Orðaskipti á Facebook

Samkennari minn, Ólafur Þ. Harðarson, sem er hinn vænsti maður, lýsti á Facebook yfir hrifningu sinni á Brekkukotsannál. Ég gerði stutta athugasemd: „Besta bók Halldórs er Íslandsklukkan. Versta bók hans er Atómstöðin.“ Þá gerðu tveir menntamenn fyrirsjáanlegar athugasemdir. Guðjón Friðriksson sagði:

Ekki er til neinn algildur mælikvarði á hvað sé best og hvað verst í bókmenntum. Og til lítils að þrátta um smekk. Einu sinni var spurt á íslenskuprófi í ónefndum skóla: Hvert er fegursta kvæði sem ort hefur verið á íslensku? Aðeins eitt svar gilti: Gunnarshólmi Jónasar Hallgrímssonar.

Og Egill Helgason skrifaði:

Vont eða gott? Íslandsklukkan inniheldur Jón Hreggviðsson og Magnús í Bræðratungu en líka hin óbærilega leiðinlegu Arnas og Snæfríði.

Ég svaraði svo:

Íslandsklukkan er besta bók Laxness af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi nær stílkunnátta hans og orðkynngi þar hámarki eða risi. Í öðru lagi tekur hann þar sér loks stöðu með hinni smáu þjóð sinni, sem er þó svo stór í smæð sinni, af því að hún á sálufélag við alla Íslendinga, liðna, lifandi og óborna: Þessi stækkaða smáþjóð talar öll sömu tunguna, deilir öll sama óefnislega arfinum. En nú er reynt að grafa undan þessu sálufélagi, sem allir Íslendingar hafa átt í krafti þess, að Egill Skallagrímsson, Gunnar á Hlíðarenda, Snorri Sturluson, Hallgrímur Pétursson, Jónas Hallgrímsson og Jón Sigurðsson tala sömu tungu og skilja allir hver annan: Kaffihúsaspekingar tala Ísland niður, og svo er komið í minni deild, að deildarfundir fara fram á ensku. Þá var mér nóg boðið. Hópur menntamanna reynir að rjúfa tengslin við fortíðina, slíta þjóðina upp með rótum, gera lítið úr sagnritun sjálfstæðisbaráttunnar, sem leitaðist við að gera þjóðina stolta af sjálfri sér án þess að gera hana drambsama. Þessi oflátungahópur (sem kvað helst tala belgísku) telur, að þjóðin geti ekki staðið á eigin fótum, að sjálfstæðisbaráttan sé unnin fyrir gýg, að skynsamlegt hafi verið að játast undir Noregskonung 1262. Þetta er hópur, sem segir í útvarpsviðtölum: „Ég vill …“ og „Mér hlakkar til“. Íslandsklukkan glymur ekki þessu fólki, sem skipar sér á bekk með Þórarni Nefjólfssyni og Vilhjálmi af Sabína og Jóni Gerrekssyni og Herluf Daa. Íslandsklukkan glymir íslenskri alþýðu í blíðu og stríðu, ekki síst þeim afburðamönnum, sem risið hafa upp úr alþýðu manna og skapað verðmæti, efnisleg jafnt og andleg. Íslandsklukkan slær Hannesi Hafstein og Jóni Þorlákssyni, ekki erindrekum erlends valds eins og Einari Olgeirssyni og Icesave-spekingunum, sem reyndu að selja Ísland. En Ísland er ekki til sölu, herrar mínir. Það land verður ekki selt, sem fólgið er í andlegum verðmætum. 


Bloggfærslur 4. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband