Færsluflokkur: Bloggar

Talnabrellur um tekjuskiptingu

Stefán Ólafsson prófessor birti grein í Morgunblaðinu 31. ágúst 2006 undir heitinu „Aukning ójafnaðar á Íslandi“. Þar hélt hann því fram, að eðlisbreyting hefði orðið á íslenska hagkerfinu næstu fimmtán ár á undan. Það hefði í fæstum orðum breyst úr norrænu velferðarríki með tiltölulega jafna tekjuskiptingu í átt til Bretlands og Bandaríkjanna, þar sem tekjuskipting væri miklu ójafnari. Hann birti með mynd af svokölluðum Gini-stuðlum, sem mæla ójafna tekjuskiptingu, og sagði: „Eins og sjá má á mynd 1 eru frændþjóðir okkar í Skandinavíu með hvað jöfnustu tekjuskiptinguna í Evrópu, eins og þær hafa lengi verið.“ Einnig sagði hann: „Við erum hins vegar nú orðin jafnfætis Bretlandi, sem þekkt er ásamt Bandaríkjunum fyrir ójafna tekjuskiptingu og mikinn stéttamun í samfélagsmálum. Þetta eru umskipti í tekjuskiptingu á Íslandi sem líkja má við byltingu á því sviði.“


Rangt reiknaður Gini-stuðull Stefáns

GiniStefanHér birti ég á 1. mynd tölur þær um nokkra Gini-stuðla 2004, sem Stefán notaði í grein sinni í Morgunblaðinu 31. ágúst. Svörtu súlurnar eru Gini-stuðlar viðmiðunarþjóða Stefáns, Norðurlanda annars vegar og Bretlands hins vegar, en Stefán segir það land þekkt „fyrir ójafna tekjuskiptingu og mikinn stéttamun í samfélagsmálum“. Myndin sýnir vissulega það, sem henni er ætlað, að tekjuskipting á Íslandi hafi færst í líkt horf og í Bretlandi: Gini-stuðlar fyrir Norðurlöndum eru um og yfir 0,25, en Gini-stuðull fyrir Bretland 2004 0,34 og fyrir Ísland sama ár 0,35. Eftir grein Stefáns í Morgunblaðinu hófust innfjálgar umræður um það, að Ísland væri að breytast til hins verra. Ég benti hins vegar á það í fyrirlestri í Háskóla Íslands 31. janúar 2007, að tölur Stefáns væru rangar. Hann tæki með í Gini-stuðlinum fyrir Ísland allar tekjur, jafnt atvinnutekjur sem fjármagnstekjur, en í Gini-stuðlum fyrir aðrar þjóðir væri ekki reiknað með þeim hluta fjármagnstekna, sem stafaði af söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum. Hann bæri saman ósambærilega hluti. Þetta væri eins og hann legði saman innflutning á eplum og appelsínum til Íslands og bæri saman við innflutning á eplum einum saman til annarra þjóða, en kæmist síðan að þeirri niðurstöðu, að neysla Íslendinga á eplum væri óvenjumikil.

Þar eð söluhagnaður af hlutabréfum og verðbréfum skiptist ójafnt eðli málsins samkvæmt, verður hann til að hækka Gini-stuðulinn fyrir Ísland verulega. Ályktanir Stefáns um það, að tekjuskipting á Íslandi væri að breytast úr því, sem hún væri á Norðurlöndum, og í líkt horf og í Bretlandi, voru því dregnar af röngum forsendum. Stefán þyngdi vogina eins og Schougaard kaupmaður forðum, sem sagði við Skúla Magnússon: „Mældu rétt, strákur!“ og átti þá við, að hann skyldi mæla rangt. Skömmu eftir að ég flutti fyrirlestur minn, birti Evrópusambandið nýja rannsókn á lífskjörum og tekjudreifingu í löndum álfunnar. Þar eru allir Gini-stuðlar reiknaðir á réttan hátt, með atvinnutekjum og fjármagnstekjum öðrum en söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum. Gini-stuðlarnir um Norðurlönd, Ísland og Bretland samkvæmt þessari rannsókn sjást á 2. mynd (en allar tölur eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofu Íslands, þar sem skýrsla Evrópusambandsins er birt í heild).

GiniESBÞessi mynd sýnir, að árið 2004 var tekjuskipting á Ísland svipuð og á Norðurlöndum, séu viðurkenndar, alþjóðlegar reikningsaðferðir notaðar. Gini-stuðullinn fyrir Ísland var 0,25, aðeins hærri en í Svíþjóð og Danmörku og aðeins lægri en í Finnlandi og Noregi, en talsvert lægri en í Bretlandi. Allt tal Stefáns og skoðanasystkina hans um það, að tekjuskipting væri hér að komast í svipað horf og í Bretlandi, sem þekkt væri „fyrir ójafna tekjuskiptingu og mikinn stéttamun í samfélagsmálum“, var úr lausu lofti gripið. Hin mikla frétt hans um svo mikil umskipti, að líkja mætti við byltingu, var reist á röngum tölum. Fjallið tók jóðsótt, og mús fæddist.

Þess má raunar geta, að í rannsókn Evrópusambandsins kom einnig fram, að fólk við lágtekjumörk er næstfæst hlutfallslega á Íslandi í allri Evrópu og þá um leið sennilega í heiminum. Það er aðeins í Svíþjóð, þar sem færri búa við slík lágtekjumörk eða hættu á fátækt, eins og það er kallað. Tölurnar í rannsókn Evrópusambandsins eru frá 2003 og 2004. Þetta er athyglisvert í ljósi þess, að fyrir kosningarnar 2003 héldu Stefán og skoðanasystkini hans því fram, að fátækt hefði aukist á Íslandi, svo að til vandræða horfði, eins og meðal annars má sjá á fréttaskýringu Hildar Einarsdóttur hér í blaðinu 26. janúar 2003. Enginn dregur í efa, að fátækt sé til á Íslandi eins og í öðrum löndum. En það skiptir auðvitað máli að vita, að hún er minni hér en nánast alls staðar annars staðar á byggðu bóli.


Stefán leiðréttir ekki villuna um Gini-stuðla

Stefán Ólafsson leiðréttir ekki villu sína beint, heldur viðurkennir hana óbeint með því að skipta um viðmið. Nú ber hann Ísland ekki lengur saman við Norðurlönd og Bretland, heldur við Ísland fyrir tíu árum. Í Silfri Egils sunnudaginn 25. febrúar og í grein í Morgunblaðinu daginn eftir fullyrðir hann, að tekjuskipting á Íslandi hafi orðið ójafnari hin síðari ár, auk þess sem það gefi ekki nógu góða mynd af tekjuskiptingunni að sleppa söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum. Setjum svo rökræðunnar vegna, að Stefán hafi rétt fyrir sér um þetta hvort tveggja. Það breytir samt engu um, að hann og skoðanasystkin hans héldu öðru fram síðastliðið haust. Þá var aðalatriðið, að tölur, sem fengnar væru með alþjóðlegum reikningsaðferðum, sýndu, að tekjuskiptingin á Íslandi væri að færast í svipað horf og í Bretlandi og jafnvel Bandaríkjunum. Orðaði Jón Baldvin Hannibalsson það eftirminnilega, þegar hann fullyrti í sjónvarpi, að Ísland væri að breytast í skrípamynd af Bandaríkjunum, um leið og hann mælti fyrir um, að Stefán Ólafsson yrði ráðherra í nýrri vinstri stjórn.

Ég tel líklegt, að tekjuskipting á Íslandi hafi orðið eitthvað ójafnari hin síðari ár, ef allar tekjur eru skoðaðar, fjármagnstekjur jafnt og atvinnutekjur, eins og Stefán vill gera. Þótt allir hafi orðið ríkari, hafa hinir ríku orðið ríkari hraðar en hinir fátæku. En annað er að mínum dómi mikilvægara: Hinir fátæku á Íslandi hafa orðið ríkari hraðar en í langflestum öðrum löndum. Í tölum Stefáns sjálfs (sem nálgast má á heimasíðu hans) kemur til dæmis fram, að árin 1995-2000 bötnuðu kjör 20% tekjulægsta hópsins á Íslandi um 3,1% á ári að meðaltali, en kjör sama hóps að meðaltali í löndum OECD um 1,6%. Aðrar tölur, sem ég hef fengið frá OECD og kynnt opinberlega, hníga í sömu átt. Með öðrum orðum hafa kjör hinna tekjulægstu á Íslandi batnað 50-100% hraðar hin síðari ár en kjör hinna tekjulægstu að meðaltali í löndum OECD, sem eru þó ríkustu lönd heims. Þetta er góður árangur. Er það síðan sérstakt áhyggjuefni, að nýjar fjármagnstekjur hafa myndast? Slíkar tekjur voru nánast ekki til áður og stafa af því, að fjármagn hefur flust í hendur einstaklinga og ber þar miklu stærri og betri ávöxt en áður. Skatttekjur ríkisins af fjármagnstekjum námu 2006 um 18 milljörðum króna. Er það ekki fagnaðarefni, að um 100 fjölskyldur, sem hafa verulegar fjármagnstekjur, kjósa að telja þær fram á Íslandi frekar en í Sviss, eins og þeim stendur áreiðanlega til boða?

Ég hef líka bent á, að tækifærum fólks til að komast út úr fátækt hefur fjölgað á Íslandi með opnara og frjálsara hagkerfi. Nú er fjármagn ekki lengur skammtað eftir stjórnmálaítökum umsækjenda, heldur greiðslugetu þeirra og hagnaðarvon. Hér er full atvinna, svo að menn geta unnið sig út úr erfiðleikum, ólíkt því sem er til dæmis í Svíþjóð, þar sem atvinnuleysi er mikið, sérstaklega hjá ungu fólki. Á Íslandi eru líka traustir lífeyrissjóðir, raunir hinir sterkustu í heimi. Jöfnuður hér hefur í þessum skilningi aukist.


Nokkrar aðrar reikningsskekkjur Stefáns

Um það má deila, hvort telja eigi söluhagnað af hlutabréfum með tekjum, eins og Stefán Ólafsson vill gera. Vissulega er fróðlegt að gera það. Reikningsaðferð Evrópusambandsins er þó skýr: Þar er slíkum tekjum sleppt. Til þess eru gildar ástæður. Hlutabréf eru eignir eins og hús. Það er ekki alltaf söluhagnaður af þeim. Þau hækka eða lækka í verði. Á ríkið að endurgreiða fjármagnseigendum, þegar þeir selja hlutabréf sín með tapi? Tökum einfalt dæmi til frekari skýringar. Stefán Ólafsson á einbýlishús í Fossvogi, sem var eflaust 50 milljón króna virði fyrir þremur árum. Setjum svo, sem er líklegt, að það hafi hækkað í verði um tuttugu milljónir krónur vegna góðærisins 2005-2006. Skuldar Stefán þá ríkissjóði 2 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt fyrir þessi tvö ár? Það er óeðlilegt. Þetta eru ekki reglulegar tekjur og víða ekki skattlagðar. Unnt er að vísu að fresta skattgreiðslum af söluhagnaði með endurfjárfestingum, en ýmis íslensk fyrirtæki, sem vilja leysa út þennan hagnað, hafa flust til annarra landa, þar sem slíkur söluhagnaður er ekki skattlagður. Það er raunverulegt áhyggjuefni ólíkt ýmsum umræðuefnum Stefáns.

Stefán gerir síðan vonda villu, þegar hann tekur nú í Morgunblaðinu 26. febrúar 2007 það dæmi um ójöfnuð á Íslandi, að fjármagnstekjuskattur sé 10%, en skattur af atvinnutekjum hátt í 40%. Í raun og veru er fjármagnstekjuskatturinn 26,2%, eins og sést á einföldu dæmi. Hlutafélag í eigu eins manns græðir eina milljón króna. Það greiðir 18% tekjuskatt. Þá eru eftir 820 þúsund krónur, sem maðurinn tekur út í arð. Af þeim innir hann af höndum 10% fjármagnstekjuskatt eða 82 þúsund krónur. Hann hefur þá samtals greitt 262 þúsund krónur af þessari einu milljón eða 26,2%. Þegar um húsaleigu er að ræða, hefur fasteignin, sem leigð er, eflaust að mestu leyti verið reist fyrir fé, sem þegar hefur verið greiddur tekjuskattur af. Sama er að segja um innstæður í bönkum.

Í Silfri Egils 25. janúar 2007 fór Stefán enn fremur með staðlausa stafi um skattlagningu í öðrum löndum. Ég benti honum þar á, að skattleysismörk eru miklu lægri í Svíþjóð og á Írlandi en hér. Hann svaraði því til, að lágtekjufólk greiddi þar lægra hlutfall af tekjum sínum en hátekjufólk, því að í báðum löndum sé tekjuskattur stighækkandi ólíkt því, sem er hér á landi, þar sem eru í raun aðeins tvö skattstig, 0% skattur á þá, sem hafa tekjur undir skattleysismörkum, og 35,78% skattur á tekjur umfram skattleysismörk. Flókið er að vísu að reikna út skattbyrði annars staðar. En af yfirliti OECD um skattkerfi aðildarríkjanna, sem nálgast má á heimasíðu stofnunarinnar, sé ég ekki betur en lágtekjumaður (til dæmis maður með 100 þúsund króna mánaðartekjur) greiði hærra hlutfall atvinnutekna í tekjuskatt í Svíþjóð og á Írlandi en á Íslandi. Þetta stafar af miklu lægri skattleysismörkum í þessum löndum. Stefán fullyrti líka í Silfri Egils, að fjármagnstekjuskattur væri 40% á Írlandi. Þetta er rangt, eins og sjá má á síðunni www.evca.com. Fjármagnstekjuskattur á Írlandi er 20% á hagnað umfram verðbólgu, en vegna þess að tekjuskattur á fyrirtæki er þar talsvert lægri en hér, 12,5%, er hann í raun 30%, eins og sjá má með sams konar útreikningum og á fjármagnstekjuskatti á Íslandi. Á 26,2% og 30% er bita munur, ekki fjár.


Stórkostlegur árangur af skattalækkunum

Sannleikurinn er sá, að skattalækkanirnar síðasta hálfan annan áratug á Íslandi hafa skilað stórkostlegum árangri. Til dæmis hafa skatttekjur af fyrirtækjum hækkað mjög, þótt skattheimtan eða skatthlutfallið hafi lækkað. 45% tekjuskattur á fyrirtæki skilaði 1991 í ríkissjóð röskum tveimur milljörðum króna, en 18% skattur skilar 2007 34 milljörðum króna. Þetta er ótrúlegt, en satt. Nýlega lagði nefnd um fjármálamarkaðinn, sem forsætisráðherra skipaði undir forystu Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi, til, að tekjuskattur á fyrirtæki yrði lækkaður niður í 10%, svo að Íslendingar gætu keppt um fyrirtæki og fjármagn við Íra, sem Stefán Ólafsson tekur einmitt stundum dæmi af með velþóknun. Af reynslu síðustu fimmtán ára má ráða, að skatttekjur ríkisins þurfa alls ekki að lækka við þetta. Hitt er annað mál, að jafna þarf muninn milli tekjuskatts á atvinnutekjur og fjármagnstekjur. Ef tekjuskattur á fyrirtæki lækkaði niður í 10%, þá þyrfti hann að vera 19% á atvinnutekjur, til þess að hann yrði jafn 10% fjármagnstekjuskatti af ástæðum, sem þegar hafa verið nefndar. Allir myndu hagnast á þessu, ekki síst láglaunafólk. Þótt vissulega sé fátækt hér hverfandi og tekjuskipting ein hin jafnasta í heimi samkvæmt alþjóðlegum könnunum, má gera betur.

Morgunblaðið 28. febrúar 2007. 


Jöfnuður hefur aukist á Íslandi

D.OddssonStefán Ólafsson prófessor heldur því fram, að ójöfnuður hafi aukist svo á Íslandi, að helst sé að líkja við Chile undir herforingjastjórn Pinochets. Hann segir, að Davíð Oddsson hreyki sér af skattalækkunum, en hafi í raun hækkað skatta meira en nokkur annar vestrænn þjóðarleiðtogi og sé því alþjóðlegur skattakóngur. Frá 1991 hafi kjör hinna tekjulægstu versnað í samanburði við aðra hópa og skattbyrði þeirra þyngst. Til stuðnings þessum furðulegu staðhæfingum beitir Stefán ýmsum áróðursbrellum. En sannleikurinn er sá, að jöfnuður hefur aukist á Íslandi, um leið og skattar hafa verið lækkaðir, en kjör hinna tekjulægstu hafa batnað hraðar og eru betri en í flestum öðrum vestrænum löndum, þótt auðvitað séu þau samkvæmt skilgreiningu ekki góð.


Skattahækkunarbrella Stefáns

Til að skilja skattahækkunarbrellu Stefáns skulum við taka einfalt dæmi. Í landi einu eru 100 fyrirtæki. Þau bera 30% tekjuskatt. Atvinnulífið í landinu er veikt og mörg fyrirtæki rekin með tapi, svo að aðeins 10 þeirra hafa tekjur umfram gjöld til að greiða af. Þessi 10 fyrirtæki greiða hvert 300 þúsund kr. í tekjuskatt, svo að skatttekjur ríkisins af þeim eru samtals 3 milljónir kr. Nú tekur ný ríkisstjórn við, sem eflir atvinnulífið og lækkar tekjuskatt á fyrirtæki niður í 20%. Tap snýst víða í gróða, og ný fyrirtæki eru stofnuð. Fyrirtækin verða 150, og 140 þeirra græða og greiða 200 þúsund kr. hvert í tekjuskatt, svo að skatttekjur ríkisins af þeim eru samtals 28 milljónir kr.

Þetta myndi Stefán Ólafsson kalla skattahækkun. Skatttekjur ríkisins af fyrirtækjunum fara úr 3 milljónum kr. í 28 millj. kr. En auðvitað er þetta skattalækkun úr 30% í 20%, sem ber þann ávöxt, að skattstofninn vex og skatttekjur ríkisins aukast. Í raun og veru gerðist eitthvað sambærilegt á Íslandi síðastliðinn áratug. Tekjuskattur fyrirtækja lækkaði, en skatttekjur af þeim hækkuðu. Þegar tekjuskatturinn var 45% árið 1991, námu tekjur ríkisins af honum um 2 milljörðum kr. Á síðasta ári, þegar hann var 18%, námu tekjur ríkisins af honum um 30 milljörðum kr. Gert er ráð fyrir, að þær hækki upp í 34 milljarða kr. á þessu ári.

Áður greiddu bankarnir ekki skatta, svo að heitið gæti. Þeir voru í eigu ríkisins og reknir með tapi. Stundum varð meira að segja að leggja þeim til fé úr ríkissjóði. Á síðasta ári greiddu einkabankarnir samtals um 11 milljarða kr. í tekjuskatt auk allra annarra tekna, sem ríkið hefur af þeim. Skatttekjur af bönkunum fóru með öðrum orðum úr 0 kr. í 11 milljarða kr. Stefán Ólafsson myndi kalla þetta skattahækkun. En auðvitað er þetta afleiðing af blómlegra atvinnulífi.

Ef tap fyrirtækis snýst í gróða, þá fer það að greiða tekjuskatt, sem það gerði ekki áður. Vissulega hefur skattbyrði fyrirtækisins þyngst. En það er ekki skattahækkun í eiginlegum skilningi. Hliðstætt á við um einstaklinga. Við skulum taka einfalt dæmi. Í landi einu hefur maður svo lágar tekjur eitt árið, að hann lendir undir skattleysismörkum og hlýtur margvíslegar bætur. Næsta ár er tekjuskattur einstaklinga lækkaður úr 40% í 35%. Þetta sama ár hækka tekjur mannsins í dæmi okkar verulega, svo að hann lendir ofan skattleysismarka (sem við gerum ráð fyrir í þessu dæmi, að séu óbreytt milli áranna, enda sé engin verðbólga í landinu). Maðurinn fer að greiða tekjuskatt og missir einhverjar bætur, þar sem þær eru tekjutengdar.

Þetta myndi Stefán Ólafsson kalla skattahækkun, þótt tekjuskatturinn hafi verið lækkaður úr 40% í 35%. Vissulega hefur skattbyrði mannsins í dæminu þyngst. En hún hefur þyngst af sömu ástæðu og fyrirtækisins, sem var áður rekið með tapi, svo að það greiddi ekki tekjuskatt, en er nú rekið með gróða og ber því skatt. Tekjur mannsins hafa hækkað, svo að hann er aflögufær. Eitthvað sambærilegt hefur gerst á Íslandi. Samkvæmt tölum Stefáns Ólafssonar sjálfs hafa tekjur tekjulægsta hópsins á Íslandi hækkað um 36% fyrir skatta árin 1995-2004. Þessi hópur greiðir nú meiri skatta en áður. Það er eðlileg afleiðing af góðærinu, ekki skattahækkun stjórnvalda. Síðan má alltaf deila um, hvar skattleysismörk eiga að vera. Sjálfum þykir mér eðlilegt að tengja þau við vísitölu neysluverðs, eins og nú hefur verið gert.

Skattar á Íslandi hafa lækkað verulega frá 1991. Tekjuskattur sá, sem ríkið innheimtir af einstaklingum, hefur lækkað úr rúmum 30% í tæp 23%. Tekjuskattur á fyrirtæki hefur lækkað úr 45% í 18%. Aðstöðugjald hefur verið fellt niður, einnig eignaskattur og hátekjuskattur. Erfðafjárskattur hefur líka lækkað. Þessar skattalækkanir hafa borið meiri og betri ávöxt en stuðningsmenn þeirra þorðu að vona. Atvinnulífið hefur blómgast, tap fyrirtækja snúist í gróða, kjör manna batnað, neysla aukist og skatttekjur ríkisins af öllum þessum ástæðum hækkað. Hugtök eru misnotuð, ef þetta er kallað skattahækkun, eins og Stefán Ólafsson gerir.

Einnig skiptir máli, að tveir dulbúnir skattar hafa fallið niður frá 1991. Annar fólst í verðbólgu, sem er í raun skattur á notendur peninga (eins og allir hagfræðingar eru sammála um). Hún hefur hjaðnað. Hinn skatturinn fólst í skuldasöfnun ríkisins, sem er í raun skattur á komandi kynslóðir. Ríkið hefur greitt upp mestallar skuldir sínar. Stefán Ólafsson minnist ekki á þetta. Því síður getur hann þess, að skatttekjur ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu mun samkvæmt áætlunum verða hið sama 2008 og það var 1992, 32%, svo að skattheimta mun ekki aukast á því tímabili, en skatttekjur sveitarfélaga sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aukist úr 8% í 12% og munu ekki lækka. Og auðvitað þegir Stefán um það, að á sama tíma og ríkið greiddi upp mestallar skuldir sínar, jukust skuldir sveitarfélaganna stórkostlega.


Ójafnaðarbrella Stefáns

Til að skilja ójafnaðarbrellu Stefáns skulum við taka einfalt dæmi. Í skagfirskri sveit búa 18 bændur, hver með 4 milljón kr. árstekjur. Heildartekjurnar eru þá 72 milljónir kr. Síðan kaupir Jón Ásgeir Jóhannesson jörð í sveitinni og telur þar fram tekjur sínar, sem eru 60 milljónir kr. í atvinnutekjur og 400 milljónir kr. í fjármagnstekjur. Einnig kaupir Lilja Pálmadóttir þar jörð og gerist framteljandi, en hún hefur 12 milljónir kr. í atvinnutekjur og 100 milljónir kr. í fjármagnstekjur. Heimilum í sveitinni hefur fjölgað í 20 og heildartekjur snarhækkað, í 144 milljónir kr. í atvinnutekjur og 500 milljónir kr. í fjármagnstekjur og samtals í 644 milljónir kr. Jarðir hækka síðan í verði og framkvæmdir aukast, veiðiskáli er reistur og hesthús og vegur lagður, svo að tekjur bændanna 18 hækka. Sveitarfélagið fær stórauknar tekjur. Allir græða. Enginn tapar. Þetta kallar Stefán Ólafsson aukinn ójöfnuð.

Hugtakanotkun Stefáns Ólafssonar er hæpin. Íslenska orðið „ójöfnuður“ er ekki sömu merkingar og ójöfn tekjuskipting. Það merkir miklu frekar, að menn séu ekki jafningjar, sumir beiti aðra rangsleitni, virði ekki settar reglur. Í þeim skilningi voru Hrafnkell Freysgoði og Grettir Ásmundarson ójafnaðarmenn. Í dæmi okkar úr Skagafirði er tekjuskiptingin vissulega orðin ójafnari. En það er ekki vegna þess, að neinn hafi verið órétti beittur, heldur vegna þess að sumir eru orðnir ríkari. Eitthvað sambærilegt hefur gerst á Íslandi síðustu fimmtán ár. Um 100-600 stórauðugar fjölskyldur hafa orðið til og kjósa að telja fjármagnstekjur sínar fram á Íslandi, þótt þær gætu talið þær fram annars staðar, til dæmis í Sviss eða Lúxemborg. Í stað þess að þakka fyrir þennan nýja tekjustofn kvartar Stefán Ólafsson undan því, að þetta fólk greiði aðeins 10% af fjármagnstekjum sínum í tekjuskatt, á meðan venjulegt launafólk greiði um 35% af atvinnutekjum sínum.

Tekjur ríkisins af fjármagnstekjum námu á síðasta ári um 18 milljörðum kr. Af þessum tekjum fellur röskur helmingur til vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. Það eru óreglulegar tekjur (og í rauninni ekki tekjur, heldur innlausn eigna), og erlendis er þeim þess vegna jafnan sleppt í tölum um tekjuskiptingu. Þessi hagnaður skiptist afar ójafnt, en aðrar fjármagnstekjur miklu jafnar og líkar launatekjum. Stefán Ólafsson hefur hér í blaðinu (31. ágúst 2006) og víðar birt línurit með svokölluðum Gini-stuðlum, sem eiga að sýna aukinn ójöfnuð. Hann hefur ekki sleppt úr íslensku tölunum söluhagnaði af hlutabréfum, svo að þær yrðu sambærilegar við hinar erlendu. Þess í stað hefur hann klifað á því, að íslenskur Gini-stuðull um ójöfnuð hafi aukist um tíu stig á tíu árum, úr 0,25 í 0,35. En ef fjármagnstekjur eru undanskildar, þá hefur stuðullinn íslenski samkvæmt tölum Stefáns sjálfs hækkað fyrir sambýlisfólk eftir skatt úr 0,20 í 0,24 árin 1995-2004. Það er miklu minni hækkun.

Þótt Stefán Ólafsson ýki, hefur tekjuskipting orðið ójafnari á Íslandi. Teygst hefur úr tekjunum upp á við. Með niðurfellingu hátekjuskatts og tiltölulega hægri uppfærslu skattleysismarka minnkuðu líka jöfnunaráhrif skatta. En aðalatriðið er, að kjör allra hópa hafa batnað stórkostlega. Samkvæmt tölum Stefáns sjálfs hafa tekjur 10% tekjulægsta hópsins eftir skatt hækkað um 2,7% að meðaltali á ári 1995-2004. Stefán ber þetta saman við tekjuhækkanir annarra hópa á Íslandi. En hann ætti þess í stað að bera þetta saman við tekjuhækkanir sama hóps í öðrum löndum. Ég útvegaði mér nýjustu gögn um þetta frá Efnahags- og samvinnustofnuninni, O. E. C. D. Samkvæmt þeim hækkuðu tekjur 10% tekjulægsta hópsins að meðaltali í aðildarríkjunum um 1,8% á ári 1996-2000. Með öðrum orðum hafa kjör tekjulægsta hópsins á Íslandi batnað talsvert meira en sömu hópa í flestum grannríkjum okkar. Nú í ár batna þau enn meira, þar sem skattleysismörk hafa hækkað verulega, barnabætur líka hækkað og margt fleira verið gert láglaunafólki til hagsbóta.

Þótt tekjuskipting hafi vissulega orðið ójafnari á Íslandi, hefur ójöfnuður ekki aukist, heldur minnkað. Í fyrsta lagi hefur fjármagn færst úr höndum ríkisins til einkaaðila. Það er ekki lengur skammtað eftir flokksskírteinum, heldur hagnaðarvon. Áður þurfti almenningur að bíða í löngum biðröðum fyrir utan bankana eftir fyrirgreiðslu, á meðan flokksgæðingar létu greipar sópa um sjóði. Munur var á Jóni og séra Jóni. Þetta leiddi af sér mikinn ójöfnuð, sem nú er horfinn. Nú ræður greiðslugeta lánum.

Í öðru lagi hefur verðbólga hjaðnað. Launafólk var áður helsta fórnarlamb verðbólgunnar. Það gat ekki varið sig eins vel gegn henni og fyrirtæki. Þetta fól í sér mikinn ójöfnuð, sem nú er nær horfinn.

Í þriðja lagi hefur ríkið hætt að safna skuldum. Það er orðið nær skuldlaust. Áður beitti kynslóðin, sem tók lánin og eyddi fénu, komandi kynslóðir rangsleitni með því að auka skuldabyrði hennar. Þetta var ójöfnuður milli kynslóða, sem nú er nær horfinn.

Í fjórða lagi er óverulegt atvinnuleysi á Íslandi. Það er hins vegar mikið í flestum aðildarríkjum O. E. C. D. Til dæmis er atvinnuleysi um 15% í Svíþjóð (þótt reynt sé að dulbúa það) og bitnar aðallega á ungu fólki. Atvinnuleysi er í eðli sínu samtök þeirra, sem hafa vinnu, gegn þeim, sem eru að leita sér að vinnu. Það hefur í för með sér mikinn ójöfnuð milli þessara tveggja hópa. Þessi ójöfnuður er horfinn á Íslandi.

Í fimmta lagi hafa lífeyrissjóðirnir íslensku verið styrktir ólíkt því, sem er í mörgum Evrópuríkjum, þar sem þeir munu bráðlega komast í þrot. Hér safna lífeyrisþegar í sjóðina. Síðar meir þurfa þeir ekki að verða háðir náð og miskunn þeirra, sem stjórna sjóðunum hverju sinni. Slíkur ójöfnuður er nú að hverfa.


Lausn vandans?

Til að sjá, að Stefán Ólafsson vekur ekki máls á raunverulegum vanda, má benda á nærtækustu „lausnina“ eftir forsendum hans. Ef nógu mörg fyrirtæki eru rekin með tapi, svo að þau greiða ekki skatt, þá minnka skatttekjur ríkisins. Myndi Stefán fagna þessu og kalla skattalækkun? Ef nógu margir einstaklingar lækka í tekjum, svo að þeir komast undir skattleysismörk, þá minnka skatttekjur ríkisins og skattbyrði hinna fátækustu léttist. Myndi Stefán fagna þessu og kalla skattalækkun? Ef þau Lilja Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson í dæmi okkar flytjast úr skagfirsku sveitinni, þá verður tekjuskiptingin þar jafnari. Myndu bændurnir fagna því og tala um aukinn jöfnuð? Ef fjármagnstekjuskattur verður hækkaður, þá mun þeim fækka, sem kjósa að telja hann fram hér á landi. Ríkasta fólkið mun þá gera hið sama og í Svíþjóð og flytjast burt. Myndi Stefán fagna því og tala um aukinn jöfnuð?

Svíþjóð hefur löngum verið talið fyrirmyndarríki jafnaðarmanna. En það hefur dregist aftur úr öðrum löndum. Árið 1964 voru lífskjör þar, mæld í vergri landsframleiðslu á mann, um 90% af lífskjörum Bandaríkjamanna. Nú eru þau um 75% af lífskjörum Bandaríkjamanna. Gengi Svíþjóð í Bandaríkin, þá væri ríkið eitt hið fátækasta þar, ásamt Mississippi og Arkansas. Rannsóknarstofnun vinstri sinnaðra Bandaríkjamanna, Institute for Policy Studies í Washington-borg, hefur gefið út bók, The State of Working America, sem Stefán Ólafsson styðst við í skrifum sínum. Þar kemur fram (í 8. kafla), að tekjulægsti hópurinn í Svíþjóð hefur minni tekjur en tekjulægsti hópurinn í Bandaríkjunum, þótt vissulega sé tekjumunur miklu meiri í Bandaríkjunum en Svíþjóð.

Við Íslendingar þurfum hins vegar hvorki að sækja fyrirmyndir til Bandaríkjanna né Svíþjóðar. Við höfum frá 1991 farið íslensku leiðina, sem felst í atvinnufrelsi, opnu hagkerfi, lágum sköttum og mörgum tækifærum, en þetta gerir okkur kleift að gera vel við þá, sem minnst mega sín, jafnframt því sem aðrir fá að njóta sín.

Morgunblaðið 1. febrúar 2007. 


Af mannavöldum?

GoreHaustið 1981 var ég nýkominn til Bretlands í framhaldsnám. Þá birtu 364 kunnir hagfræðingar yfirlýsingu um, að stefna Margrétar Thatchers í efnahagsmálum væri röng, enda hlyti hún fyrr en síðar að hverfa frá henni. Í neðri málstofunni skoraði leiðtogi Verkamannaflokksins á járnfrúna að nefna tvo hagfræðinga, sem væru sammála henni. „Alan Walters og Patrick Minford,“ svaraði hún. Ég var síðar staddur þar, sem Thatcher rifjaði þetta upp hlæjandi og sagði, að sem betur fer hefði andstæðingur sinn aðeins beðið um tvö nöfn. Hún hefði ekki getað nefnt fleiri! Thatcher hélt fast við stefnu sína, sem reyndist vel. Vorið 1987 var ég aftur sestur að á Íslandi. Þá birtu þau Guðrún Pétursdóttir líffræðingur, Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur og Guðni Jóhannesson verkfræðingur skýrslu, sem útvarpið kynnti sem stórfrétt. Hún var um það, að Tjörnin hyrfi líklega á þremur vikur, yrði byrjað að grafa fyrir ráðhúsi í norðvesturhorni hennar. Davíð Oddsson borgarstjóri sinnti þessu hvergi, ráðhúsið reis, og enn er Tjörnin á sínum stað.

Ég lærði að hafa ekki sjálfkrafa vísindamanna ráð, þótt þeir fari margir saman. Vísindi eru ekki kóræfing, heldur frjáls samkeppni hugmynda. Þau telja ekki nef, heldur skoða gögn. Þetta á við um þá þríþættu tilgátu, að jörðin sé að hlýna, það sé mannkyni að kenna og á valdi þess að gera eitthvað við því. Óskarsverðlaunahafinn Al Gore krefst þess, að við gerbreytum umsvifalaust lífsháttum okkar. Ég er ekki sérfræðingur í loftslagsfræðum fremur en Gore. En í nýrri heimildamynd, „Blekkingarnar miklu um hlýnun jarðar,“ sem frumsýnd var í bresku sjónvarpi 8. mars síðastliðinn, tala vísindamenn, sem efast um þessa tilgátu. Þeir vefengja fæstir, að jörðin hafi hlýnað um skeið. En þeir benda á, að loftslag tekur sífelldum breytingum. Óvíst sé, að menn ráði úrslitum með losun koltvísýrings og ígildis hans út í andrúmsloftið. Sem kunnugt er mynda þessi efni ásamt vatnsgufu eins konar hjúp í kringum jörðina, sem minnkar varmaútgeislun hennar, svo að hún er nógu hlý til að vera byggileg.

Ein röksemd efasemdamanna er, að breytingar á hitastigi jarðar virðast ekki standa í neinu sambandi við losun manna á koltvísýringi. Um og eftir landnám á 9. öld var til dæmis hlýindaskeið hér úti á Dumbshafi. Vatnajökull var miklu minni en nú, tvískiptur og kallaðist Klofajökull. Þá losuðu menn sáralítinn koltvísýring út í andrúmsloftið. Síðan tók við litla ísöldin svonefnda um 1500-1800. Síðustu hundrað árin hefur hitastig sveiflast til, þótt heldur hafi það fikrað sig upp á við (um á að giska 0,6 stig). Til dæmis var hlýindaskeið árin 1930-1940, en síðan kólnaði fram undir 1980, þótt losun á koltvísýringi hafi þá stóraukist. Stuðningsmenn tilgátunnar um hlýnun af mannavöldum geta auðvitað (og hafa) skýrt þessa kólnun með öðrum áhrifaþáttum, en þá viðurkenna þeir um leið, að fleira ráði loftslagsbreytingum en losun manna á koltvísýringi.

Önnur röksemd efasemdamanna er, að losun manna á koltvísýringi veldur ekki miklu um gróðurhúsaáhrifin. Vatnsgufa er 98% gróðurhúsalofttegunda. Þegar lífverur anda frá sér eða rotna og þegar eldfjöll gjósa, streymir meiri koltvísýringur út í andrúmsloftið en vegna brennslu olíu eða kola. Jafnvel þótt einhver gróðurhúsaáhrif kunni að vera af mannavöldum, mun síðan breyta sáralitlu um þau, þótt reynt sé að minnka losun á koltvísýringi, þótt það sé raunar æskilegt af öðrum ástæðum. Þriðja röksemd efasemdamanna er, að breytingar á hitastigi jarðar virðast standa í beinu sambandi við virkni sólar. Koma geislar úr öðrum sólum úti í geimi og vindar frá okkar sól þar við sögu í flóknu ferli. Stuðningsmenn tilgátunnar um hlýnun af mannavöldum geta auðvitað (og hafa) bent á, að nákvæmar mælingar á þessu eru ekki til langt aftur í tímann. En hið sama er að segja um tilgátu þeirra. Sólvirknikenningin hefur líka þann kost, að hún nær til fyrri loftslagsbreytinga (ef hún reynist rétt), því að sólin hefur alltaf haft áhrif, en mannkyn aðeins nýlega.

Enginn dregur gróðurhúsaáhrifin í efa. Þeirra vegna er jörðin byggileg. En spurningin er, hvað mennirnir hafa gert og geta gert. Hugsanleg svör á að rannsaka fordómalaust í stað þess að búa um sig í skotgröfum.

Fréttablaðið 30. mars 2007


Saga móður

AsaÍ marsbyrjun á þessu ári birtist í Morgunblaðinu átakanleg frásögn roskinnar konu, Ásu Hjálmarsdóttur, sem hafði verið fátæk, einstæð móðir í Hafnarfirði á sjöunda áratug síðustu aldar og alið þar upp fimm börn. Margrét Björnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar stjórnmála og stjórnsýslu í Háskóla Íslands og aðalskipuleggjandi kosningabaráttu Samfylkingarinnar, reyndi óðar að notfæra sér sögu Ásu í áróðri sínum. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 12. mars kvað hún þetta einmitt áminningu um, að ójöfnuður hefði aukist á Íslandi í valdatíð núverandi ríkisstjórnar, eins og Stefán Ólafsson prófessor hefði sýnt. Margrét benti einnig á nýlegar fullyrðingar annars samstarfsmanns síns, Helga Gunnlaugssonar prófessors, um náin tengsl ójafnaðar og afbrota.

Það var erfitt að vera fátækur í Hafnarfirði á sjöunda áratug síðustu aldar. En jöfnuður hefur þar aukist í þeim skilningi, að atvinnutækifærum hefur fjölgað. Ein meginástæðan er álverið, sem reis í lok þess áratugar. Fjöldi Hafnfirðinga fékk vel launaða vinnu í álverinu eða við þjónustu, sem því er tengd. Margrét Björnsdóttir og félagar hennar, þeir Stefán og Helgi, neita að skilja, að forsenda góðra lífskjara er öflugt atvinnulíf. Þá dugir ekki að stöðva allt, eins og vinstri grænir krefjast, eða fresta öllu, eins og Samfylkingin vill. Eitthvað verður að vera til skiptanna. Við lifum ekki lengi á fjallagrösum og munnvatni. Raunar hefur margoft komið fram í alþjóðlegum skýrslum, að á Íslandi eru almenn lífskjör einhver hin bestu í heimi og fátækt óveruleg, þótt tekjuskipting sé tiltölulega jöfn.

Frásögn Ásu Hjálmarsdóttur varð mér umhugsunarefni. Hver skyldu kjör íslenskrar konu í hennar sporum vera fjörutíu árum síðar, 2007? Ég skoðaði upplýsingar um það á heimasíðum ríkisskattstjóra og Tryggingastofnunar. Setjum svo, að konan hafi 130 þúsund kr. í mánaðarlaun. Hún nýtur líka mæðralauna að upphæð 13.846 kr. á mánuði og barnalífeyris (eða sömu upphæðar í meðlag, ef barnsfaðir hennar er á lífi) með fimm börnum, 18.284 kr. með hverju, samtals 91.420 kr. á mánuði. Setjum einnig svo, að tvö barnanna séu yngri en sjö ára. Hún fær samkvæmt því barnabætur að upphæð 104.192 kr. á mánuði. Hún greiðir aðeins skatt af atvinnutekjum sínum og mæðralaunum. Ef gert er ráð fyrir fullum lífeyrissparnaði (sem hún nýtur góðs af síðar meir) og framlagi í stéttarfélag, þá eru ráðstöfunartekjur hennar eftir skatt 327.024 kr. á mánuði. (Til að hafa sömu ráðstöfunartekjur eftir skatt þyrfti einhleyp og barnlaus kona að hafa um 480 þúsund kr. í mánaðarlaun.)

327 þúsund króna mánaðartekjur eru ekki mikið handa fimm barna fjölskyldu, en það er meira en í grannlöndum okkar. Væru Ása og börn hennar fimm að heyja lífsbaráttu sína nú, þá væri annar mikilvægur munur á aðstæðum þeirra hér og á Norðurlöndum. Þau börnin, sem væru orðin stálpuð, ættu auðvelt með að fá hér vinnu, til dæmis í Bónus eða við blaðaútburð, og legðu til heimilisins. Í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum er hins vegar mikið atvinnuleysi og aðallega í röðum ungs fólks. Þar stendur mönnum vissulega til boða að komast á bætur, en ekki að vinna sig úr fátækt í bjargálnir. Það er í þessum skilningi, sem ég held því fram, að jöfnuður hafi þrátt fyrir svartagallsraus Stefáns Ólafssonar aukist á Íslandi: Tækifærum hefur fjölgað, leiðir opnast.

Fullyrðing Margrétar Björnsdóttur um, að aukinn ójöfnuður leiddi til fleiri afbrota, varð mér líka umhugsunarefni. Ég skoðaði tölur um afbrot á heimasíðu hagstofunnar. Þau eru hér fátíðari en víðast annars staðar. Ein besta mælingin á fjölda afbrota er, hversu margir eru sakfelldir fyrir brot á almennum hegningarlögum á hverja þúsund íbúa á aldrinum 16-69 ára. Þetta hlutfall hefur lækkað talsvert síðustu sextán árin, úr 4,8 árið 1991 niður í 3,5 árið 2005. Annar mælikvarði er fjöldi skráðra líkamsmeiðinga á hverja þúsund íbúa. Þetta hlutfall hefur farið úr 5,0 árið 1999 niður í 4,4 árið 2005. Fullyrðingar Margrétar og félaga hennar, þeirra Stefáns og Helga, um ójöfnuð og afbrot á Íslandi eru greinilega marklausar. 

Fréttablaðið 22. mars 2007.


Vistvæn stóriðja

Þegar ferðamenn sigldu inn á Reykjavíkurhöfn fyrir seinna stríð, sáu þeir þykkan kolamökk liggja yfir borginni. Þetta breyttist, eftir að bæjarbúar tóku að dæla heitu vatni úr iðrum jarðar, leiða það í pípur um hús sín og hita þau þannig upp. Loftið yfir borginni varð skyndilega hreint. Íslendingar eru líka svo heppnir, að hér má vinna raforku með vatnsafli, svo að ekki þarf að brenna olíu eða kolum í því skyni. Það er við slíka brennslu annars staðar, sem koltvísýringur er losaður út í andrúmsloftið, en margir hafa af því áhyggjur, því að þeir telja með réttu eða röngu, að við það hlýni jörðin óhóflega.

MyvatnÞað skýtur skökku við, ef náttúruverndarsinnar ólmast gegn vatnsaflsvirkjunum. Þær eru mengunarlausar ólíkt flestum öðrum orkugjöfum. Með þeim er líka notuð endurnýjanleg auðlind, en ekki gengið á snefilefni. Eini annmarkinn, sem kann að vera á slíkum virkjunum frá sjónarmiði náttúruverndarsinna, er, að talsvert land fer sums staðar undir vatn. En við höfum nóg af landi ólíkt orku. Það er meiri prýði að vötnum en grjóti. Raunar má nefna, að Elliðavatn er að mestu leyti uppistöðulón, og Þingvallavatn og Mývatn mynduðust bæði, þegar eldgos stífluðu ár.

Raforkan íslenska er að mestu leyti seld til ál- og járnblendiframleiðslu. Náttúruverndarsinnar ættu að fagna aukinni álframleiðslu af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er þessi málmur léttur, svo að flugvélar og önnur farartæki þurfa því minna eldsneyti sem stærri hluti þeirra er úr áli. Í þeim skilningi er ál vistvænt. Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, telur, að álið, sem framleitt er á Íslandi, hafi árið 2004 sparað losun á 1.628 þúsund tonnum af koltvísýringi og ígildi þess út í andrúmsloftið. Þar eð áliðnaður á Íslandi losaði sjálfur það ár 446 þúsund tonn út í andrúmsloftið, nam hreinn ávinningur af íslenskum álbræðslum frá þessu sjónarmiði séð 1.182 þúsund tonnum.

Í öðru lagi breytum við Íslendingar engu um eftirspurn eftir áli. Ef það er ekki unnið með rafmagni úr íslenskum vatns- eða gufuaflsvirkjunum, þá er það framleitt erlendis með brennslu á eldsneyti, sem hefur í för með sér stórkostlega losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Talið er, að með því að framleiða álið hér sparist 3.474 þúsund tonn af koltvísýringi, sem ella hefði verið losað út í andrúmsloftið annars staðar í heiminum.

Við erum vitaskuld öll hlynnt náttúruvernd í þeim skilningi, að við viljum tryggja, að virkjanir óprýði ekki umhverfið og verksmiðjur óhreinki það sem minnst. Við viljum hreint loft og tært vatn. Það fáum við ekki með því að stöðva alla framþróun og hætta nýtingu náttúrunnar, eins og sumir krefjast, heldur með því að gera einkaaðila ábyrga fyrir slíkri nýtingu, svo að hún verði skynsamleg. Það tekst best með myndun einkaeignarréttar á einstökum náttúrugæðum, því að þá verðleggja menn þessi gæði. Þá taka þeir náttúruna með í reikninginn. Þetta er kjarninn í grænni frjálshyggju.

Náttúran er eins og auðurinn góður þjónn, en vondur húsbóndi. Öfgafulla náttúruverndarsinna ætti ef til vill frekar að kalla náttúrusinna, því að þeir hafna því boðorði fyrstu Mósebókar, að mennirnir eigi að gera náttúruna sér undirgefna, nýta sér fiska loftsins, fugla sjávarins og önnur gæði, þar á meðal auðvitað jarðvarma og vatnsafl.  

Stórvirkjanir stuðla ekki aðeins að náttúruvernd, heldur líka festu í atvinnumálum. Enginn fer með þær, en fjármagn má flytja milli landa með einu pennastriki. Einu frambærilegu rökin gegn því að virkja Neðri-Þjórsá og selja raforkuna til tveggja eða þriggja álvera eru, að það borgi sig ekki. Andstæðingar slíkrar virkjunar verða að sýna, að unnt sé að ávaxta það fé, sem lagt sé í hana, á annan og hagkvæmari hátt. Það þarf að skoða vandlega og fordómalaust. Hitt veit ég, að ákvarðanir um þetta verða ekki skynsamlegar, á meðan stjórnmálamenn ráða ferðinni og Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki, hversu góðir sem stjórnendur þess eru. Ekki verður of oft á það minnt, að menn fara betur með eigið fé en annarra og að það, sem allir eiga, hirðir enginn um.

Fréttablaðið 16. mars 2007. 


Ævintýri líkast

1-geirÁrið 1991, þegar tekjuskattur á fyrirtæki var 45%, skilaði hann tveimur milljörðum króna í ríkissjóð. Árið 2007, þegar skatturinn er kominn niður í 18%, er gert ráð fyrir, að hann skili 34 milljörðum króna í ríkissjóð. Þetta er ævintýri líkast, eflaust einhver best heppnaða skattalækkun sögunnar. Þetta er skýrt dæmi um hinn svokallaða Laffer-boga, sem bandaríski hagfræðingurinn Arthur Laffer rissaði í desember 1974 upp á munnþurrku í veitingahúsi í Washington-borg. Laffer-boginn er líkastur liggjandi hálfhring og sýnir, hvernig skatttekjur (í $) rísa með aukinni skattheimtu (í %), uns kemur að ákveðnum takmörkum, en eftir það falla skatttekjurnar, jafnvel þótt skattheimtan sé aukin. 100% skattheimta skilar ekki krónu í ríkissjóð fremur en 0% skattheimta.

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti tók hugmyndina að baki Laffer-boganum upp, þegar hann beitti sér fyrir stórfelldum skattalækkunum: Skatttekjur ríkisins geta aukist, þótt skattheimtan minnki, vegna þess að skattalækkanir örva fólk og fyrirtæki til dáða. Andstæðingar Reagans kölluðu þetta „voodoo“-hagfræði, en þetta er forn speki. Jón Þorláksson fjármálaráðherra sagði á Alþingi 1925: „Það er almenn regla, viðurkennd af sérfræðingum í skattamálum í meira en 100 ár, að takmörk eru fyrir því, hve mikið má hækka einstaka skatta; þegar komið er að þessu takmarki, leiðir frekari hækkun ekki til aukningar á skatttekjum, heldur til lækkunar á þeim.“ Og öfugt: Þegar komið er fram yfir þau takmörk, sem Jón Þorláksson talaði um, leiðir lækkun skattanna til aukningar á skatttekjum.

Nú er hinum miklu framkvæmdum á hálendinu að ljúka hér og hætt við niðursveiflu í atvinnulífinu. Þá er einmitt rétti tíminn til að ráðast í frekari skattalækkanir. Ef tekjuskattur á fyrirtæki er lækkaður niður í 10%, þá verður hann jafnlágur og í ýmsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, en lægri en á Írlandi, þar sem hann er 12,5%. Írar hafa náð góðum árangri í að laða til sín fjármagn og fyrirtæki. Við ættum að geta gert enn betur. Eins og reynsla okkar sýnir, þarf minni skattheimta ekki að hafa í för með sér lægri skatttekjur, heldur jafnvel hærri. Fyrirtæki munu sjá sér hag í að setjast að hér frekar en í löndum Evrópusambandsins, þar sem þrengt er að þeim á ýmsan veg.

Jafnframt þarf að lækka tekjuskatt á atvinnutekjur til jafns við fjármagnstekjur. Nú greiða menn 35,78% skatt af atvinnutekjum, en ekki 10% af fjármagnstekjum, heldur 26,2% í raun. Þetta sést á einföldu dæmi. Maður á fyrirtæki, sem græðir 1 millj. kr. Fyrirtækið greiðir því 180 þús. kr. í tekjuskatt. Eigandinn hirðir eftir það arð, 820 þús. kr. Af honum verður hann að inna af höndum 82 þús. kr. í fjármagnstekjuskatt. Samtals hefur hann því greitt í tekjuskatt 262 þús. kr. eða 26,2% af heildartekjunum. Ef fjármagnstekjuskattur og tekjuskattur á fyrirtæki eru hvorir tveggja 10%, þá ætti tekjuskattur á einstaklinga að vera 19%, eins og sést á sama dæmi. Maður á fyrirtæki, sem græðir 1 millj. kr. Fyrirtækið greiðir 100 þús. kr. í tekjuskatt. Eigandinn hirðir eftir það arð, 900 þús. kr. Af því verður hann að inna af höndum 90 þús. kr. í fjármagnstekjuskatt. Samtals greiðir hann því í tekjuskatt 190 þús. kr. eða 19% af heildartekjum.

Um leið og tekjuskattur á fyrirtæki yrði lækkaður í 10% og á einstaklinga í 19%, þyrfti að fella niður skattgreiðslur af söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum, eins og Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur bent á. Þetta eru í raun ekki tekjur, heldur innlausn eigna. Fyrirtæki hafa getað frestað skattgreiðslum af þessu endalaust, en ef þau vilja það ekki, þá hafa þau flust til útlanda, sem er óæskilegt. Það er betra, að fjármagnseigendur séu á Íslandi og greiði hér lága skatta en að þeir komi sér fyrir í öðrum löndum og greiði hér enga skatta. Íslenska ævintýrið heldur áfram, ef við víkjum ekki af íslensku leiðinni, sem felst í lækkun skatta og aukinni verðmætasköpun.

Fréttablaðið 9. mars 2007. 


Hamingjusöm og umburðarlynd

Síðustu misserin hafa tveir vinstri sinnaðir prófessorar, Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason, málað hér skrattann á vegginn. Stefán kvað ríkisstjórnina hafa aukið ójöfnuð hraðar en herforingjastjórn Pinochets í Chile. Þorvaldur líkti Davíð Oddssyni við Kim Il Sung í Norður-Kóreu. Þeir Stefán og Þorvaldur feta í fótspor Jóns Grunnvíkings, sem skrifaði snemma á átjándu öld, að Ísland mætti „raunar kallast einslags hrúgald af grjóti, með grasgeirum frá sjó upp eftir skorað“, og sagði síðan: „Landslýður óróasamur með óþokkamál og eyðir sjálfum sér; yfrið ósamþykkt og sundurlynt fólk, ágjarnt líka, óhreinlynt og illa geðjað. Þeir góðu menn eru miklu færri og fá engu ráðið.“

Líklega telja þeir Stefán og Þorvaldur sig til þeirra góðu manna, sem engu fái ráðið. En alþjóðlegar mælingar ganga þvert á áróður þessara tveggja Grunnvíkinga okkar daga. Samkvæmt víðtækri rannsókn hagstofu Evrópusambandsins, sem birtist í febrúarbyrjun 2007 og skoða má á heimasíðu Hagstofu Íslands, er fátækt (þegar hún er skilgreind við lágtekjumörk) einna minnst í heimi á Íslandi. Tekjuskipting er líka tiltölulega jöfn hér. Í Evrópu er hún aðeins jafnari í Slóveníu, Danmörku og Svíþjóð, en ójafnari í 27 löndum. Kjör fátæks fólks eru auðvitað samkvæmt skilgreiningu aldrei góð, en óhætt er að fullyrða, að þau eru óvíða skárri en á Íslandi.

Við erum líka til fyrirmyndar um það, að við sameinum vistvænan atvinnurekstur og arðsaman. Á sama tíma og útgerðarfyrirtæki í flestum öðrum löndum þurfa mikla opinbera styrki, er afkoma slíkra fyrirtækja bærileg hér. Kvótakerfið er ekki fullkomið, en það er skársta kerfið, sem fundist hefur til að takmarka aðgang að takmarkaðri auðlind. Meginkosturinn við það er, að útgerðarmenn hafa beina hagsmuni af því að nýta auðlindina skynsamlega. Á sama tíma og aðrar þjóðir brenna olíu og kolum til að hita upp hús og bræða ál og losa þannig stórkostlegt magn af koltvísýringi út í andrúmsloftið, öflum við hita og raforku með gufu- og vatnsaflsvirkjunum. Þannig leggjum við mikið af mörkum til að minnka mengun í heiminum.

Í alþjóðlegri mælingu, sem tveir hagfræðiprófessorar, annar í Ástralíu, hinn í Bandaríkjunum, gerðu árið 2005, kom enn fremur í ljós, að Íslendingar voru hamingjasamasta þjóð Vesturlanda. Hagfræðingarnir mældu ýmsa þætti, sem vanmetnir eru í hagtölum, svo sem lífslíkur, heilsufar og menntunarstig. Þessar niðurstöður um aðstæður eru svipaðar og komist hefur verið að í alþjóðlegum viðhorfskönnunum. Í víðtækum rannsóknum hollenska félagsfræðiprófessorsins Ruut Veenhoven hafa Íslendingar jafnan reynst vera ein hamingjasamasta þjóð í heimi. Í könnunum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Gallups hafa fengist svipaðar niðurstöður. Breski sálfræðiprófessorinn Adrian White reyndi 2006 að vinna úr ýmsum könnunum annarra, og telur hann Íslendinga fjórðu hamingjusömustu þjóð í heimi.

Hvers vegna eru Íslendingar hamingjusamir? Í fyrsta lagi mælast fámennar þjóðir jafnan hamingjusamari en fjölmennar, meðal annars vegna þess að menn lenda þar sjaldnar utangarðs, fjölskyldu- og vinatengsl eru sterk. Í öðru lagi eru lífslíkur hér miklar og heilsufar gott. Þriðja ástæðan er, að hagsæld er mikil á Íslandi og tækifæri til að komast út úr fátækt mörg. „Því er stundum haldið fram, að kapítalismi geri fólk óhamingjusamt,“ segir White. „En þegar fólk er spurt, hvort það sé hamingjusamt, svarar það frekar játandi, ef það nýtur góðra lífskjara og aðgangs að heilsugæslu og skólagöngu.“ Hann bætir við, að ýmis áhyggjuefni vestrænna nútímamanna virðist blikna í samanburði við skortinn víða, til dæmis í Rússlandi, Kínaveldi og Indlandi, svo að ekki sé minnst á örsnauð Afríkulönd.   

Samkvæmt nýbirtri könnun Háskólans í Belfast eru Íslendingar líka í hópi umburðarlyndustu þjóða. Svíar voru einir umburðarlyndari gagnvart minnihutahópum, en fast á hæla okkar fylgja Danir og Kanadamenn. Þrátt fyrir nöldur þeirra Grunnvíkinga hefur aldrei verið betra að búa á Íslandi. Vonandi tekur fólk ekki mark á þeim, enda væri þá hætta á, að gamli þýski spádómurinn rættist: Ef skrattinn er málaður á vegginn, þá kemur hann.

Fréttablaðið 2. mars 2007 


Talnabrellur um banka

JohannaFullyrðingar Þorvalds Gylfasonar prófessors um ójöfnuð á Íslandi eru hraktar í nýrri skýrslu Evrópusambandsins um lífskjör og tekjudreifingu, sem nálgast má á heimasíðu hagstofunnar. Þar kemur fram, að tekjuskipting á Íslandi var árið 2004 ein hin jafnasta í Evrópu. Þrjú ríki voru með jafnari tekjuskiptingu, 27 með ójafnari. Í samanburði milli landa hafði Þorvaldur gert vonda villu. Hann hafði reiknað með söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum í tölum fyrir Ísland, en þessum stærðum er jafnan sleppt í tölum fyrir önnur lönd. Flóknara var það ekki.

En þegar eitthvað er rekið ofan í Þorvald, leiðréttir hann það ekki, heldur skiptir um umræðuefni. Hér í blaðinu í gær bölsótast hann yfir Sjálfstæðisflokknum. Nú fullyrðir hann á heimasíðu sinni, að Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafi verið seldir „á undirverði“. Bankarnir stundi vaxtaokur vegna vangetu hinna nýju eigenda. Til marks um það sýnir Þorvaldur línurit um, hvernig vaxtamunur inn- og útlána hafi stóraukist eftir sölu bankanna og sé nú um 15%. Einnig getur þar að líta línurit um neikvæða innlánsvexti á sparisjóðsbókum.

Þar eð bankarnir græða vel um þessar mundir, er jarðvegur frjósamur fyrir ásakanir sem þessar. Sumir trúa því, að eins gróði hljóti ætíð að vera annars tap, og þau Guðmundur Ólafsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa í sjónvarpi bergmálað orð Þorvalds. En tölur Þorvalds um vaxtaokur virðast fengnar með svipuðum brellum og tölurnar um ójöfnuð. Svo er að sjá sem hann dragi innlánsvexti á sparisjóðsbókum frá útlánsvöxtum á skammtímalánum (60 daga víxlum). Þannig fær hann sinn 15% vaxtamun. Þetta er fráleit reikningsaðferð, enda er aðeins 1,5% innlána geymt á sparisjóðsbókum og meginþorri allra útlána til heimila (um 85%) er húsnæðislán, ekki skammtímalán.

Samkvæmt viðurkenndri reikningsaðferð, sem Seðlabankinn notar, er vaxtamunur inn- og útlána á Íslandi nú 1,9% og hefur lækkað talsvert síðustu ár. Hann var til dæmis 3,3% árið 2001, ári áður en gengið var frá sölu bankanna. (Þessi vaxtamunur er reiknaður sem munurinn á heildarvaxtatekjum og heildarvaxtagjöldum bankanna í hlutfalli af meðaltali niðurstöðu efnahagsreikninga þeirra í upphafi og lok árs.) Önnur leið til að gera sér grein fyrir vaxtamun er að reikna út, hvað vaxtatekjur eru stórt hlutfall af hagnaði bankanna. Þetta hlutfall hefur hrapað úr 666% árið 1995 í 77% árið 2004.

Það segir sitt, að maður, sem leitar með logandi ljósi að einhverju misjöfnu um bankana, skuli veifa vöxtum á sparisjóðsbókum, en horfa fram hjá vöxtum á 98,5% innlána. Raunar vita langflestir Íslendingar af eigin reynslu, að vaxtakjör hafa batnað. Áður gátu menn aðeins fengið verðtryggð húsnæðislán frá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum á 6-7% vöxtum. Nú bjóða viðskiptabankarnir verðtryggð húsnæðislán á tæplega 5% vöxtum. Hitt er annað mál, að vaxtamunur milli Íslands og útlanda er mikill, vegna þess að Seðlabankinn krefst hárra vaxta á peningum til viðskiptabankanna, svo að verðbólga hjaðni. Það merkir, að vextir eru háir á Íslandi jafnt á innlánum og útlánum, ekki, að vaxtamunur inn- og útlána sé hér mikill.

Vegna aðdróttana Þorvalds um sölu bankanna verður síðan að rifja upp, að reynt var að fá erlenda aðila til að kaupa ráðandi hluti í bönkunum haustið 2001. Þeir höfðu ekki áhuga. Sumarið 2002 barst óvænt boð um viðræður um kaup á ráðandi hlut í Landsbankann frá Björgólfi Guðmundssyni og fleirum, sem höfðu efnast í Rússlandi. Þá var ákveðið að auglýsa þennan hlut til sölu, og bárust þrjú fullnægjandi tilboð. Ákveðið var að ráði HSBC, eins virtasta fjármálafyrirtækis heims, að taka tilboði Björgólfs og félaga, enda gætu þeir best sýnt fram á greiðslugetu. Ríkisendurskoðun fór vandlega yfir söluna og taldi ekkert athugavert. Raunar kom í ljós, þegar endurskoðunarstofan KPMG rannsakaði bankann eftir kaupin, að ekki hafði nægilegt fé verið lagt í afskriftasjóð, og var verðið til þeirra Björgólfs lækkað fyrir vikið. Í árslok 2003 gerði Ríkisendurskoðun aðra skýrslu að kröfu Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs um sölu nokkurra ríkisfyrirtækja, þar á meðal Landsbankans og Búnaðarbankans, og fann þar ekkert ámælisvert heldur.

Viðskiptabankarnir hafa dafnað vonum framar, fært út kvíarnar til Evrópu og grætt á tá og fingri. Það er ekki fé, sem almenningur hefur orðið af, eins og Þorvaldur Gylfason virðist trúa, heldur fé, sem hefði ekki orðið til, hefðu bankarnir ekki verið seldir.

Fréttablaðið 23. febrúar 2007. 


Nýr Dyrhólagatisti?

BjörnJónsÖllum getur skjátlast. En það er misjafnt, hversu illa þeim verður á og hversu vel þeir taka því síðan. Frægt var, þegar Finnur prófessor Magnússon las í maí 1834 kvæði undir fornyrðislagi úr jökulrispum í Runamo í Svíþjóð. Þótti það einhver mesta háðung, sem orðið hefði í norrænum fræðum. Mikill lærdómur leiddi Finn í gönur. Hann var hinn vænsti maður, en lét lítið fara fyrir sér eftir þetta.

Annað dæmi var, þegar Björn Jónsson ritstjóri birti í Sunnanfara 1901 mynd af Gatkletti við Arnarstapa á Snæfellsnesi, en sagði, að hún væri af Dyrhólaey. Keppinautur hans, Hannes Þorsteinsson, ritstjóri Þjóðólfs, var ekki seinn að benda á villuna. En Björn vildi ekki viðurkenna hana, þótt augljós væri, og kallaði Þjóðólfur hann stundum eftir það „Dyrhólagatistann“. Þetta uppnefni var því sárara sem Björn hafði sökum þrálátra kvíðakasta ekki lokið prófi frá Kaupmannahafnarháskóla.

Það var öllu saklausara, þegar Sigurður Skúlason norrænufræðingur gaf út Sögu Hafnarfjarðar 1933. Hann hafði mislesið te fyrir tjöru í verslunarskýrslum og gert Hafnfirðinga fyrir vikið að áköfum tedrykkjumönnum. Jón Helgason orti um muninn á Kristi og Sigurði:

Fyrst kom einn og breytti vatni í vín
og vann sér með því frægð sem aldrei dvín.
En annar kom og breytti tjöru í te
og tók að launum aðeins háð og spé.


Sigurður bar ekki sitt barr eftir þetta. Hann hefði auðvitað átt að sjá villuna, en gerði það ekki.

Alræmdasta dæmið var af Guðbrandi Jónssyni prófessor. Hann skrifaði í útvarpsgagnrýni í Vísi 19. nóvember 1938, að erindi, sem dr. Björn Karel Þórólfsson skjalavörður hefði flutt, hefði verið „efnisríkt, en of þurrt, og flutningurinn var of þver og svæfandi“. Sá hængur var á, að erindið hafði fallið niður. Guðbrandur afsakaði sig með því, að hann hefði sofnað við útvarpið og ekki lesið rétt úr hraðrituðu minnisblaði. Hlegið var um allt land. Þetta varð Jóni Helgasyni tilefni til gamankvæðisins „Hraðritunar“.

Sigurður A. Magnússon féll síðan fyrir gamalkunnu bragði, þegar borin var undir hann ljóðabók, sem tveir blaðamenn á Vikunni höfðu soðið saman eina sumarnóttina árið 1963. Hann fór hinum lofsamlegustu orðum um bókina, sem prakkararnir nefndu auðvitað Þokur. Þá orti Loftur Guðmundsson:

Dæmdi sig hinn dóma strangi
dárann mesta í glópa flokki.
Alltaf hefði Mera-Mangi
muninn þekkt á skeiði og brokki.


Faðir Sigurðar var kunnur hestamaður og kallaður Mera-Mangi.

myndir5Ég sé ekki betur en Þorvaldur Gylfason, sem er einmitt prófessor eins og þeir Finnur og Guðbrandur, sé kominn í þennan fríða flokk. Hann birti hér í blaðinu 10. ágúst 2006 grein um Gini-stuðla, sem áttu að sýna, að tekjuskipting á Íslandi hefði á tíu árum breyst úr því, sem hún var í Noregi, í það, sem hún væri á Bretlandi. En Þorvaldur gáði ekki að því, að Gini-stuðlarnir fyrir önnur lönd voru reiknaðir án söluhagnaðar af hlutabréfum og verðbréfum, eins og venjan er, en þeir Gini-stuðlar, sem hann reiknaði út fyrir Ísland, voru að slíkum hagnaði meðtöldum.

Þetta er svipuð villa og ef Sigurður gamli Skúlason hefði lagt saman tölur um notkun Íslendinga á tei og tjöru, fengið út háa tölu, borið hana saman við tölur um notkun annarra þjóða á tei einu saman og síðan fullyrt, að Íslendingar drykkju miklu meira te en aðrar þjóðir. Samkvæmt nýrri skýrslu Evrópusambandsins um tekjuskiptingu 2003-2004, sem er aðgengileg á heimasíðu hagstofunnar, er tekjuskipting á Íslandi ein hin jafnasta í Evrópu, aðeins jafnari í þremur löndum og ójafnari í 27 löndum.

Þorvaldur ber ekki fyrir sig eins og Guðbrandur, að hann hafi dottað yfir minnisblaði. Þess í stað skiptir hann um umræðuefni, eins og sést á grein hans hér í blaðinu í gær. Þar víkur hann talinu að því, að tekjuskiptingin sé orðin hér eitthvað ójafnari en hún var fyrir 10-15 árum, sem er eflaust rétt, en minnist ekki á samanburð Gini-stuðla fyrir Ísland og önnur lönd, sem var aðalatriðið í máli hans síðastliðið haust. Þorvaldur þrætir þannig enn fyrir, að mynd sín af tekjuskiptingunni sé röng. Höfum við Íslendingar eignast nýjan Dyrhólagatista?

Fréttablaðið 16. febrúar 2007. 


Ginningarfífl

Prófessorarnir Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson hafa klifað á því síðustu mánuði, að ójöfnuður hafi hér stóraukist. Stjórnarandstæðingar hafa tekið hressilega undir með þeim. Til marks um aukinn ójöfnuð nefna þeir Þorvaldur og Stefán svonefndan Gini-stuðul, sem er mælikvarði á tekjuskiptingu. Þar sem tekjuskiptingin er jöfn, er stuðullinn 0, en þar sem hún er eins ójöfn og framast má verða (einn maður hefur allar tekjurnar), er stuðullinn 1.

Hinn 10. ágúst 2006 birti Þorvaldur Gylfason grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Hernaður gegn jöfnuði“. Þar kvað hann ríkisskattstjóraembættið hafa reiknað út fyrir sig Gini-stuðla fyrir Ísland tólf ár aftur í tímann. (Það er aukaatriði, að enginn hjá embættinu kannast við að hafa gert þetta.) Samkvæmt tölum Þorvalds var Gini-stuðull fyrir Ísland árið 2005 0,36 og hafði hækkað árlega að meðaltali um rösk 0,1 stig. Þorvaldur kvað sögulegt, að tekjuskiptingin á Íslandi væri orðin eins ójöfn og í Bretlandi.

Hinn 31. ágúst 2006 birti Stefán Ólafsson grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Aukning ójafnaðar á Íslandi“. Þar gerði hann tölur Þorvalds að sínum, enda væru þær, sagði Stefán, í góðu samræmi við lífskjarakönnun, sem Evrópusambandið vinnur að í samstarfi við hagstofur aðildarríkjanna auk Sviss, Noregs og Íslands. Stefán birti með greininni línurit um, að Gini-stuðullinn fyrir Ísland hefði farið úr 0,25 árið 1995 í 0,35 árið 2004. Þetta væri miklu ójafnari tekjuskipting en annars staðar á Norðurlöndum.

Stefán bætti um betur í viðtali við Fréttablaðið 30. október 2006. Þar sagði hann, að ójöfnuður hefði aukist hraðar á Íslandi síðustu tíu árin en í Chile á valdadögum herforingjastjórnar Pinochets. Þessi ummæli þóttu sæta slíkum tíðindum, að Fréttastofa útvarpsins birti sama dag sérstaka frétt um þau. Greinarnar og viðtölin má sjá á heimasíðum Þorvalds, Stefáns, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins á Netinu.

Ég benti á það opinberlega fyrir skömmu, að þeir Þorvaldur og Stefán hafa rangt fyrir sér. Ástæðan er einföld. Í tölum þeim um Gini-stuðla, sem þeir notuðu fyrir Ísland, var söluhagnaður af hlutabréfum tekinn með. Hann veldur mestu um, hversu ójöfn tekjuskiptingin mælist á Íslandi, því að hann skiptist fremur ójafnt. Í tölum þeim um Gini-stuðla, sem Þorvaldur og Stefán notuðu fyrir önnur lönd, er söluhagnaður af hlutabréfum hins vegar ekki tekinn með, enda er það ekki venja, þar eð þetta eru óreglulegar fjármagnstekjur.

Hvorki Þorvaldur né Stefán hafa leiðrétt tölur sínar opinberlega, en Stefán lætur þessa atriðis stuttlega getið í nýlegri ritgerð í vefriti Stofnunar stjórnsýslu og stjórnmála. Um eitt hundrað manns lesa það rit, þúsund sinnum færri en sáu ummæli Stefáns í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Nú er nýkomin út skýrsla Hagstofu Íslands, Lágtekjumörk og tekjudreifing 2003-2004. Þar er stuðst við þá lífskjarakönnun Evrópusambandsins, sem Stefán vitnaði í. Margt kemur þar merkilegt fram. Árið 2004 reyndist fátækt (samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins) til dæmis vera einna minnst á Íslandi af öllum Evrópulöndum. Hún var aðeins minni í einu landi, Svíþjóð, en meiri í 28 löndum, þar á meðal Noregi, Danmörku og Finnlandi.

Ekki var síður athyglisvert, að tekjuskipting á Íslandi var samkvæmt skýrslunni jafnari en í langflestum öðrum löndum Evrópu. Gini-stuðull árið 2004 fyrir Ísland var 0,25. Hann var aðeins lægri í þremur löndum, Slóveníu, Svíþjóð og Danmörku, og munar þó litlu. Gini-stuðull var hærri (tekjuskipting ójafnari) í 28 löndum. Hann var 0,26 fyrir Finnland og 0,28 fyrir Noreg.

Þessar tölur eru reiknaðar út eins í öllum Evrópulöndum, án söluhagnaðar af hlutabréfum. Þær sýna, að ójafnaðartal þeirra Þorvalds og Stefáns var út í bláinn. Tölur þeirra um Gini-stuðla fyrir Ísland voru rangar eða að minnsta kosti ósambærilegar við tölur frá öðrum löndum. Stjórnarandstæðingar urðu ginningarfífl þeirra.

Fréttablaðið  9. febrúar 2007.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband