Færsluflokkur: Bloggar
2.4.2007 | 23:23
Allt rekið ofan í þá
Í umræðum síðustu mánaða um öryggi Íslands í kalda stríðinu hefur allt verið rekið ofan í þá, sem deilt hafa á stefnu íslenskra stjórnvalda á þeirri tíð. Umræðurnar hófust, þegar dr. Þór Whitehead prófessor sagði í tímaritinu Þjóðmálum frá öryggisdeild íslensku lögreglunnar, sem hafði gætur á ráðstjórnarvinum. Þá kvaðst Guðni Th. Jóhannesson hafa heimildir fyrir því, að Ólafur Jóhannesson, sem lengi var formaður Framsóknarflokksins og dómsmálaráðherra, hefði ekki vitað af þessari öryggisdeild. Þetta greip fréttamaður Stöðvar tvö á lofti og flutti frétt um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins kættust mjög og skeyttu engu, að Guðni kvað nafngiftina ekki frá sér komna.
Össur Skarphéðinsson spurði hér í blaðinu, hvort leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins bæri ábyrgð á eftirgrennslan, sem Þór sagði frá í ritgerð sinni, um hugsanleg tengsl Svavars Gestssonar við hina illræmdu leyniþjónustu Austur-Þýskalands, Stasi. Hún fór fram eftir hrun Berlínarmúrsins haustið 1989. Þór upplýsti, að tveir samráðherrar Svavars í ríkisstjórninni 1988-1991, Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson, hefðu sent íslenskan embættismann til Þýskalands í því skyni að afla upplýsinga um Svavar.
Guðni Th. Jóhannesson sá sig síðan knúinn til að greina opinberlega frá því, að hann hefði nú heimildir fyrir því, að Ólafur Jóhannesson hefði vitað um öryggisdeildina, enda hefði starfsemi hennar verið eðlileg í kalda stríðinu. Þessi yfirlýsing Guðna þótti af einhverjum ástæðum ekki eins fréttnæm og hin fyrri.
Áður hafði Jón Baldvin Hannibalsson fullyrt opinberlega, að í utanríkisráðherratíð sinni 1988-1995 hefði sími sinn verið hleraður. Davíð Oddsson, sem var forsætisráðherra frá 1991, vísaði þessu á bug og upplýsti, að tæknimenn Atlantshafsbandalagsins hefðu kannað reglulega, hvort símar ráðherra væru hleraðir. Jón Baldvin brást ókvæða við og hnýtti ýmsum atriðum við sögu sína. Nokkrir fleiri gáfu sig fram, allt alræmdar skrafskjóður, sem sögðu síma sína hafa verið hleraða. Hefði þurft fjölmennt starfslið til að hlusta á allt þeirra tal. Ríkissaksóknari tók málið til rannsóknar, og kom í ljós, að ásakanir Jóns Baldvins voru hugarburður.
Þessum hugarburði rugluðu sumir saman við það, sem þeir Guðni Th. Jóhannesson og Þór Whitehead höfðu upplýst, að öryggisdeild lögreglunnar fékk nokkrum sinnum í kalda stríðinu heimild til hlerana, meðal annars hjá Kjartani Ólafssyni, þá framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins. Kjartan krafðist aðgangs að gögnum um málið, sem Guðni Th. Jóhannesson hafði setið einn að á Þjóðskjalasafninu. Menntamálaráðherra veitti Kjartani aðganginn með sérstökum úrskurði, eins og sjálfsagt var. Það er hins vegar kaldhæðni, að Kjartan hafði verið framkvæmdastjóri flokks, sem hafði árum saman haft vinsamleg samskipti við Austur-Þýskaland, þar sem stjórnvöld beittu hlerunum og njósnum til að kúga þegna sína. Hér voru hins vegar aðeins hafðar gætur á örfáum mönnum, sem grunaðir voru um að hafa í hyggju ofbeldi.
Einn undarlegasta þáttinn í þessum umræðum átti Jón Ólafsson Moskvufari. Hann skrifaði nokkrar blaðagreinar um, að lítil sem engin hætta hefði verið af íslenskum kommúnistum og því síður af Ráðstjórnarríkjunum. Rússneskir leyniþjónustumenn hefðu haldið sér til hófs á Íslandi, og eftir dauða Stalíns hefðu Ráðstjórnarríkin ekki lengur verið alræðisríki. Í Moskvu hafði Jón kannað skjöl um samskipti íslenskra kommúnista og ráðstjórnarinnar og birt um bók 1999, Kæru félagar. Sú bók sýnir þrátt fyrir margvíslegan hálfsannleik áhuga ráðstjórnarinnar á Íslandi og þjónustulund íslenskra kommúnista við hana, eins og Þór Whitehead og Björn Bjarnason rifjuðu upp.
Þeir Þór og Björn hafa hrakið fullyrðingar Jóns Ólafssonar með góðum rökum. Auðvitað voru íslenskir kommúnistar ekki deigari baráttumenn eða óeinlægari í trú sinni en skoðanasystkini þeirra erlendis. Þeir höfðu hér þjálfaðar baráttusveitir fyrir stríð, skipulögðu nokkrum sinnum götuóeirðir og höfðu í hótunum við ráðamenn. Þeir þáðu stórfé úr sjóðum Kremlverja til flokks síns og bókaútgáfu. Ráðstjórnarríkin voru langt fram eftir tuttugustu öld alræðisríki, sem skirrðist ekki við að beita valdi. Nokkrir njósnarar leyniþjónustu hersins störfuðu jafnan í sendiráði þeirra í Reykjavík. Við vitum aðeins um þau dæmi, þegar mistókst að fá Íslendinga til aðstoðar. Tilraun róttæklinga til að gera gys að þessari ógn og viðbrögðum íslenskra ráðamanna við henni er óvirðing við fjölmörg fórnarlömb Kremlverja um heim allan.
Fréttablaðið 2. febrúar 2007.
2.4.2007 | 23:13
Vinstri stjórn?
Ef stjórnarflokkarnir fá þingmeirihluta í komandi kosningum, þá er eðlilegast, að þeir haldi áfram samstarfi. Það hefur gengið vel. Ef stjórnarandstæðingar verða hlutskarpari, þá munu þeir reyna stjórnarmyndun saman, eins og þeir segjast stefna að. Hvað myndi vinstri stjórn undir forsæti Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur gera? Reynum að reikna það út.
° Í fyrsta lagi má styðjast við reynsluna af fyrri vinstri stjórnum á Íslandi. Vinstri stjórnin 1971-1974 skildi eftir sig 50% verðbólgu, en vinstri stjórnin 1980-1983 100% verðbólgu. Vinstri stjórnin 1988-1991 sóaði almannafé í loðdýrarækt og fiskeldi og lét eftir sig stórkostlegan fjárlagahalla.
° Í öðru lagi má styðjast við reynsluna af stjórn Ingibjargar Sólrúnar í Reykjavík 1994-2002. Á sama tíma og ríkið lækkaði skatta verulega, hækkaði R-listinn opinber gjöld í Reykjavík. Útsvar hækkaði úr 9,2% 1994 í 13,03% 2005. Skatttekjur borgarinnar jukust um fjórðung. Á sama tíma og ríkið lækkaði hreinar skuldir sínar úr 172 milljörðum kr. 1997 niður í 45 milljarða kr. 2006, tífölduðust hreinar skuldir borgarinnar, úr röskum 4 milljörðum kr. 1993 í 44 milljarða kr. 2002.
° Í þriðja lagi má styðjast við reynsluna af stjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð, en Samfylkingin vill fara sænsku leiðina. Svíar voru löngum ríkasta þjóð Norðurlanda, en eru nú hin fátækasta. Landsframleiðsla á mann í Svíþjóð var 1964 um 90% af landsframleiðslu á mann í Bandaríkjunum, en er nú um 75%. Raunverulegt atvinnuleysi er um 15-17% og bitnar aðallega á æskufólki. Nánast öll ný störf frá 1950 hafa orðið til í opinbera geiranum. Skattheimta nemur um 60% af landsframleiðslu.
° Í fjórða lagi má styðjast við orð Ingibjargar Sólrúnar og annarra forkólfa Samfylkingarinnar. Þau virðast ekki geta á heilum sér tekið, því að í góðæri síðustu tíu ára hefur sumum gengið enn betur en öðrum. Þau tala um, að fjármagnstekjuskattur sé of lágur og auka þurfi framlög til velferðarmála (þótt þau hafi stóraukist síðustu ár). Þau vilja stöðva virkjanir og hafa í hótunum við útgerðarfyrirtæki. Þau virðast ekki hafa neinn áhuga á hagvexti.
Fyrsta verk Ingibjargar Sólrúnar í Stjórnarráðinu verður vitanlega að taka niður málverkin í húsinu af Jóni Þorlákssyni, Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni. Annað verkið verður að ráða nokkra vildarvini til skrafs og ráðagerða. En umræðustjórnmálin munu ekki reynast ókeypis. Ríkisútgjöld munu stóraukast og skattar hækka. Skatttekjur ríkisins munu minnka vegna aukinnar skattheimtu, því að atvinnulífið mun dragast saman, og þá verða tekin lán, svo að hreinar skuldir ríkisins munu stóraukast.
Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður úr 10% í 20%, en við það hverfur skattstofninn áreiðanlega að mestu leyti, svo að ríkið missir af 15-20 milljarða tekjum á ári. Tekjuskattur á fyrirtæki verður hækkaður úr 18% í 30%, en við það minnka tekjur ríkisins (alveg eins og þær jukust við lækkunina), líklega um 10 milljarða. Sérstakur skattur á útgerðarfyrirtæki verður stórhækkaður.
Þetta verður atvinnulífinu þungbært. Seðlabankinn verður sviptur sjálfstæði og látinn leysa vandann með lánsfjárþenslu. Verðbólga eykst þá í 20-30% að minnsta kosti, en fjöldi fólks mun ekki ráða við afborganir af húsnæðislánum og missa heimili sín. Bankar munu lenda í miklum erfiðleikum. Ríkt fólk hraðar sér til útlanda með fyrirtæki sín og fjármagn (en við það verður tekjuskipting vissulega jafnari). Atvinnuleysi eykst í 10-15%, sérstaklega í röðum æskufólks. Nú eru hreinar skuldir ríkisins á mann um 150 þúsund kr. Þær munu tífaldast, í 1,5 millj. kr. á mann. Skattheimta ríkisins, sem á samkvæmt áætlunum að fara í 32% 2008, mun þess í stað aukast um fjórðung, í 40%, svo að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, mun samtals taka til sín 52% af landsframleiðslu. Ísland mun dragast aftur úr Danmörku og Noregi í almennum lífskjörum og lenda við hlið Svíþjóðar.
Hér hef ég ekki gert annað en reikna framtíðina út eftir fenginni reynslu. Vonandi hef ég rangt fyrir mér. En sporin hræða.
Fréttablaðið 26. janúar 2007.
2.4.2007 | 23:10
Sænsku leiðina?
Kosningar nálgast, og kosningaskjálfti er hlaupinn í Stefán Ólafsson prófessor. Hann hefur í ótal viðtölum látið í ljós þá skoðun, að Íslendingar séu á rangri leið. Þeir fari bandarísku leiðina og minnki velferðaraðstoð, en ættu þess í stað að fara sænsku leiðina og auka slíka aðstoð. Margt sé athugavert við bandarísku leiðina. Banadaríkjamenn vinni of mikið, og þar sé tekjuskipting ekki nógu jöfn. Hinir verst settu séu betur settir í Svíþjóð.
Skoðun Stefáns er því miður sett fram þrjátíu árum of seint. Sænska leiðin þótti fullfær fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Svíar höfðu árin 1870-1950 búið við mesta hagvöxt í heimi. Jafnaðarmenn tóku völdin 1932 og héldu þeim samfleytt til 1976. Þeir gættu þess að hrófla ekki við öflugum einkafyrirtækjum, sem kepptu á alþjóðamarkaði, heldur einbeittu sér að því að dreifa hinum miklu skatttekjum, sem einstaklingar og atvinnulíf gátu borið. Sænska velferðarríkið var öfundarefni um heim allan. Svo virtist sem sameina mætti vaxandi atvinnulíf og víðtæka velferðarþjónustu. Þjóðin var samstæð og vinnufriður góður.
Smám saman komu brestir í þetta kerfi, aðallega upp úr 1970. Sænskt atvinnulíf hætti að vaxa. Það dróst aftur úr hinu bandaríska. Árið 1964 voru lífskjör í Svíþjóð, eins og þau mælast í vergri landsframleiðslu á mann, 89% af því, sem þau voru í Bandaríkjunum. Árið 2004 eru þau komin niður í 75%. Svíar njóta að jafnaði aðeins ¾ þeirra lífskjara, sem Bandaríkjamenn njóta. Sænska þjóðin var hin ríkasta á Norðurlöndum fyrir þrjátíu árum. Nú er hún hin fimmta og síðasta í röðinni.
Atvinnulíf í Svíþjóð er staðnað. Þar hafa nánast öll ný störf frá 1950 orðið til í opingera geiranum. Sérstaklega hefur smáfyrirtækjum verið gert erfitt fyrir með margvíslegri skriffinnsku. Atvinnuleysi er verulegt í Svíþjóð, 15-17%, þótt reynt sé að fela það með námskeiðshaldi og öðru slíku. Skattheimta er komin upp úr öllu hófi. Skatttekjur ríkisins á mann í Svíþjóð eru svipaðar og í Sviss, um eitt þúsund Bandaríkjadalir, en skattheimtan er um 60% af VLF í Svíþjóð og um 30% í Sviss. Svíar eru bersýnilega að ganga á skattstofna sína með ofsköttun, eins og við gengum forðum á fiskistofna okkar með ofveiði.
Fróðlegt er að bera saman fátækt í Bandaríkjunum og Svíþjóð. Bandaríkjamenn reyna að fjölga tækifærum fólks til að komast út úr fátækt, en Svíar að gera fátæktina sem bærilegasta. Afleiðingarnar blasa við. Árið 1959 voru 22% bandarískra heimila innan fátæktarmarka, eins og þau voru þá skilgreind. Árið 2004 voru 12% bandarískra heimila hins vegar innan fátæktarmarka, eins og þau voru þá skilgreind. Það ár voru 25% bandarískra heimila með innan við 25 þúsund dala árstekjur, en um 40 % sænskra heimila. Í stórfróðlegri bók eftir sænsku hagfræðingana Fredrik Bergström og Robert Gidehag, EU versus USA, er sýnt, að almenn lífskjör eru talsvert betri í Bandaríkjunum en löndum Evrópusambandsins. Væri Svíþjóð eitt Bandaríkjanna, þá væri það í röð fátækustu ríkjanna, ásamt Arkansas og Mississippi.
Svíum er vandi sinn ljós, og þeir hafa skipað fjölda spakvitringa í nefndir til að leggja á ráðin um úrbætur. Var Þorvaldur Gylfason prófessor í einni þeirri, og tillögur hans voru að lækka skatta, auka atvinnufrelsi, mynda sveigjanlegri vinnumarkað og gæta hófs í velferðaraðstoð. Hann talar ekki þar úti eins og á Íslandi. En Svíar eiga úr vöndu að ráða, því að meiri hluti kjósenda er ýmist í starfi hjá hinu opinbera eða styrkþegar þess, en þessir hópar vilja auðvitað ekki minnka umsvif ríkisins. Svíar eru því í sjálfheldu sérhagsmunanna.
Íslendingar hafa farið íslensku leiðina, hvorki hina bandarísku né hina sænsku. Íslendingum finnast Bandaríkjamenn of tómlátir um þá, sem lítils mega sín, en Svíar of rausnarlegir við þá, sem geta unnið, en vilja það ekki. Við höfum aukið atvinnufrelsi stórlega síðustu fimmtán árin. Afleiðingin hefur orðið sú, sem Adam Smith sagði fyrir um, að atvinnulífið hefur eflst og skatttekjur aukist. Íslenska leiðin er meðalvegur milli hinnar bandarísku og hinnar sænsku. Þar er meiru skipt en í Bandaríkjunum og meira til skiptanna en í Svíþjóð, af því að meira er skapað.
Fréttablaðið 19. janúar 2007.
1.4.2007 | 05:06
Evra, dalur, króna eða krónur?
Fugl viskunnar tekur sig ekki á loft, fyrr en en rökkva tekur, sagði Hegel. Við skiljum ekki, hvað gerst hefur, fyrr en liðið er. Þegar við fáum nýja hugmynd, sem við teljum snjalla, er eins víst, að veruleikinn hafi þegar framkvæmt hana, ef til vill í annarri gerð. Eitt dæmi er, þegar ég mælti með því upp úr 1980 að kasta krónunni og taka upp annan gjaldmiðil og nefndi í því sambandi Bandaríkjadal. Í upphafi níunda áratugar voru augljós rök fyrir því að skipta um gjaldmiðil. Þrálát verðbólga hafði verið á Íslandi allt frá 1971. Hún hafði farið upp í um 50% 1977 og stökk aftur upp í nær 100% sumarið 1983. Erfitt eða ókleift var að gera lánsfjárskuldbindingar til langs tíma í svo óstöðugum gjaldmiðli. Krónan virtist ónýt til að gegna því hlutverki sínu að vera mælieining á verðmæti. Ég ræddi málið stundum við dr. Sigurð B. Stefánsson hagfræðing, og hann velti því fyrir sér með mér, hvort Ísland væri of lítið gjaldmiðilssvæði. Flestir aðrir tóku hugmyndinni fjarri.
Ég spurði Milton Friedman um þetta í heimsókn hans til Íslands haustið 1984. Hann svaraði: Frá fræðilegu sjónarmiði séð er Ísland ekki of lítið gjaldmiðilssvæði. En frá hagnýtu sjónarmiði séð er vissulega erfitt fyrir fámennar þjóðir með eigin gjaldmiðil að fylgja stöðugri peningastefnu. Það er of margt, sem truflar þær; þrýstingurinn kann að vera valdsmönnum um megn. Friedman sagði, að einn skásti kostur slíkrar smáþjóðar væri að tengja gjaldmiðil sinn við gjaldmiðil helstu viðskiptaþjóðar sinnar að því tilskildu, að smáþjóðin afsalaði sér öllu valdi í peningamálum. Hún gæti ekki látið sér nægja að lýsa yfir því, að gengið væri fasttengt við annan gjaldmiðil, heldur yrði hún að leggja niður eiginlegan seðlabanka. Hann nefndi sérstaklega Panama, sem notar Bandaríkjadal, og Lúxemborg, sem þá notaði í raun belgískan franka, þótt í umferð í landinu væri sérstakur Lúxemborgarfranki, sem var jafngildur hinum belgíska og gjaldgengur í Lúxemborg, en síður í Belgíu.
Segja má, að Friedman hafi bent okkur á að snúa aftur til sama fyrirkomulags og fyrir 1922. Allt frá því að íslenskir peningar voru fyrst settir í umferð 1885, hafði íslensk króna verið jafngild danskri krónu. Hér var þá ekki eiginlegur seðlabanki, heldur hafði einn viðskiptabanki og síðar tveir seðlaútgáfurétt eftir föstum reglum. Ísland og Danmörk voru eitt gjaldmiðilssvæði (og raunar Norðurlönd öll nema Finnland um skeið). Allir gátu farið frjálsir ferða sinna úr landi, og gengi myntarinnar í ýmsum ríkjum var skráð í landafræðinni, en ekki dagblöðunum, sagði Sigurður Nordal um árin fyrir 1914. Fyrstu skiptin, sem eg kom til Edinborgar, var hægt að skipta hinum óinnleysanlegu seðlum Landsbankans umsvifa- og affallalaust fyrir glóandi gullpeninga. Samband íslenskrar og danskrar krónu rofnaði í fyrri heimsstyrjöld, þegar verðbólga varð miklu meiri á Íslandi en í Danmörku. Þetta var þó ekki viðurkennt fyrr en sumarið 1922, þegar í fyrsta skipti var skráð sérstakt gengi danskrar krónu.
Íslendingum tókst hörmulega að fara með sjálfstætt seðlaprentunarvald: Næstu sjötíu ár, til 1992, féll íslensk króna niður í einn þúsundasta af danskri krónu (því að íslensk króna var einn tíundi af danskri krónu og hafði verið hundraðfölduð 1981). Ég áttaði mig hins vegar ekki á því, þegar við Friedman áttum tal saman, og raunar ekki fyrr en nýlega, að Íslendingar höfðu þegar tekið upp annan gjaldmiðil. Með Ólafslögum 1979, sem kennd voru við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra, því að hann hafði lagt frumvarpið um þau fram í eigin nafni, var mælt fyrir um verðtryggingu lánsfjárskuldbindinga, sem var gamalt baráttumál annars Ólafs, Björnssonar prófessors. Vegna mikillar verðbólgu næstu ára jókst verðtrygging stórlega. Þetta gerðist af illri nauðsyn: Innlán í banka höfðu skroppið saman og voru að verða að engu. En um leið og bankar urðu að bjóða verðtryggingu innlána til langs tíma, þurftu þeir að verðtryggja útlánin líka. Til var orðinn á Íslandi nýr gjaldmiðill, verðtryggð króna, sem notaður var við hlið hins gamla. Fólk notaði venjulega krónu til að greiða í stöðumæla og kaupa í matinn, en verðtryggða krónu til að veita eða taka lán til langs tíma. Hinn nýi gjaldmiðill var eðli málsins samkvæmt stöðugur og gegndi vel því hlutverki að vera reikni- eða mælieining á verðmæti.
Það hafði víðtæk áhrif, þegar krónunni var kastað í langtímasamningum og tekinn þar upp annar gjaldmiðill, verðtryggð króna. Fyrirtæki, sem lifað höfðu af ódýru lánsfé, hættu rekstri, og var Samband íslenskra samvinnufélaga frægast þeirra. Verðbólgan hafði áður verið sáttasemjari í kjarasamningum: Þegar verkalýðsfélög höfðu knúið fram meiri kauphækkanir en fyrirtækin gátu staðið undir, hafði vandinn verið leystur með því að fella peninga í verði, sem jafngilti því að auka verðbólgu. Nú varð þetta erfitt, svo að aðilar vinnumarkaðarins sáu sitt óvænna og sömdu 1990 um þjóðarsátt, hóflegar kauphækkanir að því gefnu, að ríkið fylgdi stöðugri stefnu í peninga- og ríkisfjármálum. Það gekk að vísu ekki eftir fyrr en ári síðar, þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn. En eftir það hjaðnaði verðbólga og er svipuð og í grannlöndunum, eins og sjá má á 1. mynd.
Þegar að er gáð, reyndust þeir Friedrich A. von Hayek og James M. Buchanan meiri spámenn en Friedman í peningamálum okkar Íslendinga. Buchanan sagði í fyrirlestri í Háskóla Íslands haustið 1982:
Tillaga Hayeks um samkeppni gjaldmiðla kann til dæmis að eiga við í eins litlu og opnu hagkerfi og hinu íslenska. Þá á ég að vísu ekki við peninga, sem framleiddir væru af bönkum eða öðrum einkafyrirtækjum, heldur venjulega gjaldmiðla, svo sem Bandaríkjadali, bresk pund, svissneska franka, þýsk mörk og íslenskar krónur. Þið gætuð látið þessa gjaldmiðla keppa hvern við annan. Með öðrum orðum gætuð þið leyft fólki að velja, í hvaða gjaldmiðli það gerði fjárhagsskuldbindingar sínar. Þetta hlyti að veita valdsmönnum nokkurt aðhald, því að annaðhvort hætti íslenska krónan að falla í verði eða menn tækju upp aðra gjaldmiðla í viðskiptum, til dæmis þannig að svissneskur franki útrýmdi íslenskri krónu af peningamarkaðnum.
Þetta hafði í raun gerst innan lands fyrir rás viðburða og af illri nauðsyn: Verðtryggð króna hafði útrýmt venjulegri krónu í öllum langtímasamningum. Þetta var svipað eins og ef leyft hefði verið að gera langtímasamninga í Bandaríkjadal og flestir gert það.
Eftir að íslenska hagkerfið opnaðist upp úr 1991, var allt um skeið með kyrrum kjörum hér í peningamálum, þótt evra leysti í ársbyrjun 1999 gjaldmiðla Þýskalands, Frakklands og nokkurra annarra aðildarríkja Evrópusambandsins af hólmi. En í árslok 2002 voru tveir íslenskir viðskiptabankar seldir einkaaðilum. Þeir fetuðu óðar í fótspor fyrirtækja eins og Kaupþings, Bakkavarar og Baugs og hófu útrás. Þeir höfðu fullar hendur fjár, enda hafði nýtt fjármagn skapast eða gamalt, óvirkt fjármagn orðið virkt við úthlutun varanlegra og seljanlegra aflakvóta í sjávarútvegi, stórfellda sölu ríkisfyrirtækja og stofnun kauphallar, auk þess sem lífeyrissparnaður Íslendinga er einn hinn mesti í heimi. Nú kemur röskur helmingur af tekjum bankanna og hærra hlutfall hjá mörgum öðrum fyrirtækjum frá útlöndum. Sumir þessara aðila kvarta undan því, að íslensk króna sé óstöðug og því ekki eins heppileg reikningseining og evra. En evra verður líklega ekki eins stöðug til langs tíma litið og Bandaríkjadalur. Önnur ástæðan er, að sveigjanleiki milli landshluta er minni á evrusvæðinu. Bandaríkjamenn eiga auðveldara með að flýja samdrátt með því að færa sig frá Arkansas til Kaliforníu en Evrópumenn með því að flytjast frá Portúgal til Írlands. Hin ástæðan er, að sveigjanleiki á vinnumarkaði er minni á evrusvæðinu. Þetta hlýtur allt síðar meir að valda meiri þrýstingi á seðlabanka Evrópu en Bandaríkjanna.
Það er umhugsunarefni, að erlend matsfyrirtæki gefa íslenskum bönkum hærri lánshæfiseinkunnir en ella vegna þess, að þeir nota íslenska krónu, eru mikilvægir íslensku atvinnulífi og njóta því að dómi matsfyrirtækjanna óbeinnar ábyrgðar ríkis og seðlabanka. En þegar hugað er að framtíðarskipulagi peningamála, vakna margar spurningar. Hvers vegna sjá lönd eins og Kanada og Nýja Sjáland sér ekki hag í að taka upp gjaldmiðla aðalviðskiptalanda sinna, Bandaríkjanna og Ástralíu? Hvers vegna dettur Svisslendingum ekki í hug að leggja niður franka sinn? Ættu Íslendingar ekki frekar að velja pund en evru, kasti þeir krónunni? Hvaða gjaldmiðill er líklegastur til að vera stöðugur til langs tíma litið? Spekingar kunna færri svör við þessum spurningum en sjálfur veruleikinn. Eðlilegast er að leyfa hinum frjálsa markaði að leysa úr þeim, eins og Buchanan lagði til. Hugmynd hans hefur þegar verið framkvæmd á Íslandi að nokkru leyti, því að fyrirtæki, sem eiga meira en helming viðskipta sinna í einhverjum einum erlendum gjaldmiðli, mega gera upp í honum. Menn geta líka lagt fé inn á gjaldeyrisreikninga hér og erlendis, auk þess sem þeir mega taka lán í öðrum gjaldmiðlum.
Íslendingar þurfa ekki að ganga í Evrópusambandið vegna peningamála, enda er heppilegast, að þeir standi utan þess, ef þeir hyggjast laða fyrirtæki til landsins með lágum sköttum. En ef svo fer, að einn annar gjaldmiðill verði krónunni yfirsterkari síðar meir, sem er auðvitað óvíst, þá má tengja krónuna við hann, eins og Friedman lagði til. Þetta yrði sama peningaskipulag að breyttu breytanda og í Hong Kong, þar sem Hong Kong dalur er í beinu og föstu hlutfalli við Bandaríkjadal, svo að seðlaútgáfa er háð því, hversu stóran forða af Bandaríkjadal seðlabankinn á. Þetta myndi fela í sér, að ein gengistryggð króna tæki við af þeim tveimur gjaldmiðlum, sem við Íslendingar notum nú, venjulegri krónu og verðtryggðri. En þegar ekki er nauðsynlegt að breyta, er nauðsynlegt að breyta ekki. Á meðan markaðurinn hefur ekki hafnað krónunni, er ástæðulaust að setja á langar orðræður um að kasta henni. Evra er nýr gjaldmiðill og fullnægjandi reynsla ekki fengin af henni. Jafnvel þótt markaðurinn hafni einni gerð krónu, er líklegast, að þá taki við önnur gerð krónu. Jón Sigurðsson á ef til vill eftir að endast lengur á íslenskum seðlum en nafnar hans í seðlabankanum.
Vísbending febrúar 2007.
31.3.2007 | 21:49
Er vaxtaokur á Íslandi?
Viðskiptabankarnir stórgræða. Þótt Adam Smith hafi kennt okkur, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap við frjáls viðskipti og verkaskiptingu, vakna grunsemdir í brjóstum sumra manna um, að einhverjir tapi, þegar aðrir græða. Tveir hagfræðingar hafa haldið því fram, að bankarnir græði, af því að þeir stundi vaxtaokur. Vaxtamunur á inn- og útlánum sé óvíða meiri en á Íslandi. Annar þessara manna er Guðmundur Ólafsson, sem kennir í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst. Hann kom fram í Silfri Egils 21. janúar 2007 og talaði um okursamfélagið og fylgdi máli sínu eftir í fréttum Stöðvar tvö 16. febrúar 2007, eftir að Jóhanna Sigurðardóttir hafði tekið vaxtaokrið upp á Alþingi. Hinn maðurinn er Þorvaldur Gylfason, prófessor í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann birtir töflu um vaxtamun á heimasíðu sinni á vef Háskóla Íslands og skrifar reglulega um bankana í vikulegum pistlum í Fréttablaðinu, en margoft hefur einnig verið vitnað til hans um þetta á opinberum vettvangi.
Ég hringdi í Guðmund Ólafsson og spurði, hvernig hann reiknaði út, að vaxtamunur væri óvenju mikill á Íslandi. Hann svaraði, að hann hefði reiknað út meðaltal allra auglýstra innlánsvaxta og dregið frá meðaltali allra auglýstra útlánsvaxta. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa reynt að vega ólíka vexti á ólíkum lánum og ekki heldur reiknað út vaxtamun í öðrum löndum eftir þessari aðferð. Guðmundur vísaði mér líka á heimasíðu sína á Vef Háskóla Íslands, en þar eru tölur hans og línurit um vaxtamun. Línurit Guðmundar lítur svo út:
Samkvæmt því hefur vaxtamunur verið mikill árin 2000-2002, yfir 10%, en síðan dregið úr honum, svo að 2004 er hann um 8%. En ekki þarf að hafa mörg orð, að útreikningar Guðmundar eru fráleitir. Hann hefur hvorki fyrir því að reikna vaxtamun í öðrum löndum út eftir þessari aðferð sinni né reyna að meta, hvað hver lánaflokkur vegur. Til dæmis eru innlánsvextir vissulega lágir á almennum sparisjóðsbókum. En aðeins um 1,% innlána eru geymd á slíkum bókum.
Ég skrifaði Þorvaldi Gylfasyni og spurði, hvernig hann hefði reiknað út vaxtamun þann, sem sýndur væri í línuriti á heimasíðu hans. Þar er Seðlabankans getið sem heimildar, en engar skýringar gefnar að öðru leyti á tölum hans. Ég fékk ekkert svar. Ég skrifaði Þorvaldi þá aftur og sagðist sjá af tölum úr Seðlabankanum, að hann hefði líklega dregið innlánsvexti á almennum sparisjóðsbókum frá útlánsvöxtum á skammtímaskuldum, 60 daga víxlum. Ef hann mótmælti ekki, þá myndi ég hafa það fyrir satt. Hann hefur ekki mótmælt, enda er línuritið á heimasíðu hans eins í laginu og það, sem draga má upp eftir þessum tölum. Það lítur út á þessa leið:
Samkvæmt því er vaxtamunur árið 2005 rösk 15% og hefur aukist talsvert, frá því að bankarnir komust allir í hendur einkaaðila ári 2002. Á heimasíðu Þorvalds er löng hugleiðing undir línuritinu um það, að Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafi verið seldir einkavinum á undirverði, svo að hæfustu mennirnir hafi ekki valist til að stjórna þeim. Í því liggi rót vaxtaokursins. En útreikningar Þorvalds á vaxtamun eru enn fráleitari en Guðmundar. Hann dregur lægstu innlánsvexti, sem hann finnur, frá hæstu útlánsvöxtum, sem hann finnur, og kynnir það sem vaxtamun. Hann hefði átt að kynna það sem mesta mögulega vaxtamun. Þeir innláns- og útlánsvextir, sem hann notar, eru aðeins á broti lána. Til dæmis eru 85% af skuldum heimilanna húsnæðislán á innan við 5% vöxtum (verðtryggðum).
Það er furðulegt, að þessir tveir hagfræðingar skuli ekki nota hina venjulegu aðferð til að reikna út vaxtamun banka, þótt þeir hljóti að kunna hana. Hún er að draga heildarvaxtagjöld bankanna frá heildarvaxtatekjum þeirra og finna síðan hlutfallið milli þeirrar tölu og meðaltals efnahagsreikninga bankanna í upphafi og lok árs. Á þann hátt eyðast skekkjur, sem stafa af því, að ólík lán eru á ólíkum kjörum, til dæmis húsnæðislán á miklu lægri vöxtum en víxillán. Seðlabankinn reiknar út vaxtamun á þennan hátt, eins og sjá má á árlegum skýrslum hans um fjármálastöðugleika á Íslandi. Vaxtamunur er samkvæmt þessari aðferð 1,9% árið 2005 og hið sama árið 2006, en hvorki 8% eins og Guðmundur Ólafsson reiknaði út né 15% eins og Þorvaldur Gylfason reiknaði út. Línurit um vaxtamuninn lítur út á þessa leið:
Hér sést, að vaxtamunur var miklu meiri fyrr á árum, til dæmis 4,4% árið 1995. Hann tók að minnka við sölu bankanna árið 2002. Nú má segja, að hin viðurkennda og alþjóðlega aðferð til að reikna út vaxtamun banka valdi einhverju vanmati á vaxtamun um þessar mundir, þar sem bankarnir hafa eignast mjög miklar eignir erlendis. Efnahagsreikningar þeirra hafi því stækkað mjög. Á móti má að vísu segja, að óvíst er, að hinar nýju eignir þeirra erlendis séu færðar á markaðsverði í efnahagsreikningum. En þá má líta á vaxtamun sparisjóðanna, því að þar truflar engin erlend eignamyndun mælinguna. Hann er líka sýndur á þessu línuriti. Vaxtamunur sparisjóða var 5,5% 1995 og hefur lækkað niður í 3% 2005.
Niðurstaðan er því sú, að vaxtamunur inn- og útlána í hefðbundnum skilningi þess orðs er á Íslandi um 2-3% og hefur lækkað talsvert, frá því að Landsbankinn og Búnaðarbankinn komust í hendur einkaaðila. Tölur þeirra Guðmundar og Þorvalds um vaxtamun inn- og útlána eru fráleitar og hljóta að hafa verið settar fram í áróðursskyni, ekki til upplýsingar. Auðvitað stenst 15% vaxtamunur ekki. Hvað veldur því, að sumir hafa tekið mark á marklausum tölum? Önnur ástæðan hefur þegar verið nefnd: Þar sem bankarnir stórgræða, trúa sumir því, að þeir hljóti að okra á innlendum viðskiptavinum sínum. Sannleikurinn er hins vegar sá, eins og allir sjá, sem rýna í reikninga bankanna, að þeir græða um þessar mundir aðallega á vel heppnuðum umsvifum erlendis. Sá banki, sem græðir einna mest, Straumur-Burðarás, stundar raunar engin venjuleg inn- eða útlánsviðskipti með einstaklingum, svo að ekki stundar hann vaxtaokur á heimilunum. Hin ástæðan til þess, að einhverjir hafa tekið mark á hinum fráleitu tölum þeirra Guðmundar og Þorvalds, er, að vaxtamunur milli Íslands og annarra landa er mikill, af því að stýrivextir Seðlabankans eru háir. Vextir á útlánum jafnt og innlánum eru því háir, þótt vaxtamunur á inn- og útlánum sé ekki mikill og hafi lækkað hin síðari ár.
Að lokum má velta fyrir sér, hvers vegna vaxtamunur inn- og útlána var miklu meiri áður fyrr. Ein skýringin er auðvitað, að samkeppni bankanna um viðskiptavini var ekki eins hörð áður fyrr. Þeir eru nú betur reknir. Önnur skýring er, að útlánatöp voru þá miklu meiri, því að þá var ekki alltaf lánað út eftir greiðslugetu og hagnaðarvon, heldur oft eftir stjórnmálaítökum lánþeganna. Bankarnir voru undir áhrifum stjórnmálamanna, sem vildu halda fyrirtækjum stuðningsmanna sinna gangandi, hvort sem rekstur þeirra var arðsamur eða ekki, og er skemmst að minnast fjáraustursins í loðdýrarækt og fiskeldi og fyrirgreiðslu við samvinnufélög fyrir 1991. Venjulegt fólk bar útlánatapið, því að það þurfti að sætta sig við mikinn vaxtamun inn- og útlána. Sala bankanna var kaupendunum vissulega til stórkostlegra hagsbóta, eins og sjá má af nýlegum afkomutölum, en líka öllum almenningi. Íslenska útrásin hefði aldrei orðið heldur, ef bankarnir hefðu áfram verið í höndum ríkisins.
Vísbending, janúar 2007.
31.3.2007 | 11:35
Baráttumál frjálshyggjumanna: Náttúruvernd
Síðustu árin hafa vinstri menn leikið algengan leik í stjórnmáladeilum. Þeir hafa tekið falleg orð og gert að sínum. Tvö þessara orða eru jöfnuður og náttúruvernd. Ég hef enn ekki hitt neinn þann, sem er hlynntur ójöfnuði og náttúruspjöllum. Menn skiptast miklu frekar eftir því, hvernig þeir skilja þessi fallegu orð og hvaða leiðir þeir sjá greiðfærastar að þeim markmiðum, sem þau fela í sér. Ættu frjálshyggjumenn ekki að nota hugtökin tvö án hiks? Hvers vegna þyrftu þeir að láta vinstri mönnum þau eftir? Guðbrandur biskup Þorláksson benti á það í formála sálmabókar sinnar 1589, að það ynni sannleikanum (sem hann hugði vera) ekkert mein að taka snjallar tungur og mjúkmálar í þjónustu hans. Í sama anda kvaðst klerkurinn Rowland Hill á átjándu öld ekki sjá neina ástæðu til þess, að djöfullinn einokaði öll skemmtilegustu lögin. Það, sem sannara reynist, getur líka verið það, sem betur hljómar. Og vissulega hljóma orðin jöfnuður og náttúruvernd vel. Í síðustu viku skýrði ég út, hvers vegna frjálshyggjumenn geta með góðri samvisku barist fyrir jöfnuði, en nú sný ég mér að náttúruvernd.
Náttúruvernd, sósíalismi og hrakspár
Á fyrri hluta 20. aldar spáðu margir kapítalismanum falli vegna einokunartilhneigingar, sem í honum fælist. Gallinn við samkeppnina er, að einhver vinnur hana, sagði George Orwell um bók Friðriks Ágústs von Hayeks, Leiðina til ánauðar. Orwell átti við, að fyrirtækin yrðu stærri og færri, uns eitt væri eftir í hverri grein, og þá hlyti ríkið að taka við. Þessi spá rættist ekki. Tækniþróunin hefur frekar auðveldað samkeppni en hitt: Litlar einingar eru ósjaldan hagkvæmari en stórar. Með hnattvæðingunni eftir hrun sósíalismans hefur samkeppni líka harðnað, því að markaðir hafa opnast og runnið saman: Þýskar bílasmiðjur eiga keppinauta í mörgum öðrum löndum. En nú spá margir kapítalismanum falli vegna þess, að hann valdi óbætanlegum náttúruspjöllum, til dæmis Vésteinn Lúðvíksson rithöfundur í greinum hér í Lesbókinni. Aukinn áhugi á náttúruvernd er vissulega eðlilegur. Nútímamenn ferðast meira og hafa fleiri tómstundir en áar þeirra. Þeir eru næmir fyrir náttúrufegurð og láta sér ekki nægja að segja, að á Vestfjörðum sé fagurt, þegar fiskast. Þeir vilja hreint loft og tært vatn. Þeir kunna að meta sjaldgæfar dýrategundir og ósnortið umhverfi. En um náttúruvernd má segja hið sama og jöfnuð, að þeir, sem hæst hafa, leggja minnst til mála. Hvergi voru stunduð eins víðtæk náttúruspjöll og í sósíalistaríkjunum sálugu. Þar voru fiskimið þurrausin, úrgangi veitt í vötn, eiturgufum spúð í andrúmsloftið. Skýringin var einföld. Allt var í sameign, en það, sem allir eiga, hirðir enginn um.
Ýmsar hrakspár um náttúruspjöll annars staðar í heiminum hafa hins vegar ekki gengið eftir. Bandaríski líffræðingurinn Rachel Carson gaf 1962 út bókina Raddir vorsins þagna um það, að fuglalífi stafaði stórkostleg hætta af skordýraeitrinu D. D. T., en því var beitt með góðum árangri í baráttu við mýrarköldu (malaríu). Efnið var því víða bannað. Hefur bók Carsons verið talin kveikjan að náttúruverndarhreyfingu okkar daga. Í ljós hefur komið, að hættan af D. D. T. var mjög orðum aukin. En margar milljónir manna í fátækum löndum hafa dáið úr mýrarköldu, af því að þetta ódýra og handhæga efni var bannað. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, W. H. O., hefur þess vegna lagt til, að efnið verði aftur tekið í notkun. Annað dæmi er skýrsla, sem áhugamenn settu saman undir nafninu Endimörk vaxtarins 1972. Þar var varað við því, að fólki fjölgaði og neysla þess ykist hraðar en náttúran þyldi. Ýmis hráefni gengju brátt til þurrðar, ef mannkyn gerbreytti ekki lífsháttum. Margir vísindamenn gagnrýndu skýrsluna harðlega þegar í byrjun, þar eð ekki væri gert ráð fyrir því, að tækniþróun gæti orðið jafnhröð og fólksfjölgun eða neysluaukning, auk þess sem horft væri fram hjá því, að verðbreytingar á markaði gætu haft áhrif: Minna framboð á einhverju efni leiddi til hærra verðs, sem síðan hefði í för með sér minni eftirspurn eftir efninu og einbeittari leit að einhverju öðru í þess stað. Hvað sem því líður, hafa hrakspár í skýrslunni ekki ræst. Til dæmis hefur verð á 34 algengustu tegundum hrávöru lækkað frá 1980, ef tóbak er undanskilið. Í skýrslunni sagði einnig, að gull yrði þrotið árið 1979, jarðolía 1990, kopar 1991 og ál 2001. Nóg er nú til af öllum þessum efnum.
Ekki hefur reynst vandkvæðum bundið að brauðfæða nýja íbúa jarðarkringlunnar. Með grænu byltingunni á sjöunda áratug 20. aldar stórjókst matvælaframleiðsla. Hungur á okkar dögum má langoftast rekja til ófriðar eða slæms stjórnarfars, ekki náttúruspjalla. Fleiri lifa nú en áður, og þeir lifa betra lífi: Meðalaldur í heiminum hefur tvöfaldast síðustu eitt hundrað ár, og dregið hefur úr barnadauða og smit- og hörgulsjúkdómum. Aðrar hrakspár hafa ekki heldur gengið eftir. Fullyrt var fram í lok 20. aldar, að skógar væru að eyðast vegna súrs regns og af öðrum ástæðum. Jörðin gæti vart andað. Þetta reyndist rangt. Skógar þekja jafnmikil svæði og fyrir hálfri öld. Raunar eiga þeir miklu minni þátt í nauðsynlegri súrefnismyndun í andrúmsloftinu en aðrar plöntur, svo sem svif sjávar. Ein nýlegasta hrakspáin birtist í bandaríska tímaritinu Science í nóvember 2006. Hún var, að fiskistofnar heims kynnu að hrynja næstu fjörutíu ár. Hún var forsíðuefni í Morgunblaðinu, sem átaldi síðar Jóhann Sigurjónsson, forstöðumann Hafrannsóknastofnunar, fyrir að gera lítið úr henni. Aðalhöfundur skýrslunnar er Boris Worm, ungur aðstoðarprófessor í Dalhousie-háskóla í Halifax í Nova Scotia. Fyrir misgáning sendi Worm tölvuskeyti til eins blaðamanns Seattle News, en það hafði aðeins verið ætlað samstarfsfólki hans. Þar viðurkennir Worm, að spáin um hrun fiskistofna hafi verið fréttabeita til að vekja athygli.
Vernd krefst verndara
Eftir vonda reynslu af hrakspám síðustu áratuga ættu menn að gæta sín á að hlaupa ekki á sig við nýjar hrakspár. En auðvitað er náttúruvernd mjög mikilvæg, eins og Illugi Gunnarsson hagfræðingur hefur brýnt fyrir okkur. Hver er vandinn? Hann greinist aðallega í fjóra þætti, sóun auðlinda, útrýmingu sjaldgæfra dýrategunda, mengun lofts og lagar og spjöll á útivistarsvæðum. Það, sem veldur slíkum vanda jafnan, er, að menn taka ekki með í reikninginn kostnaðinn af náttúruspjöllunum. Náttúran er ekki vernduð, af því að enginn verndar hana. Gott dæmi er fiskveiðar. Ef ótakmarkaður aðgangur er að takmarkaðri náttúruauðlind eins og fiskistofni, þá er henni sóað. Þá keppast menn við að láta greipar sópa, veiða sem mest á sem skemmstum tíma, áður en aðrir komast að. Við Íslendingar fundum lausn vandans, og aðrar þjóðir vilja nú margar fara að fordæmi okkar. Lausnin er að úthluta varanlegum og framseljanlegum afnotaréttindum, aflakvótum, til þeirra, sem höfðu stundað fiskveiðar og áttu þess vegna hagsmuna að gæta. Þannig urðu útgerðarmenn verndarar auðlindarinnar, því að þeir höfðu beinan hag af því. Þeir vilja hámarka arðinn af auðlindinni, og það gera þeir með því að taka ekki of mikið af henni hverju sinni. Ólíkt því sem áður var, geta þeir einnig skipulagt veiðarnar, svo að kostnaður verði sem lægstur. Gæðum sjávarins var í raun skipt milli einstakra útgerðarmanna og þeir gerðir ábyrgir fyrir nýtingunni, alveg eins og gæðum lands var í öndverðu skipt milli einstakra bænda og þeir gerðir ábyrgir fyrir nýtingunni.
Lítum á annað dæmi. Hvernig stendur á því, að sauðfé á Íslandi er ekki í útrýmingarhættu ólíkt fílum og nashyrningum í Afríku? Ástæðan er sú, að sauðféð er í einkaeigu. Bændur merkja sér einstaka gripi, girða sauðféð af, hirða um það. Þeir eru fjárhirðar, þótt fæstir séu ef til vill eins samviskusamir og Fjalla-Bensi, sem Aðventa Gunnars Gunnarssonar er um. En fílar og nashyrningar þar syðra eru í einskis manns eigu, þótt talsverð eftirspurn sé eftir fílabeini og öðrum afurðum þessara dýra. Fílar og nashyrningar eiga sér enga verndara. Enginn hefur hag af því að gæta þeirra. Þess vegna eru þessi dýr í útrýmingarhættu, þótt þau séu friðuð í orði kveðnu. Meira að segja hefur verið lagt alþjóðlegt bann við verslun með fílabein og horn nashyrninga. Þetta bann hefur haft þveröfugar afleiðingar við það, sem því er ætlað. Fengju tilteknir hópar að nýta fílabeinið og hornin, sæju þeir sér hag í að gæta dýranna. Hið sama er að segja um suma hvalastofna í sjónum, þótt engir hvalastofnar á Íslandsmiðum séu að vísu í útrýmingarhættu. Úr því að skilgreina mátti einkaafnotarétt af einstökum fiskistofnum, jafnvel síld og loðnu, sem eru á fleygiferð um allt Norður-Atlantshaf, hlýtur að vera unnt að skilgreina einkaafnotarétt af eða kvóta á hvalastofnum. Svipað er að segja um skógrækt og námugröft. Ef eignaréttindi eða varanleg og framseljanleg afnotaréttindi eru viðurkennd á slíkum auðlindum, þá stilla menn nýtingu þeirra í hóf. Þá tekst að sætta sérhagsmuni og almannahagsmuni, og menn græða á gæðum.
Mengun hlýst af hinu sama og sóun auðlinda og útrýming dýrategunda, að enginn er verndarinn. Þess vegna borgar mengunin sig. Einfalt dæmi um mengun er, þegar verksmiðja stendur við vatn og veitir þangað úrgangi, svo að veiði spillist fyrir landeigendum. Verksmiðjan tekur ekki með í reikninginn kostnaðinn fyrir landeigendurna af menguninni. Lausn vandans í þessu dæmi felst í því, að skilgreindur sé eignarréttur á vatninu. Þá vernda eigendurnir vatnið fyrir spjöllum. Önnur afbrigði mengunar eru ekki eins auðleyst, til dæmis peningalykt frá loðnubræðslu eða hávaði nálægt flugvelli. En þá má hugsa sér að meta mengunina til fjár til að minnka hana og bæta þeim, sem verða fyrir henni, það upp með fénu. Þetta er hugmyndin að baki svokölluðum mengunarsköttum. Við komum aldrei í veg fyrir alla mengun, en við getum haldið henni í hæfilegu lágmarki með myndun eignaréttinda eða með eðlilegri verðlagningu. Mengunin má ekki borga sig. Auðvitað er líka sjálfsagt að girða með ströngum reglum fyrir margvíslega loft-, sjón- og hljóðmengun í þéttbýli, eins og Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi hefur rökstutt. Íslendingar hafa efni á því. Aðalatriðið er þó, að koma má í veg fyrir margvísleg náttúruspjöll með frjálsum viðskiptum frekar en valdboði.
Hlýnun jarðar og íslensk stóriðja
Sá mengunarvandi, sem flestum Íslendingum er eflaust efst í huga, er losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið, aðallega koltvísýrings, ekki síst frá bílum, en líka flugvélum, skipum og verksmiðjum. Það er að vísu umdeilt, hvort þessi losun á einhvern þátt í því, að jörðin hefur hlýnað um nálægt einu hitastigi síðustu hundrað ár. Hitastig hefur áður sveiflast upp og niður, og voru jöklar til dæmis miklu minni á landnámsöld, þegar lítil var losunin, en nú. Vatnajökull hét áður Klofajökull, væntanlega vegna þess að hann var tvískiptur, klofinn. Jafnvel þótt losun koltvísýrings og ígildis hans ætti einhvern þátt í hlýnun jarðar, er augljóst, að hún ætti ekki allan þátt í henni, heldur kæmu sveiflur hitastigs þar við sögu. Óvíst er einnig, hvort hugsanlegar takmarkanir á losun koltvísýrings hefðu úrslitaáhrif á þróunina. Til dæmis er talið, að sú minnkun á slíkri losun, sem gert er ráð fyrir í svokallaðri Kyoto-bókun, muni ekki minnka hlýnun jarðar um nema 0,1-0,2 stig. Hvað sem því líður, þarf ekki að þræta um það, að koltvísýringur mengar andrúmsloftið og gott væri að draga úr losun hans. Allir áhugamenn um náttúruvernd ættu að vera því hlynntir. Við Íslendingar búum að vísu flestir svo vel, að við hitum upp hús okkar með heitu vatni, sem dælt er úr iðrum jarðar, en þurfum hvorki að brenna kolum né olíu til þess eins og margar aðrar þjóðir, en við það er koltvísýringur losaður í andrúmsloftið. Þykkur kolamökkur lá yfir Reykjavík fram á fimmta áratug, áður en hitaveita komst í gagnið.
Við Íslendingar njótum þess og, að við framleiðum rafmagn með vatns- og gufuaflsvirkjunum, sem hafa í för með sér litla sem enga mengun, enda segir með velþóknun í skýrslu breska hagfræðingsins Nicholas Sterns haustið 2006 um hugsanleg gróðurhúsaáhrif, að losun koltvísýrings á mann frá raforkuvinnslu á Íslandi sé hin minnsta í aðildarríkjum O. E. C. D. Aðrar þjóðir lúta að lakari orkugjöfum, kolum, olíu eða kjarnorku. Rafmagnið seljum við heimilum, fyrirtækjum, járnblendiverksmiðju og álbræðslum, sem eru nú raunar orðnar aðalkaupendurnir. Ál er miklu léttara en aðrir málmar, sem notaðir eru í farartæki eins og bíla og flugvélar, svo að við notkun þess sparast eldsneyti. Í þeim skilningi er ál vistvænt. Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, telur, að álið, sem framleitt er á Íslandi, hafi árið 2004 sparað losun á 1.628 þúsund tonnum af koltvísýringi og ígildi þess út í andrúmsloftið. Þar eð íslenskur áliðnaður losaði sjálfur það ár 446 þúsund tonn út í andrúmsloftið, nam hreinn ávinningur af íslenskum álbræðslum frá þessu sjónarmiði séð 1.182 þúsund tonnum. Það blasir síðan við, að Íslendingar breyta litlu sem engu um heildareftirspurn eftir áli í heiminum. Ef það er ekki unnið með rafmagni úr íslenskum vatns- eða gufuaflsvirkjunum, þá er það framleitt erlendis með brennslu á eldsneyti, sem hefur í för með sér stórkostlega losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Talið er, að með því að framleiða álið hér sparist 3.474 þúsund tonn af koltvísýringi, sem ella hefði verið losað út í andrúmsloftið annars staðar í heiminum. Íslendingar hafa því beinlínis stuðlað að náttúruvernd með því að bjóða álbræðslum stað.
Raunar er ekki líklegt, að Íslendingar þurfi lengi að deila sín í milli um, hvort virkja eigi fallvötn í því skyni að selja rafmagn til álframleiðslu. Hæpið er að dómi ýmissa sérfræðinga, að álfyrirtæki geti framvegis boðið nógu hátt verð fyrir rafmagnið til þess, að þetta borgi sig miðað við aðra notkun tiltæks fjármagns. Stóriðja er aðeins einn kostur af mörgum, sem skoða þarf fordómalaust (og það verður sennilega ekki gert, fyrr en Landsvirkjun er orðin einkafyrirtæki). En við hljótum auðvitað að halda áfram einhverjum vatns- og gufuaflsvirkjunum sjálfra okkar vegna. Einhverjir hafa verið andvígir virkjunum vegna þess, að útivistarsvæði fari undir vatn, þegar ár eru stíflaðar og leiddar í annan farveg í því skyni að nýta fallþunga þeirra. En fegurstu útivistarsvæði á Íslandi liggja einmitt við vötn. Elliðavatn tvöfaldaðist, þegar Elliðaárnar voru virkjaðar, og þykir prýði að. Þórisvatn er notað sem uppistöðulón virkjana á Þjórsársvæði. Þar er víða fallegt um að litast. Þingvallavatn stækkaði mjög við eldgos fyrir mörg þúsund árum. Sama er að segja um Mývatn. Skiptir máli, hvort eldgos lokar fyrir afrennsli, svo að stöðuvatn myndast, eða mannshöndin? Skiptir máli, hvort efnið í stíflunni er úr hrauni eða steypu? Á hálendinu íslenska er allt fullt af grjóti. Fleiri vötn þar jafngilda frekar umhverfisbótum en náttúruspjöllum. Stæra Finnar sig ekki af því að búa á landi hinna þúsund vatna? Margir tóku áreiðanlega undir með Hjörleifi Guttormssyni, þegar hann skrifaði í Árbók Ferðafélagsins 1987 um svæðin, sem fóru undir vatn við Kárahnjúka: Þetta eru afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er líka fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegt með auðveldari hætti annars staðar.
Frelsið er rautt og grænt
Hér á Íslandi hefur jöfnuður stóraukist við það, að skipulagið hefur opnast og tækifærum fjölgað, eins og ég sýndi fram á í síðustu viku. Íslendingum hefur líka tekist ágætlega upp í náttúruvernd, þótt alltaf megi vitanlega gera betur. Skipulag fiskveiða á Íslandsmiðum er vel fallið til verndar fiskistofnum, og við öflum hita og rafmagns án þeirrar mengunar, sem flestar aðrar þjóðir eru sekar um. Við eigum að halda áfram að prýða og bæta umhverfi okkar, en það gerist ekki með yfirlýsingum á fundum, heldur því að finna gæðum náttúrunnar verndara. Náttúran er verðmæt, og þess vegna ber að verðleggja hana. Frelsið er rautt, af því að það stefnir að jöfnuði, og frelsið er grænt, af því að það stuðlar að náttúruvernd. Frelsið er í öllum regnbogans litum.
Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2007.
31.3.2007 | 11:34
Baráttumál frjálshyggjumanna: Jöfnuður
Síðustu árin hafa vinstri menn leikið algengan leik í stjórnmáladeilum. Þeir hafa tekið falleg orð og gert að sínum. Tvö þessara orða eru jöfnuður og náttúruvernd. Ég hef enn ekki hitt neinn þann, sem er hlynntur ójöfnuði og náttúruspjöllum. Menn skiptast miklu frekar eftir því, hvernig þeir skilja þessi fallegu orð og hvaða leiðir þeir sjá greiðfærastar að þeim markmiðum, sem þau fela í sér. Ættu frjálshyggjumenn ekki að nota hugtökin tvö án hiks? Hvers vegna þyrftu þeir að láta vinstri mönnum þau eftir? Guðbrandur biskup Þorláksson benti á það í formála sálmabókar sinnar 1589, að það ynni sannleikanum (sem hann hugði vera) ekkert mein að taka snjallar tungur og mjúkmálar í þjónustu hans. Í sama anda kvaðst klerkurinn Rowland Hill á átjándu öld ekki sjá neina ástæðu til þess, að djöfullinn einokaði öll skemmtilegustu lögin. Það, sem sannara reynist, getur líka verið það, sem betur hljómar. Og vissulega hljóma orðin jöfnuður og náttúruvernd vel. Í þessari grein skýri ég út, hvers vegna frjálshyggjumenn geta með góðri samvisku barist fyrir jöfnuði, en í næstu viku sný ég mér að því, hvers vegna þeir hljóta að styðja náttúruvernd.
Ójöfnuður í sögu Íslendinga
Orðið jöfnuður kemur víða fyrir í fornum ritum, en þá venjulega í samsetta orðinu ójafnaðarmaður. Slíkur maður beitti ofríki eða rangsleitni, viðurkenndi ekki sömu leikreglur og aðrir menn. Grettir Ásmundarson var til dæmis ójafnaðarmaður, en ekki vegna þess að hann væri ríkari en aðrir, því að hann var raunar bláfátækur, heldur af því að hann gekk fram af ofstopa, stofnaði til illinda, neytti aflsmunar. Hrafnkell Freysgoði var líka ójafnaðarmaður, með því að hann taldi ekki jafnmennt með sér og öðru fólki, taldi sig yfir það hafinn, vildi ekki lúta sömu reglum og það. Jöfnuður skilst því best af andstæðu sinni líkt og hugtökin friður, frelsi og réttlæti. Jöfnuður er í hinni upphaflegu og eðlilegu merkingu orðsins, þar sem ójafnaðarmenn fá ekki að vaða uppi og setja samborgurum sínum afarkosti. Í sönnu jafnaðarlandi þurfa borgararnir ekki að hafa jafna hæfileika eða vera með jafnar tekjur, heldur eru þeir eins jafnir borgarar, jafnmiklir borgarar, og verða má. Þar er engum útskúfað, og þótt munur sé á Jóni og séra Jóni, kemur hann aðeins fram á sumum sviðum. Þar lokar engin yfirstétt leiðum fyrir öðrum, þótt vissulega gangi fólki misjafnlega í lífinu. Þar er réttur manna jafn, þótt þeir nái síðan misjöfnum árangri.
Mikill ójöfnuður var í hinni hefðbundnu merkingu á Íslandi fram á 19. öld. Fámennur hópur stórbænda átti nær allar jarðir, sem ekki voru í eigu konungs eða biskupa, og í þennan hóp voru sýslumenn og kirkjuhöfðingjar sóttir. Aðrir voru leiguliðar eða vinnufólk. Hin fámenna valdastétt kom í veg fyrir það með fulltingi konungs, að kapítalismi eða opið hagkerfi gæti myndast á Íslandi, eins og Gísli Gunnarsson prófessor hefur sýnt fram á. Valdastéttin bannaði útlendingum til dæmis vetursetu með Píningsdómi 1490, sem fól í sér, að hér mynduðust ekki þorp við sjávarsíðuna. Ástæðan var, að stórbændurnir óttuðust samkeppni um vinnuaflið. Valdastéttin var að vísu kristin og viðurkenndi framfærsluskyldu við alla, en þar eð landið gat ekki með frumstæðum atvinnuháttum hennar framfleytt nema um 50 þúsund manns, voru sett ströng lög, Stóridómur, undir yfirskini siðavendni til að varna því, að fólk fjölgaði sér án löggildingar. Þessi fámenna valdastétt beitti konungsvaldinu til að halda sjávarútvegi niðri. Á dögum einokunarverslunarinnar var verð á útflutningsafurðum sett með konunglegum verðskrám. Verð á landbúnaðarafurðum var langt undir heimsmarkaðsverði, en verð á sjávarafurðum langt yfir því. Þetta merkti, að einokunarverslunin færði fé úr sjávarafurði í landbúnað. Hún var innheimtustofnun fyrir auðlindaskatt þess tíma.
Seint á 18. öld hrifust dönsk stjórnvöld af boðskap Adams Smiths um opið hagkerfi og lögðu einokunarverslunina niður. Jarðir biskupsstólanna og síðar konungs voru seldar í stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar. Leiguliðar urðu margir sjálfstæðir bændur. Jarðeignir dreifðust á hendur miklu fleiri en áður. Á 19. öld stigu stjórnvöld mörg fleiri skref í átt til atvinnufrelsis. Vistarbandið var leyst og bann fellt niður við hjónaböndum öreiga. Fólk, sem áður hefði fallið úr hungri, streymdi nú að sjávarsíðunni, þar sem þéttbýli myndaðist. Erlent fjármagn kom inn í landið og vann ómælt gagn. Framtaksmenn spruttu upp og létu að sér kveða. Ber nafn Thors Jensens, útgerðarmanns og kaupmanns, þar hæst. Með auknum kapítalisma jókst jöfnuður í landinu. Ekki voru allir þó ánægðir. Vinstri menn eins og Halldór Kiljan Laxness einblíndu á það, að sumir urðu ríkari en aðrir, þótt þeir vildu ekki hverfa til fornra búskaparhátta. Þeir vildu jafna kjörin frekar en fjölga tækifærum fólks til að bæta þau af eigin rammleik. Sumir vinstri menn voru jafnvel andvígir þróuninni úr bændaveldi. Benedikt Jónsson á Auðnum andmælti frjálsri samkeppni og skrifaði fullveldisárið 1918 um hina nýju stétt íslenskra kapítalista, útgerðarmenn og kaupmenn: Þar hreiðra þeir sig í rekaldinu við röstina og reisa sér mangarabúðir, eða reka sjávarútveg með málaliði, en umhverfis þá raða sér ræflar og auðnuleysingjar, sem áður voru sjálfkjörin hjú á höfuðbólum og höfðingjasetrum í sveitum, en nú draga fram lífið á daglaunavinnu.
Frá haftabúskap til opins hagkerfis
Þegar haftabúskapur hófst á Íslandi um 1930, jókst ójöfnuður aftur, enda hafði gamla valdastéttin, sem setið hafði yfir hlut alþýðu fyrstu þúsund ár Íslandssögunnar, þá náð kröftum á ný, og var Hermann Jónasson eflaust einn kænasti fulltrúi hennar. Á haftatímanum 1930-1960 urðu menn að sækja um sérstök leyfi til yfirvalda fyrir öllum nauðsynjum, sem flytja þurfti inn. Ef þeir voru ekki þægir þjónar einhvers stjórnmálaflokks, þá fengu þeir ekki heldur lán úr bönkum. Ríkið skammtaði gæði, og þeir, sem höfðu ríkisvaldið hverju sinni, nutu þess. Hugsanlega var tekjuskipting hér jafnari í orði en víðast annars staðar, en það skipti ekki mestu máli, heldur að menn gátu hvorki ráðið því sem neytendur, hvað þeir gerðu við tekjur sínar, né skapað sér sem framleiðendur tekjur í nýjum fyrirtækjum, nema þeir væru einhvers staðar í náðinni. Stórt skref var að vísu stigið í átt að auknum jöfnuði árið 1960, þegar innflutningshöft voru felld niður. Eftir það ákváðu menn sjálfir, hvað þeir keyptu frá útlöndum. En bankarnir voru enn í eigu ríkisins og útflutningsverslun ófrjáls. Þetta myndaði mikinn ójöfnuð, fækkaði tækifærum framtakssamra einstaklinga. Þeir, sem kölluðu sig jafnaðarmenn, gengu eins hart fram í því að vernda sérhagsmuni og fríðindi og aðrir. Nokkrar fjölskyldur réðu lýðræðisflokkunum þremur, en sósíalistar, sem stóðu vissulega utan valdastéttarinnar, áttu sér þann draum heitastan, að allir yrði jafnfátækir, jafnmiklir þrælar ríkisins.
Tímamót urðu 1991, þegar Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína. Þá var sú stefna mörkuð afdráttarlaust að breyta íslenska hagkerfinu í opið, frjálst, vestrænt hagkerfi. Við það minnkaði ójöfnuður stórlega. Í fyrsta lagi var fjáraustri úr opinberum sjóðum hætt, en áður höfðu menn haft misjafnan aðgang að fjármagni úr þeim. Í öðru lagi hjaðnaði verðbólga, en áður höfðu launþegar lítt komið við vörnum gegn henni. Í þriðja lagi voru skuldir ríkisins greiddar niður, en áður hafði þrálát skuldasöfnun falið í sér skattlagningu á komandi kynslóð, sem átti að greiða án þess að eyða. Í fjórða lagi voru lífeyrissjóðir styrktir, svo að þeir eru nú hinir traustustu í Evrópu, en þar eru slíkir sjóðir víða að þrotum komnir, og verða lífeyrisþegar þar austan hafs að treysta á náð og miskunn skattgreiðenda ólíkt því, sem er á Íslandi. Í fimmta lagi hvarf allt atvinnuleysi, en úti í Evrópu skiptist fólk í launþega og atvinnuleysingja, innanbúðarmenn og utangarðsfólk. Ójöfnuður minnkaði líka stórlega á Íslandi, þegar bankar voru seldir, en áður höfðu fulltrúar stjórnmálaflokka ráðið miklu um, hverjir fengu lán. Á verðbólguárunum 1971-1991 jafngilti óverðtryggt lán í rauninni gjöf, og þeir, sem höfðu mest stjórnmálaítök, fengu þessar gjafir. Sala bankanna á þremur árum, frá 1999 til 2002, var eins mikilvæg breyting á íslensku atvinnulífi og sala stóls- og konungsjarða á 18. og 19. öld. Eftir að bankarnir urðu einkafyrirtæki, réðust útlán ekki af fæðingarvottorðum eða flokksskírteinum, heldur greiðslugetu og arðsvon. Bankarnir hófu harða samkeppni, og ein afleiðingin varð, að vextir á húsnæðislánum snarlækkuðu.
Hinn aukni jöfnuður, sem opnun hagkerfisins og fjölgun tækifæra sköpuðu, sést lítt í hagtölum. Af þeim má hins vegar ráða, að tekjuskipting er tiltölulega jöfn á Íslandi. Samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins, sem Hagstofa Íslands vann að og birtist í febrúar 2007, er tekjuskipting aðeins jafnari í þremur Evrópulöndum, en ójafnari í 27. Fátækt eða hætta á fátækt (sem mæld er með svonefndum lágtekjumörkum) er líka næstminnst hér í allri Evrópu. Ábatinn af framförum síðustu sextán ára hefur dreifst á alla tekjuhópa. Til dæmis hafa kjör tekjulægsta 10% hópsins batnað að meðaltali um 2,7% á ári eftir skatt eftir tölum Stefáns Ólafssonar prófessors, sem lagt hefur fyrir sig rannsóknir á fátækt. Þetta er 50% meira en í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, O. E. C. D., þar sem kjör þessa hóps hafa batnað að meðaltali um 1,8% á ári. Sennilega verður 1991 talið árið, þegar gamla valdastéttin missti alveg tökin á atvinnulífinu. Upp hefur sprottið hópur framtaksmanna, sem stækkað hafa Ísland með því að halda í víking til útlanda. Fyrst skal þar fremsta telja feðgana Björgólf Thor og Björgólf Guðmundsson, en einnig má nefna Baugsfeðga, Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson, Hannes Smárason, Sigurð Einarsson, Pálma Haraldsson, Ólaf Ólafsson, Bakkavararbræður, Ágúst og Lýð Guðmundssyni, og raunar marga aðra. Uppgangur þessara manna sýnir einmitt, að jöfnuður hefur aukist á Íslandi. Allir höfðu sömu tækifæri og þessir menn. Þeir gripu þau.
Vald skapar ójöfnuð
Vald ríkisins skapar ójöfnuð, því að það er alltaf vald sumra yfir öðrum, hvað sem góðum fyrirheitum líður. Frelsi markaðarins skapar hins vegar jöfnuð, þegar það er fullt og jafnt frelsi allra. Þess vegna er þeim, sem eiga undir högg að sækja, meira skjól í markaðinum en ríkinu. Ég var staddur í Suður-Afríku haustið 1987, þegar þar var enn fylgt aðskilnaðarstefnu. Hvítir menn nutu miklu meiri réttinda en þeldökkir. Stjórn þeirra bannaði jafnvel hjónabönd fólks af ólíkum kynþáttum (eins og valdastéttin íslenska bannaði á sínum tíma hjónabönd öreiga, þótt af öðrum ástæðum væri). Einn daginn ók ég ásamt leiðsögumanni fram hjá kvikmyndahúsi. Ég spurði, hvort aðskilnaðarstefnan næði til slíkra fyrirtækja. Svarið var, að reglunum hefði nýlega verið breytt að kröfu kvikmyndahúsaeigenda. Sú spurning kviknaði óðar í huga mér, þótt ég hefði ekki orð á, hvort kvikmyndahúsaeigendurnir hefðu krafist þessarar breytingar, af því að þeim hefði ofboðið misréttið eða af því að þeir vildu fjölga viðskiptavinum. Ég er í litlum vafa um, að síðarnefnda skýringin er rétt. Náungakærleikur er bundinn við náunga okkar, sem við þekkjum og þykir vænt um. Í skiptum ókunnugra manna hrekkur náungakærleikurinn hins vegar skammt. Þar er matarástin gagnlegri leiðarstjarna. Tilhneiging okkar til að skjóta (eða hrækja) á aðra minnkar, ef við sjáum í þeim væntanlega viðskiptavini. Kapítalistar hugsa (ef til vill sem betur fer) aðeins um peninga. Þeir spyrja ekki, hvernig bakarinn er á litinn, heldur hvernig brauðið er á bragðið.
Það liggur í hlutarins eðli, að óvinsælir minnihlutahópar eiga erfitt uppdráttar, hvar sem þeir búa. En á hinum frjálsa markaði geta skipti þeirra við aðra takmarkast við það, sem er hvorum tveggja í hag. Kaupmaðurinn í Feneyjum sagði: Ég vil semja við ykkur, kaupa við ykkur, ganga með ykkur, ræða við ykkur, og allt það; en ég vil ekki snæða með ykkur, drekka með ykkur, né biðja með ykkur. Hvað er að frétta úr kauphöllinni? Milton Friedman nefndi oft annað dæmi. Það var af handritshöfundum í Hollywood, sem lentu á svörtum listum um kommúnista, þegar Joseph McCarthy öldungadeildarþingmaður var hvað aðsópsmestur. Þeir fengu ekki verkefni undir eigin nöfnum, en kvikmyndaverin keyptu af þeim góð handrit, þótt þau væru merkt dulnefnum. Þessi fyrirtæki höfðu meiri áhuga á gæðum handritanna en réttum nöfnum höfundanna. Það er einnig athyglisvert, að í Bandaríkjunum gætir síst fordóma gagnvart þeldökku fólki í tónlist og íþróttum. Það er engin tilviljun. Í þessum tveimur greinum er samkeppni hörð. Atvinnurekendur hafa ekki efni á að neita sér um hæfileika þeldökkra íþróttagarpa eða stórsöngvara. Á frjálsum markaði ber sá, sem mismunar, ekki síður kostnaðinn en sá, sem mismunað er. Öðru máli gegnir í stofnunum ríkisins. Valdsmaður, sem mismunar tveimur umsækjendum um starf, til dæmis vegna fordóma um litarhátt, kynferði eða kynhneigð, ber sjaldnast kostnað af því sjálfur. Í þessum skilningi er jöfnuður líklegri til að vera meiri úti á markaðnum en í stofnunum ríkisins og því meiri sem samkeppni er harðari. Vald skapar ójöfnuð.
En getur frelsi á markaði ekki líka skapað ójöfnuð? Hvað um það, að allir á Óseyri við Axlarfjörð áttu afkomu sína undir Bogesen kaupmanni? Viljum við, að örfáir auðkýfingar ráði öllu? Skáldsaga Laxness um Sölku Völku er að vísu ekki góð heimild um frjálsan markað. Í rauninni var sama hagkerfi á Óseyri og sósíalistar vildu stofna á Íslandi öllu: Þar var allt hagvald á einni hendi og hvergi undankomu auðið. Aðalatriðið er, að menn eigi þess ætíð kost, séu þeir óánægðir, að leita annað með viðskipti sín, hvort sem það er sala á vinnu eða kaup á vöru, og það geta þeir, ef íslenska hagkerfið er opið og beintengt mörkuðum annars staðar, ekki aðeins í Evrópu, heldur líka Vesturheimi og víðar. Frelsi getur skapað ójöfnuð, en aðeins við mjög óvenjulegar aðstæður. Það er hins vegar ekkert undrunarefni, að sami maðurinn og minnkaði vald sitt stórlega, Davíð Oddsson, skyldi sumarið 2004 vera nánast einn um það íslenskra áhrifamanna að hafa áhyggjur af því, að allir fjölmiðlar landsins kynnu að lenda á einni hendi. Þeir, sem hæst hafa venjulega um jöfnuð, vísuðu því harðlega á bug og töluðu eins og þægir þjónar auðsins. Ég skildi vel sjónarmið Davíðs. En ég skil ekki síður þá skoðun margra frjálshyggjumanna, að eina ráðið við frelsinu sé meira frelsi. Markaðurinn geti sjálfur leyst úr slíkum málum. Sem betur fer hugsi flestir kapítalistar aðeins um peninga. Þeir eigi ekki fjölmiðla, nema það borgi sig, og það borgi sig ekki, nema þeir veiti betri þjónustu en keppinautarnir. Misnoti einn þeirra aðstöðu sína, nýti annar sér fyrr eða síðar tækifærið, sem það skapi.
Opin leið upp á tindinn
Jöfnuður er allt of mikilvægur til að láta hann jafnaðarmönnum einum eftir. Flestir Íslendingar vilja opið skipulag, þar sem menn eru jafningjar í þeim skilningi, að þeir hafa næg tækifæri til að bæta kjör sín, en dramblát yfirstétt situr ekki yfir hlut annarra, um leið og hún veifar fæðingarvottorðum eða flokksskírteinum. Íslensku þjóðinni hefur tekist betur en öðrum að smíða slíkt opið skipulag síðustu sextán árin. Nú skiptir hér meira máli, á hvaða leið menn eru en hvaðan þeir koma. Hér á landi er leiðin opin upp á tindinn. Það er talið fagnaðarefni, ef menn verða ríkir. Flestir Íslendingar geta sofið á næturna, þótt öðrum gangi vel. Reynslan sýnir enn fremur, að við gerum ekki hina fátæku ríkari með því að gera hina ríku fátækari. Aðalatriðið er að fjölga tækifærum, ekki jafna niðurstöður. Heppilegasta ráðið til þess er að halda áfram að lækka skatta, jafnt á fyrirtæki sem einstaklinga, eins og Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur bent á.
Lesbók Morgunblaðsins 24. mars 2007.