Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.5.2010 | 13:06
Undarleg aðgerð Seðlabankans
Mér er ekki ljóst, hvers vegna Seðlabankinn íslenski notar verulegan hluta af gjaldeyrisforða sínum til þess að kaupa af Seðlabanka Evrópu í Lúxemborg (ECL) verðbréf í krónum upp á 120 milljarða króna. Hvers vegna lætur Seðlabankinn ekki útlendinga sitja uppi með eigin gerðir?
Við skuldum þessum aðilum ekkert siðferðilega, því að þeir komu okkur ekki til hjálpar síðustu vikur og mánuði fyrir hrun, og átti það eflaust sinn þátt í því, þótt margt annað hafi þar auðvitað einnig valdið.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri gaf þá skýringu á aðgerð Seðlabankans, að stjórnendum Seðlabanka Evrópu hefði fundist nóg um hversu há lán íslensku bankarnir höfðu fengið hjá bankanum. Þeir voru því stífir í samskiptum við íslensk stjórnvöld.
Andvirði 120 milljarða íslenskra króna var því tekið af hinum dýrmæta gjaldeyrisforða okkar (eða lánum, sem tekin höfðu verið til þess að efla hann) í því skyni einu að blíðka stjórnendur Seðlabanka Evrópu!
Már fetar í fótspor annars gamals kommúnista, Svavars Gestssonar, sem virtist samþykkja allar kröfur Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, af því að þeir voru stífir í samskiptum við íslensk stjórnvöld. Báðir virðast frekar vilja blíðka útlendinga en gæta hagsmuna íslenskra skattgreiðenda.
Ég man þá tíð, þegar ég átti í kappræðum í menntaskólanum á Laugarvatni veturinn 19761977 við Má Guðmundsson, en hann var þá í þeirri deild kommúnistahreyfingarinnar íslensku, sem kennd er við Trotskíj. Ég man einnig, þegar ég átti í kappræðum í Stapa vorið 1978 við Svavar Gestsson, en hann var þá fulltrúi hins Moskvuholla flokkseigendafélags Alþýðubandalagsins.
Báðir skömmuðu mig og aðra stuðningsmenn vestræns varnarsamstarfs þá blóðugum skömmum fyrir undirlægjuhátt við Bandaríkjamenn. Ég svaraði fullum hálsi, að Bandaríkjamenn væru vinir okkar og bandamenn og hefðu reynst okkur vel. Þeir hefðu veitt okkur myndarlega fjárhagsaðstoð eftir stríð (Marshall-aðstoðina) og haldið uppi vörnum landsins okkur að kostnaðarlausu.
Þau skjöl, sem birst hafa hin síðari ár um mörkun utanríkisstefnunnar árin 19411951, sýna einnig, hversu vel og skörulega íslenskir ráðamenn héldu á málum gagnvart stórveldunum, ekki síst þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson. Þeir voru engin Bandaríkjaþý, heldur öflugir talsmenn og fulltrúar lítillar þjóðar, sem gættu hagsmuna hennar af festu og gætni.
Nú hefur ábyrgð skyndilega verið lögð á herðar þessum gömlu mælskumönnum, Má og Svavari, sem froðufelldu yfir mér á áttunda áratug síðustu aldar. Og þá virðast þeir kikna í hnjáliðum af því einu að heyra erlendar tungur talaðar. Þeir flýta sér að reyna að geðjast hortugum útlendingum (arftökum Hallvarðar gullskór og Loðins Lepps), svo að þeir verði ekki stífir í samskiptum við íslensk stjórnvöld.
Kostnaðinn bera íslenskir skattgreiðendur. Þeirra bíður sama hlutskipti og dýranna í lok sögu Orwells, Dýrabæ. Þeir fá að híma í kuldanum úti og horfa inn um gluggann á gömlu íslensku kommúnistana skála í kampavíni við drambsama fulltrúa Evrópusambandsins, uns þeir greina ekki lengur neinn mun á hinum íslensku kommúnistum og útlendingunum.
21.5.2010 | 13:44
Hrunadans og horfið fé
Tvö meginatriðin í gagnrýni Samfylkingarmanna á Davíð Oddsson seðlabankastjóra voru, að hann hefði talað óvarlega í frægu Kastljóssviðtali 7. október 2008 og að hann hefði í aðdraganda bankahrunsins lánað viðskiptabönkunum án fullnægjandi veða.
Tveir ungir og hrokafullir hagfræðingar, Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson, hafa helst látið að sér kveða í umræðum um veðhæfi þeirra bréfa, sem Seðlabankinn veitti lán út á í aðdraganda hrunsins, Gauti, væntanlega af því að hann er bróðir varaformanns Samfylkingarinnar, Jón, líklega af því að hann vill koma sér í mjúkinn hjá núverandi valdhöfum.
Fróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum þeirra Gauta og Jóns við aðgerðum Seðlabanka Evrópu, sem kaupir nú skuldabréf af gríska ríkinu eins og hann eigi lífið að leysa og hefur fellt niður fyrri reglur sínar um veðhæfi slíkra bréfa. Sennilega hafa þeir Gauti og Jón aldrei heyrt af því, sem Shakespeare kemur frægum orðum að: Háskalegt mein með háskafullum læknisdómi læknast eða engum.
Hvað sem því líður, tekur Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu ekki undir þessa gagnrýni í niðurstöðum sínum. Hún finnur aðeins að embættisfærslum Davíðs (og starfsbræðra hans tveggja, sem báðir eru raunar menntaðir hagfræðingar) í tvennu: Hann hafi átt að stöðva starfsemi Landsbankans í Bretlandi fyrir bankahrun og gæta betur að stjórnsýslu í undirbúningi kauptilboðs ríkisins til eigenda Glitnis í upphafi bankahrunsins.
Ég hef áður bent á, að Seðlabankinn hafði enga heimild að lögum til þess að stöðva starfsemi Landsbankans í Bretlandi fyrir bankahrun. Ákvæði laga um þetta eru skýr og óskiljanlegt, að Rannsóknarnefndin skyldi horfa fram hjá þeim, en í henni sátu tveir lögspekingar. Kemur þetta vel fram í svörum Davíðs Oddssonar við spurningum nefndarinnar, sem af einhverjum ástæðum voru ekki prentuð með skýrslunni, heldur aðeins sett á Netið. Aðfinnslan er dæmigerð eftiráspeki.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, segir um seinni aðfinnsluna í hinni fróðlegu bók sinni, Hrunadans og horfið fé:
Fyrstu viðbrögð mín eftir lestu þessa kafla Skýrslunnar, þar sem ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um yfirtöku Glitnis er að finna og ofangreindar tilvitnanir eru teknar út, voru þessi: Hafa þeir, sem þennan texta skrifuðu, aldrei dýft hendi í kalt vatn? Fjármálakerfi landsins stendur í ljósum logum síðustu helgina í september 2008 og rannsóknarnefnd Alþingis hefur hugann að verulegu leyti við það, hvort allra formsatriða hafi verið gætt! Hvort þetta skjal hafi verið áritað með réttum hætti eða kallað eftir öðru skjali úr því að Glitnismenn voguðu sér að tala við Seðlabankann án þess að leggja fram skjöl. Það má vel vera, að í háskólasamfélaginu geti menn leyft sér svona nákvæm vinnubrögð skriffinna en í stjórnmálum og atvinnulífi koma þær stundir að það er ekki hægt. Það verður að taka ákvarðanir á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja, og það verður að gera strax. Þetta er ekki trúverðug gagnrýni.
Háskalegt mein með háskafullum læknisdómi læknast eða engum.
20.5.2010 | 16:55
Oflæti
Þegar bankahrunið íslenska verður gert upp, gæti ég best trúað því, að dómurinn yfir mörgum bankamönnunum yrði ekki sá, að þeir væru glæpamenn, heldur syndarar. Og syndin, sem þeir urðu sekir um, var ekki höfuðsyndin dramb. Ég þekki marga þeirra, og þeir eru ekki drambsamir, heldur alþýðlegir menn og vingjarnlegir. Synd þeirra var minni. Hún var oflæti. Þeir héldu, að þeir gætu allt.
Í bókmenntum okkar og sögu hefur oft verið gert gys að oflátungum. Til dæmis hefur óspart verið hlegið að Ásmundi skáldi á Skúfsstöðum, sem fylgdi Þjóðverjum að málum í seinni heimsstyrjöld og sagði drýgindalega: Mínir menn eru allir gráir fyrir járnum. (Steinn Steinarr gerði um hann örstutta sögu og bráðskemmtilega.)
Einnig hefur iðulega verið brosað að Gísla Sveinssyni, sem var forseti sameinaðs þings, þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944, en þá um kvöldið sagði hann við Vestur-Íslendinginn Valdimar Björnsson: Ja, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýðveldi á Íslandi. (Allir þekkja símskeytið, sem Pétur Benediktsson sendi heim í utanríkisráðuneytið, þegar vitnaðist, að Gísli yrði sendiherra í Noregi: Stendur til að stofna lýðveldi í Noregi?)
Ég hef samúð með íslensku bankamönnunum, því að sjálfur hef ég áreiðanlega syndgað eins og þeir, gerst sekur um oflæti, haldið, að ég gæti allt. En ólíkt þeim átti ég starfssystur á mínum vinnustað, sem hristi allt oflæti úr mér. Það var Helga Kress, sem tók að sér fyrir Laxness-fjölskylduna að lesa fyrsta bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, sem ég gaf út 2003, vandlega yfir og gagnrýndi það harðlega, meðal annars í langri ritgerð í Sögu.
Helga sannaði þá eftirminnilega orð hins kunna vísindamanns George von Bekesy, sem hlaut Nóbelsverðlaun í læknisfræði 1961:
Eitt ráð til að fækka villum er að eiga vini, sem reiðubúnir eru að verja nægum tíma til að gagnrýna fyrst vandlega aðferðir í tilraunum og síðan niðurstöður þeirra. Enn betra er að eiga óvini. Þeir eru boðnir og búnir að nota ómældan tíma og hugarorku til að finna villur, stórar og smár, og það endurgjaldslaust. Vandinn er sá, að mjög mikilhæfir óvinir eru ekki á hverju strái. Þeir eru flestir miðlungsmenn. Annar galli á óvinum er, að þeir breytast stundum í vini, og þá dofnar jafnan áhuginn. Þannig missti ég þrjá bestu óvini mína. Allir þurfa nokkra góða óvini, ekki aðeins fræðimenn!
Ég verð Helgu Kress ævinlega þakklátur fyrir þá alúð, sem hún lagði í prófarkalestur fyrir mig, þótt auðvitað hefði verið betra að fá athugasemdir hennar, áður en bók mín kom út, ekki eftir það. Hefur hún áreiðanlega unnið fyrir hverri einustu krónu, sem Laxness-fjölskyldan greiddi henni fyrir vikið.
En ógæfa íslensku bankamannanna var, að þeir höfðu ólíkt mér enga Helgu Kress til að beina sér á réttu brautina.
(Mynd af Helgu: Vilhelm Gunnarsson.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook
19.5.2010 | 16:54
Ósómi á ábyrgð Arion banka
Arion banki hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna gagnrýni á fréttavefnum amx.is á það, að bankinn hefur ekki tekið Haga (Hagkaup og Bónus) af Baugsfeðgum, þótt þeir séu engir borgunarmenn fyrir þeim fimmtíu milljarða skuldum, sem þeir söfnuðu hjá Arion banka í nafni Haga og skyldra fyrirtækja, og hafi leikið hann og aðra íslenska banka grátt, eins og best sést á skýrslu Kroll-rannsóknarfyrirtækisins um fjárglæfra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (sem notuð er í stefnu þrotabús Glitnis á hendur honum).
Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er þessi yfirlýsing Arion banka gert að umtalsefni:
AMX.is birtir í gær athugasemd frá Arion banka þar sem bankinn heldur því fram að honum sé, vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið, óheimilt að hlutast til um daglegan rekstur Haga og að bankinn hafi skipað félaginu óháða stjórn fyrr á þessu ári. Arion banki tryggði að stjórn Haga yrði óháð með því að gera Jóhannes Jónsson formann hennar.
Stjórnin hefur síðan sýnt hve óháð hún er með því að halda áfram nákvæmlega sömu misnotkun og fyrri stjórn. Stjórn Haga heldur áfram að dæla fé inn í fjölmiðlafyrirtækið 365 með óhóflegum auglýsingum. Það fyrirtæki er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Sá mun vera sonur hins óháða stjórnarformanns. Arion banki heldur þess vegna áfram að leyfa gegndarlausa misnotkun á Högum til að þjóna ákveðnum auðmönnum.
Rökin um að Samkeppniseftirlitið hindri bankann í að stöðva misnotkunina standast ekki. Í viðtali við Morgunblaðið í lok apríl sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að bankinn gæti auðvitað svarað fyrir það sem hann bæri ábyrgð á, því að hann væri eigandi fyrirtækisins. Í þessu felst auðvitað að hann getur komið í veg fyrir að stjórn Haga leyfi misnotkun. Þetta er kjarni málsins, en nokkuð sem bankinn reynir að fela. Hann er eigandi Haga og ber ábyrgð. Misnotkunin og spillingin sem þar viðgengst er á hans ábyrgð.
Ég tek undir með Morgunblaðinu. Ótrúlegt er, að núverandi stjórnendur Arion banka skuli ætla sér að axla ábyrgð á ósómanum í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson. Hvenær linnir þessum ósköpum? Hvenær sjá mennirnir að sér? Vilja þeir lenda í svipuðum leiðindamálum fyrir dómstólum og forverar þeirra í bankanum?
18.5.2010 | 12:40
Tvær sannar gamansögur
Síðustu misseri hefur nokkuð borið á tveimur mönnum, þeim Ólafi Ragnari Grímssyni og Bubba Morthens. Það eru að vísu engar fréttir, að Ólafur Ragnar láti á sér bera. Hann hefur látið þjóðina vita reglulega af sér, allt frá því að hann stofnaði Menningarfélag íslenskrar æsku nýfermdur, gekk á fund danska sendiherrans og krafðist þess, að handritin yrðu send heim hið bráðasta. Hitt er skrýtnara, að Bubbi skuli skyndilega vera orðinn álitsgjafi um stjórnmál, og hefði Njáll gamli á Bergþórshvoli áreiðanlega orðið að láta segja sér það þrim sinnum eins og fleira.
Í því sambandi rifjast upp fyrir mér tvær gamansögur, þar sem þessir tveir menn koma fyrir ásamt vini mínum, Davíð Oddssyni, sem einn sleppur íslenskra ráðamanna með hreinan skjöld út úr bankahneykslinu mikla.
Margrét Danadrottning kom í opinbera heimsókn til Íslands í maí 1998. Við það tækifæri færði Ólafur Ragnar Grímsson henni að gjöf ljósmynd af Grími rakara Kristgeirssyni, föður sínum. Þótti mörgum það einkennilegt. Skömmu síðar var Davíð ræðumaður á fundi sjálfstæðismanna á Selfossi. Eftir framsögu Davíðs spratt upp einn fundarmanna og spurði, hvað hann segði um það sem forsætisráðherra, að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði gefið Margréti Danadrottningu ljósmynd af Grími rakara, föður sínum. Davíð svaraði: Ég geri enga athugasemd við það. Nokkrar aðrar spurningar voru bornar upp, en þá kvaddi fyrsti fyrirspyrjandinn sér hljóðs aftur og spurði: Skil ég forsætisráðherra virkilega rétt, að hann geri enga athugasemd við það, að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skuli hafa gefið Margréti Danadrottningu ljósmynd af Grími rakara, föður sínum, í opinberri heimsókn hennar? Davíð svaraði að bragði: Já, það er alveg rétt skilið, enda veit ég ekki til þess, að Margrét drottning hafi átt neina ljósmynd af Grími rakara.
Davíð hefur sem kunnugt er gefið út tvö smásagnasöfn, sem seldust eins og heitar lummur og mæltust víðast vel fyrir (nema auðvitað hjá Davíðshatarafélaginu, en daufara er yfir því þessa dagana en oft áður). Skömmu eftir að fyrra smásagnasafnið, Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar, kom út haustið 1997, hitti Davíð Bubba Morthens í boði hjá títtnefndum Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum, þar sem Bubbi skemmti með söng. Bubbi gekk til hans og sagði: Davíð, ég var að lesa bókina þína, og mér finnst þú miklu betri listamaður en stjórnmálamaður! Davíð svaraði að bragði: Bubbi, ég verð að segja það sama um þig.
Ég tek undir með Davíð um Bubba.
17.5.2010 | 16:16
Sannleikurinn um bankahrunið
Þegar menn bera vitni fyrir dómi, þurfa þeir að sverja eið (eða vinna heit) að því að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann. En alkunna er af rannsóknum sálfræðinga, hversu skeikular frásagnir slíkra vitna geta verið. Sannleikurinn er flóknari og margbrotnari en svo, að hann komist fyrir í kollinum á einum manni.
Eitt frægasta dæmið um það, hversu erfitt getur verið að finna allan sannleikann, jafnvel í einföldu máli, er eldskörungur Wittgensteins. Tildrög þess voru, að hinum stórmerka heimspekingi Karli R. Popper (sem mér auðnaðist eitt sinn að dvelja hjá í heilan dag og spyrja spjörunum úr) var boðið að flytja fyrirlestur í Cambridge.
Fyrirlesturinn var haldinn í herbergi heimspekingsins Richards B. Braithwaites á Kóngsgarði (Kings College) í Cambridge 25. október 1946. Á meðal áheyrenda var annar frægur heimspekingur, Ludwig Wittgenstein, sem var þá orðinn þeirrar skoðunar, að ekki væru til raunverulegar heimspekilegar gátur eða reglur, heldur aðeins hugsanaskekkjur, sem þyrfti að leiðrétta.
Popper taldi hins vegar, að til væru raunverulegar heimspekilegar gátur, og færði fyrir því rök í lestri sínum. Á meðan sat Wittgenstein við arininn í herberginu og fitlaði eins og annars hugar við eldskörung, sem þar var. Að fyrirlestrinum loknum spratt Wittgenstein á fætur og sagði, um leið og hann otaði eldskörungnum að Popper: Nefndu dæmi um siðferðisreglu! Popper svaraði að bragði: Bannað að ota eldskörungi að gestafyrirlesurum. Þá grýtti Wittgenstein eldskörungnum í gólfið, rauk út úr herberginu og skellti á eftir sér.
Svo sagðist Popper frá. En sumir þeir heimspekingar, sem staddir voru á staðnum, höfðu aðra sögu að segja. Tveir blaðamenn lögðust í rannsókn á málinu og skrifuðu bráðskemmtilega bók um það, Wittgensteins Poker. Komust þeir að þeirri niðurstöðu, að engin áreiðanleg eða óyggjandi frásögn væri til af þessum atburði. En kaldhæðnin er sú, að tugir heimspekinga, sem kenndu nær allir þekkingarfræði í háskólum, gátu ekki einu sinni orðið sæmilega sammála um, hvað hefði gerst inni í þessu herbergi á innan við einni klukkustund.
Ég held, að sannleikurinn um bankahrunið sé ekki allur kominn fram, þótt vissulega séu skýrslur Rannsóknarnefndar Alþingis og Kroll-rannsóknarfyrlrtækisins afar þarfar og fróðlegar. Með því er ég ekki að afsaka íslensku fjárglæframennina, sem létu bersýnilega greipar sópa um bankana, heldur benda á, að margar aðrar hliðar eru á málinu, sem ekki má líta fram hjá.
Stundum tala álitsgjafar hér til dæmis nánast eins og Ísland hafi eitt lent í vandræðum. En haft er eftir seðlabankastjóra Evrópu, Jean-Claude Trichet, í dag, að lánsfjárkreppan frá 2007 sé sennilega hin versta frá því í fyrri heimsstyrjöld. Hina alþjóðlegu vídd vantar í umræður á Íslandi, þar sem margir hafa hugann við það eitt að finna innlenda sökudólga.
Ekki má heldur gleyma hlut Breta, sem beitti hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og neituðu hinum breska banka Kaupþings um sömu fyrirgreiðslu og þeir veittu öðrum fjármálafyrirtækjum. Og halda menn, að einhverjir englar hafi stjórnað öllum þeim bresku fyrirtækjum, sem fyrirgreiðslu fengu? Ég er ekki viss um, að allir þyldu þeir rækilega rannsókn.
Á sannleikanum eru ekki aðeins margar hliðar, heldur er hann líka í ýmsum stigum eða blæbrigðum, ekki aðeins svörtum lit og hvítum. Ég trúi því til dæmis ekki, að allir íslenskir bankamenn hafi verið í senn aular og þrjótar. Þeir voru auðvitað misjafnir, eins og aðrir, en það fólk, sem ég kynntist í íslenskum bönkum fyrir hrun, var langflest duglegt, greint, hjálpsamt og samviskusamt.
Íslendingar eru lítil þjóð, sem þarf á öllu sínu að halda. Hún hefur ekki efni á að útskúfa fjölmennum hópi hæfileikamanna úr röðum sínum. Skóggangur lagðist niður fyrir mörgum öldum. Þjóðin á ekki heldur að hlusta á þær vanmetakindur, sem skríða nú fram úr skjóli sínu og jarma, margar raunar enn nafnlausar, og ala hér á öfund og úlfúð.
Sannleikann á vitaskuld að leiða í ljós um íslenska bankahrunið, eftir því sem unnt er. Enginn vafi er á því, að fámennur hópur fjárglæframanna með Jón Ásgeir Jóhannesson í broddi fylkingar þverbraut allar reglur og skildi Ísland eftir berskjaldað. En jafnvel sá hópur stefndi ekki að bankahruninu og vildi það ekki, svo að ekki sé talað um aðra og betri menn, sem urðu í þessu máli leiksoppar örlaganna. Og á sama hátt og rónarnir mega ekki koma óorði á brennivínið, má Jón Ásgeir ekki koma óorði á kapítalistana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook
15.5.2010 | 16:15
Nýtt rannsóknarefni
Ég hef áður látið þá skoðun í ljós, að æskilegt sé að rannsaka út í hörgul, hvað fór hér úrskeiðis fyrir bankahrunið. Þetta þarf ekki aðeins að gera til þess, að þeir, sem bera ábyrgð, axli hana, heldur einnig til þess að eyða getsökum og tilhæfulausum ásökunum á hendur saklausum mönnum.
Ég hlýt þó að bæta því við, að mér finnst nóg um þá þórðargleði, sem hefur víða gripið um sig á Íslandi. (Þórður bóndi var sveitungi séra Árna Þórarinssonar á Snæfellsnesi og gat vart komið upp orði fyrir hlátri, þegar af því fréttist, að svo vætusamt væri á Norðurlandi, að öll hey grotnuðu niður.) Ég hef minni áhuga á því að senda menn í fangelsi en að komast af því, í hverju mistök þeirra voru fólgin og læra af þeim, svo að þau verði ekki endurtekin. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var stórt skref í rétta átt. Annað skref í rétta átt er hin rækilega rannsókn, sem þrotabú Glitnis hefur látið taka saman um framferði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans, þótt sjálfur hefði ég raunar tekið gætilegar til orða en gert er í stefnu þeirri, sem lögð hefur verið fram gegn Jóni Ásgeiri í Nýju Jórvík.
Margt af því, sem nýlega hefur komið fram um framferði Jóns Ásgeirs, var að vísu vitað fyrir, þótt nú hafi það fengist staðfest, svo að óyggjandi sé. Það leiðir hugann að öðru rannsóknarefni. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að Jón Ásgeir hefur með fulltingi Landsbankans og Arion banka fengið að halda yfirráðum yfir tveimur mikilvægustu fyrirtækjum sínum á Íslandi, Högum og 365-miðlum?
Bankastjórar þessara tveggja banka geta ekki borið það fyrir sig, að þeir hafi ekki verið varaðir við Jóni Ásgeiri. Á þeim dundu viðvaranir daglega, jafnt opinberlega og í einkasamtölum. Á það má líka minna, að Jón Ásgeir hafði fyrir hrun þegar hlotið þriggja mánaða fangelsisdóm skilorðsbundið fyrir efnahagsbrot.
Hvað olli því þá, að Landsbankinn leyfði 365-miðlum að afskrifa í raun stórkostlegar skuldir? Af hverju var Árvakur tekinn af Björgólfi Guðmundssyni, en 365-miðlar ekki af Jóni Ásgeiri?
Hvað olli því þá, að Arion banki leyfði Baugsfeðgum að halda áfram að stjórna Högum, þótt fyrirsjáanlega verði þar að afskrifa tugi milljarða af þeim skuldum, sem þeir stofnuðu til?
Ekki geta verið neinar efnislegar ástæður til þessara ákvarðana. Hér kann því að vera sakamál á ferðinni. Hinn sérstaki saksóknari í málum, sem tengjast bankahruninu, hlýtur að rannsaka, hvað olli því, að bankastjórar þessara tveggja banka skeyttu engu um reynsluna af Jóni Ásgeiri, dóminn yfir honum og ótal viðvaranir og afhentu honum þessi tvö mikilvægu fyrirtæki.
14.5.2010 | 14:41
„Stærsta bankarán Íslandssögunnar“
Mér er það minnisstætt haustið 2008, þegar við, sem þá sátum í bankaráði Seðlabankans, vorum kölluð á bankaráðsfund og okkur skýrt frá því, að íslenska ríkið hefði með milligöngu Seðlabankans gert kauptilboð í 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra. Tilboðinu fylgdi, að hlutir annarra hluthafa yrðu stórlækkaðir í verði. Glitnir hafði áður leitað til Seðlabankans um lán, en þessi orðið niðurstaðan. Þótti okkur þetta sögulegt.
Það þótti fleirum. Jón Ásgeir Jóhannesson, umsvifamesti hluthafinn, sagði í viðtali við blað sitt, Fréttablaðið, 30. september 2008: Þetta er stærsta bankarán Íslandssögunnar og augljóslega hluti af stærri átökum sem hafa ekki farið fram hjá neinum. Nú hafa menn náð ákveðnum hefndum og hljóta að vera ánægðir. Í því er mikil kaldhæðni fólgin, að hann átti við kauptilboð ríkisins.
Nú virðist stærsta bankarán Íslandssögunnar vissulega hafa verið framið í Glitni. En ræninginn var ekki íslenska ríkið, heldur Jón Ásgeir Jóhannesson og klíkan í kringum hann. Ég hef lesið stefnu slitanefndar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri og viðskiptafélögum hans, sem aðgengileg er á Netinu. Þetta er auðvitað ákæruskjal, en ekki dómur. Margt getur einnig gerst á langri leið, sérstaklega ef menn hafa efni á því að ráða harðskeytta lögfræðinga sér til varnar.
Eftir lestur þessa skjals er þó enginn vafi á því í mínum huga, hverjar sem lyktir málareksturs gegn Jóni Ásgeiri verða, að hann misnotaði stórlega ítök sín og áhrif í Glitni og gaf starfsfólki bankans hvað eftir annað rangar upplýsingar vísvitandi. Hann stofnaði sýndarfyrirtæki og gerði málamyndasamninga. Hann var ekki útrásarvíkingur, heldur pappírsvíkingur. Hann skapaði ekki gróða, heldur froðu.
Davíð Oddsson hefur lengi þurft að sitja undir því, að hann hataðist við Jón Ásgeir og klíkuna í kringum hann og misbeitti valdi sínu gegn þessu liði. Ég get fullyrt af löngum og miklum kynnum af Davíð, að ekkert er hæft í þessu, þótt Davíð skynjaði fyrr og betur en aðrir hættuna af þessum mönnum, varaði við þeim og vildi takmarka umsvif þeirra.
Sannleikurinn er hins vegar sá, að Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans misbeittu hinum stórkostlegu áhrifum, sem þeir höfðu um skeið á Íslandi, gegn Davíð. Þeir ráku heiftúðlega herferð gegn honum með aðstoð fjölda leigupenna, sumra beittra, annarra sljórra. Þeim tókst að koma því í kring, að daufheyrst var við viðvörunum Davíðs með alkunnum afleiðingum.
Nú segir Jón Ásgeir, að málshöfðun slitanefndar Glitnis og úrskurði breskra dómstóla um kyrrsetningu eigna hans megi allt rekja til Davíðs. Ef sá, sem svo mælir, er ekki vitstola, þá er hann að minnsta kosti rökþrota.
Eftir stendur: Ef einhver einn maður ber ábyrgð á því, að íslensku bankarnir stóðu berskjaldaðir, þegar lánsfjárkreppan skall á Íslandi haustið 2008, þá er hann Jón Ásgeir Jóhannesson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook
13.5.2010 | 17:59
Ósammála Sigga í Fons
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður (sem stundum er kallaður Siggi í Fons, af því að hann var stjórnarformaður Fons síðustu misserin fyrir hrun, þótt vinur hans, Pálmi Haraldsson, ætti fyrirtækið) hefur sent slitastjórn Glitnis bréf, þar sem hann mótmælir harðlega rannsóknargeggjun þeirri, sem ríði nú yfir landið.
Ég er sammála Sigga í Fons um það, að hvergi megi slaka á reglum réttarríkisins í málum, sem beinast að auðjöfrum þeim og útrásarvíkingum, sem hann er málflutningsmaður fyrir, þótt mér gangi frekar til umhyggja um réttarríkið en um launaumslagið.
Þess vegna ól ég eins og Siggi í Fons með mér efasemdir um, að gæsluvarðhald yfir Kaupþingsmönnum væri nauðsynlegt af þeim ástæðum, sem venjulega eru til þess úrræðis: til að afstýra því, að grunaðir menn spilli rannsóknargögnum eða geti sammælst um rangan framburð. Kaupþingsmenn hafa haft átján mánuði til að spilla gögnum eða sammælast um framburð.
Við Siggi í Fons erum sennilega sammála um, að andstætt sé skráðum og óskráðum reglum réttarríkisins að beita gæsluvarðhaldi í því skyni að knýja fram játningar, sem ella hefðu ekki verið gerðar. Því síður er eðlilegt að beita gæsluvarðhaldi til að sefa reiði almennings eins og Steingrímur J. Sigfússon lét aðspurður í ljós von um, að gerðist.
Einnig er óæskilegt, þegar skipulagðar eru einhvers konar sýningar, þar sem hugsanlegir sakamenn eru auðmýktir opinberlega, eða fjölmiðlum leyft á annan hátt að ráða ferðinni. Kennir þar kaldra ráða Evu Joly?
Ég tel hins vegar, ólíkt Sigga í Fons, að rannsaka þurfi öll viðskipti auðjöfranna og útrásarvíkinganna við bankana af fullri einurð, skoða hvern krók og kima. Sannleikurinn í málinu verður að koma í ljós. Það er ekki síst í hag þeim, sem saklausir reynast af lögbrotum. Þeir eru þá hreinsaðir af grun. Þeir, sem sekir reynast um lögbrot, eiga síðan að fá sinn dóm, hvorki harðari né vægari en tíðkast hefur. Tal Sigga í Fons um rannsóknargeggjun er því út í loftið.
Ég er hins vegar hræddur um, að dómstólar muni láta fjölmiðla og dyntótt almenningsálit hafa áhrif á sig. Í Baugsmálinu hafði höfuðpaurinn sjálfur, Jón Ásgeir Jóhannesson, fjölmiðlana og almenningsálitið með sér, svo að dómarnir yfir honum og lagsmönnum hans voru furðuvægir. Nú hafa auðjöfrar og útrásarvíkingar fjölmiðlana marga á móti sér og ekki síður almenningsálitið, svo að dómarnir yfir þeim gætu orðið miklu harðari en okkur myndi þykja eðlilegt nokkrum árum síðar, þegar ró hefði færst yfir. Hvorugt er gott.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook
12.5.2010 | 13:23
Tvær rímþrautir
Víst er byljótt. Hér er hann
Halldór Kiljan Laxness,
síst má dylja mætan mann,
meistara Vilhjálm pax, þess.
Vilhjálmur var í Reykjavík þeirrar tíðar stundum kallaður Villi pax, því að hann lauk ræðum síðan jafnan á orðunum Í Guðs friði. Tómas sagði raunar um hann, að honum væri sýnt um hinar ólíkustu skoðanir og gerði ekki nauðsynlega upp á milli þeirra.
Á dögunum rakst ég á aðra rímþraut. Hvað rímar á móti orðunum Boðn og Hveðn? Verkefnið er að botna vísuhelminginn:
Seint mun þverra Són og Boðn,
seint munu Danir vinna Hveðn.
Són og Boðn voru sem kunnugt er kerin með skáldamiðinum ásanna, og Hveðn er eyja í Eyrarsundi, sem Svíar telja sig eiga. Sveinbjörn Egilsson leysti þessa rímþraut svo á nítjándu öld með botninum:
Fyrr mun laxinn flýja úr Goðn,
og Finnum öllum sneiðast héðn.
Goðn er eyjan Gudenå á Jótlandi. En hvað er héðn? Orðið héðinn merkir skinnfeldur, svo að sennilega hefur skáldið smíðað sjálft orðið héðn fyrir skinnfeldi (í fleirtölu). Þetta orð er hins vegar ekki til í ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands. Merking síðasta vísuorðsins er því, að seint muni Finnar (sem við köllum nú Sama) hætta að geta veitt loðdýr, sem urmull er af á Norðurslóðum, og skorið feldi þeirra sér til fata.
Síðan hef ég rekist á aðra lausn þessarar rímþrautar, annan vísubotn, sem Karl Ísfeld setti saman um miðjan fjórða áratug:
Ekki minnkar Ásgeirs loðn,
olíublettir sjást á Héðn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.5.2010 kl. 03:04 | Slóð | Facebook