Lundúnir, janúar 2023

326411834_505153231741899_4434867784039063656_nÁ ráðstefnu evrópskra íhaldsflokka í Lundúnum 14. janúar 2023 var ég beðinn um að halda tölu. Ég lýsti því þar, hvernig Íslendingar hafa leyst úr þremur erfiðum verkefnum.

Hið fyrsta var að tryggja nothæfa peninga. Helstu hlutverk peninga eru að vera verðmælir annars vegar og gjaldmiðill hins vegar. Gallinn við mikla verðbólgu til langs tíma, sem Íslendingar þekkja af eigin raun, er hins vegar sá, að peningar hætta að vera nothæfur verðmælir. Ógerlegt er að mæla verð, ef mælikvarðinn sjálfur er síbreytilegur. En Íslendingar fundu upp verðtryggða krónu, og í henni eru allir langtímasamningar gerðir. Venjuleg króna var hins vegar notuð áfram sem gjaldmiðill.

Annað verkefnið er að tryggja, að bankamenn noti ekki óttann við hugsanleg áhlaup innstæðueigenda til að verða sér úti um ríkisábyrgð, svo að þeir geti hirt gróðann, en tapið sé þjóðnýtt. Lausn okkar var að gera innstæður að forgangskröfum á banka, en með því róast innstæðueigendur og áhlaup þeirra verða ólíkleg. Aðrir lánardrottnar banka (atvinnufjárfestar) geta borið hina auknu áhættu, sem þetta felur í sér fyrir þá.

Hið þriðja er að tryggja skynsamlega nýtingu fiskistofna, en við opinn aðgang að þeim eru þeir jafnan ofnýttir, eins og víða sést og fiskihagfræðingar hafa rökstutt. Við komum okkur upp kerfi, þar sem útgerðarmenn fengu varanleg og seljanleg veiðiréttindi, en eftir það gátu þeir einbeitt sér að því að minnka kostnað af veiðunum, jafnframt því sem arðsömustu fyrirtækin gátu keypt aðra út. Enn fremur fóru útgerðarmenn að gæta auðlindarinnar í stað þess að ausa umhugsunarlaust af henni. Kvótakerfið er í senn sjálfbært og arðbært.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. febrúar 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband