16.6.2018 | 23:55
Hvað sagði ég í Bakú?
Ég tók þátt í ráðstefnu Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, í Bakú í Aserbaídsjan 8.-9. júní 2018, og lék mér forvitni á að heimsækja landið, sem liggur við Kaspíahaf og er auðugt að olíu. Bersýnilega er einhverju af olíutekjunum varið í innviði, sem eru mjög nútímalegir. Þótt gamli borgarhlutinn í Bakú sé vel varðveittur, rísa glæsilegir skýjakljúfar umhverfis hann. Lýðræði í landinu er ekki hafið yfir gagnrýni, en orðið hafa þar örar framfarir og Aserbaídsjan er það múslimaríki, sem virðist hafa mestan áhuga á góðum samskiptum við Vesturlönd. Landið stendur á mörkum Evrópu og Asíu og hefur verið óralengi í byggð. Það á í hörðum deilum við grannríkið Armeníu um héraðið Nagorno-Karabak, sem liggur í Aserbaídsjan, en er að nokkru leyti byggt Armenum. Aserar tala mál, sem er svo líkt tyrknesku að þeir eiga ekki í neinum erfiðleikum með að tala við Tyrki.
Á málstofu um menntamál benti ég á, að menntun væri ekki hið sama og skólaganga og að það væri ekkert náttúrulögmál, að ríki ræki skóla, þótt það yrði að sjá um, að allir nytu skólagöngu. Í barna- og unglingaskólum ætti aðallega að kenna þau vinnubrögð, sem að gagni kæmu í lífsbaráttunni, lestur, skrift, reikning og færni í meðferð gagna, og þau gildi, sem sameinuðu þjóðina, þjóðtunguna og þjóðarsöguna. Þegar lengra kæmi, ætti líka að leggja áherslu á þá almennu menntun, sem Þjóðverjar kalla Bildung og felst í þekkingu á öðrum tímum og öðrum stöðum. Þekking væri vissulega eftirsóknarverð í sjálfri sér og ekki aðeins vegna notagildis. Vísindin væru frjáls samkeppni hugmynda.
Ég lét í ljós áhyggjur af þróuninni í vestrænum háskólum, þar sem vinstri sinnar hefðu víða náð undirtökum og vildu breyta þessari frjálsu samkeppni hugmynda í skipulagða hugmyndaframleiðslu gegn kapítalisma og feðraveldi undir merkjum pólitísks rétttrúnaðar. Allir ættu að skilgreinast af hópum og vera einhvers konar fórnarlömb. Ekki væri minnst á þann möguleika, að einstaklingarnir öxluðu sjálfir ábyrgð á gerðum sínum og kenndu ekki öðrum um, ef illa færi, jafnframt því sem þeir nytu þess sjálfir (en ekki skattheimtumenn), þegar betur færi.
Ég taldi skóla verða að koma til skila tveimur merkilegum uppgötvunum Adams Smiths: Eins gróði þarf ekki að vera annars tap, og atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.6.2018 kl. 11:30 | Slóð | Facebook
9.6.2018 | 07:00
Jordan Peterson
Eftir komuna til Íslands í júní 2018 getur kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson tekið sér í munn orð Sesars: Ég kom, sá og sigraði. Hann fyllti stóran samkomusal í Hörpu tvisvar, þótt aðgangseyrir væri hár, og bók hans rokselst, Tólf lífsreglur: Mótefni við glundroða, sem Almenna bókafélagið gaf út í tilefni heimsóknarinnar. Boðskapur Petersons er svipaður og í tveimur kverum, sem framgjarnir íslenskir unglingar lásu á nítjándu öld, Auðnuveginum eftir William Mathews og Hjálpaðu þér sjálfur eftir Samuel Smiles: Menn verða að herða upp hugann og leggja á brattann. Minna máli skiptir, að þeir hrasi, en að þeir standi á fætur aftur. Þeir mega ekki hugsa um sjálfa sig sem fórnarlömb, heldur smiði eigin gæfu. Öfund er löstur, en hugrekki og vinnusemi dygðir.
Hvað veldur hinum ótrúlega áhuga á boðskap Petersons? Ein ástæðan er, að hann nýtir sér út í hörgul nýja miðla, Youtube og Twitter. Hann er gagnorður og sléttmáll, og honum fipast hvergi, er harðskeyttir viðmælendur sækja að. Í öðru lagi deila miklu fleiri með honum skoðunum en mæla fyrir þeim opinberlega. Langflestir menntamenn eru vinstri sinnaðir: Gáfaðir hægri menn gerast verkfræðingar, læknar eða atvinnurekendur, gáfaðir vinstri menn kennarar eða blaðamenn.
Þriðja ástæðan er, að vinstri sinnaðir menntamenn hafa nú miklu meiri völd í skólum og fjölmiðlum en áður, og þeir nota þau til að þagga niður í raunverulegri gagnrýni. Í huga þeirra eru vísindin ekki frjáls samkeppni hugmynda, heldur barátta, aðallega gegn kapítalismanum, en líka gegn karlaveldinu. Eins og Peterson bendir á, eru til dæmis eðlilegar skýringar til á því, að tekjumunur mælist milli kynjanna. Fólk hefur tilhneigingu til að raða sér í ólík störf eftir framtíðaráætlunum sínum, og það er niðurstaðan úr þessari röðun, þessu vali kynjanna, sem mælist í kjarakönnunum. En á Íslandi og annars staðar hefur risið upp jafnréttisiðnaður, sem kennir karlaveldinu um þessa mælinganiðurstöðu. Jafnframt hefur skólakerfið verið lagað að áhugamálum róttækra kvenfrelsissinna, svo að tápmiklir piltar finna þar litla fótfestu. Nú er aðeins þriðjungur þeirra, sem brautskrást úr Háskóla Íslands, karlkyns.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. júní 2018.)
2.6.2018 | 09:03
Skerfur Íslendinga
Ísland er fámennt, hrjóstrugt lítið land á hjara veraldar. Líklega var fyrsta byggðin hér eins konar flóttamannabúðir, eftir að Haraldur hárfagri og aðrir ráðamenn hröktu sjóræningja út af Norðursjó. Engu að síður hafa Íslendingar í sinni ellefu hundruð ára sögu lagt skerf til heimsmenningarinnar og hann jafnvel fimmfaldan, eins og ég benti á í fyrirlestri í Kaupmannahöfn á dögunum.
Eitt er Þjóðveldið frá 930 til 1262. Íslendingar lutu lögum, en bjuggu ekki við ríkisvald, svo að réttarvarsla var í höndum einstaklinga. Mörg verkefni, sem nú eru ætluð ríkinu, voru þá leyst hugvitssamlega.
Annað er Íslendinga sögur. Bókmenntagildi þeirra hefur líklega verið ofmetið, en þær eru engu að síður stórkostlegar heimildir um leit þjóðar að jafnvægi, úrlausn átaka í ríkisvaldslausu landi.
Hið þriðja er fundur Ameríku, þótt Óskar Wilde hafi raunar sagt, að Íslendingar hafi verið svo skynsamir að týna henni aftur.
Hið fjórða er kvótakerfið í sjávarútvegi, en það er í senn arðbært og sjálfbært. Aðrar þjóðir búa margar við offjárfestingu í sjávarútvegi og ofveiði. Þar eru fiskveiðar reknar með tapi og njóta opinberra styrkja. Nú er verið að taka upp kvótakerfi eins og hið íslenska um heim allan.
Hið fimmta er að gera innstæður að forgangskröfum í bú banka, eins og hér var gert með neyðarlögunum 6. október 2008. Með slíkri reglu minnka stórlega líkur á áhlaupum á banka og upphlaupum á götum úti, svo að ríkisábyrgð á innstæðum í því skyni að róa sparifjáreigendur verður óþörf. Evrópusambandið tók regluna upp árið 2014, sex árum á eftir Íslandi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júní 2018.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook
31.5.2018 | 15:11
Grænn kapítalismi kominn á Netið
Skýrsla mín fyrir hugveituna New Direction í Brüssel, Grænn kapítalismi eða Green Capitalism, er nú komin á Netið, og þaðan er hægt að hlaða henni niður. Þar ræði ég m. a. um DDT og mýraköldu (malaria), hrakspár bölsýnismanna, eignarrétt á landi, afgirðingar almenninga, regnskóga, ítöluna á Íslandi, laxveiði, úthafsveiðar, hvali, fíla og nashyrninga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook
26.5.2018 | 10:09
Hvað segi ég í Kaupmannahöfn?
Á ráðstefnu Frelsisnetsins, Freedom Network, sem Atlas Foundation og fleiri aðilar efna til í Kaupmannahöfn 29.-30. maí 2018, kynni ég rit mitt, sem kom út hjá hugveitunni New Direction í Brussel árið 2016, The Nordic Models. Þar bendi ég á, að velgengni Norðurlanda er ekki vegna jafnaðarstefnu, heldur þrátt fyrir hana. Þessa velgengni má rekja til fjögurra þátta í sögu Norðurlanda: Gamalgróins réttarríkis, friðhelgi eignarréttarins, frjálsra alþjóðaviðskipta og mikillar samleitni norrænu þjóðanna, en síðastnefndi þátturinn auðveldar ákvarðanir, eflir traust og stuðlar að sáttum.
Frjálshyggja á sér sterkar rætur á Norðurlöndum. Til dæmis setti sænskumælandi Finni, Anders Chydenius, fram hugmyndina um, að atvinnulífið gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt og að eins gróði þyrfti ekki að vera annars tap, árið 1765, ellefu árum á undan Adam Smith. Chydenius lýsti eðli verkaskiptingarinnar, sem er meginskýring hagfræðinga á því, að þjóðir heims geti brotist úr fátækt í bjargálnir. Margir eindregnir frjálshyggjumenn mótuðu andlegt líf Svía á 19. öld, þar á meðal Georg Adlersperre, Johan Gabriel Richert (sem var aðdáandi Íslendinga sagna), Lars Johan Hierta og síðast, en ekki síst, Johan August Gripenstedt, sem var einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía um og eftir miðja 19. öld og gerbreytti atvinnulífi þeirra í frjálsræðisátt. Fjöldinn allur af framsæknum frumkvöðlum hagnýtti sér nýfengið atvinnufrelsi til að stofna öflug útflutningsfyrirtæki.
Frjálshyggja var líka áhrifamikil í Noregi, eins og Eiðsvallastjórnarskráin 1814 ber vitni um, og í Danmörku, þar sem Danir brugðust við ósigrum í stríðum við Þjóðverja með því að auka atvinnufrelsi og efla atvinnulíf. Það, sem tapast út á við, skal endurskapast inn á við, orti skáldið. En aðalpúðrinu eyði ég í að lýsa frjálshyggju á Íslandi. Þjóðveldið var eins og Jón Sigurðsson benti á sérstakt rannsóknarefni, þar sem menn bjuggu við lög án ríkisvalds. Sjálfur var Jón frjálshyggjumaður og horfði einkum til Breta um fyrirmyndir. Arnljótur Ólafsson birti fyrstu bókina um hagfræði á íslensku, Auðfræði, 1880 undir sterkum áhrifum frá franska ritsnillingnum Frédéric Bastiat. Jón Þorláksson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, studdist ekki síst við stjórnmálahugmyndir sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels.
Rit mitt er þó ekki aðeins um liðna tíð, heldur líka nútímann, þegar frjálshyggja hefur eflst að rökum.
19.5.2018 | 09:17
Hvað segi ég í Brüssel?
Á ráðstefnu Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, um umhverfismál í Brüssel fimmtudaginn 24. maí 2018 kynni ég nýútkomið rit mitt, Green Capitalism (Grænan kapítalisma), og mæli með hófsamlegri verndun og nýtingu náttúrugæða í stað skilyrðislausrar friðunar þeirra. Meðal annars lýsi ég áhrifunum af bók Rachel Carsons, Raddir vorsins þagna. Höfundurinn andmælti skordýraeitrinu DDT af svo mikilli mælsku, að notkun efnisins var víðast bönnuð. En þá fór mýrakalda (malaría) aftur að láta á sér kræla, og hafa milljónir manna látist úr henni í suðlægum löndum. DDT var vissulega notað í óhófi í landbúnaði á sínum tíma, eins og Carson benti á, en það er hættulaust mönnum og enn skilvirkasta leiðin til að drepa mýið, sem smitar menn af mýraköldu. Þarf oftast ekki annað en rjóða efninu á innveggi húsa.
Ég rifja upp hrakspár friðunarsinna í kringum 1970, til dæmis í Heimi á helvegi og Endimörkum vaxtarins. Glæpir áttu að aukast vegna þéttbýlis, flest mikilvægustu jarðefni að ganga til þurrðar eftir 30-40 ár og hungursneyðir að skella á. Þetta rættist ekki. Glæpir hafa víðast minnkað og eru raunar einna minnstir hlutfallslega á tveimur þéttbýlustu stöðum heims, í Singapúr og Japan. Enn er til nóg af jarðefnum eins og kopar og jarðolíu, enda hefur mannsandinn fundið margar leiðir til að nýta betur efni og orku, meðal annars í grænu byltingunni, þegar uppskera jókst stórlega í krafti erfðabættra nytjajurta. Hlutfallslega ganga nú fleiri mettir til hvílu á hverri nóttu en nokkru sinni fyrr. Raddir vorsins fagna.
Ég tek nokkur íslensk dæmi um takmörkuð náttúrugæði, sem væru ofnýtt, væri aðgangur að þeim ótakmarkaður: laxveiðiár, beitarland á fjöllum og fiskistofnar á Íslandsmiðum. Hefur Íslendingum tekist að nýta þau skynsamlega. Aðallega ræði ég um úthafsveiðar. Með úthlutun framseljanlegra aflakvóta til þeirra, sem þegar stunduðu veiðar, tókst að beina áhuga þeirra að því að lágmarka kostnaðinn við veiðar. Þeir urðu gæslumenn gæðanna. Með framsalinu var hægt að minnka nýtinguna niður í það, sem hagkvæmast var: Fækka þurfti fiskimönnum, en þeir voru keyptir út, ekki reknir út. Ég bendi á, að eini rétturinn, sem var tekinn af öðrum við úthlutun aflakvótanna, var rétturinn til að gera út á núlli, en hann er auðvitað verðlaus.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. maí 2018.)
12.5.2018 | 07:12
Þokkafull risadýr
Í frægri smásögu lýsir George Orwell því þegar hann var lögregluþjónn í bresku nýlendunni Búrma og neyddist til að skjóta fíl sem hafði troðið niður bambuskofa, velt um sorpvagni og drepið mann. Birtist hún á íslensku í Rauðum pennum 1938 og í annarri þýðingu í greinasafninu Stjórnmálum og bókmenntum 2009. Sögumaður hugsar með sjálfum sér: Það er einhvern veginn erfiðara að fá sig til að drepa stór dýr.
Stór dýr eins og fílar og hvalir hafa einmitt hlotið sérstakt nafn á ensku, charismatic megafauna eða þokkafull risadýr. Virðast þau hafa miklu meira aðdráttarafl á fólk en lítil dýr eins og flugur eða rottur. Ýmis náttúruverndarsamtök berjast fyrir því að alfriða þokkafull risadýr og vilja til dæmis harðbanna sölu fílabeins og hvalkjöts.
Þau rök eru færð fyrir friðun að þessi þokkafullu risadýr séu í útrýmingarhættu. En þótt sumir stofnar hvala og fíla séu í útrýmingarhættu eru aðrir það ekki, til dæmis hvalastofnarnir tveir á Íslandsmiðum, langreyður og hrefna. Telja sjávarlíffræðingar að þeir éti árlega sex milljónir tonna af margvíslegu sjávarmeti á meðan við Íslendingar löndum eitthvað um einni milljón tonna af fiski. Friðunarsinnar halda því fram að hér rekist hinn þurftafreki maður á óspjallaða náttúruna. En það er misskilningur. Hér rekast á tveir hópar manna. Annar vill friða hvali en láta Íslendinga fæða þá. Hinn vill nýta hvali og vernda um leið með því að halda nýtingunni innan sjálfbærnismarka.
Svipað er að segja um fíla. Fílar valda margvíslegum usla í heimahögum sínum og fátæku fólki er þar freisting að fella þá og selja fílabeinið, jafnvel þótt það hætti til þess lífinu. Þótt sumir fílastofnar í Afríku séu sterkir eru aðrir því veikir. Til þess að vernda þessa stofna væri skynsamlegast að leyfa sölu fílabeins en veita fólki á heimaslóðum fílanna eignarrétt á skepnunum. Hinir nýju eigendur myndu þá gæta þeirra því að það væri þeirra eigin hagur. Með einu pennastriki myndu veiðiþjófar breytast í veiðiverði.
Vissulega ætti að vernda þokkafull risadýr. En verndun krefst verndara. Ég ræði frekar muninn á verndun og friðun í nýútkomnu riti, Green Capitalism eða grænum kapítalisma.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. maí 2018.)
5.5.2018 | 09:24
Fyrirlitning á smáþjóðum
Skömmu eftir að Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur 1991, skrifaði ég skattstjóra bréf og mæltist til að fá að afskrifa öll rit í minni eigu eftir og um þá Karl Marx og Friedrich Engels. Þau væru orðin verðlaus. Enginn tæki lengur marxisma alvarlega. Skattstjóri synjaði beiðni minni. Nú sé ég, að hann hafði rétt fyrir sér. Árið 2007 gaf Hið íslenska bókmenntafélag út aftur Kommúnistaávarpið eftir þá Marx og Engels. Lofsamlegur inngangur stalínistans Sverris Kristjánssonar var endurprentaður athugasemdalaust. Ekki vottaði heldur fyrir gagnrýni á hugmyndir höfundanna í formála Páls Björnssonar sagnfræðings.
Söguleg greining Marx og Engels var stórgölluð, og spár þeirra rættust hvergi. En það fór bersýnilega líka fram hjá Páli Björnssyni, að fáir heimspekingar hafa gert eins lítið úr Íslendingum og þeir Marx og Engels. Töldu þeir, eins og ég hef rakið hér, Íslendinga vera frumstæða smáþjóð, sem sypi lýsi, hefðist við í jarðhúsum og fengi ekki lifað án fiskibrælu. Það er síðan kunnara en frá þurfi að segja, að dyggir lærisveinar Marx og Engels réðu lengi hálfum heiminum og ollu dauða eitt hundrað milljóna manna samkvæmt Svartbók kommúnismans. Ekki var á þetta minnst heldur í hinni nýju útgáfu.
Fyrirlitning Marx og Engels á smáþjóðum og ofbeldishugarfar þeirra leynir sér ekki. Í grein um Ungverjaland í Nýja Rínarblaðinu 13. janúar 1849 segir Engels til dæmis Hegel hafa rétt fyrir sér um, að sumar smá- og jaðarþjóðir séu ekkert annað en botnfall (Volkerabfälle). Nefnir Engels sérstaklega Kelta í Skotlandi, Bretóna í Frakklandi, Baska á Spáni og suður-slavneskar þjóðir.Í næstu heimsstyrjöld munu ekki aðeins afturhaldsstéttir og konungsættir hverfa af yfirborði jarðar, heldur líka afturhaldsþjóðir í heild sinni. Og það eru framfarir. Í grein í sama blaði 7. nóvember 1848 um átök í Vín segir Marx fólk óðum vera að sannfærast um, að aðeins dugi eitt ráð til að stytta blóðugar fæðingarhríðir nýs skipulags, ógnarstjórn byltingarinnar (revolutionäre[r] Terrorismus).
Svo sannarlega ber að taka marxisma alvarlega.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. ágúst 2016.)
5.5.2018 | 09:08
Marx 200 ára
Það sýnir yfirborðslega söguþekkingu og grunnan heimspekilegan skilning, ef tvö hundruð ára afmælis Karls Marx í dag, 5. maí 2018, er minnst án þess að víkja að þeirri sérstöðu hans á meðal heimspekinga, að reynt var að framkvæma kenningar hans um alræði öreiganna og afnám einkaeignarréttar í hálfum heiminum með hræðilegum afleiðingum: Rösklega hundrað milljón manns týndu lífi vegna kommúnismans. Önnur hundruð milljóna kynntust aðeins eymd og kúgun.
Spurningin er auðvitað, hvort þessi ósköp megi rekja beint til kenninga Marx. Svarið er játandi. Þótt kommúnisminn tæki á sig ólíkar myndir í ólíkum löndum, svo sem Júgóslavíu, Kúbu og Kambódíu, og undir stjórn ólíkra manna, til dæmis Stalíns, Maós og Kadars, fól alræði öreiganna alls staðar í sér einsflokksríki með leynilögreglu, ritskoðun og handtökum og aftökum stjórnmálaandstæðinga. Afnám einkaeignarréttar hafði síðan þær afleiðingar, að menn urðu varnarlausir gagnvart ríkinu, enda háðir því um alla sína afkomu.
Marx lagði fyrir lærisveina sína að umskapa skipulagið. En með tilraunum til þess myndast stórkostlegt vald, sem lendir fyrr eða síðar í höndum hinna óprúttnustu. Ég hef ekkert á móti kommúnisma, sem menn stunda fyrir sjálfa sig, til dæmis á samyrkjubúum í Ísrael. En marxistar vildu líka stunda kommúnisma fyrir aðra. Þeir reyndu að neyða alla aðra inn í skipulag, þar sem einkaeignarréttur hefði verið afnuminn og menn ættu allt saman. Slíkt skipulag er dæmt til að falla, því að þar geta menn ekki notað sérþekkingu sína og sérhæfileika að neinu gagni og hafa fá sem engin tækifæri til framtaks.
Ég hef áður vakið athygli á lítilsvirðingarorðum Marx og fjárhagslegs bakhjarls hans, Friedrichs Engels, um Íslendinga og aðrar smáþjóðir. Mikið hatur býr í marxismanum. Snýst hann ekki um andúð á efnafólki frekar en samúð með lítilmagnanum?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. maí 2018.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook
28.4.2018 | 11:30
Skrafað um Laxness
Á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála fimmtudaginn 26. apríl síðastliðinn flutti ég erindi um nýútkomið rit mitt, Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir. Ein rannsóknin var á stjórnmálaafskiptum stalínistans Halldórs K. Laxness, beittasta penna alræðisstefnunnar á Íslandi. Ég sagði ýmsar sögur af Laxness, sem eru ekki á allra vitorði, til dæmis um tilraunir hans til að fá bækur sínar útgefnar á Ítalíu fasista og í Þýskalandi nasista, og brá hann sér þá í ýmissa kvikinda líki. Vitnaði ég í Pétur Pétursson útvarpsþul, sem sagði mér eitt sinn, að heiðurspeningur um Laxness hlyti að hafa tvær hliðar, þar sem önnur sýndi snilling, hin skálk.
Eftir erindið kvaddi Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra, sér hljóðs og kvað Laxness hafa verið margbrotinn mann. Í Gerplu lýsti hann til dæmis fóstbræðrum, Þormóði og Þorgeiri. Annar væri kvensamur, skáldhneigður veraldarmaður, hinn baráttujaxl og eintrjáningur, sem sást ekki fyrir. Tómas Ingi varpaði fram þeirri skemmtilegu tilgátu, að í raun og veru væri báðir mennirnir saman komnir í Laxness. Hann væri að lýsa eigin tvíeðli.
Ég benti þá á, að svipað mætti segja um Heimsljós, þegar Ljósvíkingurinn og Örn Úlfar eiga frægt samtal. Ljósvíkingurinn er skilyrðislaus dýrkandi fegurðarinnar, en Erni Úlfari svellur móður vegna ranglætis heimsins, sem birtist ljóslifandi á Sviðinsvíkureigninni. Mér finnst augljóst, að Laxness sé með þessu samtali að lýsa eigin sálarstriði. Annars vegar togaði heimurinn í hann með skarkala sínum og brýnum verkefnum, hins vegar þráði hann fegurðina, hreina, djúpa, eilífa, handan við heiminn.
Tómas Ingi kvað reynsluna sýna, að skáldin væru ekki alltaf ratvísustu leiðsögumennirnir á veraldarslóðum, og tók ég undir það. Laxness var stalínisti og Hamsun nasisti, en skáldverk þeirra standa það af sér. Listaverkið er óháð eðli og innræti listamannsins. Raunar tók ég annað dæmi: Leni Riefenstahl var viðurkenndur snillingur í kvikmyndagerð. En vegna daðurs hennar við nasisma fyrir stríð fékk hún lítið að gera í þeirri grein eftir stríð. Það var mikill missir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. apríl 2018.)