Sannleikurinn um bankahrunið

Þegar menn bera vitni fyrir dómi, þurfa þeir að sverja eið (eða vinna heit) að því að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann. En alkunna er af rannsóknum sálfræðinga, hversu skeikular frásagnir slíkra vitna geta verið. Sannleikurinn er flóknari og margbrotnari en svo, að hann komist fyrir í kollinum á einum manni.

Eitt frægasta dæmið um það, hversu erfitt getur verið að finnakarlpopper.jpg allan sannleikann, jafnvel í einföldu máli, er „eldskörungur Wittgensteins“. Tildrög þess voru, að hinum stórmerka heimspekingi Karli R. Popper (sem mér auðnaðist eitt sinn að dvelja hjá í heilan dag og spyrja spjörunum úr) var boðið að flytja fyrirlestur í Cambridge.

Fyrirlesturinn var haldinn í herbergi heimspekingsins Richards B. Braithwaites á Kóngsgarði (King’s College) í Cambridge 25. október 1946. Á meðal áheyrenda var annar frægur heimspekingur, Ludwig Wittgenstein, sem var þá orðinn þeirrar skoðunar, að ekki væru til raunverulegar heimspekilegar gátur eða reglur, heldur aðeins hugsanaskekkjur, sem þyrfti að leiðrétta.

Popper taldi hins vegar, að til væru raunverulegar heimspekilegar gátur, og færði fyrir því rök í lestri sínum. Á meðan sat Wittgenstein við arininn í herberginu og fitlaði eins og annars hugar við eldskörung, sem þar var. Að fyrirlestrinum loknum spratt Wittgenstein á fætur og sagði, um leið og hann otaði eldskörungnum að Popper: „Nefndu dæmi um siðferðisreglu!“ Popper svaraði að bragði: „Bannað að ota eldskörungi að gestafyrirlesurum.“ Þá grýtti Wittgenstein eldskörungnum í gólfið, rauk út úr herberginu og skellti á eftir sér.

Svo sagðist Popper frá. En sumir þeir heimspekingar, sem staddir voru á staðnum, höfðu aðra sögu að segja. Tveir blaðamenn lögðust í rannsókn á málinu og skrifuðu bráðskemmtilega bók um það, Wittgenstein’s Poker. Komust þeir að þeirri niðurstöðu, að engin áreiðanleg eða óyggjandi frásögn væri til af þessum atburði. En kaldhæðnin er sú, að tugir heimspekinga, sem kenndu nær allir þekkingarfræði í háskólum, gátu ekki einu sinni orðið sæmilega sammála um, hvað hefði gerst inni í þessu herbergi á innan við einni klukkustund.

Ég held, að sannleikurinn um bankahrunið sé ekki allur kominn fram, þótt vissulega séu skýrslur Rannsóknarnefndar Alþingis og Kroll-rannsóknarfyrlrtækisins afar þarfar og fróðlegar. Með því er ég ekki að afsaka íslensku fjárglæframennina, sem létu bersýnilega greipar sópa um bankana, heldur benda á, að margar aðrar hliðar eru á málinu, sem ekki má líta fram hjá.

Stundum tala álitsgjafar hér til dæmis nánast eins og Ísland hafi eitt lent í vandræðum. En haft er eftir seðlabankastjóra Evrópu, Jean-Claude Trichet, í dag, að lánsfjárkreppan frá 2007 sé sennilega hin versta frá því í fyrri heimsstyrjöld. Hina alþjóðlegu vídd vantar í umræður á Íslandi, þar sem margir hafa hugann við það eitt að finna innlenda sökudólga.

Ekki má heldur gleyma hlut Breta, sem beitti hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og neituðu hinum breska banka Kaupþings um sömu fyrirgreiðslu og þeir veittu öðrum fjármálafyrirtækjum. Og halda menn, að einhverjir englar hafi stjórnað öllum þeim bresku fyrirtækjum, sem fyrirgreiðslu fengu? Ég er ekki viss um, að allir þyldu þeir rækilega rannsókn.

Á sannleikanum eru ekki aðeins margar hliðar, heldur er hann líka í ýmsum stigum eða blæbrigðum, ekki aðeins svörtum lit og hvítum. Ég trúi því til dæmis ekki, að allir íslenskir bankamenn hafi verið í senn aular og þrjótar. Þeir voru auðvitað misjafnir, eins og aðrir, en það fólk, sem ég kynntist í íslenskum bönkum fyrir hrun, var langflest duglegt, greint, hjálpsamt og samviskusamt.

Íslendingar eru lítil þjóð, sem þarf á öllu sínu að halda. Hún hefur ekki efni á að útskúfa fjölmennum hópi hæfileikamanna úr röðum sínum. Skóggangur lagðist niður fyrir mörgum öldum. Þjóðin á ekki heldur að hlusta á þær vanmetakindur, sem skríða nú fram úr skjóli sínu og jarma, margar raunar enn nafnlausar, og ala hér á öfund og úlfúð.

Sannleikann á vitaskuld að leiða í ljós um íslenska bankahrunið, eftir því sem unnt er. Enginn vafi er á því, að fámennur hópur fjárglæframanna með Jón Ásgeir Jóhannesson í broddi fylkingar þverbraut allar reglur og skildi Ísland eftir berskjaldað. En jafnvel sá hópur stefndi ekki að bankahruninu og vildi það ekki, svo að ekki sé talað um aðra og betri menn, sem urðu í þessu máli leiksoppar örlaganna. Og á sama hátt og rónarnir mega ekki koma óorði á brennivínið, má Jón Ásgeir ekki koma óorði á kapítalistana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband