Tveir fróðlegir fundir

Þegar rætt er um ábyrgð ráðamanna á bankahruninu 2008, skipta tvær spurningar mestu máli: Hvað gátu þeir vitað? Hvað gátu þeir gert? Seinni spurningunni er auðsvarað: Lítið sem ekkert. Þeir urðu aðeins að bíða og vona. Fyrri spurningin er flóknari. Auðvitað vissu helstu ráðamenn, að íslenska bankakerfið var þegar í árslok 2005 orðið svo stórt, að Seðlabankanum og ríkissjóði var orðið um megn óstuddum að aðstoða það í hugsanlegri lausafjárkreppu. Rannsóknarnefnd Alþingis, sem skilaði langri skýrslu í apríl 2010, gerir að aðalatriði þrjá fundi, sem seðlabankastjórar héldu með ráðherrum árið 2008, í febrúar, apríl og maí, þar sem þeir vöruðu við því, að bankarnir ættu við mikla erfiðleika að etja. Sakar nefndin ráðherrana um að hafa vanrækt að bregðast við. En í bók minni um landsdómsmálið bendi ég á tvo aðra fundi, sem eru ekki síður fróðlegir, en rannsóknarnefndin virtist ekki vita af.

Hinn 26. september 2007 sat Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hádegisverðarfund með seðlabankastjórum og forsætisráðherra í Þjóðmenningarhúsinu. Davíð Oddsson hafði þá orð á því, að lausafjárkreppa væri skollin á, og gæti íslenska bankakerfið hrunið. Þorgerður andmælti. En mánuði síðar hófu hún og eiginmaður hennar, einn af yfirmönnum Kaupþings, að reyna að færa nilljarðaskuldbindingar sínar í bankanum yfir í einkahlutafélag, og tókst það loks í febrúar 2008. Sluppu þau þannig við gjaldþrot.

Í janúarlok 2008 sat Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fund með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og Sigurði G. Guðjónssyni, forráðamönnum Glitnis, og var erindi þeirra að segja, að vandi bankanna væri ekki bundinn við Glitni, sem hafði þá nýlega farið í misheppnað lánsútboð í Bandaríkjunum. Kaupþing væri líka illa statt. Engu að síður afgreiddi Ingibjörg Sólrún varnaðarorð Davíðs á fundi með henni og öðrum ráðherrum 7. febrúar 2008 sem „útaustur eins manns“. Fann hún sérstaklega að því, að Davíð hefði talið Glitni og Kaupþing standa verr en Landsbankann.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. janúar 2023.)


In dubio, pars mitior est sequenda

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn. Þetta lögmál braut meiri hluti landsdóms árið 2012, þegar hann sakfelldi Geir H. Haarde fyrir að hafa vanrækt skyldu sína samkvæmt stjórnarskrá til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Minni hlutinn, þar á meðal hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Benedikt Bogason, benti á, að ákvæðið um ráðherrafundina átti uppruna sinn í því, að Ísland var konungsríki 1918–1944. Fór forsætisráðherra tvisvar á ári til Kaupmannahafnar til að halda ríkisráðsfundi með konungi og bar þar upp þau mál, sem konungur skyldi staðfesta. Bar hann ekki aðeins upp sín eigin mál, heldur líka mál annarra ráðherra fyrir þeirra hönd. Þess vegna varð að tryggja, að þeir hefðu tekið þátt í afgreiðslu þeirra mála. Kemur raunar skýrt fram í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið, sem samþykkt var 1920, að með mikilvægum stjórnarmálefnum var átt við þau mál, sem bera skyldi upp í ríkisráði. Ekkert sambærilegt ákvæði er heldur í dönsku stjórnarskránni. Eftir lýðveldisstofnunina var litið svo á, að með mikilvægum stjórnarmálefnum væri átt við þau mál, sem atbeina þjóðhöfðingjans þurfti til.

Meiri hluti landsdóms vildi hins vegar skapa úr þessu þrönga ákvæði víðtæka skyldu forsætisráðherra til að halda árið 2008 ráðherrafund um yfirvofandi bankahrun, sem hann hefði vanrækt, og sakfelldi hann ráðherrann fyrir þessa vanrækslu, þótt honum væri ekki gerð nein refsing. En fullkominn vafi leikur á því, að túlkun meiri hlutans sé rétt og hvenær ákvæðið ætti að hafa breytt um merkingu, frá því að það var sett. Geir var ekki látinn njóta þessa vafa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. janúar 2023.)


Jóhannes Nordal

Kynni mín af Jóhannesi Nordal voru ekki mikil, en ætíð ánægjuleg. Þegar ég stundaði nám á Pembroke-garði í Oxford árin 1981–1985, var ég þar R. G. Collingwood verðlaunahafi, snæddi þrisvar í viku við háborðið með kennurunum og mátti taka með mér gest. Ég bauð Jóhannesi einu sinni þangað, þegar hann átti leið um, og áttum við skemmtilegar samræður. Við vorum báðir aðdáendur breskrar stjórnmálahefðar. Vorið 1984 bað tímaritið Mannlíf mig að skrifa svipmynd af Jóhannesi í tilefni sextugsafmælis hans, en vildi síðan ekki birta hana, því að ritstjóranum þótti hún of vinsamleg honum, og var hún prentuð í Morgunblaðinu 11. maí 1986. Jóhannes var þá eins og oft áður umdeildur, enda ekki fyrir neðan öfundina.

Ég lagði það til nýkominn frá námi, að Íslendingar hættu að nota krónuna og tækju upp Bandaríkjadal. Jóhannes gerði gilda athugasemd: Væru Íslendingar reiðubúnir að gangast undir þann aga, sem fælist í því að taka upp erlendan gjaldmiðil, þá ættu þeir að vera reiðubúnir að gangast undir slíkan aga án þess að þurfa að taka upp erlendan gjaldmiðil. Verður Jóhannesi seint kennt um það, þótt hann væri lengi seðlabankastjóri, að við Íslendingar höfum iðulega notað krónuna til að losna úr þeirri klípu, sem eyðsla umfram efni hefur komið okkur í.

Þegar ég gerði um aldamótin nokkra samtalsþætti undir heitinu „Maður er nefndur“, var einn hinn fróðlegasti við Jóhannes, en hann var tekinn upp, skömmu áður en hann missti röddina vegna sjúkdóms í talfærum. Viðmælandi minn sagði þar meðal annars frá föður sínum, Sigurði Nordal prófessor, og heimspekingunum Bertrand Russell og Karli R. Popper, sem höfðu haft mikil áhrif á hann, á meðan hann stundaði háskólanám í Bretlandi. Kom þar berlega í ljós, hversu vel Jóhannes fylgdist með og dómar hans um menn og málefni voru ígrundaðir. Þátturinn var á dagskrá 20. febrúar 2001.

Eftir að ég hafði gefið út ævisögu Halldórs Laxness í þremur bindum árin 2003–2005 og sætt fyrir ámæli ýmissa, sem töldu mig vera að ryðjast inn á svið öðrum ætlað, skrifaði Jóhannes mér upp úr þurru langt bréf og hældi mér óspart fyrir bókina, en gagnrýndi að sama skapi aðra, sem skrifað höfðu um skáldið. Mér þótti vænt um stuðninginn og bauð honum til kvöldverðar heima hjá mér ásamt vinum mínum Davíð Oddssyni, Jónasi H. Haralz og Þór Whitehead, og urðu þar fjörugar umræður um bókmenntir og sögu Íslendinga, og dró enginn af sér. Var Jóhannes þó mildastur í dómum. Þegar háskólamaður einn, sem einnig hafði haft nokkur afskipti af stjórnmálum, barst í tal, sagði hann aðeins: „Já, hann hefur aldrei skrifað djúpan texta.“

Jóhannes var umfram allt frjálslyndur, þjóðrækinn umbótasinni, sáttfús (jafnvel stundum um of) og góðgjarn. Um hann má hafa minningarorð, sem faðir hans Sigurður hafði sett saman um fyrsta háskólarektorinn: 

Falla hinar öldnu eikur, —
ófullt skarð til tveggja handa, —
rótafastar, fagurkrýndar,
friðarmerki skógarlanda.
Úfnar af þjósti og úlfaþyti
eftir birkirenglur standa.
 
(Minningargrein í Morgunblaðinu 17. mars 2023.)

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband