Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.5.2010 | 10:17
Stefán Ólafsson beitti blekkingum
Á bloggi mínu hér í gær vakti ég athygli á því, að Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor brást illilega trúnaði, á meðan hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hreinn Loftsson hafði fengið hann í kyrrþey vorið 1996 til að gera skoðanakönnun um fylgi nokkurra manna í væntanlegu forsetakjöri. Var þessi könnun strangleynileg, eins og margar kannanir félagsvísindastofnunar voru og eru.
Stefán sagði hins vegar ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðunni úr könnuninni, eins og fram kemur í dagbók Matthíasar Johannessen, sem hann hefur birt á Netinu.
Það var þess vegna furðulegt að sjá Stefán kallaðan til í fyrradag, þegar háskólamenn ræddu um siðferðileg álitamál í framhaldi af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Enn furðulegra var að hlusta á hann tala um, að frjálshyggjumenn hefðu beitt blekkingum í umræðum um stjórnmál.
Það var Stefán Ólafsson sjálfur, sem beitti blekkingum í umræðum um skatta og velferð fyrir kosningarnar 2003 og 2007 (en Stefán reyndi í bæði skiptin að kasta kosningasprengjum inn á vígvöll stjórnmálanna og kallaði þessar sprengjur, fyrst um fátækt, síðan um ójafna tekjuskiptingu, niðurstöður rannsókna).
Ég rek ýmis dæmi um brellur, missagnir og yfirsjónir Stefáns í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Hér skal ég stuttlega fara yfir eitt skýrasta dæmið.
Í skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar, Nososco, frá 2006 kom fram, að á Norðurlöndum væru lífeyristekjur á mann að meðaltali hæstar á Íslandi. Þetta hentaði Stefáni ekki, enda hafði hann haldið því fram, að kjör þeirra væru lök á Íslandi.
Hann birti grein í Morgunblaðinu 20. mars 2007, þar sem hann andmælti harðlega þessari niðurstöðu. Benti hann á, að í sömu skýrslu Nososco væri á öðrum stað sagt, að lífeyrisgreiðslur á hvern lífeyrisþega væru á Norðurlöndum næstlægstar á Íslandi.
En þetta var rangt hjá Stefáni. Síðari talan, sem Stefán vitnaði í, var tala um lífeyrisgreiðslur á hvern mann á lífeyrisaldri á Norðurlöndum, ekki um lífeyrisgreiðslur á hvern lífeyrisþega.
Árið, sem talan var um, 2004, voru menn á lífeyrisaldri á Íslandi 31 þúsund, en lífeyrisþegar 26 þúsund. Ástæðan er sú, að vinnumarkaðurinn fyrir fólk, sem er að reskjast, er sveigjanlegri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Það fær að vinna lengur, ef það vill (sem betur fer). Fimm þúsund manns á lífeyrisaldri hagnýttu sér það árið 2004 og tóku því ekki lífeyri.
Nú sjá menn brellu Stefáns Ólafssonar: Hann deildi með 31 þúsundi í tölu (heildarlífeyrisgreiðslur), sem hann átti að deila með 26 þúsundum í. Auðvitað fékk hann lægri tölu á þennan hátt.
Ég benti á þetta opinberlega, en Stefán hefur enn ekki leiðrétt þetta. Hið rétta var það, sem kom fram í skýrslu norrænu tölfræðinefndarinnar, að árið 2004 voru lífeyristekjur á mann á Norðurlöndum að meðaltali hæstar á Íslandi.
Ég læt lesandanum eftir að meta, hvort þetta var missögn, yfirsjón eða fölsun.
1.5.2010 | 09:20
Situr á Stefáni Ólafssyni að prédika siðferði?
Ég sé, að í fundaröð Háskólans um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var síðasti fundurinn í gær. Hann var um Gagnrýna umræðu: Hlutverk háskóla og fjölmiðla.
Einn málshefjandi var Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor. Hann er sennilega sá, sem síst ætti að ræða um siðferði háskólamanna. Hreinn Loftsson lögfræðingur birti fyrir skömmu tölvuskeyti milli okkar tveggja, þar sem skýrt kemur fram eftirfarandi:
Árið 1996 var Stefán forstöðumaður félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hreinn fékk hann í kyrrþey (meðal annars vegna meðmæla minna með honum, þar sem ég taldi honum treystandi) til að gera fyrir sig skoðanakönnun um fylgi hugsanlegra frambjóðenda í forsetakjöri.
Hinn 8. maí 1996 sagði Stefán ritstjórum Morgunblaðsins, þeim Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni, frá niðurstöðum skoðanakönnunarinnar, þótt hann væri að sjálfsögðu bundinn ströngum trúnaði um hana gagnvart Hreini. Matthías færði samtalið inn í dagbók sína, sem nú hefur verið birt á Netinu.
Engin ástæða er til að rengja orð Hreins og Matthíasar um þetta mál. Fráleitt er að halda því fram, að Matthías sé að spinna upp þetta samtal. Og Hreinn hefur staðfest, að hann lét Stefán gera þessa könnun.
Þetta er eins alvarlegt trúnaðarbrot og unnt er að hugsa sér. Situr á Stefáni Ólafssyni að prédika siðferði?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook
29.4.2010 | 19:14
Var frjálshyggja framkvæmd á Íslandi 1991–2008?
Fjölmennur kór kennir frjálshyggjunni um bankahrunið. Þeir, sem ekki vilja unna frjálshyggjumönnum að telja John Locke, Adam Smith og John Stuart Mill til lærifeðra sinna, tala í þessu sambandi um nýfrjálshyggju.
En var frjálshyggja framkvæmd á Íslandi 19912008? Ég svara: Já, frá 1991 til 2004, en ekki eftir það.
Í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, eru þrenns konar gögn, sem styðja þetta svar.
Á 18. bls. er tafla um atvinnufrelsi á Íslandi samkvæmt alþjóðlegri mælingu, frá 0 og upp í 10. Atvinnufrelsi jókst úr 6,3 árið 1970 í 6,6 árið 1990. En frá 1990 til 2004 jókst það úr 6,6 í 7,9. Þetta var dágóður árangur. Ísland var árið 2004 í hópi þeirra tíu ríkja í heiminum, sem bjuggu við mest atvinnufrelsi. Eftir það drógust Íslendingar aftur úr öðrum þjóðum í þessum efnum.
Á 42. bls. er línurit um ríkisútgjöld í hlutfalli af vergri landsframleiðslu, en þau eru ef til vill heppilegri mælikvarði á ríkisafskipti en skatttekjur, þar sem slík útgjöld ráðast frekar af ákvörðunum stjórnvalda. (Skatttekjurnar breytast frekar eftir afkomu þjóðarbúsins, þótt auðvitað breyti stjórnvöld einhverju um þær með ákvörðunum sínum.) Þar sést, að framan af ráðherratíð Friðriks Sophussonar lækkuðu ríkisútgjöld talsvert í hlutfalli af vergri landsframleiðslu, til 1997, en jukust því miður eftir það, þótt þau væru vissulega nokkru lægri 2005 en 1992.
Á 103. bls. er línurit um erlendar skuldir í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Þar sést, að hinar erlendu skuldir einkaaðila tóku snaran kipp upp á við frá 2004, raunar stórt stökk. Augljóst er af línuritinu, að góðærið fyrir 2004 (sem verið hafði samfellt frá 1995) var ekki kostað af erlendu lánsfé. Því má hins vegar halda fram, að góðærið 20052008 hafi verið vegna lánsfjárbólu, sem síðan sprakk: Þetta var hagsæld að láni.
Sú frjálshyggja, sem var framkvæmd hér 19912004, skilaði blómlegu búi. Ísland var eitt af fimm ríkustu löndum heims 2004 og sem fyrr segir eitt af tíu frjálsustu löndum heims í atvinnumálum. Þjóðin mældist jafnan í röð hinna hamingjusömustu í heimi. Hún var líka ein hin langlífasta og heilsuhraustasta í heimi.
Það fór hins vegar eitthvað úrskeiðis um og eftir 2004. Þjóðin missti vald á sjálfri sér. Hún fór á eyðslufyllerí, jafnt ríki sem einkaaðilar. Ég held, að ein skýringin sé, að jafnvægið raskaðist hér innan lands. Ófyrirleitnir auðjöfrar með Baugsfeðga í broddi fylkingar náðu undir sig fjölmiðlunum og höfðu mikil áhrif á stjórnmálamenn og jafnvel dómara, auk þess sem þeir áttu greiðan aðgang að Bessastöðum. Hér spratt upp auðræði, plútókratía, sem Platón nefndi svo.
Það, sem við sáum 20042008, var ekki frjálshyggja, heldur taumleysi.
24.4.2010 | 10:15
Lætur Jón Ásgeir blað frekar í friði en banka?
Í nýútkominni skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er skýrt dæmi um, hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson beitti áhrifum sínum sem eigandi á rekstur og útlán Glitnis. Birt eru tölvuskeyti milli hans og starfsmanns Glitnis, þegar bankinn ætlaði með bréfi að treysta tök sín á einu fyrirtæki Jóns Ásgeirs, Landic Property, í því skyni að tryggja endurgreiðslu láns bankans til fyrirtækisins.
Jón svaraði tilkynningu um fyrirhugað bréf í tölvuskeyti sínu til starfsmanns Glitnis: Sem aðaleigandi Stoða sem er stæsti [svo] hluthafi í Glitni langar mig að vita hvernig svona bréf á að þjóna hagsmunum bankans.
Áður hafði skilanefnd og slitastjórn Glitnis birt sambærileg tölvuskeyti frá Jóni Ásgeiri, sem erfitt var að skilja öðru vísi en sem kröfur um lán og hótanir, yrði ekki orðið við þeim kröfum. Jón Ásgeir hefur að vísu sagt, að broskall hafi fylgt þeim skeytum, hvort sem það breytir einhverju eða ekki.
Einnig kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar, að útlán Glitnis til fyrirtækja í eigu Jóns Ásgeirs og viðskiptafélaga hans stórjukust, eftir að þeir náðu langþráðum yfirráðum sínum yfir bankanum árið 2007. Var áreiðanlega gengið á svig við lög með því að telja ýmsa aðila óskylda, sem voru það svo sannarlega ekki, til dæmis fyrirtæki í eigu Jóns Ásgeirs annars vegar og eiginkonu hans hins vegar.
Rannsóknarnefndin er að vísu ekki dómstóll, og allir teljast saklausir, uns sekt þeirra hefur verið sönnuð. En óhætt er að fullyrða í ljósi þessara gagna, að Jón Ásgeir hafi misbeitt áhrifum sínum sem aðaleigandi í Glitni árin 20072009.
En ef Jón Ásgeir hefur orðið uppvís að því að misbeita eigandavaldi sínu á banka, er þá ekki líklegt, að hann misbeiti því líka á blað? Jón Ásgeir á enn talsvert fjölmiðlaveldi með óskiljanlegri aðstoð íslensku bankanna, sem hann virðist hafa tæmt, ef marka má skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Er ekki eitthvað athugavert við þetta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook
13.4.2010 | 10:12
Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis
Margt kemur fróðlegt fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sérstaklega um innviði bankanna og atburðarásina árið 2008. Ég hafði ekki sjálfur gert mér grein fyrir því, hvílík heljartök Jón Ásgeir Jóhannesson og hópurinn í kringum hann höfðu á íslensku bönkunum. Ef þeir féllu, þá féllu allir með þeim, eins og fram kemur í skýrslunni. Einni spurningu er þó ósvarað um það í mínum huga: Hvernig gátu þeir Jón Ásgeir náð þessum heljartökum? Eins og Davíð Oddsson spurði á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs skömmu eftir hrun: Hvernig gat einn maður safnað þúsund milljarða skuld í íslensku bönkunum? (Og hvernig stendur á því, að sami maður skuli enn ráða yfir miklu fjölmiðlaveldi í skjóli þess, sem eftir er af íslensku bönkunum?)
Gera verður því betur skil síðar meir, hvernig Bretar komu fram við Íslendinga í þessu máli, þótt raunar sé bent á það í skýrslunni, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, sagði beinlínis ósatt opinberlega um samtal sitt við Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra í upphafi hruns, auk þess sem Rannsóknarnefndin segir, að Bretar hefðu ekki þurft að ná markmiðum sínum með því að beita hryðjuverkalögum sínum, en á þann hátt veittu þeir íslenska bankakerfinu áreiðanlega banahöggið.
Það mat nefndarinnar, að árið 2008 hafi verið svo komið, að ekki hafi verið unnt að bjarga íslenska bankakerfinu, er bæði rétt og rangt. Það var rétt, ef hvergi var neinn stuðning að fá, neinar baktryggingar, til dæmis frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins. Þá var íslenska bankakerfið dæmt til að falla. En það var rangt í þeim skilningi, að í sjálfu sér er það litlum takmörkunum háð, hversu stórir bankar geta verið á einhverju einu afmörkuðu svæði. Setjum til dæmis svo, að allir bresku bankarnir hefðu aðsetur í Coventry, þar sem íbúafjöldi er svipaður og á Íslandi. Auðvitað gæti Coventry eitt ekki staðið undir slíku bankakerfi, en Bretland gæti það væntanlega.
Samviskusamlega er rakið í skýrslunni, hvernig Davíð Oddsson varaði ráðherra ríkisstjórnarinnar hvað eftir annað við hættunni af útþenslu bankanna. Ég sé ekki betur en hann hafi verið eini íslenski ráðamaðurinn, sem það gerði. Meðal annars sat hann fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra 7. febrúar 2008, þar sem hann brýndi fyrir ráðherrunum, hvílík vá gæti verið fyrir dyrum, sérstaklega vegna þess að bankarnir nytu ekki trausts erlendis. Ingibjörg Sólrún færði á minnisblað sitt, að hann hefði farið mikinn. En hún gerði ekkert.
Mér finnst einkennilegt, að Rannsóknarnefndin skuli ekki taka meira tillit til þess, hver varaði við. Þess í stað hefur hún lagst í smásjárskoðun á því, hvað finna mætti að embættisfærslu Seðlabankans. Og þar tóku fjöllin svo sannarlega jóðsótt og fæddist mús. Hún telur í fyrsta lagi, að seðlabankastjórarnir hafi gert sig seka um vanrækslu með því að hemja ekki starfsemi Landsbankans erlendis vorið 2008. Ég er sannfærður um það, að þessi athugasemd stenst ekki. Seðlabankinn hafði engar valdheimildir til þess að stöðva rekstur bankans. Seðlabankinn var ekki aðeins bundinn af verkaskiptingu milli sín og Fjármálaeftirlitsins, heldur líka af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en samkvæmt honum var íslenskum viðskiptabönkum frjálst að starfa hvar sem er í löndum svæðisins.
Seinni athugasemdin er, að Seðlabankinn hefði ekki gætt fyllstu og nákvæmustu stjórnsýslureglna, meðal annars með skriflegum tilkynningum og samráði við sérfræðinga, þegar ríkið gerði að tillögu hans kauptilboð í flest hlutabréf Glitnis. Hér er á ferðinni eftiráspeki skriffinna. Þetta er hugsanlega rétt, en skiptir litlu sem engu máli í allri framvindunni. Er ekki aðalatriðið, hverjir sáu þrátt fyrir allt hættuna og vöruðu við? Þá kemur að furðulegu atriði í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar. Hún talar eins og það hafi verið sök Davíðs Oddssonar, að ekki skyldi hafa verið hlustað á hann, þar sem hann hefði áður verið stjórnmálamaður! Var það ekki frekar sök þeirra, sem ekki hlustuðu, af því að þeir höfðu hugann við fornar væringar, en ekki heill Íslands?
11.4.2010 | 12:54
Breyttu nafninu, og þá …
Ég var að glugga í Árna sögu biskups, sem gerist seint á þrettándu öld. Þar er eðlilegt viðskiptasiðferði best orðað á íslensku: Falslaus kaup skulu föst vera, þau er einskis manns rétti er hrundið í. Samkvæmt því ber að setja þrjú skilyrði fyrir siðlegum viðskiptum: Orð skulu standa, ekki skal beitt blekkingum, og með viðskiptunum má ekki brjóta rétt á þriðja manni (eða fleirum).
En ég minnist ekki á Árna sögu af þessari ástæðu, heldur hinni, að þar er klausa um sendimann Noregskonungs að tali við Íslendinga:
Herra Loðinn varð við þetta mjög heitur, að búkarlar gerðu sig svo digra, að þeir hugðu að skipa lögum í landi, þeim sem kóngur einn saman átti að ráða. Þar næst krafði hann almenning að játa allri bók greinarlaust, hverjir svöruðu fyrir sig, að þeir mundu ei gera að tapa svo frelsi lands. Loðinn svarar að móti, að þeir áttu fyrst að já bókinni og biðja síðan miskunnar um þá hluti, sem nauðsyn þætti til standa, kónginn og ráð.
Breyttu nafninu, og þá er sagan um þig: Loðinn Leppur kemur í stað samningamanna Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. Kóngurinn býr í Brüssel. Tilboðið er: Íslendingar, játist undir vald okkar, og þá munum við ef til vill miskunna okkur yfir ykkur.
Og enn á kóngur marga innlenda hirðmenn, þótt nú beri þeir nöfn eins og Jóhanna, Steingrímur og Össur. Sjálfur kýs ég mér hins vegar frekar sess með búkörlum þeim, er þóttu gera sig digra og vildu fá að skipa lögum í landi sínu.
9.4.2010 | 23:13
Að loknum Njálulestri
Ég var að lesa aftur Njálu eða Brennu-Njáls sögu, eins og höfundurinn kaus sjálfur að kalla hana. Árni Pálsson prófessor sagðist þurfa að lesa Njálu árlega til að halda við íslenskunni.
Ég er ekki eins iðinn við Njálulestur og Árni Pálsson. En fróðlegt er að lesa slíka bók í þriðja eða fjórða skipti, eins og ég gerði. Á henni birtast sífellt nýir fletir. Til dæmis fór fram hjá mér, sakleysingjanum, þegar ég las Njálu í menntaskóla, hversu lostug sagan er. Hún er barmafull af ástríðum og kynlífi. Raunar er hún furðuberorð. En íslenskukennarar þeirrar tíðar kusu að líta fram hjá því. Þeir ræddu því meira um hetjuhugsjónina og hina blendnu einstaklinga, sem Njáluhöfundur lýsir.
Ég hef áður sagt frá því opinberlega, að mér finnst blasa við, hvers vegna Gunnar Hámundarson sneri aftur. Auðvitað var það ekki af ættjarðarást, sem ekki varð til fyrr en á nítjándu öld. Hann leit aftur, í átt að Hlíðarenda, og sú hugsun varð honum skyndilega óbærileg, að Hallgerður Langbrók, kona hans, sem hann unni áreiðanlega heitt, skyldi skilin eftir. Hún yrði honum ótrú í útlegðinni.
Við endurlestur bókarinnar varð mér hins vegar ljóst, að sennilega væri Njáluhöfundur ekki sami kvenhatarinn og margir hafa haldið fram, þar á meðal mínir ágætu íslenskukennarar í menntaskóla. Vissulega eggjuðu konur sögunnar menn sína til stórræða, Hallgerður, Bergþóra, Hildigunnur. En voru þær ekki að gegna hinu eðlilega hlutverki sínu, sem var að standa vörð um fjölskylduna, vernda hana? Til þess þurftu karlarnar að rækja hefndarskyldu sína, þótt þeim væri það ef til vill ekki alltaf ljúft.
Mér sýnist, að hlutverkum hafi á því skeiði, sem Njála tekur til, á öndverðri þjóðveldisöld, verið skipt svo á milli kynjanna, að karlarnir fengust við að leita að þeim lögum, þeirri gagnkvæmu aðlögun, þeim málamiðlunum, sem nauðsynlegar voru, til þess að menn gæti lifað saman í sæmilegri sátt. Konurnar sinntu hins vegar því að gæta hreiðursins og heiðursins. Þröngsýni þeirra var jafnnauðsynleg og víðsýni karlanna.
Fjölbreytileg og flókin saga eins og Njála hefur margvíslegar skírskotanir. Hún er ekki eintóna, heldur margradda. Sumir geta lesið úr henni ástarsögu, aðrir viðleitni við að mynda ein lög og einn frið, enn aðrir hetjusögu, söguna um Gunnar Hámundarson, Kára Sölmundarson, jafnvel Brennu-Flosa.
Hrafn Gunnlaugsson hefur í mín eyru reifað tvær kenningar um söguna, sem ég er tortrygginn á. Önnur er, að þeir Gunnar og Njáll hafi átt í ástarsambandi. Ég held miklu frekar, að samband þeirra hafi verið hið sígilda samband tveggja karla, sem bættu hvor annan upp og urðu þess vegna góðir vinir. Gunnar hafði það, sem Njál vantaði, og öfugt. Hin kenningin er, að Kári Sölmundarson hafi verið í einhvers konar vitorði með Flosa Þórðarsyni á Svínafelli og þess vegna sloppið úr brennunni. Ég kem ekki auga á sterk rök fyrir þeirri kenningu. Hún er langsótt, þótt hún sé frumleg.
Einn þáttur sögunnar vísar beint til nútímans: Förukerlingarnar, sem báru illmæli á milli Hlíðarenda og Bergþórshvols. Hliðstæða þeirra um þessar mundir er Hreinn Loftsson, sem bar óheppileg orð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (hugleiðingar um 300 milljón króna mútur) til Davíðs Oddssonar og hefur eflaust líka borið einhver orð Davíðs (án þess að ég viti það) til Jóns Ásgeirs (og líklega mjög úr lagi færð). Úr því blossaði upp eldur, sem sennilega var hjákvæmilegur, en ekki verður slökktur úr þessu, þótt á hitt sé að líta, að enginn týndi lífi í honum eins og í Njálsbrennu forðum.
En furðu sætir, að þeir Otkell og Skammkell skuli enn reka fyrirtæki og eiga fjölmiðla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook
8.4.2010 | 22:49
Starfshópur rannsóknarnefndarinnar
Samkvæmt lögum um rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu skyldi starfa með henni sérstakur hópur, og var honum falið að meta, hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Í þessum starfshópi, sem valinn var af forsætisnefnd Alþingis, sitja dr. Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki í Háskóla Íslands, Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Kristín Ástgeirsdóttir, forstöðumaður jafnréttisstofu og fyrrverandi alþingismaður.
Allt eru þetta valinkunnir sómamenn, sem ég þekki að góðu einu. Vilhjálmur var skólabróðir minn í heimspeki, sem við námum undir handleiðslu eftirminnilegra kennara eins og Þorsteins Gylfasonar og Páls Skúlasonar. Kristín var skólasystir mín í sagnfræði, þar sem Þórhallur Vilmundarson, Ólafur Hansson og fleiri fróðir menn og skemmtilegir kenndu okkur. Bæði eru sanngjörn og reiðubúin til að hlusta á rök og sjónarmið annarra. Leiðir okkar Salvarar hafa síður legið saman, en hún er viðræðugóð og virðist vera skynsöm og öfgalaus, eins og hún á kyn til.
Það er hins vegar gömul og ný reynsla, að menn geta verið góðir hver í sínu lagi, en vondir saman í einum hópi.
Ég vissi fyrir, að Vilhjálmur og Kristín væru yfirlýstir vinstri menn. Þau hafa hvergi reynt að leyna því.
Vilhjálmur var einn af forvígismönnum Félags frjálslynda jafnaðarmanna, sem til var á miðjum tíunda áratug, þótt ekki yrði það langlíft. Hann flutti erindi um heimspeki félagshyggjunnar á stofnfundi Samfylkingarinnar 1999 og hefur mjög gagnrýna afstöðu til frjálshyggju.
Kristín var auðvitað þingmaður Kvennalistans og starfar nú undir beinni stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, því að jafnréttisstofa hefur verið færð í forsætisráðuneytið. Hún hefur ekki síður gagnrýna afstöðu til frjálshyggju (eins og allur Kvennalistinn hafði).
Ég vissi hins vegar ekki, að þriðji maðurinn í starfshópnum, Salvör Nordal, hefði líka mjög gagnrýna afstöðu til frjálshyggju. En nú les ég á Smugunni, að hún sé einn af höfundum væntanlegs barátturits gegn frjálshyggju, sem nefnist Eilífðarvélin. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Í viðtali á Smugunni rangfærir ritstjóri bókarinnar orð mín, eins og ég hef þegar bent á hér á bloggi mínu.
Lengi verður um það deilt, hvað olli íslenska bankahruninu. En í umræðum heimspekinga um það hlýtur frjálshyggja að koma mjög við sögu. Ég er satt að segja hissa á þeim Vilhjálmi, Kristínu og Salvöru að taka að sér þetta verkefni ein og óstudd. Í stað þess, að þau bergmáluðu hvert annað í andstöðu við frjálshyggju, hefðu fleiri raddir mátt heyrast, til dæmis ágætra og rökfastra heimspekinga, sem eru að minnsta kosti ekki yfirlýstir andstæðingar frjálshyggju, svo að ég viti. Nefni ég þar sérstaklega dr. Erlend Jónsson, prófessor í heimspeki, dr. Guðmund Heiðar Frímannsson heimspeking, dr. Kristján Kristjánsson heimspeking (sem sennilega hefur hlotið mest brautargengi íslenskra heimspekinga á alþjóðavettvangi) og Atla Harðarson heimspekikennara.
Ég efast ekki um, að þau Vilhjálmur, Kristín og Salvör munu leggja sig fram að vera sanngjörn í mati sínu á siðferðilegum þáttum hrunsins. En ráða þessir yfirlýstu andstæðingar frjálshyggju við sjálfa sig? Og standa þau af sér vini og kunningja, sem munu eflaust sumir leggja fast að þeim að fordæma í skýrslu sinni frjálshyggju og kenna henni um bankahrunið, eins og ritstjóri bókarinnar, sem Salvör skrifar í, gerir einmitt?
7.4.2010 | 17:08
Orð mín rangfærð
Upplýst er á Smugunni, að von sé á bók gegn nýfrjálshyggju, en það heiti nota andstæðingar frjálshyggju um hana, um stjórnmálakenningu Lockes og Smiths, Mills, Hayeks, Nozicks og Friedmans. Bókin eigi að bera nafnið Eilífðarvélin, en ritstjóri hennar sé Kolbeinn Stefánsson (sonur Stefáns félagsfræðings Ólafssonar). Á Smugunni segir:
Kapítalisminn brást ekki heldur kapítalistarnir. Þessi málsvörn Hannesar Hólmsteins og annarra spámanna nýfrjálshyggjunnar þótti Kolbeini Stefánssyni furðuleg. Öll svona kerfi byggja á ákveðnum hugmyndum um hvernig fólk hegðar sér. Ef að fólk hegðar sér ekki eins og kerfið gerir ráð fyrir þá er það kerfið sem bregst, þótt það séu einstaklingarnir sem bera ábyrgð á því. Vandamálið við þessa stefnu er að hún byggir á mjög sérkennilegum hugmyndum um mannlegt atferli og eðli. Ekki að við séum ekki stundum gráðug og stundum sjálfselsk, en hugmyndafræðin gerir ráð fyrir því að það séu allir alltaf gráðugir og sjálfselskir. Kerfi sem byggir á svona óraunsærri sýn á mannlegt eðli er dæmt til að mistakast.
Kolbeinn vísar hér eflaust í viðtal við mig, sem birtist í Morgunblaðinu 4. október 2008, skömmu eftir bankahrunið. En þar segi ég allt annað. Blaðamaður spyr mig, hvort kapítalistarnir hafi brugðist. Ég svara:
Ég held að það sé ekki beinlínis hægt að kenna þeim öllum um. Þeir eru mistækir eins og gengur. En kapítalisminn snýst ekki um kapítalistana, heldur árangur sjálfs kerfisins. Margir eru núna með réttu að hneykslast á græðginni. Sumir kapítalistar hafa vissulega sýnt græðgi. En græðgi er þáttur í mannlegu eðli sem við getum ekki breytt með predikunum heldur eigum við miklu heldur að tryggja að græðgin verði öðrum til góðs og það gerir hún við frjálsa samkeppni þar sem menn þurfa að leggja sig fram um að fullnægja þörfum annarra betur og ódýrar en keppinautar þeirra. Græðgin er ekkert að hverfa. Aðalatriðið er að nýta kapítalistana til góðs. Við þurfum að átta okkur á því að frjáls samkeppni er eins konar sía sem skilur að þá sem geta og hina sem geta ekki. Sumir gera mistök og þeir hætta rekstri. Aðrir gera ekki mistök og þeir halda áfram rekstri. Þetta er lögmál kapítalismans og þegar á bjátar kemur þetta lögmál býsna vel í ljós vegna þess að skiptaráðandinn er lokaúrræði kapítalismans, ekki böðullinn, sem betur fer. Í kapítalisma fara menn á hausinn, en láta ekki hausinn, eins og í miðstýrðu hagkerfi. Gjaldþrot er auðvitað alltaf sorglegt og aldrei æskilegt. En það er í vissum skilningi nauðsynlegt til þess að leiðrétta mistök. Það er enginn vafi á því að margir íslenskir kapítalistar hafa farið of geyst en ég held samt að undirstöður íslenska hagkerfisins séu traustar. Útflutningsatvinnuvegirnir blómstra. Ál og fiskur eru í góðu verði. Það er engin ástæða til að örvænta. Eins og segir í Biblíunni: Með von, gegn von.
Kolbeinn rangfærir orð mín. Ekki er von á góðu, ef kynna þarf bók með slíkum rangfærslum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook
5.4.2010 | 20:39
Rannsóknarskýrsla mín
Við háskólaprófessorar þurfum að gera rannsóknarskýrslu árlega um það, sem við höfum rannsakað og birt árið á undan. Þar tínum við auðvitað allt til, þótt sumt af því þurfi ekki að vera hávísindalegt. Ég lauk fyrir nokkru rannsóknarskýrslu minni fyrir árið 2009.
Viðamestu verkin, sem ég lauk árið 2009, voru tvímælalaust Svartbók kommúnismans, en ég þýddi þetta mikla og merkilega rit (hátt í þúsund blaðsíður) og ritstýrði því, og bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og verðlag, sem geymir niðurstöður nokkurra ára rannsókna minna á sköttum og velferð. Einnig leyfi ég mér að benda á, að í ritgerð í Stjórnmálum og stjórnsýslu segi ég af skjali frá vorinu 1939, sem ég fann um íslenska kommúnista, og tekur það af öll tvímæli um það, að Sósíalistaflokkurinn var stofnaður með samþykki Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista, en um það höfðu fræðimenn áður deilt.
Hér læt ég rannsóknarskýrslu mína 2009 flakka til fróðleiks fyrir lesendur bloggsins, og er verkum raðað samkvæmt flokkunarkerfi Háskóla Íslands. Sum verkanna (eða eitthvað úr þeim) eru aðgengileg á Netinu, og set ég þá hlekk á þau.
A. Rannsóknir
A2. Bækur
Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. 2009. Bókafélagið. 192 bls.
A3. Greinar í fræðiritum
Var Komintern andvígt stofnun Sósíalistaflokksins? Stjórnmál og stjórnsýsla 5. árg. 2. tbl. (haust 2009). Bls. 5765.
A.3.3 Annað efni í ritrýndu fræðiriti
Tveir menn við múrinn. Þjóðmál 5. árg. 2. hefti (sumar 2009). Bls. 4752.
Siðferðilegt endurmat kommúnismans. Þjóðmál 5. árg. 3. hefti (haust 2009). Bls. 5973.
Þegar vöknaði í púðrinu. Þjóðmál 5. árg. 4. hefti (vetur 2009). Bls. 6775.
Stighækkandi tekjuskattur óheppilegur. Vísbending 27. árg. 43. tbl. (2. nóvember 2009). Bls. 23.
Hver eiga skattleysismörk að vera? Vísbending 27. árg. 45. tbl. (16. nóvember 2009). Bls. 23.
Öfug Laffer-áhrif á Íslandi? Vísbending 27. árg. 47. tbl.
Er auðlindaskattur hagkvæmur? Vísbending 27. árg. 49. tbl.
A4. Bókarkaflar og greinar í ráðstefnuritum
A4.1 Grein í ráðstefnuriti
Pólitískir pílagrímar. Rannsóknir í félagsvísindum. X. Ritstj. Halldór Sig. Guðmundsson og Silja Bára Ómarsdóttir. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2009. Bls. 281291.
A5. Annað
A5.1 Fræðileg skýrsla eða álitsgerð
Skattar og velferð. Seinni skýrsla fyrir fjármálaráðuneytið. (Hin fyrri var send 2008.)
A5.2 Ritdómar
Jónas Kristjánsson: Frjáls og óháður. eyjan.is 3. nóvember 2009.
Einar Benediktsson: Að skilja heiminn. eyjan.is 7. nóvember 2009.
Ármann Þorvaldsson: Ævintýraeyjan. eyjan.is 16. nóvember 2009.
Böðvar Guðmundsson: Enn er morgunn. eyjan.is 18. nóvember 2009.
Árni Heimir Ingólfsson: Jón Leifs. Líf í tónum. eyjan.is 19. nóvember 2009.
A5.3.1 Erindi á vísindaráðstefnu
Pólitískir pílagrímar. Þjóðarspegillinn, X. ráðstefna um rannsóknir í félagsvísindum 30. október 2009.
A5.3.2 Fræðileg erindi
The Strange Death of Liberal Iceland. Erindi. Mont Pelerin Society. New York 7. mars 2009.
The Strange Death of Liberal Iceland. Hádegisverðarfundur. Instituto Libertad y Desarrollo. Santiago de Chile, 26. maí 2009.
A5.3.3 Inngangsfyrirlestur á ráðstefnu
Fish Stocks: Non-Exclusive Resources and the Rights of Exclusion. Keynote lecture (inngangsfyrirlestur). Instituto Libertad y Desarrollo. Santiago de Chile 26. maí 2009.
A5.5 Þýðingar
Svartbók kommúnismans. Höfundar Stéphane Courtois o. fl. Ritstjóri og þýðandi ísl. útgáfunnar. 822 bls.
A7.3 Ritstjóri fræðibókar
Svartbók kommúnismans. Höfundar Stéphane Courtois o. fl. Ritstjóri og þýðandi ísl. útgáfunnar. 822 bls.
B. Kennsla
B1.1
Prófessor í stjórnmálafræði í stjórnmálafræðideild félagsvísindasviðs Háskóla Íslands
D. Þjónusta
D1. Skipulagning alþjóðlegrar vísindaráðstefnu
Ráðstefna í Reykjavík með Göran Lindblad um kommúnisma. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Stofnun stjórnmála og stjórnsýslu í Háskóla Íslands og Samtök um vestræna samvinnu. Fundarsal Þjóðminjasafnsins, 31. ágúst 2009.
D6. Fræðsluefni fyrir almenning
Erindi:
Lögmál auðs og eklu. Erindi. Menntaskólinn í Hamrahlíð 24. mars 2009.
Fátækt á Ísland 8742009. Erindi. Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins 12. mars 2009.
Framtíðin. Erindi. Samband ungra jafnaðarmanna 4. október 2009.
Greinar í erlendum blöðum:
Iceland Turns Hard Left. Wall Street Journal Europe 3. febrúar 2009.
Blaðagreinar:
Spilling í Brüssel. Fréttablaðið 9. janúar 2009.
Tvær borgir. Fréttablaðið 23. janúar 2009.
Ofbeldi og valdníðsla. Morgunblaðið 2. febrúar 2009.
Óframbærilegt fólk. Fréttablaðið 20. febrúar 2009.
Rammpólitískur og kolólöglegur. Fréttablaðið 6. mars 2009.
Bankastjórahneykslið. Fréttablaðið 21. mars 2009.
Mikil mistök. Morgunblaðið 24. mars 2009.
Siðlausa blaðamennskan var sannleikur. Morgunblaðið 30. ágúst 2009.
Hvað er í svartbók kommúnismans? Viðskiptablaðið 10. september 2009.
Blogggreinar:
Daglegar í pressan.is frá 8. október 2009.
Viðtöl og svör í fjölmiðlum:
Eftirlætisbókin. Sjónvarpsþátturinn Kiljan 17. mars 2009.
Morgunvaktin. Ríkisútvarpið 24. ágúst 2009.
Viðtal í sjónvarpi mbl.is 27. ágúst 2009.
The Architect of the Collapse? Forsíðuviðtal. Grapevine 31. ágúst 2009.
Harmageddon. X977 1. september 2009.
Þáttur Björns Bjarnasonar. ÍNN 2. september 2009.
Þáttur Höskulds Höskuldssonar. Útvarp Saga 2. september 2009.
Morgunvaktin. Ríkisútvarpið 9. september 2009.
Sprengisandur. 27. september 2009.
D7. Seta í nefndum eða stjórnum
Bankaráð Seðlabanka Íslands. Fram í mars 2009.
Umsjón alþjóðlegs rannsóknarverkefnis fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og RSE (Rannsóknamiðstöð um samfélags- og efnahagsmál) um skatta og velferð, kostað af fjármálaráðuneytinu o. fl. aðilum. Fram til 30. nóvember 2009.
Umsjón alþjóðlegs rannsóknarverkefnis um umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýtingu í samstarfi Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og þriggja stofnana í Brasilíu, þ. á m. Instituto Millenium í Rio de Janeiro. Hófst haustið 2008.
F. Almennt
Kynningarstarfsemi um Ísland, fiskveiði og fjármál, erlendis, m. a. með skrifum í erlend dagblöð og erindum.