Hvað sagði ég í Pálsborg postula?

Þegar mér var boðið að halda fyrirlestur á ráðstefnu brasilískra frjálshyggjustúdenta í Pálsborg postula, São Paulo, 13. október 2018, valdi ég efnið: Norrænu leiðirnar. Í Rómönsku Ameríku er iðulega horft til Norðurlanda sem fyrirmynda. En velgengni þessara landa er ekki vegna jafnaðarstefnu, eins og sumir halda, heldur þrátt fyrir hana.

Skýrasta dæmið er Svíþjóð. Þar hafði myndast sterk frjálshyggjuhefð þegar á átjándu öld. Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hafði sett fram hugmyndina um sátt eiginhagsmuna og almannahagsmuna í krafti frjálsra viðskipta, áður en Adam Smith gaf henni frægt nafn, „ósýnilega höndina“. Einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía á nítjándu öld, Johan August Gripenstedt, beitti sér í ráðherratíð sinni 1848-1866 fyrir víðtækum umbótum í frelsisátt, og má rekja til þeirra samfellt hagvaxtarskeið í Svíþjóð í heila öld frá 1870. Nutu jafnaðarmenn góðs af, þegar þeir komust til valda á fjórða áratug tuttugustu aldar, og fóru gætilega í byrjun. Þeir vildu mjólka kúna í stað þess að slátra henni.

Upp úr 1970 hófu sænskir jafnaðarmenn hins vegar að ganga miklu lengra en áður í skattheimtu og opinberum afskiptum. Afleiðingarnar urðu, að verðmætasköpun stöðvaðist, frumkvöðlar fluttust úr landi og skatttekjur ríkisins jukust ekki lengur með aukinni skattheimtu. Kýrin var að hætta að mjólka. Um og eftir 1990 áttuðu Svíar sig almennt á þessu, líka jafnaðarmenn, og hafa þeir síðan verið að fikra sig varlega í átt að nýju jafnvægi, þar sem velferðarbætur eru áfram ríflegar, en skattar hóflegri en áður og sæmilegt svigrúm fyrir einkaframtak. Má því með nokkurri einföldun tala um þrjár sænskar leiðir, í anda frjálshyggju 1870-1970, jafnaðarstefnu 1970-1990 og málamiðlunar frá 1990.

Á öðrum Norðurlöndum varð líka til sterk frjálshyggjuhefð, eins og hin frjálslynda stjórnarskrá Norðmanna á Eiðsvöllum 1814 sýnir. Og uppi á Íslandi talaði Jón Sigurðsson með glöggum rökum fyrir atvinnufrelsi. Í fyrirlestri mínum í Pálsborg postula komst ég að þeirri niðurstöðu, að velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna þriggja þátta, öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta og víðtæks gagnkvæms trausts og samkenndar vegna samleitni þjóðanna, langrar sameiginlegrar sögu og rótgróinna borgaralegra siða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. október 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband