Níðvísan þjónaði tilgangi

2.1 Snorri_sturluson_1930Hér hefur ég fyrir nokkru varpað fram þeirri tilgátu, að Snorri Sturluson hafi samið söguna um landvættirnar í því skyni að telja þá Hákon konung Hákonarson og Skúla jarl Bárðarson af því að senda herskip til Íslands eins og þeir hugðust gera árið 1220 eftir skærur norskra kaupmanna og íslenskra goða, sem vildu setja á verðlagshöft. Hefur Snorri væntanlega flutt söguna hárri raust við hirðina eitthvert kvöldið yfir silfurslegnum bikurum við eld í arni.

Sagan gerðist árið 982. Haraldur blátönn Danakonungur hafði að ráði bryta síns Birgis gert upptækt íslenskt skip, sem strandað hafði á landi hans. Ákváðu þá Íslendingar að yrkja níðvísur um konung, eina á hvert nef. Haraldur vildi hefna þess með innrás, en sendi fyrst fjölkunnugan njósnara í hvalslíki til landsins. Sá rakst á landvættirnar, en færði Haraldi líka þær fréttir, að með endilöngu landi væru aðeins sandar og hafnleysur, en haf svo mikið þangað norður, að ófært væri langskipum. Hvarf Haraldur frá innrás. Til þess að boðskapurinn yrði ekki augljós um of, gerði Snorri konung Dana, ekki Norðmanna, að aðalsöguhetjunni.

Haraldur blátönn hafði orðið æfur við níðið, enda þekktu fornmenn aðallega tvær aðferðir til að ná sér niðri á öðrum, ofbeldi og níð. Mælskulist var þeim miklu mikilvægari en nútímamönnum, og varðaði níð skóggangi samkvæmt lögum Þjóðveldisins. Snorri tilfærði eina níðvísuna um Danakonung, og var hún hin groddalegasta. Átti hann að hafa sorðið bryta sinn Birgi eins og stóðhestur meri. En Snorri var auðvitað óbeint að segja þeim Hákoni konungi og Skúla jarli, að ekki yrði aðeins erfitt að senda innrásarher til Íslands, heldur réðu landsmenn einnig yfir beittu vopni, orðsins brandi. Þess vegna þjónaði hin groddalega níðvísa, sem Snorri tilfærði, sérstökum tilgangi í sögunni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. mars 2023.)


Sögulegar deilur

Tveir kunnustu menntamenn Ítala á tuttugustu öld voru heimspekingurinn Benedetto Croce og hagfræðingurinn Luigi Einaudi. Báðir voru þeir frjálshyggjumenn, en þeir deildu um, hvað í því fælist. Croce var lærisveinn Hegels og taldi sögu mannkyns sögu heimsandans, sem kæmist smám saman til vitundar um sjálfan sig og yrði frjáls. Sagan væri saga frelsisins: í upphafi hafði aðeins einn maður verið frjáls, harðstjórinn, síðan einn hópur, höfðingjastéttin, og loks allir menn. Í riti um Evrópusögu árið 1931 lét Croce í ljós þá skoðun, að tengsl frjálshyggju við atvinnufrelsi væri skilorðsbundin og aðeins söguleg, ekki rökleg. Menn gæti verið frjálsir, þótt einkaeignarréttur væri afnuminn eða verulega skertur. Croce gerði greinarmun á liberalismo, frjálshyggju sinni, og liberismo, afskiptaleysisstefnu í efnahagsmálum.

Einaudi tók undir það, að maðurinn lifði ekki á brauði einu saman, en benti á, að hagfræðileg greining þyrfti ekki að hafa í för með sér andlausa nytjastefnu. Hún væri aðallega aðferð við að skoða afleiðingar af ólíkum úrræðum. Sárafáir hagfræðingar hefðu fylgt fullkominni afskiptaleysisstefnu. Einaudi hafnaði því þó algerlega, að frelsi gæti þrifist í ríki, sem hefði afnumið einkaeignarrétt. Í fyrsta lagi yrðu borgararnir þá svo háðir stjórnvöldum um afkomu sína, að þeir væru ekki frjálsir nema að nafninu til. Í öðru lagi gerðu sameignarsinnar ráð fyrir, að allir ættu að þramma saman að settu marki. Þeir gætu ekki leyft óháðum félögum eða stofnunum að trufla þá göngu. Einaudi sagði, að vissulega gæti atvinnufrelsi farið saman við einræði í stjórnmálum, eins og dæmi Napóleons III. í Frakklandi sýndi. En hið gagnstæða ætti ekki við: þegar atvinnufrelsi væri stórlega skert, væri úti um borgaraleg réttindi og lýðræðislegt stjórnarfar. Greinarmunur Croces á liberalismo og liberismo væri misráðinn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. mars 2023.)


Refsað fyrir ráðdeild?

Luigi_Einaudi_1948_portraitMaður var nefndur Luigi Einaudi. Hann fæddist árið 1874, lauk hagfræðiprófi frá Torino-háskóla og gerðist prófessor þar. Hann varð snemma einn af kunnustu hagfræðingum Ítala og skipaður öldungadeildarþingmaður í konungsríkinu árið 1919. Hann hafði verið eindreginn andstæðingur fasista og varð eftir ósigur þeirra seðlabankastjóri Ítalíu í ársbyrjun 1945 og fjármálaráðherra tveimur árum síðar. Kom hann á stöðugleika eftir umrót stríðsins og hefur oft verið nefndur faðir ítalska efnahagsundursins. Einaudi var kjörinn forseti Ítalíu vorið 1948 og gegndi embætti í sjö ár. Hann lést árið 1961. Undanfarnar vikur hef ég sökkt mér niður í skrif hans um ríkisfjármál, en hann hefur sem fræðimaður ekki notið þeirrar athygli í hinum enskumælandi heimi, sem vera ber.

Ein kenning Einaudis er, að ekki skuli skattleggja fjármagnstekur. Hann telur skatt vera greiðslu fyrir þá þjónustu, sem ríkið veitir (landvarnir, löggæslu og margt fleira), svo að menn geti framleitt. Ríkið er því ómissandi framleiðsluþáttur svipað og land, fjármagn og vinnuafl. Hver einasta framleiðslueining fæðist með áfasta skattaskuldbindingu, jafnháa á hverja einingu. Setjum svo, að árstekjur manns séu 10 þúsund lírur og innheimtur sé 10% tekjuskattur. Hann á þá eftir 9 þúsund lírur og notar helminginn, 4.500, í neyslu, en sparar afganginn, 4.500 (geymir þær í banka eða kaupir fasteign eða hlutabréf). Gerum ráð fyrir, að hann fái 5% vexti af sparnaði sínum, 225 lírur. Það er ranglátt, segir Einaudi, að skattleggja þessar fjármagnstekjur. Um er að ræða tvísköttun. (John Stuart Mill var sömu skoðunar.)

Á sama hátt og stighækkandi tekjuskattur er skattur á vinnusemi, hugkvæmni og forsjálni, refsing fyrir að fara fram úr samborgurunum, felur fjármagnstekjuskattur í sér umbun fyrir eyðslu og refsingu fyrir ráðdeild. Er liðin sú tíð, að vinnusemi og sparsemi teldust dygðir og leti og eyðslusemi lestir?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. mars 2023.)


Stighækkandi tekjuskattur

Árin 1494–1509 háði Flórens kostnaðarsamt stríð við Pisu. Ítalski sagnfræðingurinn Francesco Guicciardini sagði frá fundi í Æðsta ráði Flórens um, hvernig skipta skyldi kostnaðinum. Einn af þeim, sem tóku til máls, mælti: „Byrðarnar, sem lögð er á fátæklinginn og ríka manninn, eru taldar jafnar, þegar þeir leggja báðir fram tíunda tekna sinna. En þótt tíundi hlutinn af tekjum ríka mannsins skili sér í hærri skatttekjum en tíundi hlutinn af tekjum fátæklingins, á fátæklingurinn miklu óhægara með þessi útgjöld. Byrðar þeirra eru ekki jafnaðar með því, að báðir greiði sama hlutfall, heldur með því, að óhagræði þeirra af greiðslunum sé jafnt.“

Með þessari hugmynd er stighækkandi tekjuskattur réttlættur. Ríka manninum muni minna um háar skattgreiðslur en hinum fátæka. En þegar fyrir fimm hundruð árum benti Guicciardini á, að við þetta dregur úr vilja manna og getu til verðmætasköpunar. Stighækkandi tekjuskattur er í raun skattur á því að verða ríkur, brjótast til bjargálna, ekki skattur á því að vera ríkur. Guicciardini kvað ræðumanninn í ráðinu ef til vill hafa talað varlegar, hefði hann haft í huga, að yfirvöldunum væri ætlað að tryggja frelsi og frið borgarinnar og vernda íbúa hennar, en ekki að valda óróa og íþyngja þeim með ótal reglugerðum. Þetta er kjarni málsins. Ríkið veitir ákveðna þjónustu, og fyrir það eiga borgararnir að greiða. En greiðslan á að fara eftir þjónustunni, ekki greiðslugetu þeirra, alveg eins og á við um annars konar þjónustu. Fátæklingar þurfa að greiða sama verð fyrir brauð bakarans og ríkir menn, enda væru fá bakarí ella rekin. Stighækkandi tekjuskattur er órökréttur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.)


Sjötugur

Hannes.MotherÞað er fagnaðarefni, að ég skuli verða sjötugur 19. febrúar 2023. Hitt væri óneitanlega miklu verra, að verða ekki sjötugur. Annars er lífið undarlegt ferðalag: Við mælum það í dögum, þeim tíma, sem það tekur jörðina að snúast í kringum sjálfa sig, og árum, þeim tíma, sem það tekur jörðina að þeysast í kringum sólina. Nú er ég einn af þeim jarðarbúum, sem eru að fara í sjötugasta sinn lengri ferðina. Það er ef til vill ekki merkilegt fyrir annað en það, að við þau tímamót er okkur opinberum starfsmönnum á Íslandi gert að láta af störfum. Þetta gerist, þrátt fyrir að lífslíkur séu hér einhverjar hinar mestu í heimi og margir haldi óskertum starfskröftum miklu lengur en til sjötugs.

Aðalatriðið er þó ekki lengd ævinnar, heldur notkun tímans, hversu margir dagar hafa ekki farið til spillis, heldur nýst í sköpun, skemmtun og baráttu fyrir betri heimi og þess vegna skilið eftir sig merkilegar minningar. „Gildi lífsins liggur ekki í fjölda daganna, heldur notkun þeirra,“ skrifaði Montaigne. „Ónotað líf er ótímabær dauðdagi,“ mælti Goethe. Ég vona, að margan daginn eigi ég enn eftir að fara að morgni með mitt leiðarstef:

Við hliðið mitt ég heimanbúinn stend,
á himni ljómar dagsins gullna rönd;
sú gjöf mér væri gleðilegust send,
að góður vinnudagur færi í hönd.    
 
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. febrúar 2023.)

Reykjavík, janúar 2023

img_6428Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands hélt fund 16. janúar 2023 um bók mína, Landsdómsmálið. Hafði ég framsögu, en Ögmundur Jónasson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, veitti andsvör. Hann sagði ýmislegt fróðlegt.

Geir H. Haarde var sakfelldur fyrir að hafa ekki sett yfirvofandi bankahrun árið 2008 á dagskrá ráðherrafunda þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Horfði meiri hluti landsdóms fram hjá ýmsum dæmum um, að mikilvæg stjórnarmálefni hefðu ekki verið lögð fyrir ráðherrafundi, auk þess sem allir ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde báru, að vandi bankanna hefði oft verið ræddur á ráðherrafundum, án þess að um það hefði verið bókað. Var Geir ekki látinn njóta vafans um þetta ákvæði.

Ögmundur bætti við dæmi um, að mikilvægt stjórnarmálefni hefði ekki verið rætt á ráðherrafundi. Það var samþykki vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við hernaðaríhlutun Atlantshafsbandalagsins í Líbíu árið 2011.

Ögmundur sagði líka, að til tals hefði komið meðal alþingismanna að skipuleggja „áfallateymi“, sem viðbúin yrðu, þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu kæmi út vorið 2010. Sýnir sú furðulega hugmynd sefasýkina, sem hafði gripið um sig í landinu og flestir vilja nú gleyma. Rannsóknarnefndin leitaði í sextán mánuði með fjölda starfsmanna og ótakmarkaðar rannsóknarheimildir að glæpum ráðamanna í tengslum við bankahrunið. Hún fann þá enga og brá þá á það ráð að saka þrjá ráðherra og fjóra embættismenn um vanrækslu í skilningi laganna um sjálfa nefndina, sem höfðu auðvitað verið sett eftir bankahrun. Þannig beitti hún lögum afturvirkt og braut með því eitt lögmál réttarríkisins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. febrúar 2023.)


Lundúnir, janúar 2023

326411834_505153231741899_4434867784039063656_nÁ ráðstefnu evrópskra íhaldsflokka í Lundúnum 14. janúar 2023 var ég beðinn um að halda tölu. Ég lýsti því þar, hvernig Íslendingar hafa leyst úr þremur erfiðum verkefnum.

Hið fyrsta var að tryggja nothæfa peninga. Helstu hlutverk peninga eru að vera verðmælir annars vegar og gjaldmiðill hins vegar. Gallinn við mikla verðbólgu til langs tíma, sem Íslendingar þekkja af eigin raun, er hins vegar sá, að peningar hætta að vera nothæfur verðmælir. Ógerlegt er að mæla verð, ef mælikvarðinn sjálfur er síbreytilegur. En Íslendingar fundu upp verðtryggða krónu, og í henni eru allir langtímasamningar gerðir. Venjuleg króna var hins vegar notuð áfram sem gjaldmiðill.

Annað verkefnið er að tryggja, að bankamenn noti ekki óttann við hugsanleg áhlaup innstæðueigenda til að verða sér úti um ríkisábyrgð, svo að þeir geti hirt gróðann, en tapið sé þjóðnýtt. Lausn okkar var að gera innstæður að forgangskröfum á banka, en með því róast innstæðueigendur og áhlaup þeirra verða ólíkleg. Aðrir lánardrottnar banka (atvinnufjárfestar) geta borið hina auknu áhættu, sem þetta felur í sér fyrir þá.

Hið þriðja er að tryggja skynsamlega nýtingu fiskistofna, en við opinn aðgang að þeim eru þeir jafnan ofnýttir, eins og víða sést og fiskihagfræðingar hafa rökstutt. Við komum okkur upp kerfi, þar sem útgerðarmenn fengu varanleg og seljanleg veiðiréttindi, en eftir það gátu þeir einbeitt sér að því að minnka kostnað af veiðunum, jafnframt því sem arðsömustu fyrirtækin gátu keypt aðra út. Enn fremur fóru útgerðarmenn að gæta auðlindarinnar í stað þess að ausa umhugsunarlaust af henni. Kvótakerfið er í senn sjálfbært og arðbært.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. febrúar 2023.)


Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar

RTROEOYLandnemarnir úr Noregi höfðu ekki búið lengi í þessu landi, þegar þeir tóku að líta á sig sem sérstaka þjóð. Sighvatur skáld Þórðarson orti í Austurfararvísum um hin „íslensku augu“, sem hefðu dugað sér vel. Um svipað leyti, árið 1022, gerðu Íslendingar sinn fyrsta milliríkjasamning, og var hann við Norðmenn um gagnkvæman rétt þjóðanna. Segja má, að eftir það hafi tveir ásar Íslandssögunnar verið sérstaða þjóðarinnar annars vegar og samstaða með öðrum þjóðum hins vegar.

Þegar Ari fróði setti saman Íslendingabók, lagði hann Þorgeiri Ljósvetningagoða í munn lýsingu í þingræðu árið 1000 á sérstöðu Íslands. „Hann sagði frá því, at konungar ór Norvegi ok ór Danmörku höfðu haft ófrið ok orrostur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeira, þótt þeir vildu eigi.“ Hér á landi voru engir konungar til að spilla friðnum. Í því var sérstaða landsins ekki síst fólgin að sögn goðans á Ljósavatni. En Þorgeir lagði þó til í sömu ræðu, að Íslendingar tækju upp sömu trúarbrögð og grannþjóðirnar. Samstaðan með öðrum þjóðum væri ekki síður mikilvæg en sérstaðan.

Nefjólfssynir og Þveræingar

Einni öld síðar gat að líta svipaðan samleik sérstöðu og samstöðu í frásögn annars sagnritara, Snorra Sturlusonar, frá umræðum á Alþingi árið 1024. Íslenskur hirðmaður Ólafs digra Noregskonungs, Þórarinn Nefjólfsson, hafði boðið Íslendingum að ganga honum á hönd. Einar Þveræingur flutti þá um það ræðu, sem Snorri hefur eflaust samið sjálfur, að Íslendingar ættu að vera vinir konungs, en ekki þegnar. Þótt Einar efaðist ekki um, að Ólafur digri væri ágætur, væru konungar misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því best að hafa engan konung.

Æ síðan hafa málsmetandi Íslendingar skipst í tvo flokka: Þveræinga, sem vilja vinfengi við aðrar þjóðir án undirgefni, í senn sérstöðu og samstöðu, og Nefjólfssyni, sem hafa þá ósk heitasta að herma allt eftir öðrum þjóðum, vilja fórna allri sérstöðu fyrir fulla samstöðu. Útlendingar hafa margir heldur lagst á sveif með Nefjólfssonum. Sturla Þórðarson (sem ólíkt frænda sínum Snorra var frekar í liði Nefjólfssona en Þveræinga) skýrði frá því, þegar Vilhjálmur kardináli af Sabína hreytti út úr sér við krýningu Noregskonungs árið 1247, hversu það væri „ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni“.

Stefna Jóns Sigurðssonar og Hannesar Hafstein

Þegar Íslendingar urðu nauðugir að ganga á hönd Noregskonungi árið 1262, skildu þeir það til í sáttmála, að þeir fengju haldið íslenskum lögum og að opinberir sýslunarmenn skyldu íslenskir vera. Leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, vísaði óspart til þessa sáttmála, þegar hann rökstuddi tilkall hennar til sjálfsforræðis. En um leið var Jón eindreginn stuðningsmaður verslunarfrelsis. „Þú heldur, að einhver svelgi okkur. Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti,“ sagði hann í bréfi til bróður síns árið 1866. „Frelsið kemur að vísu mest hjá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.“ Fyrir rás viðburða hafði Danakonungur leyst Noregskonung af hólmi, og Jón Sigurðsson var óragur að gera kröfur á hendur Dönum fyrir fornar misgerðir, þótt hann vissi vel, að þeir myndu seint viðurkenna slíkar bótakröfur.

Fyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein, fylgdi stefnu Jóns Sigurðssonar. Eins og samherji hans, Jón Þorláksson, orðaði það, vildi Hannes „afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni.“

Stefna Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar

Hér var mikilvægast meðalhófið, að ganga ekki of langt í aðra áttina, ýmist til fullrar sérstöðu þjóðarinnar og einangrast þá eða til fullrar samstöðu með öðrum þjóðum og týna þá sjálfri sér. Á öndverðri tuttugustu öld voru Íslendingar svo innblásnir af sjálfstæðisbaráttunni, að raddir Nefjólfssona heyrðust sjaldan. Það kom þó fyrir. Til dæmis lagði Jón Þorláksson til, þegar semja skyldi dagskrá fyrir þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930, að ræða fyrirhugaða útfærslu landhelginnar, en Ásgeir Ásgeirsson hafnaði því með þeim rökum, að tignir erlendir gestir á hátíðinni kynnu að taka því illa. Í minnisblöðum erlendra erindreka um viðræður við þá Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson seinna á öldinni var iðulega hneykslast á því, hversu fast þeir tveir héldu jafnan fram kröfum Íslendinga. (Eitt dæmi er í skýrslum bandaríska sendiherrans Louis Dreyfus um samskipti hans við Ólaf árin 1944–1946.)

Báðir voru þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson Þveræingar frekar en Nefjólfssynir. Þeir voru sannfærðir um, að eftir skilnaðinn við Dani væri öryggis- og viðskiptahagsmunum Íslendinga best borgið í nánu samstarfi við Bandaríkjamenn, en við Íslendingar skyldum vera vinir þeirra, ekki herma allt eftir þeim. Þótt báðir væru þeir síðan hlynntir verslunarfrelsi, var af ýmsum ástæðum við ramman reip að draga. En því rifja ég allt þetta upp, að í dag fagnar sjötíu og fimm ára afmæli sá stjórnmálamaður, sem helst hefur beitt sér síðustu áratugi fyrir hugmyndinni um sérstöðu með samstöðu, um meðalhóf milli tveggja ása Íslandssögunnar, um vináttu við aðrar þjóðir án undirgefni, Davíð Oddsson. 

Stefna Davíðs Oddssonar

Í forsætisráðherratíð sinni 1991–2004 beitti Davíð Oddsson sér fyrir róttækum umbótum í frelsisátt. En hann var ekki knúinn áfram af erlendum kennisetningum, heldur stefndi hann að því einfalda markmiði að auka hér frelsi til jafns við það, sem gerðist í helstu grannríkjum. Það var vissulega mikilvægt skref, þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu í ársbyrjun 1994. Eins og Jón Sigurðsson hafði sagt: „Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti.“ En Íslendingar gátu átt kaup og viðskipti á Evrópumarkaði án þess að þurfa að lúta skriffinnunum í Brüssel. Enn fremur voru margvíslegar þær umbætur, sem Davíð beitti sér fyrir ásamt samherjum sínum, óháðar EES-aðild, svo sem að styrkja hið arðbæra kvótakerfi í sjávarútvegi, selja ríkisfyrirtæki, lækka skatta, greiða niður skuldir ríkissjóðs og efla lífeyrissjóði.

Íslendingar fundu síðan undir forystu þeirra Davíðs Oddssonar, sem nú var orðinn seðlabankastjóri, og Geirs H. Haarde forsætisráðherra leið út úr erfiðleikunum, sem bankarnir lentu í haustið 2008 vegna hinnar alþjóðlegu lausafjárkreppu. Margir hagfræðingar og bankamenn höfðu lagt til, að ríkissjóður tæki stórlán erlendis (jafnvel með veði í orkulindunum) og forðaði bönkunum frá falli með því að dæla peningum inn í þá. En þeir Davíð og Geir töldu það óraunhæft og ákváðu þess í stað að girða landið af og gera innstæður sparifjáreigenda að forgangskröfum á bú bankanna. Með því takmörkuðu þeir stórlega skuldbindingar ríkissjóðs og róuðu sparifjáreigendur. Hefði Ísland verið í Evrópusambandinu, hefði þetta hins vegar verið ógerlegt, og væntanlega hefði landið þá verið leikið jafngrátt og Írland og Kýpur og sokkið djúpt í skuldafen.

Eftirmál bankahrunsins

Þótt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu frá árinu 2010 sé meingölluð, kemur skýrt fram í henni, að sem seðlabankastjóri varaði Davíð Oddsson margsinnis við hinum öra vexti bankanna og undirbjó í kyrrþey aðgerðir. Þar réð þó frekar tilfinning gamalreynds stjórnmálamanns en talnaflóð úr skýrslum alþjóðastofnana, niðurstöðum matsfyrirtækja, álitsgerðum hagfræðinga og endurskoðuðum ársreikningum bankanna, sem allt hneig í aðra átt. En íslensku bankarnir hefðu þó hugsanlega einhverjir staðið af sér hina hörðu alþjóðlegu lausafjárkreppu, sem hófst síðsumars 2007, hefði Seðlabanki Bandaríkjanna veitt Seðlabankanum sömu lausafjárfyrirgreiðslu og skandinavísku seðlabönkunum þremur og Bretastjórn veitt bresku bönkunum tveimur í eigu Íslendinga sömu aðstoð og öllum öðrum breskum bönkum.

Í því ljósi var með ólíkindum, að vinstri stjórn, sem tók við í febrúarbyrjun 2009, skyldi láta það verða sitt fyrsta verk að flæma Davíð Oddsson úr Seðlabankanum ásamt tveimur starfsbræðrum hans, þaulreyndum og vammlausum seðlabankamönnum. Hafði hún þá að engu regluna um sjálfstæði seðlabanka. Í stað seðlabankastjóranna þriggja réð stjórnin Norðmann einn og braut með því stjórnarskrána, en þar er kveðið skýrt á um það, að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar. Það hafði einmitt verið áskilnaður Íslendinga, þegar þeir gengu árið 1262 á hönd Noregskonungi, að íslenskir skyldu opinberir sýslunarmenn vera. (Sigurður Líndal lagaprófessor færði sterk rök gegn því, að hér skipti máli greinarmunur á setningu og skipun, eins og Nefjólfssynir héldu fram.) Hinn nýráðni Norðmaður lét taka mynd af sér með forsætisráðherra Noregs, þar sem þeir stikuðu um Seðlabankann eins og þeir ættu hann og brostu gleitt.

Icesave-málið

Ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins hafði ekki aðeins neitað breskum bönkum í eigu Íslendinga um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og allir aðrir breskir bankar fengu í hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu og brotið með því bann EES-samningsins við mismunun eftir þjóðerni. Hún hafði einnig lokað útbúum bankanna í Bretlandi, beitt hryðjuverkalögum á Landsbankann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og sett þessi fyrirtæki og stofnanir á sama lista á heimavef breska fjármálaráðuneytisins og Al-Kaída og Talíbana. Jafnframt gerði hún kröfu um, að íslenska ríkið endurgreiddi sér fjárútlát vegna svokallaðra Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi í stað þess að eignir bankans fengju að ganga upp í þá eins og gert var annars staðar við sambærilegar aðstæður. Við þetta hefði mörg hundruð milljarða króna vaxtakostnaður fallið á ríkissjóð, hversu verðmætar sem eignir bankans hefðu reynst.

Sem seðlabankastjóri hafði Davíð Oddsson staðið fast gegn því sjónarmiði Nefjólfssona, að á ríkið hefði fallið greiðsluskylda vegna viðskipta einkaaðila, banka og erlendra innstæðueigenda. Nú barðist hann sem ritstjóri Morgunblaðsins með odd og egg gegn undanlátssemi vinstri stjórnarinnar, sem hafði í samningum við Bretastjórn viðurkennt þessa greiðsluskyldu í reynd. Eftir að þeir samningar höfðu tvisvar verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslum, komst alþjóðlegur dómstóll að sömu niðurstöðu og Davíð hafði jafnan haldið fram, að engin greiðsluskylda hefði fallið á ríkissjóð vegna þessara einkaviðskipta. Reyndist eignasafn Landsbankans vera miklu verðmætara en talið hafði verið (eins og raunar hinna bankanna líka), og var Icesave-skuld Landsbankans við Breta greidd að fullu.

Það var hins vegar óviðkunnanlegt að sjá íslenska háskólamenn brosa breitt haustið 2012 við David Miliband, utanríkisráðherra stjórnarinnar, sem sett hafði hryðjuverkalög á Íslendinga, en hélt nú fyrirlestur í Háskólanum um, að Íslendingar ættu að ganga í hönd skriffinnunum í Brüssel. Hafði Miliband látið það boð út ganga fyrir lesturinn, að hann kærði sig ekki um að ræða samskipti Bretlands og Íslands haustið 2008, og virtu Nefjólfssynir það, enda mátti ekki styggja tigna erlenda gesti fremur en fyrri daginn. 

Stærstur í andstreymi

Davíð Oddsson hafði verið farsæll og sigursæll forsætisráðherra. Hann hafði þá líka oftast haft góðan byr. En líklega var hann stærstur í hinu mikla andstreymi áranna 2008–2013, þegar hann fann ásamt traustum samherjum leið út úr ógöngum bankanna og tók snarplega þátt í baráttunni gegn yfirgangi útlendinga. Í senn hélt hann þá á lofti sérstöðu íslensku þjóðarinnar, sem vildi ráða sínum málum sjálf, og nauðsynlegri samstöðu hennar með öðrum þjóðum. Honum höfðu dugað vel augun íslensku eins og Sighvati Þórðarsyni forðum.

(Grein í Morgunblaðinu 17. janúar 2023.)


Stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein

HannesVidhafnarm2Um aldamótin 1900 var Ísland dönsk hjálenda, eins og það var kallað (biland). Það var þá eitt fátækasta land Vestur-Evrópu. Hér vantaði sárlega vegi, brýr, hafnir og vita. Landsmenn bjuggu flestir í köldum, dimmum, saggasömum torfbæjum. Útlendir togarar ösluðu upp að ströndum og létu vörpur sópa, en Íslendingar stunduðu af vanefnum sjó á litlum bátum, stundum óþiljuðum. Þótt tengsl við útlönd væru hinu afskekkta, harðbýla landi lífsnauðsynleg, voru þau takmörkuð, aðeins fólgin í strjálum skipakomum, en það tók að minnsta kosti viku að sigla frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Margir flúðu fátæktina með því að halda vestur um haf. En það var eins og ný tíð gengi í garð árið 1904, þegar það gerðist hvort tveggja, að Íslendingar fengu heimastjórn og að nýr banki tók til starfa, Íslandsbanki, sem átti ásamt Landsbankanum eftir að fjármagna vélvæðingu fiskiskipaflotans. Fyrir einstaka tilviljun varð nú fyrsti íslenski ráðherrann skáldið, sem hafði ort hvað best um framfaraþrá þjóðarinnar, Hannes Hafstein. Í dag er þess minnst, að hundrað ár eru liðin frá láti hans. Jafnvel heitir andstæðingar Hannesar viðurkenndu á sinni tíð, að hann væri ekki aðeins snjallt og rismikið skáld, heldur líka glæsimenni, sem væri geðfelldur í viðkynningu, vinmargur og vinsæll og kynni að koma virðulega fram fyrir Íslands hönd. Honum var hins vegar stundum brugðið um að hafa ekki aðra hugsjón en eigin frama. Því fór þó fjarri. Hannes stóð traustum fótum í íslenskri stjórnmálaarfleifð og hafði til að bera sterka sannfæringu, þótt vissulega væri hún milduð af eðlislægri sáttfýsi og langri reynslu.

Vinir, ekki þegnar

Hannes Hafstein var umfram allt þjóðrækinn og frjálslyndur framfarasinni. Í minningargrein sagði einn nánasti samstarfsmaður hans, Jón Þorláksson forsætisráðherra: „Grundvallarhugun Hannesar Hafstein í sambandsmálinu hygg ég hafa verið þá, að hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni.“ Hannes vildi, að Íslendingar væru vinir annarra þjóða, ekki síst viðskiptavinir þeirra, en hann vildi ekki, að þeir væru þegnar þessara þjóða, heldur skyldu þeir ráða eigin málum, vera fullvalda þjóð. En sú fullvalda þjóð gat ekki lifað á munnvatni og fjallagrösum, heldur þurfti hún erlent fjármagn til að nýta kosti lands og sjávar. Haga varð því málum hyggilega, laða útlendinga að í stað þess að fæla þá frá.

Þessa hugsun um afstöðu Íslendinga til annarra þjóða má rekja allt til Snorra Sturlusonar, en hann samdi ræðu Einars Þveræings, sem átti að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, þá er Þórarinn Nefjólfsson bar Íslendingum boð Ólafs digra um, að þeir gerðust honum handgengnir. Snorri lætur Einar segja, að víst sé þessi konungur góður, en hitt sé ljóst, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því Íslendingum best að hafa engan konung. Íslendingar skuli hins vegar vera vinir Ólafs konungs og gefa honum gjafir. Í Heimskringlu Snorra er eitt meginstefið, að öðru hverju komist til valda konungar, sem heyi stríð og leggi á þunga skatt landslýð til óþurftar. Snorri ólst upp í Odda, og þar hefur hann auðvitað lesið kaflann í Íslendingabók Ara fróða um ræðu Þorgeirs Ljósvetningagoða, en í upphafi hennar minnir goðinn á, að konungar í Danmörku og Noregi hafi löngum háð stríð sín í milli, en landsmenn þá iðulega stillt til friðar gegn vilja þeirra.

Á nítjándu öld hóf Jón Sigurðsson merki Snorra Sturlusonar á loft og hélt fram sömu stefnu: að Íslendingar skyldu vera vinir annarra þjóða, en ekki þegnar. Fyrir rás viðburða var Íslandi þá stjórnað frá Kaupmannahöfn. Bar Jón í Hugvekju til Íslendinga árið 1848 fram þrjár röksemdir fyrir fullu sjálfsforræði: að það hefði gengið aftur til þjóðarinnar, eftir að Danakonungur afsalaði sér einveldi, að Íslendingar væru sérstök þjóð með eigin tungu, sögu og bókmenntir, sem ætti eðli málsins samkvæmt að hafa eigið ríki, og að hagkvæmast væri, að þeir stjórnuðu eigin málum, því að þeir þekktu betur til þeirra en útlendingar. Jafnframt gerði Jón Dönum reikning fyrir kúgun þeirra og arðrán öldum saman. Auðvitað hefur hann ekki búist við, að Danir viðurkenndu þá kröfu, en hann vildi í samningum við þá jafna metin, ekki ganga til þeirra með betlistaf í hendi.

Stolt er ekki dramb

Þeir Jón Sigurðsson og Hannes Hafstein áttu það sameiginlegt að vera vinir Dana, en ekki Danasleikjur, og sýna tvö atvik það best. Upp úr 1870 tók dönsku stjórninni að leiðast þófið við Íslendinga, og setti hún án samráðs við þá Stöðulögin árið 1871, en færði þeim síðan frjálslynda stjórnarskrá á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Var að henni mikil réttarbót. Kristján IX. Danakonungur bauð Jóni Sigurðssyni í höll sína skömmu eftir setningu stjórnarskrárinnar. Hann ávarpaði Jón og benti á, að nú hefði hann skrifað undir nýja stjórnarskrá. Í orðunum lá, að Jón ætti að vera ánægður. „Þetta er góð byrjun, yðar hátign,“ svaraði Jón kurteislega. Bjóst konungur áreiðanlega ekki við þessu svari.

Hitt atvikið gerðist röskum fjórum áratugum síðar. Hannes Hafstein var orðinn ráðherra Íslands í annað sinn og sótti ríkisráðsfund í Kaupmannahöfn haustið 1913. Árið áður hafði Kristján X. orðið konungur, en hann var ekki eins hlynntur Íslendingum og faðir hans Friðrik XVIII., sem var góður vinur Hannesar. Íslandsráðherra var látinn vita fyrir fundinn, að nú skyldu ráðherrar ekki lengur koma fram í einkennisbúningi. Hannes mætti því í morgunfatnaði (morning dress, tegund af kjóli og hvítu) eins og dönsku ráðherrarnir. Í upphafi fundar spurði konungur Hannes hranalega, hvers vegna hann væri ekki í einkennisbúningi. Hannes svaraði því til, að sér hefði verið sagt að mæta í morgunfatnaði. Konungur kvað það ekki eiga við um Íslandsráðherra. Kvað hann Íslendinga ókurteisa, þrjóska og agalausa. Þegar konungur settist, sneri Hannes sér að honum og sagðist harma orð hans, ekki sjálfs sín vegna, heldur Íslendinga. Hann gæti því ekki setið þennan fund. Gekk hann út.

Þá reis upp Edvard Brandes fjármálaráðherra. Kvaðst hann hafa kynnt Hannesi hinar nýju reglur um klæðaburð. Bæði konungur Hannes ekki afsökunar, yrði hann sjálfur að víkja af fundi. Carl Zahle forsætisráðherra tók undir með Brandes og skoraði á konung að slíta annaðhvort fundi eða biðja Hannes afsökunar. Konungur sá sitt óvænna og lét senda eftir Hannesi, sem var að ganga út úr höllinni. Þegar Hannes kom inn aftur, stóð konungur upp og bað hann afsökunar. Hannes þakkaði konungi ljúfmannlega fyrir að eyða misskilningi og kvaðst sjálfur biðjast afsökunar, hefði hann í einhverju móðgað hans hátign.

Við þessi tvö tækifæri fóru þeir Jón Sigurðsson og Hannes að dæmi Staðarhóls-Páls: Þeir lutu hátigninni, en stóðu á réttinum. Þeir voru stoltir fyrir hönd þjóðar sinnar, en ekki drambsamir.

Raunar má hafa kunnan viðburð úr ævi Hannesar Hafstein til marks um, að Íslendingar ættu frekar að treysta á sjálfa sig en Dani. Hannes var sýslumaður á Ísafirði í október 1899, þegar honum barst fregn um, að breskur togari væri að veiðum á Dýrafirði langt innan landhelginnar íslensku. Hann brá við skjótt, kvaddi menn með sér og sigldi á bát út að togaranum. Skipverjar slengdu hins vegar þungum togvír og vörpu ofan á bátinn og sökktu honum. „Hannes hélt með herkjum lífi vegna frábærrar karlmennsku,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í ræðu á aldarafmæli Hannesar. Seinna náðist þó skipstjóri togarans, illmenni að nafni Nilsson, og hlaut dóm, en honum var ekki framfylgt. Landhelgisgæsla danskra herskipa á Íslandsmiðum þótti raunar ekki röggsamleg, og varð fræg dagbókarfærsla eins þeirra, þegar það hélt eitt sinn kyrru fyrir í Reykjavík í lok nítjándu aldar: „Stille i Havnen, Storm udenfor.“ Logn í höfn, stormur á sjó. Danir gerðu samning við Breta árið 1901 um þriggja mílna landhelgi Íslands. Miðaðist hann við viðskiptahagsmuni Dana í Bretland, en var óhagstæður Íslendingum. Samningurinn gilti til 1951, og þá fyrst gátu Íslendingar hafist handa við útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Raunar lagði Jón Þorláksson til, að nota skyldi afmælisfund Alþingis á Þingvöllum árið 1930 til að samþykkja þingsályktunartillögu um fyrirhugaða útfærslu landhelginnar, en aðrir vildu ekki styggja grannþjóðirnar, svo að það varð ekki úr.

Framfarir í krafti frelsis

Í innanlandsmálum fylgdi Hannes Hafstein þeirri frjálslyndu stefnu, sem hann hafði kynnst á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Voru fyrri ráðherraár hans frá 1904 til 1909 eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar, eins og alkunna er. Þjóðin braust úr fátækt í bjargálnir, fólk flykktist úr kotunum í þéttbýlið, innlendir kaupmenn leystu erlenda af hólmi, íslenskir vélbátar og togarar drógu björg í bú, nýtt fjármagn skapaðist. Ólíkt því, sem gerðist í mörgum öðrum Evrópulöndum á þeim árum, dró úr fólksflutningum vestur um haf. Þetta var öld hinnar frjálsu samkeppni, en henni mátti lýsa með fleygum orðum Hannesar árið 1882:

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

 

Frjáls samkeppni hefur þann mikla kost, að menn verða að hætta mistökum í stað þess að halda þeim áfram með almannafé. Hún umbunar fyrir hagkvæmar ákvarðanir og refsar fyrir óhagkvæmar: hún treystir bjarkirnar, en brýtur gráfeysknu kvistina.

Nafnið á fyrsta eiginlega íslenska stjórnmálafélaginu, heimastjórnarfélaginu Fram í Reykjavík, sem stofnað var í septemberbyrjun 1905, var áreiðanlega engin tilviljun. Það minnir á brýningu Hannesar til Íslendinga, sem ort var 1885:

Þótt þjaki böl með þungum hramm
þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram.

 

Í stefnuskrá félagsins sagði, að það fylgdi „frjálslyndri stefnu“. En þótt frjálst framtak einstaklinganna skilaði miklu á heimastjórnartímabilinu, ekki síst með Íslandsbanka og Landsbankann að bakhjörlum, gerðist líka ýmislegt að frumkvæði hins nýja íslenska ráðherra: einangrun landsins var rofin með sæsímanum; sett voru ný fræðslulög; ótal vegir voru lagðir og brýr smíðaðar; reist voru myndarleg hús yfir Landsbókasafnið og Kleppsspítala; undirbúin var stofnun háskóla; læknisþjónusta var stórbætt; metrakerfi var tekið upp; og margt fleira mætti telja.

Tvö baráttumál Hannesar

Eins og við var að búast af frjálslyndum stjórnmálamanni, var Hannes Hafstein eindreginn andstæðingur áfengisbannsins, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908, samhliða þingkosningum. Hann vissi sem var, að áfengið hefur aldrei gert neinum manni mein að fyrra bragði. Hannes sagði í umræðum um málið á þingi: „Það er eitt óbrigðult einkenni á öllum ofstækishreyfingum, að þeim fylgir svo mikil hjartveiki og hræðsla, að fjöldi manna, sem í hjarta sínu hefir óbeit á þeim, þorir ekki annað en að fylgjast með og tjá sig samþykka.“ Rættust öll varnaðarorð Hannesar vegna bannsins, sem var afnumið í tveimur áföngum, árið 1922, þegar innflutningur á léttum vínum var leyfður að kröfu Spánverja, sem keyptu fisk af Íslendingum og vildu geta selt þeim vín á móti, og árið 1935 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, samhliða þingkosningum.

Hannes Hafstein var einnig ötull stuðningsmaður jafnréttis kynjanna. Hann var orðinn óbreyttur þingmaður, þegar hann bar á Alþingi árið 1911 fram frumvarp um jafnan rétt kvenna og karla til menntunar, námsstyrkja og embætta, sem var þá samþykkt. Voru Íslendingar ein fyrsta þjóðin til að tryggja þennan mikilvæga rétt. Hann skipti auðvitað hæfileikakonur miklu meira máli en sá réttur, sem konur fengu árið 1915 til að kjósa þingmenn á fjögurra ára fresti. Nokkrir gamlir andstæðingar Hannesar, þar á meðal Björn Jónsson, greiddu þó atkvæði gegn frumvarpinu. Um þetta segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur í ævisögu Hannesar: „Þar kristallast að vissu leyti munurinn á Hannesi Hafstein og þeim. Hann hefur tilhneigingu til að leggja meiri áherslu á einstaklingsréttindi en þjóðréttindi og er þannig trúr æskuhugsjónum sínum.“ Hannes hafði raunar líka látið það verða eitt sitt fyrsta verk sem ráðherra 1904 að opna Lærða skólann í Reykjavík fyrir konum.

Það fór auðvitað ekki hjá því, að Hannes Hafstein eignaðist marga andstæðinga og öfundarmenn, og voru þar fremstir í fylkingu Björn Jónsson og Skúli Thoroddsen, en hvorugur þeirra hafði fulla stjórn á skapsmunum sínum, þótt eflaust hefðu báðir viljað vel. Sárnaði Hannesi, þegar ofsi þeirra var sem mestur, en hann brást ósjaldan við með glettni. Á hinum stutta og ófarsæla ráðherraferli sínum 1909–1911 gekk Björn keikur um með þríhyrndan hatt, svokallaðan Napóleonshatt. Hannes hnoðaði eitt sinn saman brjóstmynd af Birni úr möndludeigi (marsípan) og setti á hana lítinn Napóleonshatt. Síðan orti Hannes gamanvísu til Napóleons fyrir hönd Björns:

Munurinn raunar enginn er
annar en sá á þér og mér,
að marskálkarnir þjóna þér,
en þjóna tómir skálkar mér.

 

Sem kunnugt er sæmdi Napóleon 26 herforingja sína marskálkstitli.

Vonir þjóðarinnar og stolt

Í ritgerð um Hannes Hafstein velti Davíð Oddsson forsætisráðherra því fyrir sér, hvort miklu hefði breytt, hefði einhver annar maður orðið fyrsti ráðherra Íslands. Sú spurning á fullan rétt á sér. Einn helsti keppinautur Hannesar um völd, Valtýr Guðmundsson, var til dæmis einbeittur framfaramaður og frelsissinni og hefur verið vanmetinn. En eins og Davíð bendir á, kunni enginn maður betur en Hannes að glæða vonir Íslendinga, ekki síður með verkum sínum en andríkum kvæðum. Ég myndi bæta því við, að Hannes kunni líka að vekja stolt þjóðarinnar án þess að breyta því í dramb. Þegar hann naut sín best á fyrstu stjórnarárum sínum, var hann fullkominn jafnoki erlendra höfðingja. Þjóð, sem átti slíkan forsvarsmann, hlaut að verða hlutgeng á alþjóðavettvangi.

(Grein í Morgunblaðinu 13. desember 2022.)


Atvik úr bankahruninu

Í nýrri bók minni um landsdómsmálið segi ég frá ýmum minnisstæðum atvikum úr bankahruninu. Davíð Oddsson seðlabankastjóri gekk á fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008 til að vara við bankahruni. Á leiðinni út mætti hann þvögu af fréttariturum. Í miðjum hópnum var Sævar Cielselski, sem lét ófriðlega, en hann taldi ríkið hafa svikið sig um bætur. Strax og hann sá Davíð, gekk hann til hans. Davíð tók þétt í hönd hans og sagði: „Ja, þetta hlýtur að vera mikilvægt, fyrst við erum báðir kallaðir til skrafs og ráðagerða.“ Við það stilltist Sævar.

Á þingfundi 24. nóvember 2008 snöggreiddist Steingrímur J. Sigfússon ræðu, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra var að flytja. Hann skundaði upp að ræðustól, hallaði sér dreyrrauður fram að Birni og starði illilega á hann um stund. Síðan gekk hann að Geir H. Haarde, sem sat á ráðherrabekknum, sló fast í framhandlegg hans og hvæsti: „Á þetta að ganga svona til?“

Aðsúgur var gerður að Geir við Stjórnarráðshúsið 21. janúar 2009, þegar hann ætlaði inn í bíl sinn. Barði Hallgrímur Helgason rithöfundur margsinnis í hliðarrúðuna farþega megin, þar sem Geir sat í framsætinu, en fékk ekki brotið hana. Aðrir óróaseggir reyndu að stöðva ferð bílsins með því að klifra upp á vélarhlífina. Tókst lögreglu loks við illan leik að ryðja bílnum braut.

Á árshátíð Seðlabankans á Hótel Nordica 25. janúar 2009 reyndu grímuklæddir ofbeldismenn að brjóta sér leið inn í veislusalinn. Gestum var órótt, á meðan höggin dundu á dyrum salarins, en andrúmsloftið léttist, þegar Davíð Oddsson snaraðist upp í ræðustól og sagði, að árshátíðarnefndin hefði bersýnilega unnið gott starf, því að færri kæmust að en vildu. Loks varð lögreglan þó að fylgja Davíð og konu hans út um bakdyr.        

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband