Tallinn, september

HHG.2.23.09.2022Að þessu sinni var hinn árlegi minningarkvöldverður um Margréti Thatcher haldinn í Tallinn í Eistlandi 22. september 2022. Úkraínski þingmaðurinn Oleksíj Gontsjerneko, sem hefur látið mannréttindabrot Rússa til sín taka í Evrópuráðinu, flutti ræðu kvöldsins, og mæltist honum vel. Hann kvað stríðið í landi sínu snúast um vestræna menningu, sem Rauði herinn rússneski ógnaði.

Daginn eftir tók ég þátt í málstofu um, hvaða stjórnmálastefna ætti að vera leiðarstjarna hægri manna. John O’Sullivan mælti fyrir hefðbundinni íhaldsstefnu, Federico Reho fyrir kristilegri lýðræðisstefnu og Anna Wellisz fyrir þjóðernisstefnu, en ég lýsti hinni frjálslyndu íhaldsstefnu eða frjálshyggju, sem ég hef skrifað tveggja binda bók á ensku um, og eru fjórir hornsteinar hennar einkaeignarréttur, viðskiptafrelsi, valddreifing og virðing fyrir venjum og hefðum. Á meðal hugsuða, sem varið hafa þessi verðmæti, eru David Hume, Adam Smith, Edmund Burke, Alexis de Tocqueville, Friedrich von Hayek, Wilhelm Röpke, Michael Oakeshott og Karl Popper.

Ég kvað muninn á frjálshyggju minni og harðri íhaldsstefnu einkum fólginn í tvennu. Íhaldsmenn tryðu ekki á framfarir og vissu oftast betur, á móti hverju þeir væru en hvað þeir styddu. Þeir gætu því veitt okkur takmarkaða leiðsögn inn í framtíðina. Og þótt þeir skildu það eins vel og við frjálshyggjumenn, að frelsið væri afkvæmi langrar sögulegrar þróunar, aðallega í ríkjum Engilsaxa og á Norðurlöndum, virtust þeir ekki vera þeirrar skoðunar eins og við, að það ætti erindi til allra jarðarbúa.
 
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. september 2022.)
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband