Nýtt rannsóknarefni

Ég hef áður látið þá skoðun í ljós, að æskilegt sé að rannsaka út í hörgul, hvað fór hér úrskeiðis fyrir bankahrunið. Þetta þarf ekki aðeins að gera til þess, að þeir, sem bera ábyrgð, axli hana, heldur einnig til þess að eyða getsökum og tilhæfulausum ásökunum á hendur saklausum mönnum.

Ég hlýt þó að bæta því við, að mér finnst nóg um þá þórðargleði, sem hefur víða gripið um sig á Íslandi. (Þórður bóndi var sveitungi séra Árna Þórarinssonar á Snæfellsnesi og gat vart komið upp orði fyrir hlátri, þegar af því fréttist, að svo vætusamt væri á Norðurlandi, að öll hey grotnuðu niður.) Ég hef minni áhuga á því að senda menn í fangelsi en að komast af því, í hverju mistök þeirra voru fólgin og læra af þeim, svo að þau verði ekki endurtekin. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var stórt skref í rétta átt. Annað skref í rétta átt er hin rækilega rannsókn, sem þrotabú Glitnis hefur látið taka saman um framferði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans, þótt sjálfur hefði ég raunar tekið gætilegar til orða en gert er í stefnu þeirri, sem lögð hefur verið fram gegn Jóni Ásgeiri í Nýju Jórvík.

Margt af því, sem nýlega hefur komið fram um framferði Jóns Ásgeirs, var að vísu vitað fyrir, þótt nú hafi það fengist staðfest, svo að óyggjandi sé. Það leiðir hugann að öðru rannsóknarefni. Hvernig í ósköpunum stendur á því, að Jón Ásgeir hefur með fulltingi Landsbankans og Arion banka fengið að halda yfirráðum yfir tveimur mikilvægustu fyrirtækjum sínum á Íslandi, Högum og 365-miðlum?

Bankastjórar þessara tveggja banka geta ekki borið það fyrir sig, að þeir hafi ekki verið varaðir við Jóni Ásgeiri. Á þeim dundu viðvaranir daglega, jafnt opinberlega og í einkasamtölum. Á það má líka minna, að Jón Ásgeir hafði fyrir hrun þegar hlotið þriggja mánaða fangelsisdóm skilorðsbundið fyrir efnahagsbrot.

Hvað olli því þá, að Landsbankinn leyfði 365-miðlum að afskrifa í raun stórkostlegar skuldir? Af hverju var Árvakur tekinn af Björgólfi Guðmundssyni, en 365-miðlar ekki af Jóni Ásgeiri?

Hvað olli því þá, að Arion banki leyfði Baugsfeðgum að halda áfram að stjórna Högum, þótt fyrirsjáanlega verði þar að afskrifa tugi milljarða af þeim skuldum, sem þeir stofnuðu til?

Ekki geta verið neinar efnislegar ástæður til þessara ákvarðana. Hér kann því að vera sakamál á ferðinni. Hinn sérstaki saksóknari í málum, sem tengjast bankahruninu, hlýtur að rannsaka, hvað olli því, að bankastjórar þessara tveggja banka skeyttu engu um reynsluna af Jóni Ásgeiri, dóminn yfir honum og ótal viðvaranir og afhentu honum þessi tvö mikilvægu fyrirtæki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband