Ísland og Eystrasaltslönd

DavidJonBaldvinoflÍ tilefni hins furðulega upphlaups Jóns Baldvins Hannibalssonar vegna þess, að hann er ekki alltaf einn á sviði, þegar Eystrasaltslönd eru nefnd, má rifja upp nokkur atriði. Árið 1923 flutti lettnesk kona, Liba Fridland, nokkra fyrirlestra hér á dönsku um rússnesku byltinguna, og deildi Alþýðublaðið á hana. Árið 1946 birti flóttamaður frá Litáen, Teodoras Bieliackinas, greinaflokk í Morgunblaðinu um undirokun Eystrasaltsþjóða, og réðist Þjóðviljinn harkalega á hann. Fyrsta útgáfurit Almenna bókafélagsins árið 1955 var Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir prófessor Ants Oras. Árið 1957 tóku forseti Íslands og utanríkisráðherra á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, en sendiherra Ráðstjórnarríkjanna bar fram mótmæli.

Árið 1973 þýddi ungur laganemi, Davíð Oddsson, bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Andres Küng, og gaf Almenna bókafélagið hana út. Í mars 1990 lagði Þorsteinn Pálsson alþingismaður til, að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á Litáen, sem hafði lýst yfir sjálfstæði á ný eftir hernám Rússa. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, vildi fresta málinu, en Vytautas Landsbergis gat loks sannfært hann um það, að slík viðurkenning væri tímabær. Þegar Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn árið 1991, var Jón Baldvin áfram utanríkisráðherra, og voru þeir samstíga um að taka aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin. Þurfti Davíð þó í kyrrþey að skýra út frumkvæði Íslands fyrir bandamönnum okkar, en Jón Baldvin gerir auðvitað ekkert í kyrrþey.

Árið 2016 endurútgaf Almenna bókafélagið Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds, og eru þær til jafnt prentaðar og ókeypis á Netinu og Örlaganótt sem hljóðbók. Var haldin samkoma í Háskólanum 26. ágúst á vegum ræðismanna Eystrasaltsríkjanna og Almenna bókafélagsins, þar sem Davíð Oddsson og Tunne Kelam, eistneskur sagnfræðingur og Evrópuþingmaður, töluðu. Öllum var boðið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. september 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband