Talnabrellur um tekjuskiptingu

Stefán Ólafsson prófessor birti grein í Morgunblaðinu 31. ágúst 2006 undir heitinu „Aukning ójafnaðar á Íslandi“. Þar hélt hann því fram, að eðlisbreyting hefði orðið á íslenska hagkerfinu næstu fimmtán ár á undan. Það hefði í fæstum orðum breyst úr norrænu velferðarríki með tiltölulega jafna tekjuskiptingu í átt til Bretlands og Bandaríkjanna, þar sem tekjuskipting væri miklu ójafnari. Hann birti með mynd af svokölluðum Gini-stuðlum, sem mæla ójafna tekjuskiptingu, og sagði: „Eins og sjá má á mynd 1 eru frændþjóðir okkar í Skandinavíu með hvað jöfnustu tekjuskiptinguna í Evrópu, eins og þær hafa lengi verið.“ Einnig sagði hann: „Við erum hins vegar nú orðin jafnfætis Bretlandi, sem þekkt er ásamt Bandaríkjunum fyrir ójafna tekjuskiptingu og mikinn stéttamun í samfélagsmálum. Þetta eru umskipti í tekjuskiptingu á Íslandi sem líkja má við byltingu á því sviði.“


Rangt reiknaður Gini-stuðull Stefáns

GiniStefanHér birti ég á 1. mynd tölur þær um nokkra Gini-stuðla 2004, sem Stefán notaði í grein sinni í Morgunblaðinu 31. ágúst. Svörtu súlurnar eru Gini-stuðlar viðmiðunarþjóða Stefáns, Norðurlanda annars vegar og Bretlands hins vegar, en Stefán segir það land þekkt „fyrir ójafna tekjuskiptingu og mikinn stéttamun í samfélagsmálum“. Myndin sýnir vissulega það, sem henni er ætlað, að tekjuskipting á Íslandi hafi færst í líkt horf og í Bretlandi: Gini-stuðlar fyrir Norðurlöndum eru um og yfir 0,25, en Gini-stuðull fyrir Bretland 2004 0,34 og fyrir Ísland sama ár 0,35. Eftir grein Stefáns í Morgunblaðinu hófust innfjálgar umræður um það, að Ísland væri að breytast til hins verra. Ég benti hins vegar á það í fyrirlestri í Háskóla Íslands 31. janúar 2007, að tölur Stefáns væru rangar. Hann tæki með í Gini-stuðlinum fyrir Ísland allar tekjur, jafnt atvinnutekjur sem fjármagnstekjur, en í Gini-stuðlum fyrir aðrar þjóðir væri ekki reiknað með þeim hluta fjármagnstekna, sem stafaði af söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum. Hann bæri saman ósambærilega hluti. Þetta væri eins og hann legði saman innflutning á eplum og appelsínum til Íslands og bæri saman við innflutning á eplum einum saman til annarra þjóða, en kæmist síðan að þeirri niðurstöðu, að neysla Íslendinga á eplum væri óvenjumikil.

Þar eð söluhagnaður af hlutabréfum og verðbréfum skiptist ójafnt eðli málsins samkvæmt, verður hann til að hækka Gini-stuðulinn fyrir Ísland verulega. Ályktanir Stefáns um það, að tekjuskipting á Íslandi væri að breytast úr því, sem hún væri á Norðurlöndum, og í líkt horf og í Bretlandi, voru því dregnar af röngum forsendum. Stefán þyngdi vogina eins og Schougaard kaupmaður forðum, sem sagði við Skúla Magnússon: „Mældu rétt, strákur!“ og átti þá við, að hann skyldi mæla rangt. Skömmu eftir að ég flutti fyrirlestur minn, birti Evrópusambandið nýja rannsókn á lífskjörum og tekjudreifingu í löndum álfunnar. Þar eru allir Gini-stuðlar reiknaðir á réttan hátt, með atvinnutekjum og fjármagnstekjum öðrum en söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum. Gini-stuðlarnir um Norðurlönd, Ísland og Bretland samkvæmt þessari rannsókn sjást á 2. mynd (en allar tölur eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofu Íslands, þar sem skýrsla Evrópusambandsins er birt í heild).

GiniESBÞessi mynd sýnir, að árið 2004 var tekjuskipting á Ísland svipuð og á Norðurlöndum, séu viðurkenndar, alþjóðlegar reikningsaðferðir notaðar. Gini-stuðullinn fyrir Ísland var 0,25, aðeins hærri en í Svíþjóð og Danmörku og aðeins lægri en í Finnlandi og Noregi, en talsvert lægri en í Bretlandi. Allt tal Stefáns og skoðanasystkina hans um það, að tekjuskipting væri hér að komast í svipað horf og í Bretlandi, sem þekkt væri „fyrir ójafna tekjuskiptingu og mikinn stéttamun í samfélagsmálum“, var úr lausu lofti gripið. Hin mikla frétt hans um svo mikil umskipti, að líkja mætti við byltingu, var reist á röngum tölum. Fjallið tók jóðsótt, og mús fæddist.

Þess má raunar geta, að í rannsókn Evrópusambandsins kom einnig fram, að fólk við lágtekjumörk er næstfæst hlutfallslega á Íslandi í allri Evrópu og þá um leið sennilega í heiminum. Það er aðeins í Svíþjóð, þar sem færri búa við slík lágtekjumörk eða hættu á fátækt, eins og það er kallað. Tölurnar í rannsókn Evrópusambandsins eru frá 2003 og 2004. Þetta er athyglisvert í ljósi þess, að fyrir kosningarnar 2003 héldu Stefán og skoðanasystkini hans því fram, að fátækt hefði aukist á Íslandi, svo að til vandræða horfði, eins og meðal annars má sjá á fréttaskýringu Hildar Einarsdóttur hér í blaðinu 26. janúar 2003. Enginn dregur í efa, að fátækt sé til á Íslandi eins og í öðrum löndum. En það skiptir auðvitað máli að vita, að hún er minni hér en nánast alls staðar annars staðar á byggðu bóli.


Stefán leiðréttir ekki villuna um Gini-stuðla

Stefán Ólafsson leiðréttir ekki villu sína beint, heldur viðurkennir hana óbeint með því að skipta um viðmið. Nú ber hann Ísland ekki lengur saman við Norðurlönd og Bretland, heldur við Ísland fyrir tíu árum. Í Silfri Egils sunnudaginn 25. febrúar og í grein í Morgunblaðinu daginn eftir fullyrðir hann, að tekjuskipting á Íslandi hafi orðið ójafnari hin síðari ár, auk þess sem það gefi ekki nógu góða mynd af tekjuskiptingunni að sleppa söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum. Setjum svo rökræðunnar vegna, að Stefán hafi rétt fyrir sér um þetta hvort tveggja. Það breytir samt engu um, að hann og skoðanasystkin hans héldu öðru fram síðastliðið haust. Þá var aðalatriðið, að tölur, sem fengnar væru með alþjóðlegum reikningsaðferðum, sýndu, að tekjuskiptingin á Íslandi væri að færast í svipað horf og í Bretlandi og jafnvel Bandaríkjunum. Orðaði Jón Baldvin Hannibalsson það eftirminnilega, þegar hann fullyrti í sjónvarpi, að Ísland væri að breytast í skrípamynd af Bandaríkjunum, um leið og hann mælti fyrir um, að Stefán Ólafsson yrði ráðherra í nýrri vinstri stjórn.

Ég tel líklegt, að tekjuskipting á Íslandi hafi orðið eitthvað ójafnari hin síðari ár, ef allar tekjur eru skoðaðar, fjármagnstekjur jafnt og atvinnutekjur, eins og Stefán vill gera. Þótt allir hafi orðið ríkari, hafa hinir ríku orðið ríkari hraðar en hinir fátæku. En annað er að mínum dómi mikilvægara: Hinir fátæku á Íslandi hafa orðið ríkari hraðar en í langflestum öðrum löndum. Í tölum Stefáns sjálfs (sem nálgast má á heimasíðu hans) kemur til dæmis fram, að árin 1995-2000 bötnuðu kjör 20% tekjulægsta hópsins á Íslandi um 3,1% á ári að meðaltali, en kjör sama hóps að meðaltali í löndum OECD um 1,6%. Aðrar tölur, sem ég hef fengið frá OECD og kynnt opinberlega, hníga í sömu átt. Með öðrum orðum hafa kjör hinna tekjulægstu á Íslandi batnað 50-100% hraðar hin síðari ár en kjör hinna tekjulægstu að meðaltali í löndum OECD, sem eru þó ríkustu lönd heims. Þetta er góður árangur. Er það síðan sérstakt áhyggjuefni, að nýjar fjármagnstekjur hafa myndast? Slíkar tekjur voru nánast ekki til áður og stafa af því, að fjármagn hefur flust í hendur einstaklinga og ber þar miklu stærri og betri ávöxt en áður. Skatttekjur ríkisins af fjármagnstekjum námu 2006 um 18 milljörðum króna. Er það ekki fagnaðarefni, að um 100 fjölskyldur, sem hafa verulegar fjármagnstekjur, kjósa að telja þær fram á Íslandi frekar en í Sviss, eins og þeim stendur áreiðanlega til boða?

Ég hef líka bent á, að tækifærum fólks til að komast út úr fátækt hefur fjölgað á Íslandi með opnara og frjálsara hagkerfi. Nú er fjármagn ekki lengur skammtað eftir stjórnmálaítökum umsækjenda, heldur greiðslugetu þeirra og hagnaðarvon. Hér er full atvinna, svo að menn geta unnið sig út úr erfiðleikum, ólíkt því sem er til dæmis í Svíþjóð, þar sem atvinnuleysi er mikið, sérstaklega hjá ungu fólki. Á Íslandi eru líka traustir lífeyrissjóðir, raunir hinir sterkustu í heimi. Jöfnuður hér hefur í þessum skilningi aukist.


Nokkrar aðrar reikningsskekkjur Stefáns

Um það má deila, hvort telja eigi söluhagnað af hlutabréfum með tekjum, eins og Stefán Ólafsson vill gera. Vissulega er fróðlegt að gera það. Reikningsaðferð Evrópusambandsins er þó skýr: Þar er slíkum tekjum sleppt. Til þess eru gildar ástæður. Hlutabréf eru eignir eins og hús. Það er ekki alltaf söluhagnaður af þeim. Þau hækka eða lækka í verði. Á ríkið að endurgreiða fjármagnseigendum, þegar þeir selja hlutabréf sín með tapi? Tökum einfalt dæmi til frekari skýringar. Stefán Ólafsson á einbýlishús í Fossvogi, sem var eflaust 50 milljón króna virði fyrir þremur árum. Setjum svo, sem er líklegt, að það hafi hækkað í verði um tuttugu milljónir krónur vegna góðærisins 2005-2006. Skuldar Stefán þá ríkissjóði 2 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt fyrir þessi tvö ár? Það er óeðlilegt. Þetta eru ekki reglulegar tekjur og víða ekki skattlagðar. Unnt er að vísu að fresta skattgreiðslum af söluhagnaði með endurfjárfestingum, en ýmis íslensk fyrirtæki, sem vilja leysa út þennan hagnað, hafa flust til annarra landa, þar sem slíkur söluhagnaður er ekki skattlagður. Það er raunverulegt áhyggjuefni ólíkt ýmsum umræðuefnum Stefáns.

Stefán gerir síðan vonda villu, þegar hann tekur nú í Morgunblaðinu 26. febrúar 2007 það dæmi um ójöfnuð á Íslandi, að fjármagnstekjuskattur sé 10%, en skattur af atvinnutekjum hátt í 40%. Í raun og veru er fjármagnstekjuskatturinn 26,2%, eins og sést á einföldu dæmi. Hlutafélag í eigu eins manns græðir eina milljón króna. Það greiðir 18% tekjuskatt. Þá eru eftir 820 þúsund krónur, sem maðurinn tekur út í arð. Af þeim innir hann af höndum 10% fjármagnstekjuskatt eða 82 þúsund krónur. Hann hefur þá samtals greitt 262 þúsund krónur af þessari einu milljón eða 26,2%. Þegar um húsaleigu er að ræða, hefur fasteignin, sem leigð er, eflaust að mestu leyti verið reist fyrir fé, sem þegar hefur verið greiddur tekjuskattur af. Sama er að segja um innstæður í bönkum.

Í Silfri Egils 25. janúar 2007 fór Stefán enn fremur með staðlausa stafi um skattlagningu í öðrum löndum. Ég benti honum þar á, að skattleysismörk eru miklu lægri í Svíþjóð og á Írlandi en hér. Hann svaraði því til, að lágtekjufólk greiddi þar lægra hlutfall af tekjum sínum en hátekjufólk, því að í báðum löndum sé tekjuskattur stighækkandi ólíkt því, sem er hér á landi, þar sem eru í raun aðeins tvö skattstig, 0% skattur á þá, sem hafa tekjur undir skattleysismörkum, og 35,78% skattur á tekjur umfram skattleysismörk. Flókið er að vísu að reikna út skattbyrði annars staðar. En af yfirliti OECD um skattkerfi aðildarríkjanna, sem nálgast má á heimasíðu stofnunarinnar, sé ég ekki betur en lágtekjumaður (til dæmis maður með 100 þúsund króna mánaðartekjur) greiði hærra hlutfall atvinnutekna í tekjuskatt í Svíþjóð og á Írlandi en á Íslandi. Þetta stafar af miklu lægri skattleysismörkum í þessum löndum. Stefán fullyrti líka í Silfri Egils, að fjármagnstekjuskattur væri 40% á Írlandi. Þetta er rangt, eins og sjá má á síðunni www.evca.com. Fjármagnstekjuskattur á Írlandi er 20% á hagnað umfram verðbólgu, en vegna þess að tekjuskattur á fyrirtæki er þar talsvert lægri en hér, 12,5%, er hann í raun 30%, eins og sjá má með sams konar útreikningum og á fjármagnstekjuskatti á Íslandi. Á 26,2% og 30% er bita munur, ekki fjár.


Stórkostlegur árangur af skattalækkunum

Sannleikurinn er sá, að skattalækkanirnar síðasta hálfan annan áratug á Íslandi hafa skilað stórkostlegum árangri. Til dæmis hafa skatttekjur af fyrirtækjum hækkað mjög, þótt skattheimtan eða skatthlutfallið hafi lækkað. 45% tekjuskattur á fyrirtæki skilaði 1991 í ríkissjóð röskum tveimur milljörðum króna, en 18% skattur skilar 2007 34 milljörðum króna. Þetta er ótrúlegt, en satt. Nýlega lagði nefnd um fjármálamarkaðinn, sem forsætisráðherra skipaði undir forystu Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi, til, að tekjuskattur á fyrirtæki yrði lækkaður niður í 10%, svo að Íslendingar gætu keppt um fyrirtæki og fjármagn við Íra, sem Stefán Ólafsson tekur einmitt stundum dæmi af með velþóknun. Af reynslu síðustu fimmtán ára má ráða, að skatttekjur ríkisins þurfa alls ekki að lækka við þetta. Hitt er annað mál, að jafna þarf muninn milli tekjuskatts á atvinnutekjur og fjármagnstekjur. Ef tekjuskattur á fyrirtæki lækkaði niður í 10%, þá þyrfti hann að vera 19% á atvinnutekjur, til þess að hann yrði jafn 10% fjármagnstekjuskatti af ástæðum, sem þegar hafa verið nefndar. Allir myndu hagnast á þessu, ekki síst láglaunafólk. Þótt vissulega sé fátækt hér hverfandi og tekjuskipting ein hin jafnasta í heimi samkvæmt alþjóðlegum könnunum, má gera betur.

Morgunblaðið 28. febrúar 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband