Jóhannes Nordal

Það er fagnaðarefni, að Jóhannes Nordal hafi nú í hárri elli skráð endurminningar sínar, Lifað með öldinni, og hlakka ég til að lesa þær, en rifja hér upp nokkur atriði um höfundinn.

Eitt er það, að Jóhannes flutti afbragðs gott erindi á fundi Stúdentafélags Reykjavíkur 10. mars 1959, en það mátti kalla uppgjör hans við haftastefnuna, sem hér hafði verið fylgt allt frá því í heimskreppunni upp úr 1930. Færði Jóhannes rök fyrir því, að lýðræði væri ekki markmið í sjálfu sér og óheft lýðræði hefði í för með sér ýmsar hættur. Stefna ætti að sem víðtækustu frelsi borgaranna innan marka laga og góðrar allsherjarreglu.

Er þetta erindi birt í greinasafni Jóhannesar, Málsefnum, sem kom út árið 1994. Skipaði Jóhannes sér með því í röð frjálslyndra umbótasinna á Íslandi, þeirra Jóns Sigurðssonar (langafabróður hans), Arnljóts Ólafssonar, Jóns Þorlákssonar (frænda hans), Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs Björnssonar.

Annað er sá algengi misskilningur, að ekki hafi verið hlýtt á milli Jóhannesar og Benjamíns. Um það leyti er Benjamín ákvað að snúa baki við skarkala heimsins, birti hann í blaði vísu, þar sem mannsnafnið Jóhannes kom fyrir. Ég spurði Benjamín eitt sinn um þetta, og kvað hann vísuna hafa verið um allt annan mann. Hann hafi ekki haft neitt út á Jóhannes að setja.

Hið þriðja er, að Davíð Oddsson bauð Jóhannesi til sín, skömmu eftir að hann settist í Seðlabankann í október 2005. Davíð sagði, að sér litist ekki á hina öru útþenslu bankanna. Efnislega sagði þá Jóhannes: „Þetta er snjóbolti, sem er að rúlla niður hlíðina, og líklega átt þú eftir að verða undir honum.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. október 2022.)


Wroclaw, október 2022

Eftir að ég hafði setið þing Mont Pelerin samtakanna í Osló 4.–8. október 2022, hélt ég til Wroclaw í Póllandi, þar sem ég tók þátt í starfshópi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku um, hvernig minnast mætti fórnarlamba alræðisstefnu nasista og kommúnista. Notalegur miðaldablær er yfir miðborginni, en ég tók eftir því, að mörg fallegustu húsin eru frá því, að henni var stjórnað frá Vín og hét Breslau. Prússar lögðu hana undir sig á átjándu öld. Eftir seinni heimsstyrjöld hröktust tíu milljónir þýskumælandi manna frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til Þýskalands í stærstu fólksflutningum sögunnar.

Í Wroclaw sagði ég frá því, hvernig við höfum minnst fórnarlamba alræðisstefnunnar á Íslandi. Við höfum haldið nokkra fundi og ráðstefnur, þar sem merkir fræðimenn hafa talað, meðal annarra prófessorarnir Bent Jensen og Niels Erik Rosenfeldt frá Danmörku, Øystein Sørensen frá Noregi og Stéphane Courtois frá Frakklandi. Courtois var ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem ég sneri á íslensku árið 2009.

Jafnframt höfum við endurútgefið mörg rit, sem komið hafa út á íslensku um alræðisstefnuna, svo að þau verði aðgengileg ungu fólki: Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov (ásamt erfðaskrá Leníns), El campesino — bóndinn. Líf og dauði í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín González, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras, Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng, Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir Arthur Koestler, Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko, Nytsamur sakleysingi eftir Otto Larsen, Til varnar vestrænni menningu eftir sex íslenska rithöfunda og Framtíð smáþjóðanna eftir Arnulf Øverland. Skrifa ég formála og skýringar við þessi rit. Þau eru öll aðgengileg endurgjaldslaust á netinu.

Böðlar alræðisins drápu jafnan tvisvar, fyrst með kylfunni, síðan þögninni. Við getum að minnsta kosti rofið þögnina.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. október 2022.)


Óskarsvirki

Á aðalfundi Mont Pelerin samtakanna í Osló í október 2022 var hlé gert á fundum síðdegis 7. október og siglt frá borginni suður til hins sögufræga Óskarsvirkis, sem stendur á hólma í Oslóarfirði, þar sem hann er einna þrengstur. Virkið var fullgert árið 1853 og hét eftir konungi Svíþjóðar og Noregs á þeirri tíð. Það var búið öflugum fallbyssum, en fáir vissu, að frá því mátti einnig skjóta tundurskeytum neðanjarðar. Í apríl 1940 var það undir stjórn Birger Eriksen, Birgis Eiríkssonar, ofursta. Um ellefuleytið að kvöldi 8. apríl fékk hann að vita, að ókunn herskip, að líkindum þýsk, nálguðust Osló.

Þegar skipin voru í sjónmáli klukkan fjögur um nóttina, fylgdist Birgir með frá efsta útsýnispalli virkisins. Hann ákvað upp á sitt eindæmi að skjóta á skipin úr fallbyssum ofanjarðar, en einnig að senda tundurskeyti að þeim neðanjarðar. Þurfti hann að miða skotmörkin út eftir minni. Fallbyssuskotin og tundurskeytin hæfðu hið stóra þýska beitiskip Blücher, en um borð var fjölmennt herlið, sem átti að hernema höfuðborg Noregs, ásamt lúðrasveit, sem leika skyldi í fullum skrúða við konungshöllina þá um daginn. Um allt skipið kviknuðu eldar, og sökk það þremur tímum síðar. Í morgunsárið hófu þýskar orrustuflugvélar ákafar loftárásir á Óskarsvirki. Birgir skipaði liði sínu að gefast upp 10. apríl, en þá höfðu þýskar flugsveitir tekið Osló.

Vörnin við Óskarsvirki seinkaði töku Oslóar um sólarhring, svo að konungur og ríkisstjórn komust undan og tóku með sér gullforða Noregs. Einnig gafst þá ráðrúm til að skipa kaupskipaflota Noregs að halda til hafna Bandamanna, og hlýddu langflestir skipstjórar kallinu. Þjóðverjum tókst því ekki með leiftursókn að leggja undir sig Noreg, eins og gerst hafði í Danmörku. Flakið af Blücher liggur enn á hafsbotni í Oslóarfirði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. október 2022.)


Osló, október 2022

Cáceres.Richardson.Gissurarson.8.9.2022Nú í ár héldu Mont Pelerin samtökin, alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna og annarra áhugamanna um frelsi, aðalfund sinn í fyrstu viku október í Osló. Þau voru stofnuð að frumkvæði ensk-austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, í Sviss vorið 1947, svo að þau eru nú 75 ára. Meðal stofnenda voru þrír aðrir hagfræðingar, sem áttu eftir að fá Nóbelsverðlaun, Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais, heimspekingarnir Karl R. Popper og Bertrand de Jouvenel og hagfræðingarnir Ludwig von Mises og Wilhelm Röpke. Samtökin hafa enga stefnu og reka enga starfsemi, heldur hafa það hlutverk eitt að vera reglulegur umræðuvettvangur þeirra, sem láta sig frelsið skipta. Ég sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði svæðisþing þeirra á Íslandi sumarið 2005.

Fundarmenn í Osló fengu allir að gjöf bók, sem bandaríski hagfræðingurinn Bruce Caldwell hefur tekið saman með útdráttum úr erindum á stofnþinginu 1947 og umræðum, sem ritari Hayeks, Dorothy Hahn, hafði jafnóðum samið, og er hún hin fróðlegasta. Frægasta atvikið á stofnþinginu var þó, þegar einhverjir fundarmenn töldu endurdreifingu tekna koma til greina, en þá reis Ludwig von Mises hneykslaður upp og gekk út með orðunum: „Þið eruð samansafn af sósíalistum!“ Þetta var sennilega sá hópur í Evrópu, sem fjarlægastur var sósíalisma, en Mises vildi halda árunni hreinni. Einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna var Norðmaður, hagfræðingurinn dr. Trygve Hoff, sem lengi var ritstjóri viðskiptatímaritsins Farmand, og var hans minnst á þessu þingi. Sannleikurinn er sá, eins og ég mun ræða í væntanlegri bók, að frjálshyggja eða frjálslynd íhaldsstefna stendur traustum sögulegum rótum á Norðurlöndum og henni er aðallega að þakka gott gengi þessara landa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. október 2022. Á myndinni með mér í lokahófi ráðstefnunnar eru Carlos Cáceres frá Síle og Ruth Richardson frá Nýja Sjálandi.)


Split, september 2022

Það var fróðlegt á dögunum að gista tvær gamlar verslunarborgir í Evrópu, Tallinn í Eistlandi og Split í Króatíu. Báðar liggja þær vel við siglingum, önnur um Eystrasalt og hin um Adríahaf, og báðar voru þær öldum saman undir stjórn útlendinga, Tallinn þýskrar riddarareglu og Split feneyskra kaupmanna. Íslendingar eiga aðeins einn nágranna, Ægi konung, og má segja, að hann ógni okkur ekki lengur, því að árið 2008 var fyrsta árið í Íslandssögunni, þegar enginn íslenskir sjómaður drukknaði. En Eistlendingar og Króatar hafa ekki verið eins heppnir með nágranna. Rússar úr austri og Þjóðverjar úr vestri hafa löngum setið yfir hlut Eistlendinga, og Króatía var um skeið á valdi Feneyinga, síðan soldánsins í Miklagarði (Istanbúl), þá Habsborgarættarinnar og fylgdi Ungverjalandi, en loks Serba.

Í Split standa rústirnar af veglegri höll Díókletíanusar keisara, sem ríkti í Rómaveldi 284–305 e. Kr. Þótt hann friðaði ríki sitt með hörku, átti hann sinn þátt í að grafa undan þessu mikla miðjarðarhafsveldi, því að hann lagði á nýja skatta, nefskatt og landskatt, og setti á verðlagshöft, sem náðu auðvitað ekki tilgangi sínum. Jafnframt batt hann bændur við átthaga sína og takmarkaði kost manna á að færa sig milli atvinnugreina. Hann hleypti líka af stað síðustu og mestu ofsóknunum, sem kristnir menn sættu í Rómaveldi.

Í Split fræddi ég nemendur í stjórnmálaskóla, sem tvær hugveitur héldu, hins vegar á því, að þeir Snorri Sturluson og heilagur Tómas af Akvínas hefðu báðir talið, að konungar yrðu að lúta sömu lögum og þegnar þeirra og að afhrópa mætti þá, ef þeir virtu ekki arfhelg réttindi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. október 2022.)


Tallinn, september

HHG.2.23.09.2022Að þessu sinni var hinn árlegi minningarkvöldverður um Margréti Thatcher haldinn í Tallinn í Eistlandi 22. september 2022. Úkraínski þingmaðurinn Oleksíj Gontsjerneko, sem hefur látið mannréttindabrot Rússa til sín taka í Evrópuráðinu, flutti ræðu kvöldsins, og mæltist honum vel. Hann kvað stríðið í landi sínu snúast um vestræna menningu, sem Rauði herinn rússneski ógnaði.

Daginn eftir tók ég þátt í málstofu um, hvaða stjórnmálastefna ætti að vera leiðarstjarna hægri manna. John O’Sullivan mælti fyrir hefðbundinni íhaldsstefnu, Federico Reho fyrir kristilegri lýðræðisstefnu og Anna Wellisz fyrir þjóðernisstefnu, en ég lýsti hinni frjálslyndu íhaldsstefnu eða frjálshyggju, sem ég hef skrifað tveggja binda bók á ensku um, og eru fjórir hornsteinar hennar einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi, valddreifing og virðing fyrir venjum og hefðum. Á meðal hugsuða, sem varið hafa þessi verðmæti, eru David Hume, Adam Smith, Edmund Burke, Alexis de Tocqueville, Friedrich von Hayek, Wilhelm Röpke, Michael Oakeshott og Karl Popper.

Ég kvað muninn á frjálshyggju minni og harðri íhaldsstefnu einkum fólginn í tvennu. Íhaldsmenn tryðu ekki á framfarir og vissu oftast betur, á móti hverju þeir væru en hvað þeir styddu. Þeir gætu því veitt okkur takmarkaða leiðsögn inn í framtíðina. Og þótt þeir skildu það eins vel og við frjálshyggjumenn, að frelsið væri afkvæmi langrar sögulegrar þróunar, aðallega í ríkjum Engilsaxa og á Norðurlöndum, virtust þeir ekki vera þeirrar skoðunar eins og við, að það ætti erindi til allra jarðarbúa.
 
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. september 2022.)
 

Rökin fyrir konungdæmi

queenwithprincessesNýlegt lát hins ágæta breska þjóðhöfðingja Elísabetar II. leiðir hugann að forvitnilegri spurningu: Er það tilviljun, að þau sjö lönd Evrópu, þar sem stjórnarfar er einna best, skuli öll vera konungdæmi? Þau eru Stóra Bretland, Holland, Belgía, Lúxemborg, Svíþjóð, Danmörk og Noregur. Eins og ég ræði í bók minni um Tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, færir Edmund Burke rök fyrir konungdæmi sem einum þættinum af mörgum í að tryggja stöðugleika, samfelldni og gagnkvæmt aðhald. Hann nefnir líka kirkjuna, aðalinn og lýðstjórnina. Hver og ein af þessum stofnunum leggur sitt af mörkum til að halda uppi fjölbreyttu menningarlífi, segir Burke. Ef við trúum því, að Guð sé ekki til, þá verður allt leyfilegt. Kirkjan veitir okkur því siðferðilegt aðhald. Gott er einnig, að þeir, sem skara fram úr, fái titla og ekkert að því, að slíkir titlar séu arfgengir, þótt aðall eigi ekki að verða lokaður sérréttindahópur.

Kosturinn við konungdæmið er, að þá stendur þjóðhöfðinginn utan skarkalans á torginu og getur í senn orðið sameiningartákn þjóðarinnar, eins og Elísabetu drottningu tókst öðrum betur, og rödd hennar, þegar þess þarf með. Í venjulegu landi er til dæmis allt fullt af hversdagshetjum, sem eiga skilið viðurkenningu. Auðvitað er tilkomumeira að taka við heiðursmerki fyrir björgunarafrek í konungshöll en á skrifstofu við umferðargötu. Þá tengjast menn sögunni á þann hátt, að hátíðarbragur verður á. Eitt ráðið til að tryggja gagnkvæmt aðhald er að skipta ríkinu, mættinum og dýrðinni upp á milli stofnana. Þá geta stjórnmálamennirnir átt ríkið, markaðurinn máttinn og konungsættin dýrðina.

Hitt er annað mál, að tvær þjóðir í Norðurálfunni hljóta vegna sögulegrar arfleifðar sinnar að vera lýðveldi fremur en konungdæmi, Svisslendingar og Íslendingar. Apud illos non est rex, nisi tantum lex, Hjá þeim er enginn konungur, aðeins lög, sagði Adam frá Brimum um Íslendinga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. september 2022.)


Óskhyggjan tapaði

ChristianIXwithconstitutionÍ þjóðaratkvæðagreiðslu í Síle 4. september 2022 höfnuðu kjósendur með 62% atkvæða frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem sérstakt stjórnlagaþing hafði samið. Þótti kjósendum frumvarpið allt of langt og allt of róttækt. Meðal annars voru þar talin upp ótal réttindi einstaklinga og hópa, án þess að gerð væri grein fyrir skyldunum, sem lagðar væru á borgarana á móti, ekki síst á skattgreiðendur. Forsetinn, Gabriel Boric, hafði sagt drýgindalega: „Ef Síle var vagga nýfrjálshyggjunnar, þá verður landið líka gröf hennar.“ Það gerðist ekki. Þess í stað tapaði óskhyggjan.

Stjórnarskrárfrumvarpið í Síle var líkast fundargerð á málfundi vinstri manna, en þeir eru sem kunnugt er iðnir við að semja óskalista. Minnti það á hið furðulega ferli á Íslandi, þegar þjóðin var hálflömuð eftir bankahrunið 2008 og vinstri menn hugðust nota tækifærið til að bylta stjórnskipun landsins. Kosið var á stjórnlagaþing allt framhleypnasta fólk landsins, tíðir gestir í spjallþáttum og þá með ráð undir rifi hverju. Kjörsókn var þó dræm, aðeins 36,8%. Framkvæmd kosninganna var svo gölluð, að Hæstiréttur neyddist til að ógilda þær. Þá ákvað vinstri stjórnin að tilnefna sama fólkið í svokallað stjórnlagaráð. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um drög ráðsins haustið 2012 kusu 48,4% kjósenda, og vildu tveir þriðju taka mið af drögunum. Það merkir, að aðeins þriðjungur atkvæðisbærra manna vildi gera það.

Til samanburðar má nefna, að í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána vorið 1944 kusu 98,6% kjósenda, og vildu 98,5% staðfesta stjórnarskrárfrumvarpið, sem þá var lagt fyrir. Stjórnarskráin íslenska var fyrst sett á þúsund ára afmæli byggðar í landinu 1874 og er náskyld stjórnarskrá Noregs frá 1814 og Danmerkur frá 1849. Hefur hún í aðalatriðum reynst vel. Hún var endurskoðuð rækilega árið 1995, og varð sátt á þingi um þá endurskoðun. Var þá aðallega hert á mannréttindaákvæðum.
 
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. september 2022.)
 

Ísland og Eystrasaltslönd

DavidJonBaldvinoflÍ tilefni hins furðulega upphlaups Jóns Baldvins Hannibalssonar vegna þess, að hann er ekki alltaf einn á sviði, þegar Eystrasaltslönd eru nefnd, má rifja upp nokkur atriði. Árið 1923 flutti lettnesk kona, Liba Fridland, nokkra fyrirlestra hér á dönsku um rússnesku byltinguna, og deildi Alþýðublaðið á hana. Árið 1946 birti flóttamaður frá Litáen, Teodoras Bieliackinas, greinaflokk í Morgunblaðinu um undirokun Eystrasaltsþjóða, og réðist Þjóðviljinn harkalega á hann. Fyrsta útgáfurit Almenna bókafélagsins árið 1955 var Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir prófessor Ants Oras. Árið 1957 tóku forseti Íslands og utanríkisráðherra á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, en sendiherra Ráðstjórnarríkjanna bar fram mótmæli.

Árið 1973 þýddi ungur laganemi, Davíð Oddsson, bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Andres Küng, og gaf Almenna bókafélagið hana út. Í mars 1990 lagði Þorsteinn Pálsson alþingismaður til, að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á Litáen, sem hafði lýst yfir sjálfstæði á ný eftir hernám Rússa. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, vildi fresta málinu, en Vytautas Landsbergis gat loks sannfært hann um það, að slík viðurkenning væri tímabær. Þegar Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn árið 1991, var Jón Baldvin áfram utanríkisráðherra, og voru þeir samstíga um að taka aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin. Þurfti Davíð þó í kyrrþey að skýra út frumkvæði Íslands fyrir bandamönnum okkar, en Jón Baldvin gerir auðvitað ekkert í kyrrþey.

Árið 2016 endurútgaf Almenna bókafélagið Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds, og eru þær til jafnt prentaðar og ókeypis á Netinu og Örlaganótt sem hljóðbók. Var haldin samkoma í Háskólanum 26. ágúst á vegum ræðismanna Eystrasaltsríkjanna og Almenna bókafélagsins, þar sem Davíð Oddsson og Tunne Kelam, eistneskur sagnfræðingur og Evrópuþingmaður, töluðu. Öllum var boðið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. september 2022.)


Minningardagur um fórnarlömb

Griðasáttmáli.1939Árið 2009 samþykkti þing Evrópusambandsins, að 23. ágúst yrði árlegur minningardagur fórnarlamba alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma. Sumir fræðimenn hafa að vísu andmælt því, að kommúnismi skuli lagður að jöfnu við nasisma. Hann hafi aðeins miðað að því að útrýma stéttaskiptingu án þess nauðsynlega að útrýma einstaklingum úr þeim stéttum, sem áttu að hverfa. Nasisminn hafi hins vegar miðað að því að útrýma einstaklingum, sem fæddir voru inn í hópa eins og gyðinga og sígauna. En þessi munur er fræðilegur frekar en raunhæfur. Lítið barn, sem Stalín lét svelta til bana í Úkraínu, af því að það var komið af sjálfseignarbændum („kúlökkum“), átti ekki síður heimtingu á að lifa en lítið barn af gyðingaættum, sem Hitler lét myrða í gasklefunum í Asuchwitz. Líklega féllu um 100 milljónir manns á tuttugustu öld af völdum kommúnista og um 20 milljónir af völdum nasista.

Dagurinn 23. ágúst var ekki valinn af neinni tilviljun. Þennan dag árið 1939 voru hakakrossfánar dregnir að hún á Moskvuflugvelli, og lúðrasveit lék þýska þjóðsönginn, „Deutschland über alles,“ um leið og utanríkisráðherra Hitlers, Joachim von Ribbentrop, steig út úr flugvél sinni. Hann var kominn til að undirrita griðasáttmála, sem Stalín og Hitler höfðu gert, en með honum skiptu þeir á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Í hlut Stalíns komu austurhluti Póllands, Finnland, Eystrasaltsríkin og Moldova (þá nefnd Bessarabía), en í hlut Hitlers vesturhluti Póllands, jafnframt því sem hann fékk frjálsar hendur í Mið-Evrópu. Finnar vörðust hins vegar svo snarplega, að Stalín hætti við að innlima landið og gerði við þá friðarsamninga, þar sem þeir urðu að láta af hendi talsverð landsvæði. Sannaðist þar eins og fyrri daginn, að sagan er stundum hliðholl bestu skyttunum frekar en fjölmennustu hersveitunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. ágúst 2022. Myndin er af undirritun griðasáttmálans.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband