Undarleg aðgerð Seðlabankans

Mér er ekki ljóst, hvers vegna Seðlabankinn íslenski notar verulegan hluta af gjaldeyrisforða sínum til þess að kaupa af Seðlabanka Evrópu í Lúxemborg (ECL) verðbréf í krónum upp á 120 milljarða króna. Hvers vegna lætur Seðlabankinn ekki útlendinga sitja uppi með eigin gerðir?

Við skuldum þessum aðilum ekkert siðferðilega, því að þeir komu okkur ekki til hjálpar síðustu vikur og mánuði fyrir hrun, og átti það eflaust sinn þátt í því, þótt margt annað hafi þar auðvitað einnig valdið.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri gaf þá skýringu á aðgerð Seðlabankans, að stjórnendum Seðlabanka Evrópu hefði fundist „nóg um hversu há lán íslensku bankarnir höfðu fengið hjá bankanum. Þeir voru því stífir í samskiptum við íslensk stjórnvöld.“

Andvirði 120 milljarða íslenskra króna var því tekið af hinum dýrmæta gjaldeyrisforða okkar (eða lánum, sem tekin höfðu verið til þess að efla hann) í því skyni einu að blíðka stjórnendur Seðlabanka Evrópu!

Már fetar í fótspor annars gamals kommúnista, Svavars Gestssonar, sem virtist samþykkja allar kröfur Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, af því að þeir voru „stífir í samskiptum við íslensk stjórnvöld“. Báðir virðast frekar vilja blíðka útlendinga en gæta hagsmuna íslenskra skattgreiðenda.

Ég man þá tíð, þegar ég átti í kappræðum í menntaskólanum á Laugarvatni veturinn 1976–1977 við Má Guðmundsson, en hann var þá í þeirri deild kommúnistahreyfingarinnar íslensku, sem kennd er við Trotskíj. Ég man einnig, þegar ég átti í kappræðum í Stapa vorið 1978 við Svavar Gestsson, en hann var þá fulltrúi hins Moskvuholla flokkseigendafélags Alþýðubandalagsins.

Báðir skömmuðu mig og aðra stuðningsmenn vestræns varnarsamstarfs þá blóðugum skömmum fyrir undirlægjuhátt við Bandaríkjamenn. Ég svaraði fullum hálsi, að Bandaríkjamenn væru vinir okkar og bandamenn og hefðu reynst okkur vel. Þeir hefðu veitt okkur myndarlega fjárhagsaðstoð eftir stríð (Marshall-aðstoðina) og haldið uppi vörnum landsins okkur að kostnaðarlausu.

Þau skjöl, sem birst hafa hin síðari ár um mörkun utanríkisstefnunnar árin 1941–1951, sýna einnig, hversu vel og skörulega íslenskir ráðamenn héldu á málum gagnvart stórveldunum, ekki síst þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson. Þeir voru engin Bandaríkjaþý, heldur öflugir talsmenn og fulltrúar lítillar þjóðar, sem gættu hagsmuna hennar af festu og gætni.

Nú hefur ábyrgð skyndilega verið lögð á herðar þessum gömlu mælskumönnum, Má og Svavari, sem froðufelldu yfir mér á áttunda áratug síðustu aldar. Og þá virðast þeir kikna í hnjáliðum af því einu að heyra erlendar tungur talaðar. Þeir flýta sér að reyna að geðjast hortugum útlendingum (arftökum Hallvarðar gullskór og Loðins Lepps), svo að þeir verði ekki „stífir í samskiptum við íslensk stjórnvöld“.

Kostnaðinn bera íslenskir skattgreiðendur. Þeirra bíður sama hlutskipti og dýranna í lok sögu Orwells, Dýrabæ. Þeir fá að híma í kuldanum úti og horfa inn um gluggann á gömlu íslensku kommúnistana skála í kampavíni við drambsama fulltrúa Evrópusambandsins, uns þeir greina ekki lengur neinn mun á hinum íslensku kommúnistum og útlendingunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband