendinga hefur alla tuttugustu öldina verið að skilja að stjórnmálasjónarmið og viðskiptahagsmuni. Þess vegna léttum við af áfengisbanninu að kröfu Spánverja 1922, héldum áfram að selja Ítölum fisk þrátt fyrir refsiaðgerðir Þjóðabandalagsins vegna innrásarinnar í Eþíópíu 1935 og ákváðum að selja Kremlverjum fisk eftir löndunarbann Breta í fiskveiðideilunni 1952. Með þátttöku í tilraunum Evrópusambandsins til að beita Pútín efnahagsþvingunum (sem eru dæmdar til að mistakast) var í raun horfið frá þeirri stefnu. Það kemur því ekkert við, að við hljótum að fordæma stórhættulega útþenslustefnu Pútíns, þar á meðal hertöku Krímskaga og vopnaskak hans gagnvart Eystrasaltsríkjunum og Póllandi. Það kemur því einnig harla lítið við, að líklega eru Rússar að bregðast við þessum þvingunum með viðskiptabanni sínu, af því að þeir geta ekki greitt fyrir vöru að vestan vegna olíuverðlækkunar. Og þetta mál kemur ekkert við vestrænu samstarfi. Það fer fram innan Atlantshafsbandalagsins, ekki Evrópusambandsins. Stuðningsmenn ESB láta eins og Ísland sé í ESB, en það er ekki þar og hyggst ekki vera þar. Okkar staður er með Norður-Atlantshafsþjóðunum, Bretlandi, Kanada, Noregi og Bandaríkjunum. Annars var ég nú staddur í ávölu skrifstofunni í Hvíta húsinu þennan dag (6. júlí 2004) og söng fyrir Bush. Colin Powell stóð næstur mér, sneri sér að mér og sagði brosandi: „Þetta er nú meiri söngurinn hjá okkur!“


Bloggfærslur 18. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband