Hrunadans og horfið fé

Tvö meginatriðin í gagnrýni Samfylkingarmanna á Davíð Oddsson seðlabankastjóra voru, að hann hefði talað óvarlega í frægu Kastljóssviðtali 7. október 2008 og að hann hefði í aðdraganda bankahrunsins lánað viðskiptabönkunum án fullnægjandi veða.

gauti_eggertsson_992744.jpgTveir ungir og hrokafullir hagfræðingar, Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson, hafa helst látið að sér kveða í umræðum um veðhæfi þeirra bréfa, sem Seðlabankinn veitti lán út á í aðdraganda hrunsins, Gauti, væntanlega af því að hann er bróðir varaformanns Samfylkingarinnar, Jón, líklega af því að hann vill koma sér í mjúkinn hjá núverandi valdhöfum.

jonsteinsson_992745.jpgFróðlegt verður að fylgjast með viðbrögðum þeirra Gauta og Jóns við aðgerðum Seðlabanka Evrópu, sem kaupir nú skuldabréf af gríska ríkinu eins og hann eigi lífið að leysa og hefur fellt niður fyrri reglur sínar um veðhæfi slíkra bréfa. Sennilega hafa þeir Gauti og Jón aldrei heyrt af því, sem Shakespeare kemur frægum orðum að: „Háskalegt mein með háskafullum læknisdómi læknast  eða engum.“

Hvað sem því líður, tekur Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu ekki undir þessa gagnrýni í niðurstöðum sínum. Hún finnur aðeins að embættisfærslum Davíðs (og starfsbræðra hans tveggja, sem báðir eru raunar menntaðir hagfræðingar) í tvennu: Hann hafi átt að stöðva starfsemi Landsbankans í Bretlandi fyrir bankahrun og gæta betur að stjórnsýslu í undirbúningi kauptilboðs ríkisins til eigenda Glitnis í upphafi bankahrunsins.

Ég hef áður bent á, að Seðlabankinn hafði enga heimild að lögum til þess að stöðva starfsemi Landsbankans í Bretlandi fyrir bankahrun. Ákvæði laga um þetta eru skýr og óskiljanlegt, að Rannsóknarnefndin skyldi horfa fram hjá þeim, en í henni sátu tveir lögspekingar. Kemur þetta vel fram í svörum Davíðs Oddssonar við spurningum nefndarinnar, sem af einhverjum ástæðum voru ekki prentuð með skýrslunni, heldur aðeins sett á Netið. Aðfinnslan er dæmigerð eftiráspeki.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, segir um seinni aðfinnsluna í hinni fróðlegu bók sinni, Hrunadans og horfið fé:

Fyrstu viðbrögð mín eftir lestu þessa kafla Skýrslunnar, þar sem ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis um yfirtöku Glitnis er að finna og ofangreindar tilvitnanir eru teknar út, voru þessi: Hafa þeir, sem þennan texta skrifuðu, aldrei dýft hendi í kalt vatn? Fjármálakerfi landsins stendur í ljósum logum síðustu helgina í september 2008 og rannsóknarnefnd Alþingis hefur hugann að verulegu leyti við það, hvort allra formsatriða hafi verið gætt! Hvort þetta skjal hafi verið áritað með réttum hætti eða kallað eftir öðru skjali úr því að Glitnismenn voguðu sér að tala við Seðlabankann án þess að leggja fram skjöl. Það má vel vera, að í háskólasamfélaginu geti menn leyft sér svona nákvæm vinnubrögð skriffinna en í stjórnmálum og atvinnulífi koma þær stundir að það er ekki hægt. Það verður að taka ákvarðanir á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja, og það verður að gera strax. Þetta er ekki trúverðug gagnrýni.

 

„Háskalegt mein með háskafullum læknisdómi læknast  eða engum.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband