Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.6.2010 | 15:53
Enn um Ísraelsmenn og vændiskaupendur
Ég benti hér í gær á sjónarmið tveggja óvinsælla minnihlutahópa, sem eiga sér formælendur fáa, Ísraelsmanna og vændiskaupenda. Ég ætlaði ekki nauðsynlega að taka undir þessi sjónarmið, en taldi rétt að vekja athygli á þeim. Fjölmiðlar gera þeim lítil sem engin skil, ekki heldur þeir fjölmiðlar, sem á hvílir lagaskylda um óhlutdrægni (og ef til vill síst þeir).
En hér vil ég vitna í tvenn snjöll ummæli.
Önnur ummælin eiga vel við um Ísraelsmenn:
Cet animal est très méchant,
Quand on lattaque il se défend.
Þetta dýr er afar grimmt:
Það ver sig, þegar á það er ráðist.
Þetta er franskur söngtexti frá 1868 eftir ókunnan höfund.
Hin ummælin eiga vel við í umræðum um það, sem menn vilja leyfa eða að minnsta kosti þola án þess að þurfa nauðsynlega að vera hrifnir af því, en vændi er einmitt þeirrar tegundar. Þau eru eftir dr. Guðmund Magnússon, prófessor og háskólarektor:
Ég er bindindismaður fyrir sjálfan mig, en ekki fyrir aðra.
7.6.2010 | 00:58
Ísraelsmenn og vændiskaupendur
Þar eru menn frjálsir sem þeim er óhætt að afla sér óvinsælda. (Adlai Stevenson í ræðu í Detroit 7. október 1953.)
Ég skrifa pistla mína hér síður en svo til þess eins að ganga fram af mönnum, en ef ég tel mig hafa sterk rök fyrir máli mínu eða einhver sjónarmið fram að færa, sem vanrækt hafa verið og eru þó gild (jafnvel þótt aðeins sé á takmörkuðu sviði), þá er ég alls óhræddur, þótt einhverjir hneykslist á pistlum mínum, afflytji mál mitt eða reyni að hlæja mig niður. Hlátur er hvort sem er ekki rök.
Tveir hópar njóta bersýnilega ekki sannmælis í fjölmiðlum þessa dagana og raunar ekki þessi misserin. Er sú skoðun mín vitanlega óháð því, hvort ég hafi sjálfur samúð með þessum hópum eða ekki. (Ég hef þegar vikið á þessum vettvangi að þriðja hópnum, sem sumir vilja svipta öllum réttindum, bankamönnum, og ætla ekki að endurtaka það hér í bili.)
Annar þessara hópa er Ísraelsmenn. Af fréttum má ráða, að þeir ráðist af einskærri mannvonsku á hjálparskip á siglingu til Gaza-svæðisins. Lítt eða ekki er greint frá eftirfarandi staðreyndum, sem skipta þó höfuðmáli:
- Hryðjuverkasamtök Palestínu-Araba hafa um langt skeið stundað það að senda mannskæðar eldflaugar frá Gaza-svæðinu inn til Ísraels.
- Hergögn sín fengu hryðjuverkamennirnir sjóleiðis. Ísraelsmenn settu hafnbann á Gaza-svæðið til þess að reyna að stöðva þetta.
- Hjálparskipin sigla til Gaza, þótt stjórnendur þeirra viti vel af þessu hafnbanni og ástæðunum til þess. Ísraelsmenn hafa boðist til að koma sjálfir þeim hjálpargögnum, sem skipin flytja, á Gaza-svæðið. Því boði hefur verið hafnað.
- Augljós ástæða er til þess, að Ísraelsmenn vilja ekki, að hjálparskipin flytji vöru sína eftirlitslaust á Gaza-svæðið. Þeir óttast, að þar kunni að leynast með hergögn (þótt eflaust sé mestallur varningurinn nauðsynjavara fyrir hina hrjáðu íbúa).
Raunar mátti sjá á fréttamyndum, að ekki voru allir um borð í þessum hjálparskipum neinir sakleysingjar. Sumir þeirra virtust vera þaulæfðir vígamenn. Aðrir hafa eins og fyrri daginn óviðráðanlega löngun til að verða píslarvottar.
Hinn hópurinn, sem nýtur ekki sannmælis hér, sérstaklega ekki í fjölmiðlum, er vændiskaupendur. Mér er það óskiljanlegt, hvers vegna vændiskaup eru ólögleg á Íslandi. Hvar er glæpurinn? Hefur lögreglan ekki í nógu að snúast við það að verja okkur gegn þeim, sem vilja berja okkur, brjótast inn til okkar og hafa fé af okkur með blekkingum?
Þarf að bæta þessu verkefni á hana og dreifa þannig kröftum hennar? Aðalatriðið er þó það, að þessir menn gera öðrum ekki mein með kaupum sínum. Vitaskuld hljótum við öll að vera andvíg því, sem oft er nefnt, ef stúlkur eru neyddar til vændis gegn vilja sínum. En hlutverk lögreglunnar á þá að vera að koma í veg fyrir það og það eitt, ekki að ryðjast inn í svefnherbergi fólks og hafa afskipti af því, hvað það gerir þar hvert við annað.
Ef um er að ræða frjálsa og fullveðja einstaklinga, þá eiga þeir að fá að semja sín í milli um (nánast) allt það, sem þeir vilja, svo framarlega sem það bitnar ekki á öðrum.
(Ég setti smáfyrirvara, nánast, því að hugsanlegt er, að löggjafinn megi og eigi að banna sum kaup, til dæmis ef einhver vill selja sig í óafturkallanlegan þrældóm eða láta drepa sig gegn þóknun. Sérstök rök eru gegn slíkum kaupum. En vændi er allt annars eðlis, enda elsta atvinnugreinin, eins og stundum er sagt.)
Ef stúlkur vilja selja blíðu sína, þá eiga þær að mega það. Ef einhverjir vilja kaupa þessa þjónustu af þeim, þá eiga þeir að mega það.
Höfum við gleymt umburðarlyndiskröfunni? Ég er andvígur því, sem þú gerir, en ég berst fyrir rétti þínum til að gera það.
Ættum við ekki að rifja upp meginregluna um frjáls viðskipti, sem orðuð er fagurlega í Árna sögu biskups? Falslaus kaup skulu föst vera, þau er einskis manns rétti er hrundið í.
5.6.2010 | 12:55
Styrkir fyrirtækja til stjórnmálaflokka
Er eðlilegt, að fyrirtæki styrki stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn? Svarið hlýtur að fara eftir eðli hvers fyrirtækis. Ef það er í eigu einstaklings, þá er ekkert því til fyrirstöðu. Eigandinn fer með eigið fé, ekki annarra, og það er þáttur í almennum mannréttindum að eiga þess kost að afla hugmyndum brautargengis, meðal annars með fjárframlögum.
Málið vandast, ef fyrirtækið er almenningshlutafélag með mörgum hluthöfum. Stjórnendur slíks fyrirtækis fara ekki með eigið fé, heldur annarra. Þeir eru ráðnir til að reka fyrirtækið með sem mestum arði. (Hér á ég aðeins við venjuleg atvinnufyrirtæki, ekki líknar- eða mannúðarsamtök eða verkalýðsfélög.) Þann arð, sem þessum stjórnendum tekst að afla, eiga þeir undir venjulegum kringumstæðum að greiða út til hluthafanna, sem síðan ráðstafa því fé að eigin vild.
Hitt er annað mál, að leiða má rök að því, að venjulegu atvinnufyrirtæki sé í hag að vinna að sem hagstæðustu almennu umhverfi fyrir atvinnulífið. Útgjöld í því skyni séu jafneðlileg og útgjöld til kynningar eða áskriftargjöld að Samtökum atvinnulífsins eða Viðskiptaráðinu. Þess vegna kann að vera réttlætanlegt, að fyrirtæki styrki þá stjórnmálamenn og þá stjórnmálaflokka, sem hlynntir eru frjálsu atvinnulífi. Þegar stjórnendur almenningshlutafélags styrkja slíka aðila, eru þeir í raun að gæta hinna almennu hagsmuna hluthafanna af því, að umhverfið sé hagstætt fyrir atvinnulífið.
Þegar stjórnendur almenningshlutafélaga styrkja hins vegar stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, sem fjandsamlegir eru hinu frjálsa atvinnulífi, eru þeir að vinna gegn hagsmunum fyrirtækisins og með því hluthafanna. Þá gengur þeim eitthvað óeðlilegt til.
Þess vegna voru og eru styrkir fyrirtækja, stórra og smárra, til Sjálfstæðisflokksins eðlilegir, því að hann er einn flokka hlynntur frjálsu atvinnulífi, hagstæðu almennu umhverfi fyrir atvinnufyrirtæki. Á sama hátt voru og eru styrkir, sem stjórnendur almenningshlutafélaga veita vinstri flokkum og vinstri mönnum, óeðlilegir. Hið eina, sem vakir fyrir stjórnendum almenningshlutafélaga með slíkum styrkjum, er að kaupa einstaka menn eða flokka til einhvers, sem ekki er í samræmi við yfirlýsta vinstri stefnu þeirra.
Hvað getur það verið? Oftast hygg ég, að það sé að kaupa sig frá áreitni. Tveir atvinnurekendur sögðu mér á sinni tíð, að þeir hefðu báðir veitt Alþýðubandalaginu styrki í því skyni. Þótt forsvarsmenn þess flokks harðneituðu því jafnan, að þeir tækju við styrkjum frá fyrirtækjum, var það ósatt: Annar þessara atvinnurekenda sagði mér, að þáverandi formaður Alþýðubandalagsins hefði jafnvel sjálfur komið heim til sín og tekið við styrknum til flokksins í reiðufé. Ekki var um það talað, en gengið að því vísu, að Þjóðviljinn (þáverandi blað Alþýðubandalagsins, sem nú er dautt og lítt harmað) hlífði fyrirtæki hans í skrifum sínum.
Þótt styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismanna séu rökréttir, á sama hátt og þeir eru órökréttir til vinstri flokka og vinstri manna, er annað mál, að slíkir styrkir mega auðvitað ekki verða svo háir, að einstakir aðilar öðlist úrslitaáhrif, eignist menn með húð og hári.
Þess vegna voru ofurstyrkirnir til Sjálfstæðisflokksins (frá Landsbankanum og FL-Group) óeðlilegir, eins og allir styrkir allra fyrirtækja til Samfylkingarinnar voru óeðlilegir.
Þess vegna voru margra milljóna styrkir eins aðila (og þá tel ég til dæmis Baug, Fons og FL-Group einn aðila) til einstakra sjálfstæðismanna líka óeðlilegir, eins og allir styrkir allra fyrirtækja til einstakra samfylkingarmanna.
En hóflegir styrkir fyrirtækja til einstakra frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins (til dæmis ein milljón króna eða minna), sem ekki voru hátt hlutfall af heildarfjáröflun þessara frambjóðenda, voru ekki óeðlilegir, þótt auðvitað ættu stjórnmálamenn sjálfs sín vegna að fara varlega í þessum efnum.
Mér er ljóst, að þetta sjónarmið mitt mælist misjafnlega vel fyrir og áreiðanlega illa hjá hinum dómhörðu (en hörundssáru) álitsgjöfum vinstri manna, en þeir ættu þá að reyna að andmæla því með rökum í stað þess að hrópa það niður.
1.6.2010 | 16:28
Skilaboð til Jóhönnu
Ef þú hefur gengist undir hlutverk, sem þér er ofvaxið, er þér ekki aðeins vansi að því, heldur hefur þú einnig vanrækt hitt, sem þér hæfði.
Epiktet: Hver er sinnar gæfu smiður, XXXVII. kafli, 55. bls. Þýðandi Broddi Jóhannesson. Gríski spekingurinn Epiktet var sem kunnugt er uppi skömmu á eftir Kristi, um 50138.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook
31.5.2010 | 15:24
Sjálfstæðisflokkurinn hjarnar við
Annað eins áfall og bankahrunið var íslensku þjóðinni hlaut að hafa víðtæk stjórnmálaáhrif. Komu þau áhrif að sumu leyti fram í þingkosningunum vorið 2009, þegar Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð. Þeirra sá að öðru leyti stað í byggðakosningunum í gær, þegar vinstriflokkarnir tveir í ríkisstjórn biðu herfilegan ósigur, en Sjálfstæðisflokkurinn hjarnaði við, jafnframt því sem andófs- og jafnvel gamanframboð hlutu verulegt fylgi.
Þetta var vitaskuld enginn sérstakur sigur Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega þegar litið er á tapið í Reykjavík og á Akureyri. Ég er kunnugri í Reykjavík en á Akureyri og fullyrði, að tapið í höfuðborginni var þrátt fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra, en ekki vegna hennar. Hún bjargaði því, sem bjargað varð, eftir vandræðaganginn fyrstu tvö ár kjörtímabilsins.
En niðurstaðan var almennt skárri en sjálfstæðismenn óttuðust. Og sums staðar vann flokkurinn góða sigra, sérstaklega í Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ.
Sumir spekingar spá endalokum fjórflokksins. Það er fljótfærni. Ástæðan til þess, að kjósendur á Íslandi hafa í aðalatriðum skipt sér í fjóra flokka í áttatíu ár, er, að fjórar stjórnmálahugmyndir hafa átt hér djúpar rætur.
Ein hugmyndin er sú, sem kommúnistaflokkurinn var stofnaður um 1930, síðan Sósíalistaflokkurinn, þá Alþýðubandalagið og loks Vinstri hreyfingin grænt framboð. Hún er, að kapítalisminn sé svo óréttlátur, að ekki verði við unað. Róttækra aðgerða sé þörf, eigi íslenska þjóðin og raunar mannkyn allt að lifa af.
Önnur hugmyndin er sú, sem Alþýðuflokkurinn var stofnaður um 1916, en Samfylkingin er í meginatriðum rökrétt framhald hans. Hún er, að Íslendingar eigi samleið með öðrum norrænum þjóðum um lýðræði og mál- og hugsunarfrelsi, en einnig víðtæka tekjujöfnun á vegum hins opinbera.
Þriðja hugmyndin er sú, sem Framsóknarflokkurinn var stofnaður um 1916. Hún er, að sneiða beri fram hjá öfgum eins og óheftri samkeppni annars vegar og fullkominni sameign á framleiðslutækjunum hins vegar. Jafnframt beri að styðja með ráðum og dáð fornar atvinnugreinar þjóðarinnar og tryggja dreifða byggð í landinu.
Fjórða hugmyndin hefur átt hér dýpstar rætur, og hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið merkisberi hennar frá stofnun hans 1929, er hinir gömlu flokkar sjálfstæðisbaráttunnar runnu í raun saman. Hún er, að affarasælast sé að virkja ávinningsvonina í almannaþágu. Menn vinni mest og best, þegar þeir fái að njóta sjálfir ávaxta erfiðis síns, hugvits eða jafnvel heppni. Allir séu skeikulir og geri mistök, en þegar valdsmenn geri mistök, bitni þau ekki aðeins á þeim sjálfum, heldur venjulega öllum öðrum líka. Þess vegna beri að takmarka valdið.
Ég sé ekki, að andófsframboðin í Reykjavík og á Akureyri breyti miklu um þessar fjórar stjórnmálahugmyndir, þótt vissulega sé mikið fylgi þeirra sögulegt og raunar stórmerkilegt. Þessi framboð eru því líkleg til að verða skammlíf. Kjósendur munu uppgötva, að hinir nýkjörnu trúnaðarmenn þeirra eru hvorki betri né verri en hinir gömlu, þótt sennilega séu þeir óreyndari. Gamni dagsins fylgir alvara morgundagsins.
Úrslit kosninganna sýna, að sú stjórnmálahugmynd, sem ég kenni hér við Sjálfstæðisflokkinn (en er auðvitað röklega óháð honum), hefur síður en svo verið upprætt á Íslandi þrátt fyrir eindreginn vilja andstæðinga hennar, sérstaklega álitsgjafa hinna ríkisreknu fjölmiðla og Baugsmiðlanna. Um allt land í Vestmannaeyjum, á Ísafirði, í Reykjanesbæ, Árborg, Garðabæ og miklu víðar eru til menn, karlar og konur, sem trúa því, að frelsi einstaklinganna sé oftast heppilegra en forsjá hins opinbera, að verðlagning sé iðulega skynsamlegri en skipulagning, að sjálfstýring eigi víðar við en miðstýring.
30.5.2010 | 23:50
Hanna Birna bar af
Björn Bjarnason skrifar kvöldið fyrir kjördag:
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, bar af í umræðum fulltrúa flokkanna í sjónvarpsumræðunum í kvöld. Hún er hin eina í hópnum með burði til að gegna embætti borgarastjóra. Hafi hún þurft enn að sanna það eftir glæsilega forystu sína í borginni undanfarna mánuði, tókst henni það í kvöld.
Axel Jóhann Axelsson skrifar:
Forystumenn flokkanna sátu fyrir svörum á Stöð2 í lok frétta þar og eru nú í Kastljósi sjónvarpsins og hefur Hanna Birna, borgarstjóri, borið höfuð og herðar yfir meðframbjóðendur sína, sem í þáttunum hafa komið fram. Hanna Birna hefur sýnt með óyggjandi hætti hvers vegna fólki er óhætt að treysta henni og D-listanum fyrir stjórn borgarinnar á næsta kjörtímabili, enda hefur stjórn borgarinnar gengið ótrúlega vel síðustu tvö ár, eftir að Hanna Birna tók við borgarstjórastólnum og hefur tekist að sameina bæði meiri- og minnihluta til góðra verka í þeirri erfiðu stöðu sem þjóðfélagið hefur verið í eftir hrun.
Jón Magnússon skrifar:
Hanna Birna Kristjánsdóttir sýndi það og sannaði í umræðum bæði á Stöð 2 og í Kastljósi að hún er langframbærilegust þeirra sem leiða framboð í Reykjavík við þessar borgarstjórnarkosningar. Raunar gat ég ekki séð að nokkur annar af oddvitum flokkanna sem bjóða fram í Reykjavík komist með tærnar þar sem hún hefur hælana.
Ég er því miður erlendis, svo að ég gat ekki horft á þessa þætti, en þessar umsagnir koma mér ekki á óvart. Hanna Birna Kristjánsdóttir ber af fulltrúum annarra framboða eins og gull af eiri.
29.5.2010 | 12:02
Gluggi eða spegill?
Mér er minnisstætt, þegar einn merkasti lærimeistari minn, James M. Buchanan, prófessor í hagfræði (sem hlaut Nóbelsverðlaunin 1986), líkti vísindunum við hús með mörgum gluggum á, en líkinguna hafði hann frá Nietzsche, held ég. Þessir gluggar væru misstórir, sagði Buchanan, og frá þeim sæist misvel.
Þessi líking er góð. Með vísindunum horfum við út um glugga, og stundum sjáum við vel þann veruleika, sem við erum að skoða þaðan.
En til eru þeir menn, sem kenna sig við vísindi, en horfa ekki út um glugga, heldur inn í spegil. Þeir hafa bitið í sig einhverjar hugmyndir, sem eru með því orðnar að grillum í kollinum á þeim, og síðan nota þeir hvert tækifæri sem gefst til að endurtaka þessar grillur. Þeir horfa í raun og veru ekki á veruleikann út um gluggann, heldur á sjálfa sig í spegli.
Því miður er þessu svo farið um hagfræðinginn Jón Steinsson. Ungur sat hann við fótskör Þorvaldar Gylfasonar og nam af honum, að sósíalismi gæti hentað í sjávarútvegi, þótt reynslan hefði hrakið hann alls staðar annars staðar. Við þessa grillu hefur Jón ekki losnað. Hefur hann skrifað ófáar greinar um þetta.
Nú hafa komið út tvær vandaðar skýrslur frá tveimur íslenskum háskólum, sem báðar sýna, að fyrningarleiðin svokallaða (sem er ekkert annað en hinn gamli auðlindaskattur sósíalista í nýjum búningi) leiði til öngþveitis og gjaldþrota í sjávarútvegi, en hann er líklega eina von okkar Íslendinga eftir bankahrunið.
Vinstristjórninni líkaði ekki þessi niðurstaða, svo að hún fékk Jón Steinsson til að meta skýrslurnar. Og hann notar tækifærið til að endurtaka grillur sínar. Þessar tvær skýrslur gáfu góða mynd af veruleikanum í sjávarútvegi. En Jón Steinsson horfði ekki á þennan veruleika út um glugga vísindanna, heldur á sjálfan sig í spegli inni fyrir.
Ekki spillir fyrir, að hann kemur sér í mjúkinn hjá núverandi valdhöfum og fær áreiðanlega rausnarlega greitt fyrir matið fyrir að horfa á sjálfan sig í spegli.
27.5.2010 | 11:58
Furðuleg auglýsing frá Háskólaútgáfunni
Í tölvupósti mínum í morgun gat að líta auglýsingu frá Háskólaútgáfunni um nýja bók, Eilífðarvélina. Uppgjör við nýfrjálshyggjuna. Segir þar, að markmið bókarinnar sé meðal annars að gera lesendum kleift að draga sínar eigin ályktanir um samspil nýfrjálshygggju við aðrar orsakir íslenska bankahrunsins. Ritstjóri bókarinnar er Kolbeinn Stefánsson (sonur Stefáns Ólafssonar félagsfræðiprófessors).
Orðalagið í auglýsingunni sætir furðu. Orðið nýfrjálshyggja er með baráttublæ, sem ekki fer vel í bók frá háskólaútgáfu. Þetta er nafn, sem óvinir frjálshyggjunnar hafa um hana. Frjálshyggja er ekkert annað en sú hefðbundna stjórnmálakenning, sem hvílir á tveimur meginhugmyndum: 1) Nauðsynlegt er að takmarka valdið og dreifa því, eins og John Locke leiddi rök að, ella verður það misnotað. 2) Og regla getur komist á í atvinnulífinu fyrir tilstilli frjálsrar verðmyndunar í eðlilegri samkeppni, án þess að nokkur einn maður komi slíkri reglu á, eins og Adam Smith sýndi fram á.
Kenning og krafa frjálshyggjunnar er því einföld: Takmörkun og dreifing ríkisvaldsins annars vegar og sjálfsprottin sjálfstýring og samstilling, þar sem við verður komið, hins vegar.
Þessi hefðbundna stjórnmálahugmynd, sem framkvæmd var að nokkru leyti í byltingunni blóðlausu í Bretlandi 1688 og miklu fremur í bandarísku byltingunni 1776, gekk í endurnýjungu lífdaga á seinni hluta tuttugustu aldar, eftir að reynslan af víðtækum ríkisafskiptum hafði sannfært marga um, að af tveimur ófullkomnum kostum til að leysa úr málum okkar mannanna væri verðlagning oft skárri en skipulagning, markaðsviðskipti ósjaldan skárri en ríkisafskipti. Mæltu þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, Robert Nozick og James M. Buchanan fyrir þessari hugmynd af mestum andlegum þrótti.
Mér er fyrirmunað að sjá, hvernig Háskólaútgáfan getur fullyrt, eins og hún gerir í þessari auglýsingu, að nýfrjálshyggjan sé ein af orsökum íslenska bankahrunsins. Var íslenska hagkerfið frjálsara en í grannríkjunum? Nei. Breytingarnar, sem hér voru gerðar 19912004 og heppnuðust mjög vel, eins og ég sýni fram á í nýútkominni bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, voru í rauninni til að færa hagkerfið í svipað horf og í grannríkjunum. Þetta sést best á því, að Ísland var 10. frjálsasta ríki heims í atvinnumálum árið 2004. Lentu þær níu þjóðir, sem bjuggu við frjálsara atvinnulíf en Ísland, í meiri vandræðum?
Yfir heiminn allan reið haustið 2007 lánsfjárkreppa, sem færðist í aukana haustið 2008 og felldi íslenska bankakerfið. Ástæðan til þess, að íslensku bankarnir hrundu, en ekki bankar grannríkjanna, var, að íslenska ríkið hafði ekki bolmagn til að halda þeim uppi. Íslenska ríkinu var neitað um fyrirgreiðslu í Evrópu, og Bretar bættu gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum gegn íslensku bönkunum. Bönkunum sjálfum var vissulega stjórnað af gáleysi, og eftirlit með þeim var ekki eins nákvæmt og æskilegt hefði verið. En sömu reglur giltu hins vegar um þá og aðra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Hvar kom nýfrjálshyggja þar við sögu? Er það henni að kenna, að menn eru ófullkomnir og mistækir? Að breskir jafnaðarmenn misnotuðu hryðjuverkalögin? Að sumir kapítalistar fara ekki eftir leikreglum kapítalismans, eins og þeir Locke og Smith skilgreindu þær?
Háskóli Íslands hefur haldið marga fundi og ráðstefnur um bankahrunið. Ég er oft sakaður um að vera einn af þeim, sem beri ábyrgð á hruninu. Mér hefur ekki verið boðið að svara fyrir mig á einum einasta þessara funda. Ég skora því á höfunda þessarar bókar í rökræður um frjálshyggju og kreppur, þar á meðal bankahrunið íslenska, á hausti komanda, þegar skólar hefja aftur starfsemi sína. Ég er reiðubúinn til að mæta þeim, hvar sem er, í Háskóla Íslands, í framhaldsskólum, í útvarpsþáttum eða í sjónvarpssal.
26.5.2010 | 14:16
Hvað skýrir hatrið á Davíð?
Ég hef stundum velt því fyrir mér, hvað skýri hatrið á Davíð Oddssyni, sem var orðið svo sjúklegt skömmu fyrir bankahrunið íslenska haustið 2008, að hið eina, sem komst að hjá ráðherrum Samfylkingarinnar (og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur), þegar Davíð gerði sér ferð á ríkisstjórnarfund í því skyni að vara við yfirvofandi hruni, var, að hann hefði farið út fyrir mörk embættis síns!
Ein skýringin blasir auðvitað við. Rógsvél þeirra, sem réðu yfir gullinu, en það kölluðu fornmenn rógmálm með nokkrum sanni, malaði sí og æ. Baugsfeðgar ásamt þeim Pálma og Sigga í Fons og viðskiptafélögum þeirra siguðu leigupennum eins og Ólafi Arnarsyni, Hallgrími Helgasyni, Guðmundi Andra Thorssyni og Þorvaldi Gylfasyni á Davíð. Þótt þessir pennar væru vissulega misjafnlega beittir, hafði þetta vitaskuld áhrif. Dropinn holar steininn.
En ég rakst á grúski mínu á tvær tilvitnanir, sem sýna, að þetta er auðvitað ekkert nýtt. Þýska skáldið Gottfried August Bürger orti þegar árið 1786:
Wenn dich die Lästerzunge sticht,
So laß dir dies zum Troste sagen:
Die schlechtsten Früchte sind es nicht,
Woran die Wespen nagen.
Þetta íslenskaði Hannes Hafstein svo (en margir halda, að hann hafi raunar frumort þetta):
Taktuekki níðróginn nærri þér.
Það næsta gömul er saga,
að lakasti gróðurinn ekki það er,
sem ormarnir helst vilja naga.
Og Björn M. Ólsen, einhver færasti vísindamaður okkar á öndverðri tuttugustu öld og fyrsti rektor Háskóla Íslands, sagði í Óðni 2005:
Enginn maður hefur verið lastaður eins mikið og Hannes Hafstein, á engan mann hefur jafnmiklu logið verið. Og það er ekki svo óeðlilegt, því að öfundin er skuggi mikilmennskunnar, en rógurinn eltir aftur öfundina eins og skuggi.
Þetta eru orð að sönnu og eiga enn við: Öfundin er skuggi mikilmennskunnar, en rógurinn eltir aftur öfundina eins og skuggi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook
25.5.2010 | 20:06
Bréf frá Laxness-fjölskyldunni
Ég bloggaði hér um daginn, að ég hefði borið gæfu til að hafa Helgu Kress sem samstarfskonu í Háskóla Íslands. Hún hefði lagst í nákvæman prófarkalestur á bók minni, Halldór, sem var fyrsta bindi ævisögu Nóbelskáldsins, Halldórs Kiljans Laxness, en hana gaf ég út árin 20032005 í þremur bindum. Hafi ég verið haldinn einhverju oflæti þá (eins og bankamennirnir okkar síðar), þá hafi Helga hrist það úr mér, svo að um munaði.
Nú hefur mér borist tölvuskeyti með athugasemdum við frásögn mína frá fjölskyldu Halldórs K. Laxness, sem mér er auðvitað skylt að birta:
Af gefnu tilefni.
Helga Kress var aldrei ráðin af skyldmennum Halldórs Laxness til þess að gera úttekt á bókinni Halldór, né heldur af lögmanni fjölskyldunar. Hún hefur fyrir bragðið aldrei þegið laun frá fjölskyldunni. Ekki nóg með það, heldur hafði hún aldrei aðgang umfram aðra að skjölum HL Lokunin tók gildi eftir að fréttist að þú værir búinn að skila inn handriti til forleggjara og ný gögn, óflokkuð, höfðu verið lögð inn. Bréfasafnið, að okkar mati, var í ólestri og eftirlitslaus ljósritun ekki vitnisburður um góða umgengni. Þá keyrði um þverbak þegar starfsmaður Þjóðarbókhlöðunnar tók ófrjálsri hendi bréfasafn Auðar Laxness, en þau bréf hafa aldrei verið opin almenningi eða gefin safni til varðveislu.
Kveðja,
Halldór Þorgeirsson
Guðný Halldórsdóttir
Ég sendi höfundum skeytisins svar um hæl, sem ég leyfi mér líka að birta:
Sæl. Þakka ykkur tilskrifið. Ég er sammála ykkur um, að hafa þurfi það, sem sannara reynist.
1) Gallinn við frásögn ykkar af störfum Helgu Kress er sá, að annað kom fram í viðtölum við Guðnýju Halldórsdóttur í ársbyrjun 2004. Í Morgunblaðinu 1. apríl 2004 segir í greininni Undirbúa málsókn gegn Hannesi Hólmsteini:Helga Kress, prófessor við Háskóla Íslands, hefur unnið rúmlega 200 blaðsíðna greinargerð um bók Hannesar og gert samanburð á texta hennar við verk Halldórs og fjölmargra annarra höfunda. Að sögn Guðnýjar vann Helga skýrsluna m.a. fyrir afkomendur Halldórs Laxness. [Undirstrikun mín.]
2) Gallinn við frásögn ykkar um bréfasafn Laxness var, að því var lokað í september 2003, talsvert áður en ég lauk handriti mínu og skilaði inn til bókaútgefanda (en það var í nóvember). Í frétt í Morgunblaðinu 28. september 2003, sem er að mestu leyti fengin frá fjölskyldu Halldórs Laxness, kom allt annað fram:
Jafnframt hafi verið tekið fram að Halldór Guðmundsson sem vinnur að ritun ævisögu Halldórs og Helga Kress bókmenntafræðingur hefðu slíkt leyfi [til að skoða skjölin í hinu lokaða safni; undirstrikun mín].
Frásagnir ykkar í þessu tölvuskeyti stangast því á við það, sem kom fram frá ykkur árin 2003 og 2004.
Raunar er rétt að minna á það, að ég reyndi eins og ég gat að hafa gott samstarf við ykkur í fjölskyldu Laxness. Ég bað útgefanda minn sérstaklega að sýna ykkur handritið, svo að þið gætuð gert athugasemdir. Samkvæmt framburði Bjarna Þorsteinssonar [starfsmanns þáverandi útgefanda míns] fyrir héraðsdómi notuðuð þið tvo daga í það (þótt sá framburður stangaðist á við framburð Guðnýjar Halldórsdóttur fyrir héraðsdómi, sem sagðist aðeins hafa staldrað við stutta stund á skrifstofu útgefandans.)
Ég kannast sjálfur ekki við þetta mál, sem þið nefnið um bréfasafn Auðar Laxness, þótt ég hafi haft óljósar spurnir af einhverjum ágreiningi Guðnýjar Halldórsdóttur og Sigrúnar Klöru Hannesdóttur landsbókavarðar. Það mál er mér óviðkomandi. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð þetta bréfasafn Auðar.
Ég er auðvitað sammála ykkur um, að fara verður varlega með söfn eins og bréfasafn Halldórs K. Laxness. En ég sá ekki betur en það væri í góðu lagi, þegar ég hafði aðgang að því og notaði það sumarið 2003.
Að lokum vil ég gjarnan mælast til þess, að við troðum ekki neinar illsakir. Þessu máli er lokið af minni hálfu. Þótt það kæmi mér mjög á óvart, að ég var fundinn sekur um að brjóta höfundarrétt á Halldóri Laxness, þótti mér það miður og ætlaði mér vitanlega aldrei að gera það.
Virðing mín og aðdáun á Halldóri Laxness jókst við að skrifa um hann, þótt ég skirrðist hvergi við að draga undan skuggahliðar hans, sem voru auðvitað einnig miklar, enda er engin sól án skugga, og ég aflaði mér ómetanlegrar þekkingar á samtíð hans, sem ég bý að í næstu verkum mínum, svo að þetta var í senn ánægjulegt og gagnlegt verk.
Ég skal koma athugasemdum ykkar á framfæri á bloggsíðu minni.
Bestu kveðjur, HHG
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook