Nýjar talnabrellur Stefáns Ólafssonar

Stefán Ólafsson prófessor þráast við, þótt tal hans um aukinn ójöfnuð hafi allt verið hrakið, meðal annars í ágætri grein Ragnars Árnasonar prófessors og Axels Halls hagfræðings í Morgunblaðinu 19. mars. Gini-stuðlar þeir um ójöfnuð, sem hann notaði til rökstuðnings máli sínu, reyndust rangir. Stefán fæst ekki til að viðurkenna hina augljósu staðreynd, að allir tekjuhópar á Íslandi hafa notið góðs af örum vexti atvinnulífsins. Hann ræðst síðan ásamt tveimur félögum sínum harkalega hér í blaðinu 20. mars á fjármálaráðuneytið, af því að það birti fyrir skömmu frétt um, að samkvæmt nýrri skýrslu tölfræðinefndar Norðurlanda, Nososco, Social tryghed i de nordiske lande 2004, reyndust lífeyristekjur íslenskra lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Norðurlöndum árið 2004. Þetta sést á 1. mynd.

MedallifeyristekjurStefán heldur því fram, að tölurnar um Ísland og önnur Norðurlönd séu ósambærilegar, þar eð þær séu reiknaðar út á ólíka vegu. Það er rétt, að þær eru reiknaðar út á ólíka vegu, en það felur ekki í sér, að þær séu ósambærilegar. Nososco tók í Danmörku meðaltekjur lífeyrisþega í janúar 2004, bæði frá almannatryggingum og einstökum lífeyrissjóðum. Hún tók í Finnlandi og Noregi meðaltekjur lífeyrisþega í desember 2004. Hún tók í Svíþjóð meðaltekjur lífeyrisþega í desember auk sérstakrar húsnæðisuppbótar. Fyrir Ísland reiknaði hún út meðaltekjur lífeyrisþega á mánuði með því að leggja saman heildargreiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun og heildargreiðslur úr einstökum lífeyrissjóðum og deila í þá summu með fjölda þeirra, sem þiggja lífeyri frá Tryggingastofnun, en það voru 26 þúsund manns árið 2004.

Stefán Ólafsson spyr: Hvers vegna var ekki deilt í með heildarfjölda þeirra, sem voru á ellilífeyrisaldri, en það voru 31 þúsund manns? Svarið er einfalt: Vegna þess að hin fimm þúsundin tóku ekki ellilífeyri. Aðalástæðan var auðvitað, að þetta fólk var enn að vinna og atvinnu- eða fjármagnstekjur þess hærri en svo, að það ætti rétt á grunnlífeyri. (Lífeyristekjur úr öðrum sjóðum skerða ekki grunnlífeyri frá Almannatryggingum.) Þetta fólk var komið á lífeyrisaldur, en það var ekki lífeyrisþegar. Til dæmis voru árið 2004 sex þúsund manns á aldrinum 67-70 ára. Margir þeirra stunduðu fulla vinnu. Það skekkti því myndina ekkert að deila með tölu ellilífeyrisþega í heildargreiðslur lífeyris í því skyni að reikna út meðaltekjur lífeyrisþega. Útreikningar Nososco fyrir Ísland voru réttir. Ég er ekki dómbær á það, hvort tölurnar fyrir hin Norðurlöndin eru réttar, en treysti Nososco um það, uns annað reynist sannara. Að minnsta kosti er ekki unnt að kenna fjármálaráðuneytinu íslenska um þær tölur.

Stefán hefur önnur rök fyrir því, að útreikningarnir séu ekki réttir fyrir Ísland. Þau eru, að misræmi sé milli talna í skýrslu Nososco. Á einum stað komi fram (tafla 7.8), að á Norðurlöndum séu lífeyristekjur lífeyrisþega hæstar á Íslandi, en á öðrum stað (tafla 7.25), að heildarútgjöld vegna ellilífeyris á hvern ellilífeyrisþega séu næstlægst á Íslandi. Stefán vitnar einnig í nýlega skýrslu Hagstofu Íslands, Félagsvernd á Íslandi. Þar komi fram (tafla 25), að á Norðurlöndum séu heildarútgjöld vegna ellilífeyris á hvern ellilífeyrisþega lægst á Íslandi. Stefán segir, að tölurnar í síðarnefndu töflunni í skýrslu Nosoco og tölurnar í skýrslu Hagstofunnar séu réttar, en tölurnar í fyrrnefndu töflunni í skýrslu Nososco (sem sýndu, að á Norðurlöndum væru lífeyristekjur hæstar á Íslandi) rangar.

Stefán hefur hvorki lesið skýrslu Nososco né Hagstofunnar nógu vandlega. Í þeim eru sýnd útgjöld vegna ellilífeyris á hvern íbúa á ellilífeyrisaldri, í skýrslu Nososco (tafla 7.8) 67 ára og eldri, en Hagstofunnar (tafla 25) 65 ára og eldri, ekki útgjöld á hvern ellilífeyrisþega. Þessi tala um útgjöld vegna ellilífeyris er óvenju lág um Ísland vegna þess, sem þegar hefur verið hér bent á, að miklu fleira aldrað fólk stundar hér vinnu en þar ytra og þiggur þess vegna ekki ellilífeyri. Á þessu atriði er sérstaklega vakin athygli í skýrslu Nososco (158. bls.). Þar eð tölurnar um útgjöld vegna ellilífeyris á hvern íbúa á ellilífeyrisaldri eru ekki miklu lægri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum (þótt miklu fleiri Íslendingar í þessum aldurshópi vinni og taki þess vegna ekki ellilífeyri á meðan), renna þær einmitt stoðum undir þá niðurstöðu, að lífeyristekjur séu hér hæstar á Norðurlöndum. Tölurnar í þessum tveimur skýrslum eru allar réttar og ekkert misræmi milli þeirra. Færri aldraðir Íslendingar eru lífeyrisþegar hlutfallslega en annars staðar á Norðurlöndum, en þeir hafa hærri lífeyristekjur.

Stefán Ólafsson les ekki aðeins rangt úr tölum í opinberum skýrslum um hag aldraðra. Hann hefur líka farið mikinn síðustu misseri um málefni þeirra. Hann hefur fullyrt, að aldraðir á Íslandi hafi dregist aftur úr öðrum hópum og skattbyrði þeirra þyngst. Þetta eru brellur. Stefán nýtir sér, að margir Íslendingar hafa efnast hratt hin síðari ár. Þeir hafa vissulega efnast hraðar en aldraðir sem hópur. En óeðlilegt er að bera þessa tvo hópa saman. Frekar á að bera aldraða á Íslandi saman við aldraða í öðrum löndum, og þá kemur allt annað í ljós, eins og sést í skýrslu Nososco og á 1. mynd. Skattbyrði aldraðra hefur ekki þyngst í öðrum skilningi en þeim, að eins og aðrir greiða þeir hærri skatta með hærri tekjum, alveg eins og skattbyrði fyrirtækis þyngist auðvitað með því, að það snýr tapi í gróða og tekur því að greiða skatt, en var áður skattfrjálst. Raunar hefur mikilvægri skattbyrði verið létt af öldruðum, þar sem var eignaskattur, sem kom hart niður á þeim, enda stundum kallaður „ekknaskattur“.

Stefán horfir einnig fram hjá hinum mikla mun á lífeyrismálum hér og annars staðar, meðal annars á Norðurlöndum. Hann er, að grannar okkar báru ekki gæfu til þess að stofna digra söfnunarsjóði lífeyrisréttinda eins og við, heldur nota að mestu svokallaða gegnumstreymissjóði, sem ríkið rekur. Hér safna menn innstæðum í réttu hlutfalli við greiðslur inn í sjóðina og fá lífeyrisgreiðslur út úr þeim miðað við það, en ríkið greiðir til viðbótar grunnlífeyri (nema menn hafi háar tekjur aðrar). Víða ytra greiða launþegar aðallega til ríkisins og fá síðan greiðslur frá ríkinu eftir ákvörðun þess, sem getur komið sér illa síðar meir, þegar öldruðum fjölgar, en vinnandi fólki fækkar. Þess vegna eru lífeyrissjóðir okkar smám saman að fyllast og erlendir lífeyrissjóðir margir að tæmast.

LagtekjumorkaldradraMargir aldraðir Íslendingar eru vissulega ekki ofsælir af sínum kjörum. En kjör þeirra eru betri og hafa batnað hraðar en í flestum eða öllum löndum heims. Samkvæmt nýrri skýrslu Evrópusambandsins um fátækt, Poverty and Social Exclusion, var hlutfall aldraðra, 65 ára og eldri, við eða undir fátæktarmörkum (risk of poverty) næstlægst á Íslandi allra Evrópuríkja, 10%, og aðeins lægra í Lúxemborg. Þetta hlutfall var hærra annars staðar á Norðurlöndum, 11% í Svíþjóð, 18% í Finnlandi og Danmörku og 19% í Noregi, eins og sést á 2. mynd. Því má ekki gleyma, að þetta eru tölur frá 2004. Aldraðir hafa fengið miklar kjarabætur síðan, jafnt frá einstökum lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun og vegna breyttra reglna um tekjutengingu og skattlagningu. Nýrri tölur væri áreiðanlega enn hagstæðari. Vonandi verða fáir aldraðir Íslendingar ginningarfífl Stefáns Ólafssonar: Það er þeim og okkur öllum í hag, að hér sé öflugt atvinnulíf og mikil verðmætasköpun.

Morgunblaðið 10. apríl 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband