Óframbærilegt fólk

johanna_sigurdardottir_official_portrait.jpgÍslands óhamingju verður allt að vopni. Á þessum örlagatímum eru forseti landsins og forsætisráðherra bersýnilega hvorugt starfi sínu vaxin. Eins og til forsetaembættisins var stofnað, skyldi þjóðhöfðinginn vera sameiningartákn, án ábyrgðar á stjórnarathöfnum og því jafnframt án valda. Fyrri forsetar virtu þetta. Enginn þeirra gekk gegn vilja Alþingis. Ólafur Ragnar Grímsson brá út af þeirri venju og synjaði fjölmiðlalögunum 2004 staðfestingar, en þau áttu að koma í veg fyrir, að einstakir auðjöfrar réðu öllum fjölmiðlum. Ólafur Ragnar var nátengdur Baugsfeðgum, sem helst tóku lögin til sín: Dóttir hans gegndi yfirmannsstarfi hjá Baugi, og kosningastjóri hans 1996 var forstjóri Baugsmiðils.

Átökin um fjölmiðlalögin 2004 mörkuðu tímamót. Eftir þetta töldu auðjöfrar sér alla vegi færa. Þeir eignuðust flesta fjölmiðla. Forsetinn gerðist klappstýra þeirra og veislustjóri. Allir vita, hvernig þeirri ferð lauk. En Ólafur Ragnar Grímsson kann ekki að skammast sín, heldur talar ógætilega á erlendum vettvangi. Kunnir framsóknarmenn halda því síðan fram opinberlega, að hann hafi beitt sér fyrir myndun minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í stað þess að leyfa stjórnmálaforingjum að reyna til þrautar myndun meirihlutastjórnar, eins og eðlilegt hefði verið. Sérstaklega hafi hann brýnt forystumenn Framsóknarflokksins til stuðnings við stjórnina. Ef rétt er, þá sýndi Ólafur Ragnar enn, að hann er ekki forseti þjóðarinnar allrar, heldur aðeins sumra vinstri manna að Baugsfeðgum ógleymdum.

Hinn nýi forsætisráðherra hlaut nýlega dóm fyrir valdníðslu. Hún hafði sem félagsmálaráðherra rekið mann úr trúnaðarstöðu vegna stjórnmálaskoðana hans. Sjálf gerði Jóhanna Sigurðardóttir að sérgrein sinni á árum áður að deila hart á ráðherra, ef fram kom einhver skýrsla eða álitsgerð um það, að þeir hefðu ekki þrætt lagabókstaf eða gætt meðalhófs. Nú virðist hún ekki hafa á öðru meiri áhuga en hrekja Davíð Oddsson seðlabankastjóra úr starfi, en hann er eini maðurinn í ábyrgðarstöðu á Íslandi, sem varaði við ofurvaldi auðjöfra og skuldasöfnun bankanna erlendis. Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra í hálft annað ár, áður en bankarnir hrundu. Hún bar fulla stjórnmálaábyrgð eins og aðrir ráðherrar. Hún hlustaði á viðvaranir Davíðs, en hafðist ekki að.

Eins og Einar K. Guðfinnsson bendir á, snýst seðlabankafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur ekki um stjórn peningamála, heldur brottrekstur Davíðs Oddssonar, án þess að hann hafi neitt til saka unnið. Við afgreiðslu seðlabankalaganna 2001 var Jóhanna þeirrar skoðunar eins og flestir aðrir, að tryggja yrði sjálfstæði bankans. Þess vegna vildi hún ekki, að forsætisráðherra réði seðlabankastjóra. Hún sagði þá: „Þetta getur varla þýtt annað á mæltu máli en að ef bankastjórinn fer ekki í einu og öllu að því sem forsætisráðherra segir þá eigi hann það á hættu að vera látinn fjúka. Eðlilegri stjórnsýsluhættir væri að bankaráðið réði sjálft einn bankastjóra sem ábyrgð bæri gagnvart bankaráði, sem gæti þá látið hann fara ef hann væri ekki starfinu vaxinn, frekar en að hann sé háður duttlungum og geðþóttaákvörðun ráðherra á hverjum tíma.“ Aumlegt er nú að sjá til hennar.

Fréttablaðið 20. febrúar 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband