Oflæti

Þegar bankahrunið íslenska verður gert upp, gæti ég best trúað því, að dómurinn yfir mörgum bankamönnunum yrði ekki sá, að þeir væru glæpamenn, heldur syndarar. Og syndin, sem þeir urðu sekir um, var ekki höfuðsyndin dramb. Ég þekki marga þeirra, og þeir eru ekki drambsamir, heldur alþýðlegir menn og vingjarnlegir. Synd þeirra var minni. Hún var oflæti. Þeir héldu, að þeir gætu allt.

Í bókmenntum okkar og sögu hefur oft verið gert gys að oflátungum. Til dæmis hefur óspart verið hlegið að Ásmundi skáldi á Skúfsstöðum, sem fylgdi Þjóðverjum að málum í seinni heimsstyrjöld og sagði drýgindalega: „Mínir menn eru allir gráir fyrir járnum.“ (Steinn Steinarr gerði um hann örstutta sögu og bráðskemmtilega.)

Einnig hefur iðulega verið brosað að Gísla Sveinssyni, sem var forseti sameinaðs þings, þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944, en þá um kvöldið sagði hann við Vestur-Íslendinginn Valdimar Björnsson: „Ja, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýð­veldi á Íslandi.“ (Allir þekkja símskeytið, sem Pétur Benediktsson sendi heim í utanríkisráðuneytið, þegar vitnaðist, að Gísli yrði sendiherra í Noregi: „Stendur til að stofna lýðveldi í Noregi?“)

bilde_992460.jpgÉg hef samúð með íslensku bankamönnunum, því að sjálfur hef ég áreiðanlega syndgað eins og þeir, gerst sekur um oflæti, haldið, að ég gæti allt. En ólíkt þeim átti ég starfssystur á mínum vinnustað, sem hristi allt oflæti úr mér. Það var Helga Kress, sem tók að sér fyrir Laxness-fjölskylduna að lesa fyrsta bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness, sem ég gaf út 2003, vandlega yfir og gagnrýndi það harðlega, meðal annars í langri ritgerð í Sögu.

Helga sannaði þá eftirminnilega orð hins kunna vísindamanns George von Bekesy, sem hlaut Nóbelsverðlaun í læknisfræði 1961:

 

Eitt ráð til að fækka villum er að eiga vini, sem reiðu­búnir eru að verja nægum tíma til að gagnrýna fyrst vand­lega aðferðir í tilraunum og síðan niður­stöð­ur þeirra. Enn betra er að eiga óvini. Þeir eru boðnir og búnir að nota ómældan tíma og hugar­orku til að finna villur, stórar og smár, og það endur­gjalds­laust. Vand­inn er sá, að mjög mikilhæfir óvinir eru ekki á ­hverju strái. Þeir eru flestir miðlungsmenn. Ann­ar galli á óvinum er, að þeir breytast stundum í vini, og þá dofn­ar jafnan áhuginn. Þannig missti ég þrjá bestu óvini mína. Allir þurfa nokkra góða óvini, ekki aðeins fræði­­­menn!

 

Ég verð Helgu Kress ævinlega þakklátur fyrir þá alúð, sem hún lagði í prófarkalestur fyrir mig, þótt auðvitað hefði verið betra að fá athugasemdir hennar, áður en bók mín kom út, ekki eftir það. Hefur hún áreiðanlega unnið fyrir hverri einustu krónu, sem Laxness-fjölskyldan greiddi henni fyrir vikið.

En ógæfa íslensku bankamannanna var, að þeir höfðu ólíkt mér enga Helgu Kress til að beina sér á réttu brautina.

(Mynd af Helgu: Vilhelm Gunnarsson.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband