Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.4.2010 | 12:42
Annar töfluhagfræðingur: Gauti B. Eggertsson
Ég hef minnst hér á töfluhagfræðina, sem hinn stórvitri ensk-bandaríski hagfræðingur Ronald Coase gagnrýnir: Hagfræðingur stendur við töflu, dregur upp línurit, sýnir þar hagkvæmustu stöðu mála og breytir með einu striki yfir töfluna ástandinu í það horf. Hann gleymir fólkinu, forsögu þess og reynslu, skuldbindingum, hagsmunum og tilfinningum.
Eitt besta dæmið um töfluhagfræði er krafa nokkurra íslenskra hagfræðinga um auðlindaskatt, sem þeir kalla að vísu í fegrunar skyni ýmist auðlindagjald, fyrningarleið eða veiðigjald, af því að þeir vita, að orðið skattur hefur ekki á sér geðfelldan blæ.
Hér hef ég gagnrýnt Jón Steinsson fyrir töfluhagfræði, en í dag sé ég, að Gauti Bergþóruson Eggertsson hefur tekið sér stöðu með honum. Gauti gefur á bloggi sínu sjávarútvegsráðherra falleinkunn fyrir að bjóða ekki upp makrílkvótann, heldur úthluta honum eftir veiðireynslu.
Hér skal ég í örstuttu máli skýra, hvers vegna þessir ungu hagfræðingar hafa rangt fyrir sér hagfræðilega. (Við skulum sleppa réttlætinu í bili.) Um rækilegri rök vísa ég í nýútkomna bók mína, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, þar sem er heill kafli um þetta mál.
Ástæðan til þess, að þeir Jón og Gauti hafa rangt fyrir sér hagfræðilega, er, að auðlindaskatturinn, sem þeir krefjast, er Pareto-óhagkvæmur. Með Pareto-hagkvæmum breytingum er átt við breytingar, sem eru þess eðlis, að hagur allra batnar eða að minnsta kosti sumra, án þess að hagur neins versni.
Ókeypis úthlutun framseljanlegs og varanlegs kvóta eftir veiðireynslu, eins og varð fyrir valinu á Íslandi, var Pareto-hagkvæm:
- Þeir útgerðarmenn, sem héldu kvótum sínum og keyptu sér viðbótarkvóta, græddu.
- Þeir útgerðarmenn, sem seldu kvóta sína og héldu í land, græddu.
- Almenningur græddi óbeint á blómlegri atvinnuvegi og meira fjármagni.
- Ríkið græddi talsvert á bættri afkomu útgerðarfyrirtækja.
Auðlindaskattur hefði hins vegar verið Pareto-óhagkvæmur:
- Þeir útgerðarmenn, sem hefðu getað greitt skattinn (keypt kvóta af ríkinu), hefðu hvorki grætt né töpuðu; þeir hefðu greitt til ríkisins sömu upphæðir og þeir höfðu áður eytt í fjárfestingar.
- Þeir útgerðarmenn, sem hefðu ekki getað greitt skattinn og þess vegna orðið að hætta veiðum, hefðu tapað. Fjárfestingar þeirra hefðu orðið einskis virði með einu pennastriki.
- Ríkið hefði grætt mjög mikið, að minnsta kosti til skamms tíma, á hinum nýja tekjustofni.
- Deila má um, hvort almenningur hefði grætt mikið eða lítið eða jafnvel tapað, því að það er ekki nauðsynlega almenningi í hag, að atvinnustjórnmálamenn þeir, sem fara með ríkisvaldið og næmastir eru fyrir kröfum háværra, fámennra hagsmunahópa, hreppi aukna tekjustofna. Viljum við auka vald þeirra?
Hér er kominn ljóslifandi gallinn á töfluhagfræði auðlindaskattsmanna. Þeir tóku ekki tillit til forsögu málsins, veiðireynslunnar, þeirra hagsmuna, sem myndast höfðu í rás tímans. Eflaust skýrir þetta, hvers vegna endurgjaldslaus úthlutun kvóta eftir veiðireynslu varð fyrir valinu.
Við þessi almennu hagfræðilegu rök gegn auðlindaskatti í sjávarútvegi má bæta því sjónarmiði í hinu einstaka dæmi af makrílstofninum, að veiðireynsla hafði einmitt myndast síðustu þrjú ár. Útgerðarmenn höfðu haft forgöngu um að hefja veiðar úr stofninum.
Þetta er einmitt einn gallinn enn á kenningunni um sérstakan skatt á auðlindir (þótt hann geti ef til vill einhvers staðar átt við, til dæmis ef skyndilega finnst gull í Vatnajökli eða olía undan ströndum): Með slíkum auðlindaskatti dregur úr hvatningunni til nýsköpunar til leitarinnar að nýjum auðlindum. Menn ryðja ekki brautina, nema þeir njóti þess sjálfir.
2.4.2010 | 15:22
Jón Steinsson við sama heygarðshornið
Einn virtasti og vitrasti hagfræðingur tuttugustu aldar, Ronald Coase, sem ég hafði raunar þá ánægju að hitta eitt sinn á alþjóðlegri ráðstefnu, varaði við töfluhagfræði. Hún er í því fólgin, að hagfræðingur stendur við töflu og dregur upp línurit. Þar sýnir hann og sannar, hvað sé hagkvæmt, og færir síðan ástandið í það horf með einu striki. En þetta er oft óraunhæft. Úti í veruleikanum gegnir enginn hlutverki þessa hagfræðings við töfluna, síst af öllu ríkið, sem er vettvangur flókinna og lítt fyrirsjáanlegra átaka og málamiðlana, ekki skynsamur eða upplýstur gerandi.
Coase brýnir hið sama fyrir okkur og Adam Smith tvö hundruð árum áður, að í hagkerfinu eru að verki menn af holdi og blóði, menn með ólíka hagsmuni og misjafnar og oft mjög ófullkomnar upplýsingar. Galdurinn er að fella sérhagsmuni þeirra og almannahag saman. Þetta tekst oft, en ekki alltaf, úti á hinum frjálsa markaði. Menn, sem ætluðu sér aðeins að græða, gera öðrum gagn óviljandi með því að bjóða fram betri eða ódýrari vöru og þjónustu en keppinautar þeirra.
Ég rakst í dag á nýtt dæmi um töfluhagfræði. Hinn ungi og hrokafulli hagfræðingur Jón Steinsson skrifar á Pressunni: Auðlindagjöld eru hagkvæmasta tekjulindin sem ríkið á völ á.
Þetta er gömul hugmynd, sem Karl Marx og Henry George trúðu báðir á. Georgisminn, sem naut talsverðs fylgis á Íslandi á öndverðri tuttugustu öld, var í rauninni krafa um auðlindaskatt (sem Jón kýs að kalla auðlindagjald í fegrunar skyni) á jarðnæði. Algengast var á fyrri tíð að kalla slíkan skatt landskatt, og var Jónas frá Hriflu um skeið talsmaður hans, en tímaritið Réttur var upphaflega stofnað til að berjast fyrir slíkum skatti, þótt síðar lenti það í höndum marxista. George taldi, að menn ættu ekki skilið þá rentu, eins og það er oftast nefnt, sem stafaði af því, að ein jörð seldist vegna legu sinnar eða annarra kosta á hærra verði en önnur. Gera ætti þessa rentu upptæka með landskattinum, sem hefði þann kost, að hann raskaði ekki verðmætasköpun einstaklinga.
Margvísleg rök má leiða gegn georgisma (þótt ég sé ekki þeirrar skoðunar, að hann sé alls staðar fráleitur): 1) Erfitt er að greina á milli verðhækkunar lands af völdum náttúrunnar annars vegar og mannanna hins vegar. 2) Menn hafa þegar greitt fullt verð fyrir jarðir sínar, svo að ósanngjarnt er að leggja á þá aukaskatt vegna sérstakra landkosta. 3) Ef skattleggja á allt það, sem menn eiga ekki skilið og hafa hlotið fyrirhafnarlaust, þá verður líka að skattleggja sérstaka hæfileika, til dæmis námsgáfur og líkamsfegurð.
Sum þessara raka eiga við um auðlindaskatt í íslenskum sjávarútvegi. Til dæmis hafa áreiðanlega rösk 90% kvótanna skipt um hendur, frá því að kvótakerfi var tekið upp í botnfiskveiðum í ársbyrjun 1984 (en áður hafði það verið notað í nokkur ár í veiðum á uppsjávarfiski). Útgerðarmenn hafa því greitt fullt verð fyrir kvóta sína. Og hvers vegna eiga góðir námsmenn eins og Jón Steinsson að fá að hreiðra um sig í þægilegum stöðum (í krafti hæfileika, sem náttúran hefur úthlutað þeim), á meðan aðrir telja aðeins sultardropana úr nefinu?
En fleiri rök eiga hér við, eins og ég bendi á í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Hér get ég þeirra aðeins stuttlega. 1) Arðurinn af fiskistofnunum er líklegri til að gagnast þjóðinni vel í höndum útgerðarmanna en atvinnustjórnmálamanna. 2) Útgerðarmenn nýta auðlindina á annan og betri hátt, ef þeir en ekki aðeins ríkið hafa beinan hag af því, að hún skili hámarksarði til langs tíma litið. 3) Ókeypis úthlutun kvóta í byrjun var Pareto-hagkvæm (enginn tapaði á henni) ólíkt uppboði á kvótum eða auðlindaskatti. Ef minnka á sókn í fiskistofna niður í það, sem hagkvæmast getur talist, þá verður að gera það í samstarfi við þá, sem hagsmuni hafa haft af slíkri sókn.
Galdurinn við kvótakerfið er, að sérhagsmunir og almannahagur falla þar saman. Auðlindin skilar mestum arði, ef hún er í höndum útgerðarmanna, ekki atvinnustjórnmálamanna.
Sú kenning Jóns Steinssonar er því að minnsta kosti hæpin, ef hún er ekki alröng, að auðlindagjöld séu hagkvæmasta tekjulindin sem ríkið á völ á. Hún er dæmi um töfluhagfræði: Jón Steinsson gleymir því, að inni á Alþingi og úti á Austurvelli og raunar líka úti á rúmsjó eru að verki menn af holdi og blóði, en ekki aðeins tölur í reikningsdæmi eða deplar í línuriti.
1.4.2010 | 22:38
Fleygustu ummæli Hrunsins
Ég hef árum saman stytt mér stundir við að skrifa hjá mér snjöll orð og fleyg úr sögu og samtíð. Ég velti um þessar mundir fyrir mér, hver séu frægustu orðin um bankahrunið íslenska 2008, aðdraganda þess og eftirmál. Ef til vill er of snemmt að meta það, en hér eru nokkur (raðað í stafrófsröð eftir höfundum):
- Þjóð sem lætur völdin í hendurnar á þjófum og glæpamönnum, hlýtur að gera ráð fyrir að einhverju verði stolið frá henni. (Bragi Ólafsson, Hænuungarnir, 2010.)
- Útrásarorðið er slíkt töframerki, að jafnvel þegar menn virðast gera innrás í opinber fyrirtæki almennings, þá er innrásin kölluð útrás. (Davíð Oddsson um REI-málið á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007.)
- Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn. (Davíð Oddsson við bankastjóra Landsbankans á einkafundi í Seðlabankanum snemma árs 2008.)
- Við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna. (Davíð Oddsson um Icesave-málið í Kastljósi Sjónvarpsins 7. október 2008.)
- Guð blessi Ísland. (Geir H. Haarde í lok ávarps síns til þjóðarinnar 6. október 2008.)
- May be I should have [done that] (Geir H. Haarde í Hardtalk Breska ríkisútvarpsins 12. febrúar 2009 um, hvort hann hefði ekki átt að mótmæla kröftuglegar yfirgangi breskra ráðamanna.)
- Ég á þetta, ég má þetta. (Hannes Smárason haustið 2005 um borð í einni flugvél Flugleiða, þegar gerð var athugasemd við framkomu hans.)
- Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki þarna er efinn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Borgarnesi 9. febrúar 2003 um rannsókn á Baugi Group og fleiri fyrirtækjum.)
- You aint seen nothing yet. (Ólafur Ragnar Grímsson við opnun bækistöðvar Avion Group í Gatwick 24. febrúar 2005.)
- Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir. Taktu slaginn með okkur. (Róbert Marshall í opnu bréfi til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Morgunblaðinu 18. september 2006.)
- Tær snilld. (Sigurjón Þ. Árnason í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, 14. febrúar 2007 um Icesave-reikninga í Bretlandi.)
31.3.2010 | 12:23
Grískur harmleikur
Sú hugsun sækir sífellt fastar að mér, að íslenska bankahruninu megi helst líkja við grískan harmleik, þar sem engu varð um þokað og allir voru leiksoppar örlaganna þrátt fyrir góðan ásetning flestra. Hvað sem því líður, má sjá, að tveir aðsópsmiklir þátttakendur í þjóðlífinu misserin fyrir hrun áttu sér hliðstæður í fornum, grískum sögum.
Davíð Oddsson var eins og Guðmundur Andri Thorsson benti raunar einu sinni á Kassandra, sem var dæmd til að sjá allt fyrir, en enginn trúði. Árin 20032004 reyndi hann að veita auðjöfrunum viðnám, en fjölmiðlar (flestir í eigu auðjöfranna), álitsgjafar (sumir á launum hjá auðjöfrunum), stjórnmálamenn (sumir á vænum styrkjum frá auðjöfrunum) og jafnvel dómarar lögðust á hina sveifina og réðu úrslitum. Og árin 20052009, á meðan Davíð var seðlabankastjóri, varaði hann hvað eftir annað við útþenslu bankakerfisins og óeðlilegum ítökum auðjöfranna, þótt hann yrði stöðu sinnar vegna að tala varlegar opinberlega en á einkafundum, en þá átti hann til dæmis sex um yfirvofandi hættur með Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur árið fyrir hrun.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vitaskuld Pandóra. Hún sagði raunar sjálf hlæjandi í Kastljósi Sjónvarpsins 30. desember 2002: Nú verð ég að fara að opna mitt pólitíska Pandórubox. Líklega kunni hún ekki söguna um Pandóru, sem opnaði af forvitni kistu eina (ekki box, eins og Ingibjörg Sólrún sagði á vondri íslensku) þrátt fyrir bann við því. Út úr kistunni stukku margvíslegar plágur, sem herjuðu síðan á mannkyn. Þetta gerðist svo sannarlega á Íslandi. Ingibjörg Sólrún flutti sína Borgarnesræðu vorið 2003 og dylgjaði um, að lögreglurannsókn á auðjöfrunum væri af óeðlilegum hvötum runnin. Þegar hún settist síðan í ríkisstjórn, daufheyrðist hún við viðvörunum Davíðs og átti það áhugamál eitt eftir hrun að reyna að hrekja hann úr stöðu seðlabankastjóra.
Ein versta plágan, sem stökk upp úr kistu hinnar íslensku Pandóru, var skefjalaus auðmannadýrkun. Baugsfeðgar og aðrir auðmenn gera mikið gagn (eins og ég þreyttist seint á að segja á fyrri tíð), þegar þeir keppa sín í milli um að fullnægja þörfum almennings vel og ódýrt. En góðir þjónar geta verið vondir húsbændur. Þótt kapítalisminn þurfi á röskum kapítalistum að halda, verður að halda þeim eins og stjórnmálamönnum í skefjum.
Einu má þó ekki gleyma. Pandóra Sólrún opnaði í fákænsku sinni kistuna, og upp stukku plágurnar, ruku í allar áttir og herjuðu á fólk. En samkvæmt grísku sögunni varð vonin eftir á kistubotninum. Er eftir það sagt, að ekki sé öll von úti.
Íslendingar geta vissulega vonast eftir betri tíð. Þjóðin er vel menntuð og snögg að nýta sér ný tækifæri, og þótt Ísland sé ekki frjósamt land eða gjöfult, nægja auðlindir þess ríflega þeim þrjú hundruð þúsundum, sem það byggja. Ekki er öll von úti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook
30.3.2010 | 10:03
Fyrningarleið = Auðlindaskattur
Hugmyndin um fyrningarleið í sjávarútvegi er ekkert annað en gamla krafan um auðlindaskatt. Sú krafa mæltist ekki vel fyrir á sínum tíma, því að Íslendingar eru flestir ekki hrifnir af sköttum, svo að fylgismenn hennar ákváðu að kalla hana fyrningarleið, eins og Eiríkur rauði ákvað að skíra hinn ísi klædda granna í vestri Grænland til að laða fólk þangað.
Tvenn helstu rökin fyrir auðlindaskatti í sjávarútvegi eru, að slíkur skattur sé réttlátur, þar eð þjóðin eigi að njóta arðsins af auðlindinni, en ekki útgerðarmenn, og að hann sé hagkvæmur, þar eð hann trufli ekki verðmætasköpun ólíkt öðrum sköttum.
Fyrri rökin eru ógild af einni einfaldri ástæðu. Það er ekki þjóðin, sem nýtur arðsins af auðlindinni, ef ríkið gerir hana að nýjum tekjustofni (til dæmis með því að selja þá kvóta, sem eiga að fyrnast, eins og ætlunin er). Það eru stjórnmálamennirnir, sem njóta hennar. Þeir fá nýjan tekjustofn til að kaupa sér atkvæði. Gleymum því aldrei, að ríkið er ekki við: Það eru þeir.
Sannleikurinn er sá, eins og reynsla margra annarra þjóða sýnir, að þjóðin nýtur best arðsins af auðlindinni með því, að útgerðarmennirnir fái að halda kvótunum og versla með þá sín í milli, því að þá verður til blómlegur sjávarútvegur, sem skapar fjármagn og skilar vænum skatttekjum.
Seinni rökin eru ógild af mörgum ástæðum. Það er rangt, þótt sumir hagfræðingar (til dæmis Jón Steinsson) hafi vissulega haldið því fram, að auðlindaskattar trufli ekki verðmætasköpun. Fer ég rækilega yfir það mál í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.
Hér ætla ég aðeins að benda á tvö einföld atriði. 1) Hvort skyldi arðurinn af auðlindinni vaxa hraðar til langs tíma litið í höndum 100200 einstaklinga úti í atvinnulífinu eða 63 atvinnustjórnmálamanna á þingi? 2) Ef útvegsmenn fá ekki að njóta arðsins af auðlindinni, þá er numinn burt sá hagur, sem þeir hafa af því, að hún beri sem mestan ávöxt til sem lengst tíma. (Hefur prófessor Ronald Johnson gert skilmerkilega grein fyrir þessu sjónarmiði í fræðilegum ritgerðum.)
Ein meginástæðan til þess, að kvótakerfið íslenska hefur gengið betur en önnur kerfi, er, að hér hefur verið gott samstarf stjórnvalda, almennings og útvegsmanna. Einkahagur útvegsmanna hefur farið saman við almannahag.
Eins og skáldið kvað:
Náttúran er vor milda móðir,
sem dýrar gjafir gaf oss.
Ríkið er vor Stóri bróðir,
sem tók þær allar af oss.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook
27.3.2010 | 22:31
Frelsi og lýðræði eru mikilvæg verðmæti
Stundum er sagt, að frelsið sé eins og andrúmsloftið: Við verðum þess ekki vör, fyrr en við erum svipt því. Við göngum að því vísu. Mér datt þetta í hug, þegar ég las tvær fréttir í dag. Önnur var um það, að Chavez, lýðræðislega kjörinn einræðisherra Venesúela, hefði hneppt andstæðing sinn, Guillermo Zuloaga, í fangelsi, eftir að sá leyfði sér að gagnrýna hann í sjónvarpsviðtali. Hin var, að kommúnistastjórnin í Kína, sem hefur ekkert lýðræðislegt umboð (ólíkt Chavez), ætlaði að taka upp ritskoðun á google, eftir að netmiðillinn sjálfur hætti henni.
Við Íslendingar njótum sem betur fer frelsis. Fyrir okkur eru þetta fréttir úr fjarlægum löndum (þótt svo vilji raunar til, að ég kannast við Guillermo Zuloaga og er góður vinur fjölskyldu hans). Og við búum líka við rótgróna lýðræðishefð. Þessu megum við ekki gleyma þrátt fyrir hremmingar síðustu ára. Lýðræði er að vísu ekki hugsjón í sama skilningi og frelsið, því að skoðun verður ekki betri við það, að fleiri hafi hana. En það er engu að síður mikilvægt, því að betra er að telja nef en höggva hálsa. Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sýndu lýðræðinu lítilsvirðingu á dögunum með því að fara ekki á kjörstað og nota atkvæðisrétt sinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook
24.3.2010 | 17:17
Skattamál eru skemmtileg!
Ég hafði mikla ánægju af þeirri rannsókn á sköttum og velferð, sem ég sá um fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands 20072009, og lærði sjálfur margt af henni, en segja má, að nýútkomin bók mín, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og velferð, sé lokahnykkur hennar.
Ég sannfærðist um það í þessari rannsókn, að skattar skipta mjög miklu máli um hagsæld einstakra þjóða. Tökum til dæmis þá staðreynd, að skatttekjur hins opinbera á mann eru svipaðar í Svíþjóð og Sviss, um og yfir eitt þúsund Bandaríkjadalir, en skattheimtan er nær tvisvar sinnum meiri í Svíþjóð, nær 60%, en í Sviss, rösk 30%. Þetta er eitt besta dæmið, sem ég kann um svokölluð Laffer-áhrif: Skattstofnar eru breytilegir. Þeir stækka, þegar skattar lækka, og það vinnur á móti hugsanlegu tekjutapi ríkisins af skattalækkunum. Ef skattar eru lágir, þá vinna menn til dæmis meira, því að þá njóta þeir sjálfir afraksturs viðbótarvinnu sinnar.
Að sama skapi minnka skattstofnar, þegar skattar hækka, og það vinnur á móti hugsanlegum tekjuauka ríkisins af skattahækkunum. (Þetta á núverandi ríkisstjórn á Íslandi eftir að reka sig á.)
Í bók minni fer ég yfir ýmis íslensk dæmi um Laffer-áhrifin. Tvö eru skýrust. Annað er af leigutekjum. Þær voru skattlagðar eins og atvinnutekjur fyrir 1997. Má gera ráð fyrir, að skattur af þeim hafi verið um 47% (þar sem sennilega greiddu þeir, sem leigðu út húsnæði, ekki aðeins venjulegan tekjuskatt, heldur líka hátekjuskatt af þessum viðbótartekjum sínum). Skatturinn lækkaði niður í 10%, þegar upp var tekinn fjármagnstekjuskattur.
En skatttekjur ríkisins lækkuðu ekki að sama skapi, því að framboð leiguhúsnæðis stórjókst við það, að skattur af leigutekjum lækkaði, auk þess sem skattskil bötnuðu. Ég reiknaði út í bók minni, að sennilega voru skatttekjur ríkisins af leigutekjum einstaklinga orðnar hinar sömu að raungildi 2004 og þær höfðu verið 1991.
Lítil sneið af stórri köku getur verið jafnstór og stór sneið af lítilli köku. 10% skattur árið 2004 skilaði ríkinu sömu tekjum og 4050% skattur gerði árið 1991.
Hitt íslenska dæmið er af skattlausa árinu 1987. Menn greiddu ekki skatta af vinnu sinni það ár. Afleiðingin var, að þeir unnu talsvert meira, eins og dr. Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor og fleiri hafa sýnt fram á (sérstaklega þeir, sem gátu aukið við sig vinnu til skamms tíma, til dæmis konur og ungt fólk). Framboð vinnu jókst.
Ég skoða sérstaklega í bók minni það sjónarmið, hvort auknar skatttekjur ríkisins þrátt fyrir skattalækkanir hafi stafað af lánsfjárbólunni, sem sprakk svo eftirminnilega haustið 2008. Svarið er neitandi til 2004. Til þess tíma áttu hinar auknu tekjur sér eðlilegar ástæður. Þetta sést meðal annars með því að skoða, hvenær lánsfjárbólan verður: Það er um og eftir 2004. Í bók minni er línurit, þar sem þetta sést mjög vel.
Hið síðastnefnda rímar við það, sem ég og margir aðrir hafa sagt: Hæfilegt jafnvægi raskaðist í þjóðlífinu íslenska um og eftir 2004. Skuldakóngar með fjölmiðlaveldi á bak við sig tóku völdin. Kapítalistarnir unnu gegn kapítalismanum. (Goethe yrkir um þetta fyrirbæri í frægu kvæði, Der Zauberlehrling eða Lærisveinn galdrameistarans, og margir muna úr æsku sinni eftir atriðinu í Fantasíu Walts Disneys, þar sem Mikki mús gegnir hlutverki lærisveinsins.)
23.3.2010 | 17:36
Lækkuðu skattar eða hækkuðu 1991–2004?
Furðulegt er, þegar menn þurfa að þræta um það, hvort himinninn sé blár eða rauður, þegar allir sjá, að hann er blár. En ég þurfti misserum saman að kýta við Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, um það, hvort ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hefðu hækkað skatta, þótt þær hefðu keppst við að lækka skatta (til dæmis tekjuskatt á einstaklinga úr um 42% í um 36%, þegar útsvar er tekið með, tekjuskatt á fyrirtæki úr 45% í 18% og svo framvegis).
Hvernig gat Stefán fullyrt, eins og hann gerði, að Davíð væri einhver mesti skattakóngur sögunnar? Ég skýri talnabrellur Stefáns rækilega í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, en hér skal ég rekja málið stuttlega.
Þrennt gerðist.
Skattstofnar stækkuðu í fyrsta lagi, vegna þess að menn töldu betur fram en áður sökum lægri skatta og juku einnig framboð á vinnu sinni og öðrum gæðum. Skýrasta dæmið voru leigutekjur. Skattur af þeim lækkaði úr um 47% (sem var tekjuskattur af atvinnutekjum auk hátekjuskatts, sem ætla má, að flestir, sem leigðu út frá sér, hafi greitt af slíkum viðbótartekjum) í 10% (sem var hinn nýi fjármagnstekjuskattur). En framboð jókst fyrir vikið á leiguhúsnæði, og menn töldu betur fram en áður, svo að skatttekjur ríkisins urðu eftir nokkur ár hinar sömu af 10% og þær höfðu verið af 47%. (Þetta er gott dæmi um Laffer-áhrifin svonefndu í skattlagningu.)
Í öðru lagi breikkuðu sumir skattstofnar sökum breyttra reglna, eins og Stefán klifaði á og gerði að aðalatriði. Til dæmis hækkuðu skattleysismörk ekki alveg með verðlagi, svo að menn greiddu hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta en áður. Ég bendi hins vegar á í bók minni, að Stefán reiknaði þetta rangt, því að hann tók ekki tillit til skattfrelsis lífeyrissparnaðar, sem vann á móti hinni raunverulegu lækkun skattleysismarka. Enn fremur sýni ég þar fram á, að tekjuauki ríkisins vegna lækkunar skattleysismarka var örlítill hluti af tekjuauka ríkisins í heild. Sú skattahækkun, sem stafaði af þessu, var óveruleg.
Í þriðja lagi olli góðærið því, að tap fyrirtækja snerist í gróða, svo að þau greiddu skatta, sem þau höfðu sum ekki áður gert; menn, sem áður höfðu haft tekjur undir skattleysismörkum, fóru upp fyrir þau (sem betur fer) og tóku að greiða skatta; ríkið gat sparað sér vaxtabætur og ýmsar tekjutengdar bætur, sem skruppu saman vegna bættrar afkomu launafólks; tekjur ríkisins af vörugjöldum hækkuðu vegna þess, að meira var keypt af vöru til landsins; og svo framvegis.
Þetta má orða svo, að inni í skattkerfi okkar er til sjálfvirk sveiflujöfnun: Meira (hærra hlutfall) af tekjum okkar og útgjöldum er skattlagt í góðæri, minna í kreppu. Þetta er æskilegt og eðlilegt.
Afleiðingin af þessu öllu var, að skatttekjur ríkisins stórjukust í góðærinu 19962004, ekki aðeins í krónum, heldur líka sem hlutfall af landsframleiðslu.
En takið eftir, að stjórnvöld réðu í rauninni ekki nema óbeint neinu um fyrstu og þriðju ástæðuna til hærra skatttekna. Tekjuaukinn þá var miklu frekar afleiðing af kerfisbreytingum og almennum aðstæðum. Hin mikla firra margra félagshyggjumanna er að halda, að stjórnvöld geti skammtað sér tekjur. Það geta þær ekki nema að litlu leyti. Þau ráða í rauninni furðulitlu um skatttekjur. Þær tekjur stjórnast frekar af almennum lögmálum.
Ég bendi hins vegar í bók minni á, að stjórnvöld geta ráðið meiru um útgjöldin. Þau jukust ekki í tíð Davíðs Oddssonar, þótt auðvitað hefði ég viljað eins og aðrir frjálslyndir menn, að þau hefðu minnkað enn meira en raun varð á.
22.3.2010 | 17:02
Síbylja Stefáns Ólafssonar

Stefán sagði til dæmis í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu 2007 (en það er aðgengilegt á Netinu), að kaupmáttur hátekjufólks á Íslandi hefði tímabilið 19952004 vaxið hraðar en lágtekjufólks, og ylli skattastefna stjórnvalda því ekki síður en markaðsöflin, því að skattálagning á fjármagnstekjur var færð í 10% á meðan greiða þurfti af launatekjum yfir skattleysismörkum hátt í 40%.
Takið eftir, að Stefán stillti hér saman tveimur tölum, 10% og (hátt í) 40%, eins og þær væru sambærilegar. Hverjum finnst eðlilegt eða réttlátt, að fjármagnseigandi greiði 10% af tekjum sínum og venjulegur launþegi (hátt í) 40%?
En þessar tölur eru ekki sambærilegar. Þær eru hvor síns eðlis. Á þessu tímabili greiddu fjármagnseigendur í raun talsvert meira en 10%, ef þeir áttu til dæmis og ráku fyrirtæki, eins og algengast var. Fyrst greiddu þeir 18% tekjuskatt af hreinum hagnaði fyrirtækisins. Þá stóðu eftir 82% af hagnaðinum. Af honum greiddu þeir 10% tekjuskatt, með öðrum orðum 8,2% af hreinum hagnaði fyrirtækisins. Þeir greiddu því samtals 26,2% skatt, 18+8,2. (Þetta viðurkenndi jafnvel skoðanabróðir Stefáns, Indriði H. Þorláksson, í annarri grein í sama tímariti.)
Þetta er ekki allt. Menn, sem starfa í eigin fyrirtækjum og taka þaðan út arð, verða einnig að reikna sér endurgjald og greiða af því tekjuskatt. Til dæmis bar háskólamenntuðum viðskiptafræðingi að reikna sér 517 þúsund kr. mánaðartekjur árið 2006 samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda. Sá maður greiddi því í raun skatt af tekjum sínum í þremur þrepum: 0% tekjuskatt af fyrstu 90 þúsund krónunum, 36% tekjuskatt af næstu 427 þúsund krónunum og 26,2 fjármagnstekjuskatt af arðinum, sem hann greiddi sér síðan út.
Ef arður fyrirtækisins fyrir skatt var ein milljón króna, þá greiddi hann um 28% í þessar þrjár tegundir skatta.
En það hljómar óneitanlega betur í áróðri, sem ætlaður er óánægðu Samfylkingarfólki, að nefna töluna 10% en 28% um skattgreiðslur fjármagnseigenda.
Stefán Ólafsson lét þess líka ógetið, þegar hann stillti saman tölum sínum, 10% og (hátt í) 40%, að seinni talan, um skattgreiðslur launþega, er í raun alltaf lægri. Ef tekjuskattur ofan skattleysismarka var 36% og skattleysismörk voru 90 þúsund krónur á mánuði, þá greiddi launþegi með 90 þúsund krónur 0% tekjuskatt. Maður með 180 þúsund krónur greiddi 18% tekjuskatt (0% af fyrstu 90 þúsundunum og 36% af næstu 90 þúsundunum). Maður með 270 þúsund krónur greiddi um 26% tekjuskatt (0% af fyrstu 90 þúsundunum og 36% af næstu 180 þúsundunum).
Það var með öðrum orðum ekki fyrr en launþeginn var kominn með laun yfir 300 þúsund krónur, sem hann nálgaðist skatthlutfall fjármagnseigandans.
Allt þetta er einfalt að reikna. Hvers vegna gerði Stefán Ólafsson það ekki, heldur stillti upp töllunum 10% og (hátt í) 40%? Af því að hann vildi sýna fram á óréttlæti, þar sem ekkert óréttlæti var.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook
20.3.2010 | 17:51
Reikningsskekkja Stefáns Ólafssonar
Í nýútkominni bók minni, Áhrifum skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, bendi ég á reikningsskekkju í áróðri Stefáns Ólafssonar um tekjuskiptingu, eins og ég gat um hér í bloggi mínu 14. mars. Í bókinni bendi ég líka á aðra reikningsskekkju í áróðri Stefáns, nú um skattleysismörk, og hefur sú skekkja farið enn hljóðar.
Stefán hélt því fram í fjölda greina og fyrirlestra árin 2006 og 2007 (í aðdraganda þingkosninga), að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefði beitt brellum, eins og hann orðaði það, þegar hún hreykti sér af að hafa lækkað skatta. Hún hefði ekki hækkað skattleysismörk með verðlagi, svo að í raun hefði skattstofninn fyrir tekjuskatt einstaklinga breikkað, menn greitt skatt af miklu stærri hluta tekna sinna en ella. Þannig hefði stjórnin hækkað skatta á laun.
Einkennilegt var í fyrsta lagi, að Stefán skyldi kvarta undan of lágum skattleysismörkum á Íslandi. Þau voru miklu hærri hér en í grannlöndunum. Til dæmis voru þau árið 2006 eins og ég bendi á í bók minni 948.647 kr. á Íslandi, 450.980 kr. í Danmörku, 110.249 kr. í Svíþjóð og 644.266 kr. á Bretlandi.
Í öðru lagi reiknaði Stefán ekki inn í tölurnar um skattleysismörk skattfrelsi lífeyrisiðgjalda og séreignarsparnaðar í lífeyrissjóði, sem komið var á í tveimur áföngum, 1995 og 1999. Þetta stuðlaði að hækkun raunverulegra skattleysismarka, eins og dr. Sveinn Agnarsson hagfræðingur hefur bent á og reiknað út.
Í bók minni birti ég töflu um þróun raunverulegra skattleysismarka á Íslandi á sambærilegu verðlagi. Þar sést, að skattleysismörk voru raunar lækkuð mest í fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar 19891990. Stefán minntist hvergi á það.
Einnig kemur í ljós, að raunveruleg skattleysismörk lækkuðu óverulega tímabilið 19952004, sem Stefán miðaði oftast við í gagnrýni sinni. Þessi mörk voru 1.124.600 kr. árið 1995 (á verðlagi ársins 2007) og 1.084.500 kr. (á sama verðlagi) árið 2004.
Þetta er 3.300 kr. lækkun raunverulegra skattleysismarka á mánuði frá 1995 til 2004. Það er allt og sumt! Augljóst er, að þetta hefur ekki ráðið neinum úrslitum. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga hefðu í mesta lagi orðið hátt í einum milljarði króna hærri, hefðu skattleysismörk verið nákvæmlega hin sömu að raungildi 2004 og þau voru 1995.
Ef miðað var við tímabilið 19952007, þá höfðu skattleysismörk raunar hækkað, í 1.174.000 kr. árið 2007 (á verðlagi ársins 2007).
Í gagnrýni sinni nefndi Stefán Ólafsson hins vegar miklu hærri tölur, því að honum láðist að reikna með skattfrelsi lífeyrisiðgjalda og séreignarsparnaðar í lífeyrissjóði.
(Og jafnvel þótt Stefán hefði reiknað þróun skattleysismarkanna 19952004 út rétt, hefði lækkun þeirra ekki skýrt nema að mjög litlu leyti auknar skatttekjur ríkisins.)
En sömu fjölmiðlarnir og jafnan fluttu flennifréttir af nýjustu niðurstöðum Stefáns Ólafssonar um aukinn ójöfnuð á Íslandi og skattahækkunarbrellur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, munu eflaust þegja um þessa ábendingu úr bók minni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook