Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.5.2010 | 12:45
Framferði Álfheiðar Ingadóttur
Ég bloggaði hér um það í gær, að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar væru lítilla sanda og lítilla sæva. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hleypur til dæmis frá tilmælum sínum við Láru V. Júlíusdóttur, formann bankaráðs Seðlabankans, um launahækkun seðlabankastjóra, þegar hún skynjar andstöðu við þessi tilmæli. Hún skilur gamla vinkonu sína, Láru, eftir eina uppi á skeri.
Annað dæmi, sem ég nefndi, var, að Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra vildi flæma Steingrím Ara Arason, forstöðumann Sjúkratrygginga, úr starfi. Fyrsta skrefið átti að vera að veita honum áminningu fyrir að hafa borið greiðslutilhögun ákveðinna bóta undir ríkisendurskoðanda.
Er það alsiða, eins og síðan hefur komið fram, að forstöðumenn ríkisstofnana beri ýmis slík atriði undir ríkisendurskoðun, séu þeir samviskusamir og varfærnir embættismenn (eins og ég veit, að Steingrímur Ari er). Taldi ríkisendurskoðandi fráleitt, að þetta mætti ekki.
Ráðherrann andmælti af talsverðum þótta bloggi mínu hér í gær. Kvaðst hún í einu og öllu hafa farið eftir réttum stjórnsýslureglum, þegar hún tilkynnti Steingrími Ara bréflega, að hún hygðist áminna hann, en hann hefði nokkurra daga frest til andmæla.
Ég get ekki svarað ráðherranum betur en Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem hefur mikla reynslu af svipuðum málum. Hún segir um andmælareglu stjórnsýslulaga í tilefni máls Steingríms Ara:
Lagaákvæðið er auðskilið og ljóst. Ákvörðun, t.d. ákvörðun um áminningu, má ekki taka fyrr en búið er að veita þeim andmælarétt, sem hugsanleg ákvörðun snýr að. Réttur til andmæla er því ekki einvörðungu góð stjórnsýsla heldur er hann lögboðinn skv. stjórnsýslulögum.
Fyrir mörgum árum, meðan ég var lögfræðingur í ráðuneyti, lærði ég að í andmælaréttarbréfi verður orðalag að verða hlutlaust og með engum hætti má gefa til kynna í slíku bréfi að ákvörðun um áminningu liggi þegar fyrir. Það vekur því athygli að í andmælaréttarbréfi ráðherra eru engir fyrirvarar. Þvert á móti. Boðskapur ráðherra er skýr. Hann er búinn að taka ákvörðun. Fyrirsögn bréfsins er: Tilkynning um fyrirhugaða áminningu. Strax í byrjun bréfsins segir að ráðgert sé að áminna. Andmælaréttarbréf ráðherrans virðist því þjóna þeim tilgangi einum að geta sagt, eftirá, að andmælaréttar hafi verið gætt. Slíkur andmælaréttur er lögleysa og um leið afleit stjórnsýsla.
Það vekur furðu að lögleysa af þessu tagi skuli viðhöfð af hálfu ráðherra ekki síst þegar tilefni aðgerða ráðherrans er sagt vera meint brot á góðum starfsháttum í opinberu starfi.
En úr því að ég er með ráðherrann á línunni, ef svo má segja, langar mig til að spyrja hana þriggja spurninga:
- Hvernig finnst þér sem gömlum baráttumanni gegn Evrópusambandinu að sitja í ríkisstjórn, sem sótt hefur um aðild að Evrópusambandinu?
- Hvernig finnst þér sem ötulum stuðningsmanni þjóðlegrar reisnar að sitja í ríkisstjórn, sem etur úr lófa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lætur sér lynda, að hann sé hér handrukkari fyrir Breta?
- Hvernig finnst þér sem áköfum gagnrýnanda auðmanna að sitja í ríkisstjórn, sem vildi greiða skuldir óreiðumanna erlendis, án þess að henni bæri nein lagaskylda til þess?
Á gamalli og merkilegri bók er talað um það, hvað það stoði manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgera sálu sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook
10.5.2010 | 10:38
Litlir karlar í ráðherrastólum

- Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, lét verða sitt fyrsta verk að hrekja gamlan samstarfsmann sinn, Davíð Oddsson, úr stöðu seðlabankastjóra fyrir engar sakir.
- Jóhanna segir nú ósatt um það, að hún samdi við eftirmann Davíðs, Má Guðmundsson, um góð launakjör. Hún hrökk frá, þegar hún skynjaði andstöðuna við launahækkun bankastjórans, og fórnaði gamalli vinkonu sinni, Láru V. Júlíusdóttur, formanni bankaráðs Seðlabankans.
- Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, fagnaði handtökum Kaupþingsmanna og gerði þau orð fréttamanns að sínum, að þær myndu vonandi sefa reiði almennings. Nú þykist hann ekki hafa sagt þetta, enda fór hneykslunaralda um landið, þegar þetta heyrðist.
- Langan lista þyrfti til að rekja, hversu margt Steingrímur hefur orðið að éta ofan í sig af fyrri stóryrðum, til dæmis um Icesave-samningana og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
- Heilbrigðisráðherrann, Álfheiður Ingadóttir, tilkynnti Steingrími Ara Arasyni forstöðumanni, að hún ætlaði að veita honum áminningu fyrir að hafa borið greiðslutilhögun ákveðinna bóta undir ríkisendurskoðanda. Mætti hann þó andmæla. Það, sem Steingrímur gerði, var alsiða, auk þess sem Álfheiður braut stjórnsýslulög með því að tilkynna um fyrirætlun sína, áður en hún fengi andmæli hans. Þegar þessi tilraun hennar til valdníðslu mæltist mjög illa fyrir, hætti hún við hana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook
9.5.2010 | 12:18
Réttlætisgyðjan með bundið fyrir augun
Hér í gær benti ég á það sjálfsagða sjónarmið, að í réttarríki ætti ekki að varpa mönnum í gæsluvarðhald nema í þágu brýnna rannsóknarhagsmuna. Hvorug ástæðan væri gild til gæsluvarðhalds, að ætla að neyða grunaða menn til játninga eða sefa reiði almennings (eins og Steingrímur J. Sigfússon taldi eðlilegt að orða það).
Eyjan tók upp pistil minn undir fyrirsögninni Hannes hefur áhyggjur af Hreiðari. Ég finn auðvitað til með Hreiðari Má Sigurðssyni í erfiðleikum hans. En ég hef satt að segja minni áhyggjur af honum en réttarríkinu. Hreiðar Már á að njóta nákvæmlega sama réttar og aðrir menn til eðlilegrar málsmeðferðar. Það á ekki að skipta neinu máli, hvort hann er þessa stundina vinsæll eða ekki. Réttlætisgyðjan er jafnan sýnd með sverð í annarri hendi og vogarskálar réttlætisins í hinni, en hún er með bundið fyrir augun.
Egill Helgason skrifaði á bloggi sínu, að ég væri ósáttur við handtökur Kaupþingsmanna. Sönnu nær er að segja, að ég væri ósáttur við orð Steingríms J. Sigfússonar, þótt ég tæki einmitt fram, að ef til vill lægju brýnir rannsóknarhagsmunir (sem ekki hefðu komið fram opinberlega) að baki handtökum Kaupþingsmannanna, og þá gæti ég sætt við þær.
Mikilvægt er í því sjúklega andrúmslofti, sem er þessa stundina á Íslandi, að missa ekki sjónar á reglum réttarríkisins. Því miður hafa sumir auðjöfranna og útrásarvíkinganna, sem nú eru hvarvetna gerð hróp að, reynt að grafa undan réttarríkinu. Einn þeirra og aðalleiðtogi, Jón Ásgeir Jóhannesson, keypti jafnvel blöð og sjónvarpsstöðvar, sem ráku samfellda rógsherferð gegn lögreglu og saksóknurum í sakamálum hans. Hvar var Egill Helgason þá?
Fróðlegt er í þessu sambandi að lesa leiðara Morgunblaðsins laugardaginn 8. maí 2010:
Enginn getur í hjarta sínu fagnað gæslufangelsun tveggja bankamanna, þótt sú aðgerð kunni að hafa verið óhjákvæmileg. Og gildir hið sama um aðra þá sem í slíkum raunum lenda, hvort sem þeir eiga mikið undir sér eða lítið, sem oftar er. Þar til bærir aðilar hafa gert kröfu um varðhald tveggja manna, rökstutt hana fyrir dómara, sem hefur á hana fallist. Verður því að treysta að ekki sé verið að beita þessa tvo menn meira harðræði en efni standa til. Það er þýðingarmikið að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi í íslensku fjármálalífi séu beittir þeim viðurlögum sem við slíku liggja. En það er einnig þýðingarmikið, hvað sem líður öllum tilfinningum og hversu hátt sem mál eru í umræðunni, að ekki sé neinn réttur brotinn á þeim mönnum sem í hlut eiga. Steingrímur Sigfússon fjármálaráðherra segist vona að handtökur tveggja nafngreindra manna verði til að sefa óánægju almennings. Þetta eru mjög óheppileg ummæli og reyndar ótæk. Það getur aldrei verið efnisástæða frelsissviptingar einstaklinga að sú aðgerð muni falla almenningsálitinu vel. Morgunblaðið hefur hvatt til þess og hvetur enn til þess að málefni fjármálafyrirtækja og þeirra sem þar báru mesta ábyrgð verði rannsökuð út í hörgul. En það verður auðvitað að gæta þess að ganga ekki í neinu á lögmætan rétt þess sem sætir rannsókn eða ákæru hverju sinni. Þegar ró færist yfir verður það einnig skoðun alls almennings.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook
8.5.2010 | 11:57
Tilgangur gæsluvarðhalds
Lítill vafi er á því, að mörgum bankamönnum á Íslandi hefur orðið stórlega á, þótt ég minnist orða Lárusar Jónssonar, bankastjóra Útvegsbankans, fyrir nokkrum árum í sjónvarpsþættinum Maður er nefndur um það, að fjölmiðlar eigi ekki að dæma menn, heldur til þess bærir aðilar, dómstólar. Sjálfur var Lárus dæmdur af fjölmiðlum, þótt hann væri síðar sýknaður af dómstólum.
Við Vesturlandabúar höfum á nokkrum öldum komið okkur upp reglum, sem eiga að vernda borgarana fyrir geðþóttastjórn og ofríki. Til dæmis eru menn taldir saklausir, uns sekt þeirra hefur verið sönnuð. Einnig kveður meðalhófsregla laga á um það, að í meðferð mála skuli beita mildustu úrræðum, sem nauðsynleg þykja. Réttarríkið er samheiti allra þessara reglna, og í slíku ríki ráða lögin frekar en mennirnir.
Ég vona, að sérstakur saksóknari í málum, sem tengjast bankahruninu, gangi rösklega til verks. Þeir, sem reynast sekir um lögbrot, eiga að fá sína refsingu, hvorki þyngri né vægari en tíðkast hafa. Saksóknarinn stóð sig vel í rannsókn hins furðulega hleranamáls. Hann leiddi það röggsamlega til lykta.
Nú hefur hann krafist gæsluvarðhalds yfir tveimur Kaupþingsmönnum og fengið þá kröfu samþykkta í Héraðsdómi Reykjavíkur. En hver er tilgangur gæsluvarðhalds? Ég hélt, að hann væri að koma í veg fyrir, að grunaðir menn gætu spillt rannsóknargögnum eða sammælst um rangan framburð. Þessir tveir Kaupþingsmenn hafa haft átján mánuði til þess. Ég sé ekki, hverju gæsluvarðhald yfir þeim breytir um það.
Tilgangur gæsluvarðhalds má að íslenskum lögum ekki vera sá að þvinga grunaða menn til að játa eitthvað, sem þeir myndu ekki játa, væru þeir frjálsir menn. Hann má ekki vera sá að brjóta þá niður andlega, svo að þeir breytist í auðmótanlegan leir í höndum rannsóknaraðila.
Tilgangur gæsluvarðhalds má því síður vera að friða skeikult og hvikult almenningsálit. Það fór um mig hrollur, þegar ég sá ummæli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, sem kvaðst vonast til þess, að handtökur Kaupþingsmannanna tveggja myndu sefa óánægju almennings. Erum við skyndilega stödd í Colosseum, þar sem föngum rómverska heimsveldisins er kastað fyrir ljónin?
Ég vona, að skýringin á gæsluvarðsúrskurðunum yfir Kaupþingsmönnunum tveimur sé sú, að saksóknarinn og héraðsdómarinn hafi í höndum gögn, sem við hin þekkjum ekki, svo að gæsluvarðhald yfir þessum tveimur mönnum sé nauðsynlegt í þágu rannsóknarhagsmuna. Þá get ég sætt mig við þessa úrskurði, en alls ekki, ef tilgangurinn er að þvinga hina grunuðu til játninga eða sefa óánægju almennings.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook
7.5.2010 | 15:30
„Pólska leiðin“
Margir Íslendingar eru skiljanlega reiðir vegna bankahrunsins. Þótt lánsfjárkreppan hafi verið alþjóðleg, er ljóst, að íslenskir bankamenn fóru glannalega. Þeir voru of háðir eigendum sínum. Í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson, stærsta skuldunaut bankanna, var riðið þétt net sýndarfyrirtækja og málamyndasamninga. Eftir sigur hans í átökunum um fjölmiðlafrumvarpið 2004 virtist hann vera ósnertanlegur, hafinn yfir lög.
Stjórnvöld bera líka einhverja ábyrgð. Leiðtogar stjórnarflokkanna tveggja 20072008 tóku sex sinnum á móti Davíð Oddssyni seðlabankastjóra til að hlusta á viðvaranir hans, en höfðust ekki að, eins og greint er frá í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Fjármálaeftirlitið hafði bersýnilega ekki heldur burði til að gegna lögmæltu hlutverki sínu.
Hitt er verra, þegar eftiráspekingar nota tækifærið til að ala á sjúklegu hatri og reyna að rjúfa öll grið. Einn þeirra er Þorvaldur Gylfason prófessor, sem lagði til í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag, að pólska leiðin yrði farin á Íslandi. Hún væri fólgin í því að svipta ýmsa fyrrverandi ráðherra og alþingismenn eftirlaunum.
Þorvaldur líkir með þessu framferði kommúnistaflokksins í Póllandi við hegðun (eða öllu heldur aðgerðaleysi) sumra íslenskra stjórnmálamanna. Þetta er fráleitt. Í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kom út hjá Háskólaútgáfunni haustið 2009, er sérstakur kafli um framferði pólskra kommúnista, sem skýrir, hvers vegna ekki var talið eðlilegt, að ýmsir opinberir starfsmenn úr þeirra röðum nytu eftirlauna.
Pólski kommúnistaflokkurinn hrifsaði völdin til sín 1945 í skjóli Rauða hersins rússneska. Hann iðkaði frá upphafi víðtæk kosningasvik, fjöldahandtökur, pyndingar og önnur mannréttindabrot. Tugþúsundir stjórnarandstæðinga voru handteknir. Sýndarréttarhöld fóru fram eins og í Ráðstjórnarríkjunum. Öflug leynilögregla hafði nánar gætur á fólki. Raunalegar lýsingar eru í Svartbók kommúnismans á hlutskipti saklausra manna eins og Kozimierz Moczarski, Witolds Pilecki og Andrzejs Staszek.
Þótt kommúnistar linuðu nokkuð tökin eftir lát Stalíns 1953, voru stjórnmálafangar enn um þrjátíu þúsund árið 1955. Leynilögreglan reið þétt net uppljóstrara, stundaði hleranir og gægðist í einkabréf. Þeir, sem leyfðu sér að láta í ljós gagnrýni, misstu starfið eða lentu í fangelsi. Reynt var að berja Kaþólska kirkjuna niður með öllum ráðum, og prestar hennar voru jafnvel myrtir. Kommúnistar nýttu sér einnig landlægt Gyðingahatur. Verkamenn, sem þóttu óþægir í taumi, voru látnir fara í gegnum heilsubótargöngin, en það voru tvær raðir lögreglumanna, sem börðu þá með kylfum. Linntu þessum ósköpum ekki fyrr en upp úr 1986, þegar kommúnistar sáu sér þann kost vænstan að reyna að semja við andstæðinga sína. Eftir 1989 hrökkluðust þeir frá völdum og skildu eftir sárar minningar.
Hvað er sambærilegt á Íslandi við þetta framferði pólskra kommúnista? Öflugur stjórnmálamaður, sem naut mikils trausts, var hér forsætisráðherra 19912004 í krafti þingmeirihluta. Jafnvel núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur hrósað honum fyrir gott samstarf. Í tíð hans voru sett stjórnsýslulög og upplýsingalög, sem veittu fólki ríkari vernd en áður. Andstæðingar hans voru ekki veikari en svo, að einn þeirra, Jón Ásgeir Jóhannesson, varð á því tímabili ríkasti maður landsins, annar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, hinn þriðji, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti.
Það er móðgun við hin fjölmörgu fórnarlömb kommúnismans í Póllandi, við þá Moczarski, Pilecki, Staszek og marga aðra, að tala um íslenska þingmenn í sömu andrá og pólska kommúnista. Það er líka móðgun við alla upplýsta Íslendinga. Þótt sumir hafi vissulega misst stjórn á sér eftir bankahrunið, á það ekki við um alla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook
6.5.2010 | 20:15
Eru mennirnir ekki læsir?
Ég bloggaði um það fyrir skömmu, að Rannsóknarnefnd Háskólans hefði ekki gert athugasemdir við tvær athafnir Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, sem spunameistarar Samfylkingarinnar höfðu óspart deilt á. Önnur var hið fræga Kastljóssviðtal við hann í upphafi bankahrunsins, hitt var lán Seðlabankans til viðskiptabankanna.
Einn af spunameisturum Samfylkingarinnar, Gauti B. Eggertsson, ræðst harkalega á mig á bloggi sínu fyrir þetta. Ég fari rangt með, afneiti sannleikanum. Talar hann jafnvel um sérhannaðan veruleika minn í því sambandi. Egill Helgason tekur undir þetta af mikilli velþóknun á bloggi sínu.
Þeir benda á, að margt sé skrifað um lán Seðlabankans til viðskiptabankanna í skýrslunni. En eru mennirnir ekki læsir? Rannsóknarnefndin gerði ekki athugasemdir við þessar athafnir Davíðs, talaði ekki um vanrækslu í því sambandi. Við það átti ég, eins og augljóst er af samhenginu. Ég var að ræða um niðurstöður í skýrslunni, ekki hugleiðingar einstakra nefndarmanna (eða starfsfólks nefndarinnar).
Rannsóknarnefndin gerði aðeins athugasemdir við tvær embættisfærslur Davíðs Oddssonar (og hinna tveggja seðlabankastjóranna), að Icesave-reikningar Landsbankans skyldu ekki vera stöðvaðir og að rétt eyðublöð hefðu ekki verið fyllt út, þegar ríkið gerði kauptilboð í Glitni. Ég svaraði því til á bloggi mínu, að fyrri athugasemdin væri röng, því að Seðlabankinn hafði ekki haft valdheimildir til þessa, en hin síðari væri svo smávægileg, að ekki væri orð á gerandi.
Gauti B. Eggertsson og Egill Helgason verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja vera spunameistarar Samfylkingarinnar eða óháðir einstaklingar og álitsgjafar. Þeir fá auðvitað meira klapp á bakið, velji þeir fyrrnefnda hlutverkið, en þeim líður betur til langs tíma litið og misstíga sig síður, velji þeir hið síðara.
5.5.2010 | 14:54
Skattalækkanirnar voru skynsamlegar
Steingrímur J. Sigfússon hefur farið mikinn gegn skattalækkunum fyrrverandi ríkisstjórnar. Þeir lækkuðu skattana í þenslunni, æpir hann með hneykslunarsvip. Á bak við það er líklega sú kenning um hagstjórn, að hækka eigi skatta í þenslu til að draga úr henni og lækka þá í samdrætti til að vinna á móti honum.
Af hverju lækkar Steingrímur J. þá ekki skatta frekar en hækkar?
Ég er hins vegar annarrar skoðunar um skattalækkanir síðustu ríkisstjórnar (og þá ég við þá, sem sat nær óslitið undir forystu Sjálfstæðisflokksins frá 1991). Þær voru ekki aðgerðir í hagstjórn, heldur tilraun til að skila almenningi hluta af sjálfsaflafé hans, sem haft hafði verið af honum ranglega.
Ríkið tók of mikið af einstaklingunum fyrir 1991. Þess vegna voru skattalækkanirnar nauðsynlegar.
En þær voru líka skynsamlegar af ýmsum ástæðum. Ein ástæðan er sú, sem ég skýri nánar í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, að skattstofninn stækkar við skattalækkanir, og vinnur það á móti tekjumissi ríkisins af slíkum skattalækkunum. Skattstofninn stækkar aðallega af tveimur ástæðum. Skattskil verða betri, menn svíkja síður undan skatti, og framboð þeirrar vöru eða þjónustu, sem skattar lækka á, eykst.
Eitt dæmið, sem ég tek í bók minni, er af húsaleigu. Framboð leiguhúsnæðis jókst stórlega, þegar skattur lækkaði á húsaleigutekjum (úr hinu sama og á launatekjum í hið sama og af fjármagnstekjum). Jafnframt bötnuðu skattskil. Eftir nokkur ár voru tekjur ríkisins af húsaleigutekjum einstaklinga orðnar jafnmiklar og þær höfðu áður verið, þótt skatturinn af þeim hefði farið úr um 47% niður í 10%.
Mikilvægasta dæmið er þó vinnuafl. Eins og Edward Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur sýnt fram á, eykst framboð vinnuafls við skattalækkanir og minnkar að sama skapi við skattahækkanir. Á venjulegu mannamáli merkir þetta: Menn vinna meira, ef þeir fá sjálfir að njóta þess. Þeir vinna minna, ef ríkið nýtur þess aðallega í stað þeirra sjálfra.
Skattalækkanir hafa því þau langtímaáhrif, að menn gera meira, skapa meira, vinna meira, og það er æskilegt, vegna þess að við það stækkar þjóðarauðurinn og tækifærum fjölgar. Þeir, sem ekki vilja vinna, þurfa auðvitað ekki að kvarta, því að þeirra hlutur rýrnar ekki. Hinir, sem vilja vinna, fá að gera það, og það er alls staðar æskilegt.
Skattalækkanirnar 19912007 voru þess vegna tímabærar. Skattalækkanir verða tímabærar, uns ríkið hefur smækkað niður í það, sem það er til dæmis í Sviss (um 30% af landsframleiðslu).
5.5.2010 | 13:28
Fróðlegt í skýrslunni
Margt er fróðlegt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er leitt í ljós, svo að ekki verður um villst, að fámennur hópur ævintýramanna náðu tökum á íslensku bönkunum um og eftir 2004 og soguðu þaðan út fé í misjafnlega skynsamlegar fjárfestingar. Þessi hópur var undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi. Hann var höfuðpaurinn.
Skýrsluhöfundar lögðust hins vegar í undarlega smásjárskoðun á embættisfærslum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, enda dundu á þeim áskoranir leynt og ljóst um að finna eitthvað misjafnt um hann.
Önnur athugasemd þeirra við athafnir Davíðs og félaga hans í Seðlabankanum er beinlínis röng. Þeir telja, að Seðlabankinn hefði átt að stöðva Landsbankann, þegar hann færði út kvíarnar með stofnun Icesave-reikninganna. Seðlabankinn hafði enga lagaheimild til þess, eins og er rækilega útskýrt í svari Davíðs Oddssonar, sem aðgengilegt er á Netinu (en er af einhverjum ástæðum ekki prentað með sjálfri skýrslu Rannsóknarnefndarinnar).
Hin athugasemd þeirra er svo smávægileg, að ekki var orð á gerandi. Hún er, að ekki hafi verið fyllt út rétt eyðublöð, þegar ríkið gerði með milligöngu Seðlabankans kauptilboð í flest hlutabréf Glitnis í upphafi bankahrunsins. Á sama tíma voru fjármálaráðherra og seðlabankastjóri Bandaríkjanna að ausa fé í bankana þar vestra. Þá skipti máli að taka ákvarðanir hratt og örugglega. Halda einhverjir, að þar hafi verið aðalatriðið, hvaða eyðublöð voru fyllt út?
Ég fylgdist vel með athöfnum og embættisfærslu Davíðs Oddssonar næstu tvö ár á undan hruninu, enda sat ég þá í bankaráði Seðlabankans. Það var beinlínis sorglegt að sjá, hvernig menn daufheyrðust við endurteknum viðvörunum hans, sem hann hafði þó ekkert vald til að fylgja eftir, enda hafði Fjármálaeftirlitið verið fært undan Seðlabankanum. Rannsóknarnefndin hefði verið sanngjarnari, ef hún hefði metið það við Davíð, að hann var eini maðurinn í trúnaðarstöðu, sem varaði við, í stað þess að leggjast í smásjárskoðun á embættisfærslum hans.
En fróðlegt er að sjá, hvað skýrsluhöfundar gera ekki athugasemdir við. Í heilt ár hafa spunameistarar Samfylkingarinnar sagt, að frægt Kastljóssviðtal við Davíð hafi sett hrunið af stað og spillt fyrir málstað Íslendinga í Bretlandi. Nefndin tekur ekki undir þá skýringu.
Jafnframt hafa tveir ungir og hrokafullir hagfræðingar, þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson, haldið því fram í síbylju, að Davíð hafi gert Seðlabankann gjaldþrota með gáleysislegum útlánum til viðskiptabankanna (þótt Jón Steinsson hefði raunar beðið um það opinberlega fyrir hrun, að Seðlabankinn slakaði á veðhæfiskröfum!). Nefndin tekur ekki undir þá kenningu.
Stundum er þögnin fróðleg.
5.5.2010 | 13:26
Tekjutenging og jafnaðarstefna
Háskólamenn héldu í síðustu viku fundaröð um skýrslu Rannsóknarnefnar Háskólans. Í henni endurtóku sumir þeirra margt það, sem þeir sögðu fyrir hrun, í stað þess að greina skýrsluna og niðurstöður hennar. Einn þeirra er Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor. Í erindi sínu á föstudaginn sagði hann, að afnema þyrfti eða minnka tekjutengingar bóta. Þetta hefur hann margsagt áður, jafnvel þrástagast á, en ég kem ekki auga á neitt samband þessarar hugmyndar og niðurstaðna skýrslunnar.
Hvað sem því líður, er vert að benda á, að slík aðgerð gengur þvert á jafnaðarstefnu. Hvað er tekjutenging bóta? Hún er, að þeir, sem meira hafa, fá minni bætur, jafnvel engar. Þetta tel ég eðlilegt. Bætur frá hinu opinbera eiga aðeins að renna til þeirra, sem þeirra þurfa. Við eigum ekki að bæta kjör ríks ellilífeyrisþega eða auðugra foreldra ungra barna með almannafé. Þetta fólk getur séð um sig sjálft.
Þess í stað eigum við að verja því fé, sem til ráðstöfunar er í bætur og er eðli málsins samkvæmt alltaf takmarkað, til að bæta kjör þeirra, sem eiga undir högg að sækja af einhverjum ástæðum, hafa til dæmis lent milli stafs og hurðar í lífeyrissjóðum eða geta ekki unnið vegna sjúkdóma.
Í stórum dráttum hefur þessi leið verið farin á Íslandi. Þeir, sem fátækastir eru, hafa fengið ríflegri bætur hér en annars staðar á Norðurlöndum, eins og ég sýni í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Til dæmis býr einstæð móðir með börn við miklu rausnarlegri aðstoð á Íslandi en í Svíþjóð, draumríki jafnaðarmanna. Í Svíþjóð eru sömu bætur greiddar með öllum börnum, óháð efnahag og hjúskaparstöðu foreldra.
Lífeyrisþegar hafa líka verið með hærri tekjur að meðaltali á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum (þrátt fyrir fullyrðingar Stefáns Ólafssonar um hið gagnstæða), af því að þeim er mörgum ekki bannað að vinna, þótt þeir séu komnir á lífeyrisaldur (eins og tíðkast víða annars staðar), auk þess sem íslensku lífeyrissjóðirnir voru mjög öflugir og verða vonandi aftur, þegar atvinnulífið hjarnar við.
Hvers vegna vill Stefán Ólafsson afnema eða minnka tekjutengingar bóta? Það er af sömu ástæðu og sænskir jafnaðarmenn vildu, að allir fengju bætur, líka þeir, sem ekki þurftu á þeim að halda. Það er vegna þess, að hann vill meira vald, umfangsmeira ríki. Það á að múta öllum til að styðja velferðarríkið, gera alla að bótaþegum, gera alla háða ríkinu, en ríkisvaldið á síðan að leggja í hendurnar á mönnum eins og honum, sem eru liprir í talandanum, þótt þeir skapi engin raunveruleg verðmæti.
Þegar ég hlusta á Stefán Ólafsson og aðra Samfylkingarmenn á mínum ágæta vinnustað, get ég ekki að því gert,, að mér dettur í hug vísa Davíðs:
Því betur unir fólk sínum fjötrum
sem fleiri klæðast andlegum tötrum,
og allt, sem verður á borðin borið,
skal brennt og malað og klippt og skorið.
3.5.2010 | 06:14
Hvers vegna svarar Jón Ásgeir ekki?
Tilefni Baugsmálsins fræga á sínum tíma var, að samstarfs- eða umboðsmaður Baugsfeðga í Bandaríkjunum, Jón Gerald Sullenberger, taldi Jón Ásgeir Jóhannesson sýna sér og fjölskyldu sinni óvirðingu. Vildi hann gjalda líku líkt og kærði Jón Ásgeir fyrir ýmsa gjörninga (sem Jón Gerald hafði sjálfur komið nærri) til íslensku lögreglunnar, en vann með glæsibrag málið, sem Jón Ásgeir höfðaði gegn honum úti í Bandaríkjunum.
Menn geta deilt um það, hvort Baugsdómurinn, sem féll eftir mörg ár, var of mildur og hvaða áhrif það hafi haft á hegðun auðmannanna, sem hér réðu flestu frá 2004. En tilefni Baugsmálsins var þetta og gat ekki einfaldara og auðskiljanlegra verið. Furðulegt er, hvernig þeir Baugsfeðgar hafa reynt að snúa því upp á Davíð Oddsson og jafnvel Björn Bjarnason (sem var ekki einu sinni dómsmálaráðherra, þegar það hófst).
Fyrir skömmu birti Jón Ásgeir hér á Pressunni mikla grein gegn Agnesi Bragadóttur. Hann er því að minnsta kosti með pennann á lofti þessa dagana. En hvers vegna svarar hann þá ekki nokkrum spurningum, sem Jón Gerald Sullenberger hefur spurt hann opinberlega? Ég skal rifja þær hér upp (teknar orðrétt frá Jóni Gerald):
- Arðgreiðslur til þín og fjölskyldu þinnar undanfarin 5 ár úr íslenskum eignarhaldsfélögum nema mörg þúsund milljónum króna þetta eru raunverulegir peningar sem voru greiddir til þín úr íslenskum bönkum. Skv. seinasta ársreikningi Gaums nam innleystur hagnaður hluthafa Gaums (þ.e. þú og fjölskylda þín) þúsundum milljóna króna. Hvar eru þessir fjármunir í dag?
- Arðgreiðslur úr eignarhaldsfélögum eiginkonu þinnar nema einnig mörg þúsund milljónum króna undanfarin ár. Í september 2008 korteri fyrir hrun greiðir bara eitt félaga hennar, ISP ehf., henni 300 milljón krónur í arð, skv. opinberum ársreikningi. Hvar eru þessir fjármunir?
- Ertu tilbúinn að upplýsa hvaða eignir þú geymir í félögum þínum í Lúxemborg þau skipta tugum en ég spyr þig bara um þessi til að spara plássið: Purple Holding. Piano Holding.Epping Holding.Gaumur Holding. Er eiginkona þín tilbúin að upplýsa hvaða eignir hún geymir í Edmound Holding, en eins og þú veist flutti hún margvíslegar eignir þangað fyrir hrun, skv. ársreikningum félagsins.
- Hvaðan komu 1,5 þúsund milljón krónurnar sem þú lagðir fram árið 2008 til að kaupa fjölmiðlaveldið 365?
- Hvaðan komu 1 þúsund milljónirnar sem þú lagðir fram um daginn til að tryggja þér endanlega yfirráð yfir fjölmiðlaveldinu 365?
- Hvaðan komu þær mörg þúsund milljónir króna sem þú varst tilbúinn að leggja fram í tilboði þínu til Arion banka vegna Haga?
- Hvaðan munu peningarnir koma til að opna 3 nýjar Bónus-búðir í London, sbr. fréttir þess efnis nýlega?
- Hvar eru þessar 1 þúsund milljónir sem Pálmi vinur þinn Haraldsson var svo almennilegur að millifæra á einkareikning þinn eins og frægt er og lesa má um í stefnu Glitnis?
- Hvar er hagnaður ykkar hjóna af framvirkum hlutabréfasamningum og gjaldmiðlasamningum þar sem þið tókuð stöðu á móti íslensku krónunni sem nefndin minnist á í skýrslu sinni? Ljóst er að hann nemur þúsundum milljóna króna og veikti mjög íslensku krónuna vorið 2008 sem þjóðin er núna að súpa seyðið af.