Bankastjórahneykslið

crop_260x.jpgJóhanna Sigurðardóttir heldur því fram, að hún sé heiðarlegur stjórnmálamaður. Hún ætti því að vera sjálfri sér samkvæm. En þótt hún hefði fullyrt, að brýnt væri að ganga í Evrópusambandið, skipti hún um skoðun, strax og hún gat myndað stjórn með vinstri grænum. Þótt hún hefði sagt fyrr á árum, að seðlabankastjórar skyldu njóta sjálfstæðis, hóf hún forsætisráðherraferil sinn á því að reka Davíð Oddsson, sem einn ráðamanna varaði við bankahruninu, þar á meðal á ríkisstjórnarfundum með Jóhönnu. Og þótt Jóhanna hefði margsagt, að seðlabankastjóra yrði að ráða „faglega“, setti hún norskan Verkamannaflokksmann í embættið.

Setning Norðmannsins er sennilega stjórnarskrárbrot, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor bendir á. Í stjórnarskránni er bannað að skipa mann með erlendan ríkisborgararétt í embætti. Munur á setningu og skipun hefur minnkað stórlega hin síðari ár, eftir að æviráðning embættismanna var afnumin. Þótt lögspekingar bendi á, að hugsanlega megi setja erlenda ríkisborgara til bráðabirgða í embætti, þar sem þörf er sérkunnáttu og ekki völ á henni á Íslandi, á það ekki við hér. Þessi norski stjórnmálamaður býr ekki yfir neinni sérkunnáttu umfram marga íslenska ríkisborgara.

Öðru nær. Öðru nær! Maður þessi kveðst ekki muna, hvenær hann var beðinn um að taka að sér embættið. Sá, sem man þetta ekki, hefur varla andlega burði til að gegna embætti seðlabankastjóra. Svo virðist líka sem þessi maður hafi ekki næga þekkingu til starfsins. Á fundi í seðlabankanum á dögunum barst í tal cad-hlutfall fjármálastofnana (eiginfjárhlutfall samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins). Norðmaðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki, hvað cad-hlutfall er.

Kunnugir herma, að þessi fjallamaður sé taugaóstyrkur og ákvarðanafælinn. Eitt dæmi er, hvernig Straumur komst nýlega í þrot. Það fyrirtæki hafði sýnt lofsverða viðleitni til að bjarga sér út úr vandræðum hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu, og seðlabankanum var ekki um megn að liðsinna því. En bráðabirgðabankastjórinn þorði ekki að rétta hjálparhönd. Þrot Straums kann enn að rýra lánstraust Íslendinga erlendis, sem ekki var mikið fyrir, auk þess sem veruleg verðmæti fara í súginn.

Ef þessi norski stjórnmálamaður er ólöglega settur í embætti, eins og ýmis rök hníga að, kunna ýmsar embættisathafnir hans, sem íþyngja öðrum, að vera ólöglegar líka, til dæmis að stefna Straumi í þrot. Eflaust verður látið reyna á einhver slík mál fyrir dómstólum. Hugsanlega verður þá seðlabankinn (og um leið íslenskur almenningur) skaðabótaskyldur vegna afglapa þessa fjallamanns. Fyrsta verk hans var að halda einkafund í seðlabankanum með landa sínum, leiðtoga norska Verkamannaflokksins. Mun hann líka krefjast þess, að íslenska verði ekki lengur töluð á bankaráðsfundum?

Skiljanlegt er í ljósi aðstæðna, að Framsóknarflokkurinn stefni í vinstri stjórn. En hann átti að sýna stjórnarflokkunum, að taka yrði tillit til hans. Hinn fráleiti brottrekstur Davíðs Oddssonar og ólögleg ráðning mannsins af fjöllunum var kjörið tækifæri. En í seðlabankamálinu fundu stjórnarflokkarnir, að þeir þurftu hvergi að skeyta um framsóknarmenn. Frá þeim heyrist því miður aðeins dauft bergmál, ekki rómsterk rödd.

Fréttablaðið 21. mars 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband