Hvað segi ég í Kaupmannahöfn?

Á ráðstefnu Frelsisnetsins, Freedom Network, sem Atlas Foundation og fleiri aðilar efna til í Kaupmannahöfn 29.-30. maí 2018, kynni ég rit mitt, sem kom út hjá hugveitunni New Direction í Brussel árið 2016, The Nordic Models. Þar bendi ég á, að velgengni Norðurlanda er ekki vegna jafnaðarstefnu, heldur þrátt fyrir hana. Þessa velgengni má rekja til fjögurra þátta í sögu Norðurlanda: Gamalgróins réttarríkis, friðhelgi eignarréttarins, frjálsra alþjóðaviðskipta og mikillar samleitni norrænu þjóðanna, en síðastnefndi þátturinn auðveldar ákvarðanir, eflir traust og stuðlar að sáttum.

Frjálshyggja á sér sterkar rætur á Norðurlöndum. Til dæmis setti sænskumælandi Finni, Anders Chydenius, fram hugmyndina um, að atvinnulífið gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt og að eins gróði þyrfti ekki að vera annars tap, árið 1765, ellefu árum á undan Adam Smith. Chydenius lýsti eðli verkaskiptingarinnar, sem er meginskýring hagfræðinga á því, að þjóðir heims geti brotist úr fátækt í bjargálnir. Margir eindregnir frjálshyggjumenn mótuðu andlegt líf Svía á 19. öld, þar á meðal Georg Adlersperre, Johan Gabriel Richert (sem var aðdáandi Íslendinga sagna), Lars Johan Hierta og síðast, en ekki síst, Johan August Gripenstedt, sem var einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía um og eftir miðja 19. öld og gerbreytti atvinnulífi þeirra í frjálsræðisátt. Fjöldinn allur af framsæknum frumkvöðlum hagnýtti sér nýfengið atvinnufrelsi til að stofna öflug útflutningsfyrirtæki.

Frjálshyggja var líka áhrifamikil í Noregi, eins og Eiðsvallastjórnarskráin 1814 ber vitni um, og í Danmörku, þar sem Danir brugðust við ósigrum í stríðum við Þjóðverja með því að auka atvinnufrelsi og efla atvinnulíf. „Það, sem tapast út á við, skal endurskapast inn á við,“ orti skáldið. En aðalpúðrinu eyði ég í að lýsa frjálshyggju á Íslandi. Þjóðveldið var eins og Jón Sigurðsson benti á sérstakt rannsóknarefni, þar sem menn bjuggu við lög án ríkisvalds. Sjálfur var Jón frjálshyggjumaður og horfði einkum til Breta um fyrirmyndir. Arnljótur Ólafsson birti fyrstu bókina um hagfræði á íslensku, Auðfræði, 1880 undir sterkum áhrifum frá franska ritsnillingnum Frédéric Bastiat. Jón Þorláksson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, studdist ekki síst við stjórnmálahugmyndir sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels.

Rit mitt er þó ekki aðeins um liðna tíð, heldur líka nútímann, þegar frjálshyggja hefur eflst að rökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband