Jóhannes Nordal

Það er fagnaðarefni, að Jóhannes Nordal hafi nú í hárri elli skráð endurminningar sínar, Lifað með öldinni, og hlakka ég til að lesa þær, en rifja hér upp nokkur atriði um höfundinn.

Eitt er það, að Jóhannes flutti afbragðs gott erindi á fundi Stúdentafélags Reykjavíkur 10. mars 1959, en það mátti kalla uppgjör hans við haftastefnuna, sem hér hafði verið fylgt allt frá því í heimskreppunni upp úr 1930. Færði Jóhannes rök fyrir því, að lýðræði væri ekki markmið í sjálfu sér og óheft lýðræði hefði í för með sér ýmsar hættur. Stefna ætti að sem víðtækustu frelsi borgaranna innan marka laga og góðrar allsherjarreglu.

Er þetta erindi birt í greinasafni Jóhannesar, Málsefnum, sem kom út árið 1994. Skipaði Jóhannes sér með því í röð frjálslyndra umbótasinna á Íslandi, þeirra Jóns Sigurðssonar (langafabróður hans), Arnljóts Ólafssonar, Jóns Þorlákssonar (frænda hans), Benjamíns Eiríkssonar og Ólafs Björnssonar.

Annað er sá algengi misskilningur, að ekki hafi verið hlýtt á milli Jóhannesar og Benjamíns. Um það leyti er Benjamín ákvað að snúa baki við skarkala heimsins, birti hann í blaði vísu, þar sem mannsnafnið Jóhannes kom fyrir. Ég spurði Benjamín eitt sinn um þetta, og kvað hann vísuna hafa verið um allt annan mann. Hann hafi ekki haft neitt út á Jóhannes að setja.

Hið þriðja er, að Davíð Oddsson bauð Jóhannesi til sín, skömmu eftir að hann settist í Seðlabankann í október 2005. Davíð sagði, að sér litist ekki á hina öru útþenslu bankanna. Efnislega sagði þá Jóhannes: „Þetta er snjóbolti, sem er að rúlla niður hlíðina, og líklega átt þú eftir að verða undir honum.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. október 2022.)


Bloggfærslur 29. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband