Óskarsvirki

Á aðalfundi Mont Pelerin samtakanna í Osló í október 2022 var hlé gert á fundum síðdegis 7. október og siglt frá borginni suður til hins sögufræga Óskarsvirkis, sem stendur á hólma í Oslóarfirði, þar sem hann er einna þrengstur. Virkið var fullgert árið 1853 og hét eftir konungi Svíþjóðar og Noregs á þeirri tíð. Það var búið öflugum fallbyssum, en fáir vissu, að frá því mátti einnig skjóta tundurskeytum neðanjarðar. Í apríl 1940 var það undir stjórn Birger Eriksen, Birgis Eiríkssonar, ofursta. Um ellefuleytið að kvöldi 8. apríl fékk hann að vita, að ókunn herskip, að líkindum þýsk, nálguðust Osló.

Þegar skipin voru í sjónmáli klukkan fjögur um nóttina, fylgdist Birgir með frá efsta útsýnispalli virkisins. Hann ákvað upp á sitt eindæmi að skjóta á skipin úr fallbyssum ofanjarðar, en einnig að senda tundurskeyti að þeim neðanjarðar. Þurfti hann að miða skotmörkin út eftir minni. Fallbyssuskotin og tundurskeytin hæfðu hið stóra þýska beitiskip Blücher, en um borð var fjölmennt herlið, sem átti að hernema höfuðborg Noregs, ásamt lúðrasveit, sem leika skyldi í fullum skrúða við konungshöllina þá um daginn. Um allt skipið kviknuðu eldar, og sökk það þremur tímum síðar. Í morgunsárið hófu þýskar orrustuflugvélar ákafar loftárásir á Óskarsvirki. Birgir skipaði liði sínu að gefast upp 10. apríl, en þá höfðu þýskar flugsveitir tekið Osló.

Vörnin við Óskarsvirki seinkaði töku Oslóar um sólarhring, svo að konungur og ríkisstjórn komust undan og tóku með sér gullforða Noregs. Einnig gafst þá ráðrúm til að skipa kaupskipaflota Noregs að halda til hafna Bandamanna, og hlýddu langflestir skipstjórar kallinu. Þjóðverjum tókst því ekki með leiftursókn að leggja undir sig Noreg, eins og gerst hafði í Danmörku. Flakið af Blücher liggur enn á hafsbotni í Oslóarfirði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. október 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband