Split, september 2022

Það var fróðlegt á dögunum að gista tvær gamlar verslunarborgir í Evrópu, Tallinn í Eistlandi og Split í Króatíu. Báðar liggja þær vel við siglingum, önnur um Eystrasalt og hin um Adríahaf, og báðar voru þær öldum saman undir stjórn útlendinga, Tallinn þýskrar riddarareglu og Split feneyskra kaupmanna. Íslendingar eiga aðeins einn nágranna, Ægi konung, og má segja, að hann ógni okkur ekki lengur, því að árið 2008 var fyrsta árið í Íslandssögunni, þegar enginn íslenskir sjómaður drukknaði. En Eistlendingar og Króatar hafa ekki verið eins heppnir með nágranna. Rússar úr austri og Þjóðverjar úr vestri hafa löngum setið yfir hlut Eistlendinga, og Króatía var um skeið á valdi Feneyinga, síðan soldánsins í Miklagarði (Istanbúl), þá Habsborgarættarinnar og fylgdi Ungverjalandi, en loks Serba.

Í Split standa rústirnar af veglegri höll Díókletíanusar keisara, sem ríkti í Rómaveldi 284–305 e. Kr. Þótt hann friðaði ríki sitt með hörku, átti hann sinn þátt í að grafa undan þessu mikla miðjarðarhafsveldi, því að hann lagði á nýja skatta, nefskatt og landskatt, og setti á verðlagshöft, sem náðu auðvitað ekki tilgangi sínum. Jafnframt batt hann bændur við átthaga sína og takmarkaði kost manna á að færa sig milli atvinnugreina. Hann hleypti líka af stað síðustu og mestu ofsóknunum, sem kristnir menn sættu í Rómaveldi.

Í Split fræddi ég nemendur í stjórnmálaskóla, sem tvær hugveitur héldu, hins vegar á því, að þeir Snorri Sturluson og heilagur Tómas af Akvínas hefðu báðir talið, að konungar yrðu að lúta sömu lögum og þegnar þeirra og að afhrópa mætti þá, ef þeir virtu ekki arfhelg réttindi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. október 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband