Ósómi á ábyrgð Arion banka

Arion banki hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna gagnrýni á fréttavefnum amx.is á það, að bankinn hefur ekki tekið Haga (Hagkaup og Bónus) af Baugsfeðgum, þótt þeir séu engir borgunarmenn fyrir þeim fimmtíu milljarða skuldum, sem þeir söfnuðu hjá Arion banka í nafni Haga og skyldra fyrirtækja, og hafi leikið hann og aðra íslenska banka grátt, eins og best sést á skýrslu Kroll-rannsóknarfyrirtækisins um fjárglæfra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (sem notuð er í stefnu þrotabús Glitnis á hendur honum).

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er þessi yfirlýsing Arion banka gert að umtalsefni:

AMX.is birtir í gær athugasemd frá Arion banka þar sem bankinn heldur því fram að honum sé, vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið, „óheimilt að hlutast til um daglegan rekstur Haga“ og að bankinn hafi skipað félaginu „óháða stjórn“ fyrr á þessu ári. Arion banki tryggði að stjórn Haga yrði óháð með því að gera Jóhannes Jónsson formann hennar.

Stjórnin hefur síðan sýnt hve óháð hún er með því að halda áfram nákvæmlega sömu misnotkun og fyrri stjórn. Stjórn Haga heldur áfram að dæla fé inn í fjölmiðlafyrirtækið 365 með óhóflegum auglýsingum. Það fyrirtæki er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Sá mun vera sonur hins óháða stjórnarformanns. Arion banki heldur þess vegna áfram að leyfa gegndarlausa misnotkun á Högum til að þjóna ákveðnum auðmönnum.

Rökin um að Samkeppniseftirlitið hindri bankann í að stöðva misnotkunina standast ekki. Í viðtali við Morgunblaðið í lok apríl sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að bankinn gæti auðvitað svarað fyrir það sem hann bæri ábyrgð á, því að hann væri eigandi fyrirtækisins. Í þessu felst auðvitað að hann getur komið í veg fyrir að stjórn Haga leyfi misnotkun. Þetta er kjarni málsins, en nokkuð sem bankinn reynir að fela. Hann er eigandi Haga og ber ábyrgð. Misnotkunin og spillingin sem þar viðgengst er á hans ábyrgð.

Ég tek undir með Morgunblaðinu. Ótrúlegt er, að núverandi stjórnendur Arion banka skuli ætla sér að axla ábyrgð á ósómanum í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson. Hvenær linnir þessum ósköpum? Hvenær sjá mennirnir að sér? Vilja þeir lenda í svipuðum leiðindamálum fyrir dómstólum og forverar þeirra í bankanum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband