Í nafni vísindanna

LitilIsold.MblKarl Popper kenndi mér, að vísindin ættu að vera frjáls samkeppni hugmynda. Mér hefur blöskrað, hversu ákaflega stuðningsmenn kenningarinnar um verulega hlýnun jarðar af manna völdum hafa reynt að kveða niður keppinauta sína. Hvað veldur þessari ákefð? Ef svarið er, að við séum í lífsháska, þá hefur það heyrst oft áður. Til dæmis var fyrirsögn fréttar Morgunblaðsins 10. júní 1977 um blaðamannafund, sem fyrirlesarar á alþjóðlegri umhverfisráðstefnu á Íslandi héldu: „Lítil Ísöld fyrir aldamót?“ Þar kvað Reid Bryson, sérfræðingur um veðurfar á Norðurslóðum, líkur á nýrri ísöld. Mannkyn yrði að búa sig undir harðindi og gæti lært af íslenskum bændum, sem hefðu ákveðið einu sinni á ári, hversu margt fé væri á vetur setjandi. Aðrir fyrirlesarar tóku undir með Bryson.

Kólnað hafði í veðri frá um 1940 til um 1970, en eftir það hefur hlýnað. Árið 1977 töluðu vísindamenn um nýja ísöld. Þrjátíu árum síðar vara þeir við nýju hitaskeiði. En ályktunin er jafnan hin sama: Veita verður meira fé til vísindamanna og taka meira mark á niðurstöðum þeirra! Ég rifja þetta upp vegna skrifa þeirra Tómasar Jóhannessonar jarðeðlisfræðings og Jóns Egils Kristjánssons veðurfræðings í Fréttablaðinu 11. apríl. Þar gagnrýndu þeir grein eftir mig í Fréttablaðinu 30. mars, þar sem vitnað var í nýja breska heimildarmynd, Blekkinguna mikla um hlýnun jarðar (The Great Global Warming Swindle). Framlag þeirra Tómasar og Jóns Egils er skætingslaust, og er mér ljúft að svara athugasemdum þeirra eftir bestu getu.

Ein athugasemdin er, að viðmælandi í heimildarmyndinni bresku, Carl Wunsch, telji orð sín þar hafa verið slitin úr samhengi. Mér fannst Wunsch ekki tala neina tæpitungu. En í bresku myndinni eru rök með og á móti tilgátunni um verulega hlýnun jarðar af mannavöldum vissulega ekki vegin og metin, enda hentar sjónvarp illa til slíks, heldur hiklaust reynt að hrekja hana. Fræðileg gagnrýni á þessa mynd er þó hjóm eitt miðað við það, sem komið hefur fram um heimildarmynd Als Gores, Óþægilegan sannleik (Inconvenient Truth). „Þegar sannleikurinn missir stjórn á sér, verður hann að ýkjum.“

Í annarri athugasemd er því hafnað, sem segir í bresku heimildarmyndinni, að vatnsgufa sé 98% gróðurhúsalofttegunda. Þeir Tómas og Jón Egill telja, að vatnsgufa valdi um 50-60% gróðurhúsaáhrifa. Ég hafði töluna 98% úr bók Björns Lomborgs, Hið sanna ástand heimsins, en hann tók hana úr verkum danskra og breskra vísindamanna. Í fjölmörgum ádeilum á verk Lomborgs hefur þessi tala ekki verið véfengd, svo að ég viti. Hins vegar eru magn og áhrif sitt hvað: Hugsanlega veldur vatnsgufa ekki langmestum gróðurhúsaáhrifum, þótt hún sé langmestur hluti gróðurhúsalofttegunda.

Þriðja athugasemdin er um þessa fullyrðingu mína: „Þegar lífverur anda frá sér eða rotna og þegar eldfjöll gjósa, streymir meiri koltvísýringur út í andrúmsloftið en vegna brennslu olíu eða kola.“ Þeir Tómas og Jón Egill segja á móti, að í eldgosum sé aðeins losað um 1% af því, sem menn losi. En þetta er engin leiðrétting á orðum mínum: Hvers vegna minnast þeir Tómas og Jón Egill ekki á áhrif öndunar frá lífverum og rotnunar þeirra? Og bera þetta saman við áhrif brennslu olíu eða kola? Samkvæmt nýlegri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Löngum skugga húsdýranna (Livestock’s Long Shadow), má rekja 18% gróðurhúsaáhrifa til húsdýra, aðallega kúa.

Fjórða athugasemdin er um svokallaða sólvirknikenningu, en samkvæmt henni má skýra breytingar á hitastigi á jörðu niðri með virkni sólar á hverjum tíma. Þeir Tómas og Jón Egill segja, að virkni sólar hafi ekki aukist hin síðari ár, þótt hlýnað hafi á jörðinni. Þetta er ekki rétt. Virknin hefur sveiflast upp og niður þetta tímabil. En sólvirknikenningin er nokkru flóknari, eins og sjá má í nýrri bók eftir danska vísindamanninn Henrik Svensmark og enska rithöfundinn Nigel Calder, Kælandi stjörnum (Chilling Stars). Ég ætla ekki að öskra mig hásan með eða á móti einhverri einni tilgátu um loftslagsbreytingar, enda væri það fáránlegt. En ég hef iðulega séð, hvernig reynt hefur verið að nota vísindin eins og sleggju til að slá niður andstæðinga frekar en kastljós til að lýsa upp veruleikann.

Fréttablaðið 13. apríl 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband